18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er ekki hægt að segja annað en að nú er haldið til dagsins á Alþ., og lítur út fyrir, að hér sé mál á ferðinni, sem ekki megi bíða næsta dags, ekki megi bíða þess að sól renni.

Þessu máli var vísað til 2. umr. og nefndar rétt áður en þinghlé var gefið fyrir páskana og þm. þá tilkynnt, að þeir hefðu páskaleyfi fram á miðvikudag eftir páska. En ég hygg, að það hafi verið á mánudag, annan páskadag, sem ég var boðaður á nefndarfund í heilbr.- og félmn. og beðinn að mæta á slíkum fundi morguninn eftir. Ég hafði nú ráðstafað mínum tíma til annarra starfa, með því að ég taldi mig enn þá hafa frí frá þingstörfum að boði forseta þingsins, og minnti því form. heilbr.- og félmn. á, að ég og þm. værum enn þá í þingfríi og hefðum ekki vænzt þess að þurfa að mæta á nefndarfundum meðan á fríinu stæði. Form. féllst þá á að hætta við að halda fund í n., meðan Alþ. sæti ekki að störfum, og ber að þakka honum að sjálfsögðu fyrir það. En þetta sýnir, að ákaflega mikið hefur þótt liggja við, að hægt væri að koma þessu máli í gegnum þingnefnd, meðan Alþ. sat ekki að störfum, þannig að hægt væri sjálfsagt að taka málið á dagskrá fyrsta dag þingsins, þegar það kæmi saman miðvikudaginn eftir páska. Af því varð þó ekki, og enn var boðaður fundur á miðvikudagsmorgun, þann dag, sem þingið skyldi koma saman eftir fríið, þá kl. 2 um daginn. Enn vorum við því í þingfríi í raun og veru, þegar boðað var til nefndarfundar í annað sinn til þess að koma þessu máli til nefndarafgreiðslu. Það var enn ekki hægt að halda fundinn, og var það ekki mín sök, heldur stóð þá þannig á, að fylgismenn stjórnarliðsins voru ýmist ekki komnir í bæinn eða gátu þá ekki mætt á fundi, svo að fundarhald um þetta mál, sem svona mikið lá á að hraða, varð ekki framkvæmanlegt heldur fyrsta dag þingsins eftir páskana, og þá var auðvitað í þriðja sinn boðað til fundar um málið næsta dag þar á eftir, þ.e.a.s. á fimmtudaginn var. Og þá tókst það, þá gátum við mætt þrír og seinna fjórir af nm., og málið var tekið til meðferðar.

Á þann fund var, eins og frá er skýrt í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn., boðuð hreppsnefndin í Kópavogshreppi, og mætti hún, að ég held, öll á fundinum og ræddi málið við n. Þar var upplýst, að þetta mál væri aðeins búið að vera skamman tíma á dagskrá í Kópavogshreppi, hefði eiginlega fyrst komizt á dagskrá núna í febrúarmánuði og síðan hefði verið unnið að framgangi málsins hér á Alþ. Hins vegar hefði málið ekki verið rætt á s.l. ári, þrátt fyrir það að þá færu fram tvisvar sinnum sveitarstjórnarkosningar í sveitarfélaginu, og var þess getið, að engir þeirra nálega 40 manna, sem þá hefðu verið í kjöri til sveitarstjórnar í þessum tvennum kosningum, fyrir utan alla stjórnmálaflokka landsins, hefðu á þetta mál minnzt fyrir kosningu og ekki eytt einu orði í hina brýnu nauðsyn þess, að þetta mál yrði tekið fyrir til úrlausnar. Nú er þó vitað mál, að á s.l. ári var orðið allfjölmennt í þessari byggð, litlu fámennara en nú, og virðist því sem þá hefði átt að blasa við beztu mönnum byggðarlagsins og ráðamönnum þess öll hin sama nauðsyn þess að gera þarna breytingu á skipan sveitarstjórnarmálanna og ef þörf er fyrir það nú. En þetta vakti a.m.k. furðu mína, að einhver slík skyndiþróun hefði átt sér stað þarna, að nú væri málið svo brýnt aðkallandi sem það virtist vera, en enginn hefði á það minnzt fyrir nokkrum mánuðum.

