04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þessari skeleggu ræðu, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur flutt hér. Mér var það mikið gleðiefni að heyra þennan þm. láta sitt sálarljós skína hér yfir okkur, og ég fann hlýjuna til frelsis og lýðræðis, sem ég alltaf hef haft löngun til að trúa að byggi innra með honum, þó að mér hafi stundum fundizt hann helga sig nokkuð mikið þeim öflum, sem hafa ekki sama hugarfar til fólksins og frelsis þess og skein út úr þeirri ræðu, sem hv. þm. flutti.

Við förum nú bráðum að yfirgefa þennan sal í bili. Það líður að þinglokum. Ég vildi leggja það til, a.m.k. við ríkisstj., að þessi hv. þm. fengi nú fararstyrk frá ríkinu til þess að fara til Moskva — hann hefur stundum gaman af að vera þar — og flytja þessa ræðu um rétt fólksins til að ráða og kjósa þar með jafnskeleggum orðum og jafnmikilli andagift og krafti og hann flutti hana hér í dag. Ég mundi svo sjálfur sem góður vinur hans og af því að nú er lokuð áfengisverzlunin í bili gefa honum brennivínsflösku í nestið, ef honum liði betur með því og líka til þess að forðast það, að hann þornaði uppi þarna í ríki Stalíns hinu forna, ef hann skyldi nú ekki fá þær viðtökur þar, þegar hann væri búinn að halda ræðuna, sem hann kynni að telja sig eiga von á. (EOl: Ég vildi hafa þig með til að hlusta á hana.) Þegar flaskan væri tekin upp, já. (EOl: Á ræðuna.) Ég mundi láta mér nægja, að hv. þm., þegar hann kæmi aftur, segði okkur frá, hvers konar undirtektir þessi ræða hans hefði fengið.

Það er góður háttur, þegar menn vilja eyða málum, að senda fram á vígvöllinn vel máli farna menn hvern á fætur öðrum og láta þá halda skeleggar ræður, og þá ekki sízt, ef þeir, sem að málinu standa, láta ginna sig út í það að ræða hvert smáatriði til þess þannig að fullnægja því, sem fyrir þeim vakir, sem eru sendir fram á vettvang eða vígvöll til að tefja gang málsins.

Ég ætla ekki að láta þá skyssu henda mig, enda hef ég oft áður séð þeim brögðum beitt, stundum gert það sjálfur, og kann þess vegna skil á, hvernig á að mæta slíkri málsmeðferð. Mér getur alveg nægt að minna á það, sem ég áður hef sagt, að þetta mál er þannig til komið, ef svo illa mætti að orði komast, að almennur vilji hefur í æ ríkari mæli lýst sér í hugum og orðum Kópavogsbúa um að fá þennan rétt þeirra viðurkenndan. Ég segi: Þessi almenni vilji hefur lýst sér í æ ríkari mæli, eftir því sem fólki hefur fjölgað í þessum hreppi. Það er líka mjög eðlilegt. Það er mjög eðlilegt, að það sé örðugt að stjórna hreppi, sem hefur 3 eða 4 þús. íbúa, eftir reglum, sem miðaðar eru við allt annað, miklu minni íbúatölu, kannske 500 eða 1000 menn. Og ég get vel endurtekið það, að ég segi þetta ekki í því skyni að bera neinn óhróður á þá menn, sem borið hafa ábyrgð á stjórn hreppsins. Ég læt það alveg liggja á milli hluta og legg á það engan dóm. En íbúarnir, sem eiga við þessa stjórn að búa, hafa með c-inu ráði á fætur öðru reynt að koma sínum vilja fram. Ég hef áður getið um það, að þau þrjú stjórnmálafélög, sem standa að baki lýðræðisflokkunum í þessum hreppi, hafa borið fram um þetta óskir. Ég hef viðurkennt, að slíkar óskir væru ekki nægjanlega öruggur vilji hreppsbúa til þess, að óhætt væri að telja, að þær út af fyrir sig fullnægðu því skilyrði, sem sýslunefnd Kjósarsýslu setti fyrir sínum meðmælum um framgang þessa máls, en sem kunnugt er krafðist sýslunefndin, að meirihlutavilji kjósendanna lægi fyrir.

Þegar okkur, sem höfum flutt þetta mál inn á Alþ., þótti nægjanlega ljóst liggja fyrir, hvað menn í Kópavogi vildu, hnigu kjósendur þar að því ráði, sem kunnugt er, að safna um þetta undirskriftum og fengu 760 undirskriftir manna, sem eiga rétt til þess að ráða um þessi mál. Og ég vil í því sambandi sérstaklega leggja áherzlu á það, að sú kjörskrá, sem nú er lögð fram fyrir fáum dögum í Kópavogi og á eru 1315 menn, eftir því sem hér hefur verið skýrt frá, er miðuð við manntal, sem fór fram í desember 1953, en það gefur auga leið, að í þessum hreppi, þar sem mannfjölgunin er jafnör og raun ber vitni um, er manntal frá því í desember 1953 ekki rétt vitni um það, hverjir eru bærir um að kveða á um skipan þessara mála, því að eftir þá skýrslugerð hafa auðvitað hundruð manna, að ég ekki kveði sterkara að, flutzt inn í hreppinn og margir flutzt burt úr hreppnum aftur. En 760 menn hafa skrifað undir áskorun til Alþ. um að gera þau ákvæði að l., sem ég sem þm. þessa kjördæmis hef leyft mér að bera hér inn á Alþ. óskir um, að Alþ. hlutist til um að nái fram að ganga. Mig undrar, að það sætir ámælum, bæði frá hv. 2. þm. Reykv. (EOl) og frá hv. 11. landsk. þm. (LJós), að ég hafi leyft mér að gerast boðberi þess vilja, sem kjósendur mínir hafa flutt við mig hingað til Alþ., sem eitt er bært um að lögfesta þann vilja.

