04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort honum finnist það vera gerlegt að ræða mál eins og þetta að fjarverandi öllum flm. þess. Ég hafði ætlað mér að taka þátt í umr. um þetta mál, en kann ekki við að beina máli mínu til fjarstaddra manna, þ.e. hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. og einnig hv. fyrrverandi ráðh., sem eru flm. málsins og þurfa vafalaust að vera viðstaddir umræðu slíks máls sem þessa.

Þar sem mér finnst málið ekki vera svo aðkallandi, að það mætti ekki fresta umræðu um það, þá teldi ég æskilegt, ef hæstv. ráðherrar og 3. flm. þess gætu ekki verið viðstaddir umræðuna, að málið væri tekið út af dagskrá, og vil mælast til þess við hæstv. forseta.