Á þessum fundi var auðvitað líka skýrt frá því, að undirskriftasöfnun hefði farið fram í byggðarlaginu til þess að leita eftir vilja fólksins í hreppnum um þetta mál, og mun sú undirskriftasöfnun hafa hafizt eftir að búið var að flytja þetta mál hér á Alþ. í frv.- formi. Sennilega hefur verið unnið af nokkuð mikilli skyndingu að þessari undirskriftasöfnun og af miklum dugnaði alveg sýnilega, kannske helzt til miklum, og það viðurkennt líka þarna á nefndarfundinum, að svo slysalega hefði m.a. tekizt til, að til undirskriftanna hefðu verið teknir m.a. unglingar, ja, barn var nefnt, 11 ára gamalt. Það var viðurkennt af hreppsnefndarmanni, Hannesi Jónssyni, að þetta væri rétt, það væri 11 ára gamalt barn meðal undirskrifendanna, og skildi hann ekkert í því, hvernig slíkt hefði getað orðið. Ég skil það nú reyndar ekki heldur, nema svo óhlutvandir menn skyldu hafa þarna fengizt við undirskriftasöfnunina, að þeir hafi getað fengið sig til að standa yfir 11 ára gömlu barni og láta það skrifa sig á undirskriftaskjal, þar sem á hausnum stendur: „Við undirritaðir kjósendur í Kópavogshreppi lýsum því yfir“ o.s.frv. Þetta slys hefur varla getað átt sér stað öðruvísi en að einhver svo óhlutvandur maður hafi þarna að unnið, að hann hafi getað fengið sig til að standa yfir 11 ára gömlu barni við að skrifa undir slíkt skjal. A.m.k. er það eitt af því fáa, sem ekki er umdeilt í þessu máli, að a.m.k. einn af undirskrifendunum er svona lagaður kjósandi, 11 ára gamalt barn að aldri.

Það var líka viðurkennt á fundinum, að þessi undirskriftasöfnun væri ekki byggð á kjörskrá í hreppnum, þó að á hausnum stæði, að þetta væru kjósendur sveitarfélagsins, sem þarna væru að láta í ljós vilja sinn, heldur hefði verið þarna farið eftir manntali, og um það var mjög rætt á fundinum, að það væri miklu réttara að láta þá væntanlegu leynilegu atkvgr., sem upplýst var að eigi að fara fram núna á sunnudaginn kemur, þann 24. apríl, fara fram á grundvelli manntalsins í hreppnum heldur en á grundvelli kjörskrár, sem er í gildi nú að lögum og ætti að vera búin að ganga í gegnum þann hreinsunareld, sem kjörskrám er ætlað að ganga í gegnum, áður en þær taka gildi, sem er það, að þær liggi frammi ákveðinn tíma og síðan aðgæti íbúarnir, hvort nafn þeirra sé þar, og ef það er þar ekki, þá eigi þeir þess kost að kæra sig inn á skrána og minni hl. og meiri hl. hreppsnefndar geti líka kært inn menn, sem þeir uppgötva að vanti á skrána, og sömuleiðis geti aðilar kært út þá menn, sem oftaldir séu á skrá og eigi ekki þar að vera lögum samkvæmt. Menn sem sé gátu deilt um það á þessum fundi, hvort væri réttara að láta hina væntanlegu leynilegu atkvgr. fara fram á grundvelli manntals eða á grundvelil slíkrar kjörskrár. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei heyrt getið um það, að kosning eða atkvgr. geti byggzt, svo að óyggjandi sé, á öðru en kjörskrá, sem þannig hefur verið frá gengið, að hún hefur verið samin af hreppsn. eða trúnaðarmönnum hreppsnefndar, síðan legið frammi og verið kært út af henni og inn á hana, og þegar það er búið, þá undirrituð og verið hinn fasti grundvöllur, sem á að byggja á við atkvgr. eða kosningu. Hins vegar er ekki vert að halda sér allt of mikið við troðnar götur og gamlar venjur, ef annað betra er fyrir hendi, og þarna var því haldið mjög fast að okkur, að það væri miklu fullkomnara að fara eftir manntali. Á manntali eru, eins og menn vita, allir þeir, sem eru staddir í byggðarlaginu, þegar manntalið er tekið. Þar eru ungir og gamlir, nýfædd börn og gamalmenni, og þar eru útlendingar, jafnvel þeir, sem engan borgararétt hafa hér á landi. Þar eru þeir, sem dæmdir hafa verið frá kosningarrétti og kjörgengi. Og t.d. ef ætti að framkvæma hér hjá Jóhanni Hafstein einhverja atkvgr. í Reykjavík, þá þætti mér ekki ólíklegt, að það væru nokkur hundruð manna, ef það ætti að framkvæma hana eftir manntalinu, sem hefðu lent í þeirri ógæfu að vera af ýmsum sökum dæmdir frá atkvæðisrétti og kjörgengi.