Þær vefengingar, sem hafa komið fram um gildi þessara undirskrifta, eiga ekki við rök að styðjast, og það vita líka þeir, sem eru að vefengja gildi undirskriftanna. Eftir að undirskriftaskjölin lágu fyrir, var haldinn almennur kjósendafundur, mjög fölsóttur, í þessum hreppi til þess þar að fá staðfestan þann vilja, sem vakir fyrir þeim mönnum, sem hlutazt hafa til um, að þetta mál er borið inn á Alþ. Á þessum fundi kemur fram svo að heita einhlítur vilji kjósendanna í hreppnum um, að þessum óskum verði fullnægt. Að loknum þessum fundi hyggja andstæðingar frv. á hefndir og komast að þeirri niðurstöðu, að það sé sjálfsagt að reyna að hrinda ákvörðun þessa fundar með nýjum kjósendafundi. Þessi nýi kjósendafundur var svo haldinn viku síðar en fyrri fundurinn, eða þar um bil, og þar kom kjósendaviljinn það eindreginn í ljós, að þeir, sem vildu hnekkja framgangi málsins, höfðu ekki einu sinni djörfung til að bera fram óskir um það, hvað þá meira.

Ég segi þess vegna, að vilji meiri hluta kjósendanna liggur skýrt fyrir í öllum þeim formum, sem um er að ræða. Oddvitinn hefur hins vegar neitað að halda hreppsnefndarfundi þrátt fyrir fram komnar óskir. Nú hyggst hann að fela sig bak við leynilega atkvgr. um málið. En allt er þetta nokkuð gagnsæ slæða og hylur ekki þann sannleika, að þetta er allt gert í þeim eina tilgangi að hindra framgang málsins. Ég er sannfærður um það, að þegar oddvitinn og hans fylgifiskar tóku þessa ákvörðun, gerðu þeir ráð fyrir, að þingi yrði lokið fyrir páska, enda var almennt gert ráð fyrir því hér á Alþ., og þess vegna heldur hann þannig á málinu, að þessi leynilega atkvgr. megi fram fara 24. apríl, þ.e.a.s. 10 dögum eða 15 dögum eftir páska. Þetta er allt gert í sama tilganginum og þeir eru að þjóna, sem hér eru að halda sömu ræðurnar æ ofan í æ og út í bláinn.

Að ég svo hafi sagt, að það ætti að afnema leynilegar kosningar á Íslandi, — ja, maður skyldi halda, að hv. þm. hefði staðhæft þetta, áður en áfengisverzluninni var lokað, — er alveg út í hött. Ég sagði það eitt, að þegar fólkið væri búið að leita allra leiða til að gera grein fyrir óskum sínum og vilja og þegar oddvitinn vitandi vits með þeim meiri hluta hreppsnefndar, sem að honum stendur, hefði tafið málið, þá hefði fólkið gripið til þess að senda Alþ. sinn vilja skriflega. Um þetta sagði ég, að það væri ekki nema æskilegt, að fólkið hefði þennan rétt. Ég gat um, að margur maðurinn, sem er fylgjandi ákveðnu máli, kýs miklu heldur að láta það fylgi í ljós við leynilega atkvgr. en með því að undirskrifa skjal, sem síðan kemur fyrir almenningssjónir. Og ég segi, að þegar fólkið sjálft kýs að láta sinn vilja í ljós með því að senda Alþ. skriflega áskorun um þetta, þá tel ég þann vilja skýran og líka mjög réttmætan og eðlilegan, eftir að búið er að freista hins ýtrasta til þess að koma málinu fram eftir þeim lögformlegu leiðum, sem venja er helzt til að hafa, en það verið hindrað af mótþróa meiri hluta hreppsnefndar gegn því, að haldnir væru lögformlegir fundir í hreppsnefndinni í tæka tíð um þetta mál.

Ég þarf svo ekki, hæstv. forseti, að gera aðra eða meiri grein fyrir mínu máli og réttmæti þess. Ég hafði ánægju af að hlusta á þessar bollaleggingar hv. 2. þm. Reykv. um frelsi fólkinu til handa. En ég mundi meta enn þá meira hans manndóm, ef hann tæki sig nú til og héldi sína leið til Moskva að loknu þingi, og vil eiga mikinn þátt í því, að ríkið kostaði þá för, ef hann gefur drengskaparheit um að gefa okkur rétta skýrslu um, hvernig æðstu menn Sovétríkjanna taka undir þetta lýðræðishjal, sem hann var með hér og við metum að vísu meira en flest annað, en þá líka því aðeins, að hugur fylgi máli. Og gjarnan vildi ég, að hann lofaði því að hafast þá ekkert illt að í leiðinni eða ef hann gerir mikið af sér gagnvart íslenzkum hagsmunum, þá fái hann a.m.k. ekki fargjaldið greitt nema aðra leiðina.