Ég þykist því sjá og ég hygg, að flestir sjái ýmsa meinbugi á þessari uppástungu um þetta nýmæli að framkvæma atkvæðagreiðslu, sem ekki ætti að vera neitt deilt um niðurstöðuna af, eftir manntali fremur en kjörskrá. En því hélt einn af hreppsnefndarmönnunum ákaflega fast fram við okkur í þingnefndinni, að það væri miklu betra að framkvæma þá væntanlegu leynilegu atkvgr. eftir manntali.

Nú er því ekki að leyna, að það eina plagg, sem fylgir frv., sem við erum hér að ræða um og borizt hefur þinginu, eru undirskriftaskjölin, þar sem 11 ára gamla barnið og allir útlendingar í hreppnum eða flestir virðast hafa tekið þátt í að skrifa undir sem kjósendur væru. En það er því miður um það deilt eins og margt annað, hvort þetta plagg sé sönnun fyrir meirihlutavilja kosningabærra manna í hreppnum. Upplýst er, að á þessu undirskriftaskjali séu 760 nöfn, en kunnugir menn, sem telja sig hafa farið í gegnum undirskriftasöfnunina og borið niðurstöðuna þar saman við gildandi kjörskrá, telja sig hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hvorki meira né minna en eitthvað yfir 220 manns á undirskriftagögnunum séu ekki fyrirfinnanlegir á kjörskránni. Það er óneitanlega smávegis óvandvirkni í því, af því að hausinn er um það, að þetta séu kjósendur í Kópavogshreppi, sem skrifi þarna undir. Nú vil ég engan veginn fullyrða, að þetta sé örugglega rétt. Ég vil leyfa mér að vefengja báða aðila. Þess vegna er það, að ég fékk ljósamyndaútgáfu af undirskriftaskjölunum, sú ljósmyndaútgáfa var tekin hér í skrifstofu Alþ., og ég fékk afrit af kjörskrá Kópavogshrepps, sem gildir frá því í janúar 1955 og til janúar 1956 og er þannig í gildi nú, og leyfði mér því, eftir að málið var komið í hendur þeirrar n., sem ég á sæti í, að skrifa borgarfógetanum í Reykjavík bréf og biðja hann að láta bera saman þetta eintak af kjörskránni og undirskriftaskjölin og komast þannig í embættisnafni að öruggri niðurstöðu um það, hvort allir þeir, sem á undirskriftaskjölunum væru, fyrirfyndust einnig á kjörskránni, en ef svo væri ekki, að gefa mér þá sem alþm. og nm., sem ætti að fjalla um málið, embættisvottorð um það, hversu margir og hverjir af undirskrifendunum fyndust ekki á kjörskrá. Ég óskaði sem sé eftir að fá notarial-vottorð um þetta og endaði bréf mitt til borgarfógetans á því að segja, að þessu máli þyrfti að hraða. Nú er enn, eins og vænta mátti, sá hraði á þessu máli og afgreiðslu þess hér á Alþ., að við erum nú alllöngu eftir miðnætti að ræða það, á 3. fundinum hér í dag, og málið hefur verið tekið á dagskrá undireins eftir að nefndarstarfi okkar var lokið.

Hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. gerði um það tillögu, að leitað yrði umsagnar bæjarráðs Reykjavíkur um það, hvort Reykjavík vildi, að Kópavogshreppur sameinaðist Reykjavík. Mér fannst nú eiginlega, að þetta væri nú hálfgerð afturfótafæðing, og greiddi þess vegna atkvæði á móti till. Jóhanns Hafsteins um þetta. Ég taldi, að það væri hinn eðlilegi gangur þess atriðis í málinu, að í hinni leynilegu atkvgr. á sunnudaginn kemur væru íbúarnir í Kópavogshreppi spurðir um það, hvort þeir vildu beita sér fyrir þeirri framtíðarskipan í þeirra hreppsfélagi, að leitað væri eftir samningum við Reykjavík. Ef meiri hl. kjósendanna þar léti það í ljós, að hann vildi, að slíks væri leitað, samningar upp teknir við Reykjavíkurbæ um það, þá hefði ég talið vera eðlilega komið að því, að bæjarráð Reykjavíkur svaraði. En að svara fyrir barnið á þennan hátt, svara áður en spurt er, áður en nokkur maður hefur spurt Reykjavíkurbæ, það finnst mér vera nokkuð mikil framhleypni. En hv. nm. Jóhann Hafstein bar fram till um þetta, og hún var samþ. í n. með 2 gegn 1 atkv. Form. n., Páll Þorsteinsson, þm. A-Sk., greiddi atkv. með þessari till. með Jóhanni Hafstein, en Helgi læknir Jónasson sat hjá, og ég greiddi atkv. á móti, af því að ég taldi ekki tímabært, að bæjarráð Reykjavíkur færi að ómaka sig á fund til þess að fjalla um þetta atriði, fyrr en það væri komið í ljós, að meiri hl. kjósenda í Kópavogshreppi óskaði eftir þessari skipan og leitaði eftir því við Reykjavíkurbæ. Mér þykir nú næsta líklegt, úr því að Reykjavík var svona áfjáð í að fá að svara, áður en spurt væri, að þá leggi bæjaryfirvöldin í Reykjavík ekki aðeins á sig að halda um þetta bæjarráðsfund, heldur líka bæjarstjórnarfund, áður en Kópavogsbúar hafa látið nokkuð í ljós um, hvort þeir vilji þetta eða ekki.

En það fór þannig með notarial-vottorðið, sem ég vildi fá til þess að ganga úr skugga um, hvort það væru raunverulega svona mikil vanhöld á undirskriftaskjölunum, að borgarfógetinn í Reykjavík, sem ég bað að hraða þessu verki hið mesta, kvaðst hafa lítið starfsfólk í sinni skrifstofu, og í dag lét hann í ljós, að hann mundi ekki geta lokið þessu verki með neinum hætti fyrr en í fyrramálið. Ég hafði þó skrifað mitt nál. skömmu eftir að nefndarfundinum var lokið og gerði þar ráð fyrir að birta sem fskj. hið helzta, sem meiri hl. og minni hl. hreppsnefndarinnar höfðu látið í ljós sem sinn vilja í þessu máli, enda voru bæði meiri hl. og minni hl. hreppsnefndarinnar því fylgjandi, að mér virtist, á þingnefndarfundinum, að öll þau gögn, sem hefðu komið frá bæði meiri hl. og minni hl. varðandi þetta mál, yrðu lögð fyrir n., og þá taldi ég sjálfsagt einnig, að það yrði lagt fyrir þingheim með því að birta það sem fskj. með mínu nál. En siðan ætlaði ég enn fremur að birta sem fskj. með nál. mínu notarial-vottorð borgarfógetans í Reykjavík um það, hvort nöfn allra undirskrifendanna væru fyrirfinnanleg á kjörskrá. Nú hafði meira að segja verið fallizt á það við borgarfógetann til þess að gera honum og hans skrifstofu þetta starf sem auðveldast að taka upp þau nöfn, sem meiri hl. hreppsnefndar telur að ekki séu á kjörskránni og séu þannig ekki fólk, sem eigi að skrifa undir skjal, þar sem á hausnum stendur, að kosningabærir menn í hreppnum ætli að láta álit sitt í ljós, og starfsfólk borgarfógetans þyrfti þannig ekki að fara í gegnum allt undirskriftaskjalið, heldur einungis að bera saman þau nöfn, sem af öðrum eru talin ekki vera á kjörskránni, og bera þau saman við kjörskrána og votta síðan, hvort þau séu þar eða séu þar ekki. Ef það kæmi í ljós, að borgarfógetinn og hans starfsmenn kæmust að þeirri niðurstöðu, að ekkert eða nálega ekkert af því fólki, sem nú er sagt ekki finnast á kjörskránni, væri þar, þá væri þar með fengið embættisvottorð um, að undirskriftirnar væru heldur ómerkilegt plagg og ekki slíkt sönnunargagn um meirihlutavilja kjósenda í Kópavogshreppi sem upphaflega var látið í veðri vaka. En hv. meiri hl. n. hefur ekki getað beðið eftir því, að hægt væri — sem mér fannst þó vera skylt — að ganga úr skugga um það með embættisvottorði, hverjir hefðu rétt fyrir sér, þeir, sem telja, að kjósendur einir séu undirskrifaðir á undirskriftaskjölunum, eða hvort þar sé á þriðja hundrað manns, sem hafi ekki þegnrétt í Kópavogshreppi til þess að taka þátt þar í atkvgr.

Mitt nál. er sem sé nú í prentun og hefur verið það síðan snemma í dag og biður einungis eftir því, að hægt sé að birta niðurstöðuna af notarialvottorði borgarfógetans, svo að ekki sé lengur hægt að rífast um það, hvort undirskriftaskjölin séu gildur vitnisburður um vilja meiri hluta kjósenda í hreppnum eða undirskriftaskjölin séu það ekki. En svo mikið er víst, að ef það reynist þannig samkv. vottorði fógetans, að um eða yfir 200 manns á undirskriftaskjölunum sé ekki á kjörskrá í Kópavogshreppi, þá er það orðið sannað mál og ekki hægt að rífast um það lengur, að það er ekki enn þá fenginn meirihlutavilji, sem mælir með því, að Kópavogshreppur sé gerður að kaupstað nú. Ef sú stoðin, sú eina, sem þetta frv. hangir á, félli nú þannig og brotnaði í tvennt, þá er sem sé enginn grundvöllur fyrir þessu frv., því að þess eru engin dæmi, að frumvörp um að gera hrepp að kaupstað hafi verið flutt öðruvísi en það væri byggt á í fyrsta lagi vilja kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi, í öðru lagi á vilja meiri hluta sveitarstjórnar og í þriðja lagi byggt á vilja og meðmælum sýslunefndar. Með undirskriftaskjölunum var sem sé látið í veðri vaka, og ég hygg, að flm. hafi trúað því, að flutningur þessa frv. væri studdur óyggjandi vilja meiri hluta kjósendanna, en samkv. því, sem haldið er fram og á eftir að sannast náttúrlega með notarial-vottorði embættismanns, mun koma í ljós, að ég hygg, að meiri hluti kjósenda verði ekki lesinn út úr þessum undirskriftaskjölum.

Hitt kemur svo hér í ljós með frv. sjálfu, að sýslunefnd Kjósarsýslu mælir ekki með frv., mælir ekki með því, að þessi skipulagsbreyting sé gerð á sveitarstjórnarmálum í Kópavogshreppi, því að hún vekur athygli á, að slíkt mundi veikja athafnamöguleika sýslunnar verulega, og er því andvíg þessu, tekur það einungis í mál, ef það kæmi í ljós á ótvíræðan hátt og eindregin viljayfirlýsing meiri hluta sveitarstjórnar Kópavogshrepps og óumdeilanlegs meiri hluta atkvæðisbærra íbúa, að þá mundi hún þó auðvitað sætta sig við slíka breytingu. Svona djúpt tekur sýslunefndin í árinni á móti því, að þetta frv. verði gert að lögum. Nú vantar þetta hvort tveggja, sem sýslunefndin heimtar. Það vantar meðmæli meiri hluta sveitarstjórnarinnar, og það vantar enn sem komið er örugga sönnun fyrir því, að meirihlutavilji atkvæðisbærra manna sé fyrir hendi til stuðnings þessu máli.

Nú er kunnugt um það, að sveitarstjórnin í Kópavogshreppi hefur ákveðið, að á sunnudaginn kemur, núna eftir örfáa daga, fari fram leynileg atkvgr. um það, hvaða skipan íbúarnir í hreppnum vilji að upp verði tekin um stjórn sveitarmála þar. Ég hefði því talið algerlega sjálfsagðan hlut að halda ekki lengur áfram umr. um þetta mál og vera þannig að eyða tíma þingsins í að fjalla um það, fyrr en fyrir lægi vilji kjósendanna með niðurstöðu þessarar leynilegu atkvgr., sem nú stendur fyrir dyrum og auðvitað á að fara fram á grundvelli kjörskrár, sem meiri hluti og minni hluti hreppsnefndar hafa fjallað um og kært út af og kært inn á eftir réttum reglum og gengið frá lögformlega, þannig að enginn geti efazt um, að þar sé réttilega um hnúta búið.

Við þessa atkvgr. hlýtur að koma í ljós í fyrsta lagi, hvort það er til meirihlutavilji kjósenda í hreppnum fyrir því, að þetta frv. verði samþ. og Kópavogshreppi nú þegar breytt í kaupstað, eða hvort héraðsbúar vilji, að upp verði tekin einhver önnur skipan á stjórn sveitarmálanna. Þar hefur aðallega verið tekið í mál, hvort héraðsbúar, sem að miklum meiri hluta til eru komnir héðan frá Reykjavík, vilji, að þeirra sveitarfélag sameinist Reykjavík og ekki verði stofnaður kaupstaður. Ef það færi svo, að meiri hluti hreppsbúa, þeirra sem atkvæðisrétt hafa um sveitarstjórnarmál, segði: Við viljum ekki stofna kaupstað og viljum heldur, að leitað sé eftir samningum við Reykjavík um, að hreppsfélagið sameinist höfuðborginni, — ja, þá finnst mér a.m.k. hlálegt, ef Alþ. væri að forspurðum íbúunum á grundvelli undirskrifta, sem hefðu þá ekki staðizt og sýndust ekki styðjast við meiri hluta kjósendanna, búið að samþ. lög um það, að þetta hreppsfélag skyldi verða kaupstaður, hvað sem hver segði, hvort sem þeir vildu það sjálfir eða ekki, og þar skyldi stofna bæjarfógetaembætti, þar skyldi auðvitað reisa veglegan bæjarfógetabústað, þar skyldi auðvitað stofna tollstjóraembætti og þar skyldi auðvitað reisa honum bústað, þar skyldi koma upp lögreglu, sjálfsagt ekki fámennari en svo, að það væri einn lögregluþjónn fyrir hverja 700 íbúa, svo að þarna væru um 6–7 lögregluþjónar; þar þyrfti auðvitað að byggja gott og vandað tugthús, og þar þyrfti að koma upp pósti og síma. Það er ófært fyrir bæjarfélagið að hafa ekki pósthús og símstöð. Pósthúsið hér í Reykjavík er ekki fullnægjandi fyrir Reykjavík, hvað þá heldur fyrir aðra kaupstaði. Þar yrði að koma upp þessum stofnunum báðum og mörgum, mörgum fleirum. Og ekkert skil ég í Eysteini, fjmrh., ef hann vill ekki byggja þetta, þó að það væri bara tjaldað til einnar nætur. Ekkert skil ég í honum, ef hann vill ekki, að ríkisstj. sýni þessa rausn.

En samt er það nú svo, að manni sýnist, að það væri dálítið hlálegt, ef frv. væri keyrt hér í gegnum 2. umr. í nótt, jafnvel 3. umr. líka undir morguninn og svo gengi það á morgun til 1. umr. í Ed. með afbrigðum; það væri reynt að keyra það í gegnum 2. umr. aðra nótt í Ed., svo kæmi miðvikudagurinn, fundur í Sþ., því miður ekki hægt að halda þessu nauðsynjamáli þá áfram, svo kæmi sumardagurinn fyrsti, og ekki geri ég ráð fyrir þingfundum þá, þó að mikið liggi nú við, og væri þá möguleiki til þess að drífa málið í gegnum 2. og 3. umr. í Ed. á föstudaginn og laugardaginn og atkvgr. hjá hreppsbúum ætti að fara fram á sunnudaginn. Það má segja, að þar skylli eiginlega hurð nærri hælum hjá ríkisstj. og stjórnarflokkunum að geta með ýtrustu herkjum og afburða dugnaði unnið stríðið á móti lýðræðinu og komið frv. í gegn nóttina áður en vilji fólksins gæti komið í ljós í leynilegri atkvgr.

En svona standa málin. Með því, að haldið sé vel á öllu og tíminn notaður nætur og daga og allt að því lagt inn á helgidagsbrot vegna starfsáhuga þingsins, þá er hugsanlegt, að það gæti tekizt að gera þetta frv. að lögum nóttina áður en fólkið gengi að kjörborði til að láta í ljós vilja sinn. En alltaf hefur verið venja, að slík mál væru grundvölluð á vilja íbúanna í því sveitarfélagi, sem skipulaginu væri verið að breyta hjá, þangað til núna.

Það er líka alveg sérstaklega vel um það búið, að það fari ekki í neinum undandrætti að framkvæma þessi lög, ef það skyldi takast að ganga frá þeim hér á Alþ. nóttina áður en atkvgr. færi fram í hreppnum, því að það endar ekki á þann venjulega snubbótta hátt, sem frv. enda oft á: Lög þessi öðlast þegar gildi. — Sú setning er hér að vísu í 22. gr., en þar við er bætt: Gerir ráðh. ráðstafanir til, að þau komi þá þegar til framkvæmda. — Það skal ekkert dragast. Eftir að lögin hafa tekið gildi, þá er ráðh. bundinn lagastaf um að byrja þá þegar að stofna embættin, sem bæjarfélagið nýja á að fá, og sjálfsagt verður líka farið að teikna og reikna út, hvað kosti nýju embættisbústaðirnir, sem þarf að reisa, og alveg sérstaklega vel um það búið í niðurlagssetningu frv. Það er ekki alveg eins og þegar átti að framkvæma frv. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Það tók hátt í þrjú ár, þangað til var farið að framkvæma þau lög, og þannig hefur það oftar gengið til. Það ætti þess vegna líklega að enda fleiri frv. á þessu: Gerir ráðh. ráðstafanir til, að þau komi þegar í stað til framkvæmda.

Ég dreg því enga dul á það, að ég get ekki séð annað en að það væri hinn eðlilegi gangur þessa máls að hætta þessu kapphlaupi við vilja fólksins í sveitarfélaginu, sem hér á hlut að máli. Það er ómögulegt að neita því, að þetta fólk á rétt á því að segja til í leynilegri kosningu, hvort það vill, að hreppsfélagið þeirra sé gert að kaupstað nú þegar eða ekki, og það á rétt á því að geta sagt til við leynilega atkvgr., hvort það vill leita annarra skipulagshátta á sveitarfélagi sínu, og er þessi frv.- flutningur með öllu þessu óðagoti tilraun til að svipta fólkið í hreppnum þessum lýðræðislega rétti sínum. Ég mun því við þessa umr. leggja til, að umr. sé frestað hér, þangað til atkvgr. hefur farið fram og menn vita, hvort fólkið í Kópavogshreppi, það sem atkvæðisrétt hefur þar um sveitarstjórnarmál, vill, að stofnaður sé kaupstaður nú þegar eða hvort leitað sé samninga við Reykjavíkurbæ um sameiningu þessara sveitarfélaga. Ef það kemur í ljós, að meiri hluti fólksins í hreppnum vilji, að stofnaður sé kaupstaður nú þegar, þá verð ég ekki á móti því máli; þá hygg ég, að enginn þm. hreyfi hönd á móti málinu. Og hvað er þá í hættu að bíða fram yfir sunnudaginn? Þá gerist það hér á Alþ., sem stundum kemur fyrir, að allir verða sammála, stjórnarherrar, stjórnarlið og stjórnarandstaða, og þessi eina fylking gengur upp í einingu andans og bandi friðarins og frv. fer í gegn á skömmum tíma. Þá þarf engar kúnstir til þess að koma frv. fljótt og eðlilega og ljúflega í gegnum þingið, því að það liggur ekkert við, að þingið sé að ljúka störfum nú í kringum þessa næstu helgi; það stendur áreiðanlega fram yfir mánaðamótin, sennilega fulla viku af maí. Það er hér verið að leggja fram hvert frv. á fætur öðru frá stjórninni þessa dagana. Var verið að ræða hér mörg frv. frá stjórninni núna í dag við 1. umr. í fyrri d. Þess vegna er nógur tími til þess að afgreiða þetta mál sem samhljóða og einróma mál þingsins. Ef meirihlutavilji kjósendanna í Kópavogshreppi á sunnudaginn kemur tjáir þann vilja, að hér sé stofnaður kaupstaður, þá verður þetta frv. gert að l. ágreiningslaust. En ef hitt yrði ofan á, að fólkið í hreppnum segði: Við viljum heldur leita samninga við Reykjavíkurbæ um sameiningu — þá væri ekkert vit af stjórninni að vera búin að hamra í gegnum þingið móti vilja fólksins, en aðeins byggt á ímynduðum vilja þess vegna undirskriftanna, að stofnaður skyldi verða nýr kaupstaður hérna rétt hjá Reykjavík, kaupstaður, sem hefur ekki nokkurn atvinnumálagrundvöll sjálfstæðan, kaupstaður, sem þarf að leita með vinnu handa flestum sínum íbúum til Reykjavíkurbæjar, enda fólkið þaðan komið. Og þetta er byggð, sem hefur vaxið upp á örfáum árum, byggð, sem hefur vaxið upp vegna þess öngþveitis, sem hefur skapazt undir stjórn íhaldsins í Reykjavík í húsnæðismálunum. Það öngþveitismál var einmitt verið að ræða hér áðan. Þetta fólk á því sannarlega rétt á því að koma aftur til föðurhúsanna, ef það lætur í ljós þann vilja sinn.

Þannig standa líka sakirnar, að það er full ástæða til þess að taka skipulagsmál byggðanna, sem eru að myndast hérna allt í kringum Reykjavík, til sérstakrar athugunar og rannsóknar og ráða þeim málum til lykta í heild eftir gaumgæfilega athugun þar til kjörinna manna. Það væri ákaflega eðlilegt, ef það yrði ofan á í atkvgr. á sunnudaginn í Kópavogshreppi, að meiri hlutinn þar léti í ljós, að hann vildi sameinast Reykjavík, að þá væri ekki látið við það eitt sitja, heldur væri tekið til athugunar, hvort ekki væri rétt að sameina Seltjarnarnesbyggðina, sem er hluti af hinum gamla Kópavogshreppi, og Kópavogshreppinn við Reykjavík og hvort ekki væri ástæða til jafnframt að athuga, hvort það væri ekki líka skynsamlegt að sameina hluta af Garðahreppi eða Garðahrepp kannske allan Hafnarfirði eða í raun og veru að taka í heild af fulltrúum frá Reykjavíkurbæ, frá Hafnarfjarðarbæ, frá Garðahreppi, frá Seltjarnarneshreppi og Kópavogshreppi þessi mál til athugunar í nefnd, sem Alþ. t.d. skipaði eða flokkarnir tilnefndu fulltrúa í. Það væri að taka á þessum málum með viti, og þar yrði svo ekkert ákveðið, fyrr en búið væri að fá að vita, hver væri vilji íbúanna í þessum sveitarfélögum, og það er áreiðanlegt, að það væri hægt að fá þann vilja fram hjá íbúum þessara hreppa, sem skynsamlegur væri og vel grundvallaður af slíkri nefnd, sem hefði rannsakað þetta mál í heild.

Nú standa sakirnar t.d. þannig, að Hafnarfjarðarbær er að sækjast eftir að fá hluta af Garðahreppi innlimaðan í Hafnarfjarðarkaupstað, undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, og það mál er óleyst og verður áfram deilumál, ef það mál er ekki tekið til rólegrar yfirvegunar af fulltrúum þessara sveitarfélaga. Engin ástæða er til þess að taka þau mál út af fyrir sig til athugunar, en miklu eðlilegra, eins og ég hef nú sagt, að taka þessi mál öll til yfirvegunar í sameiginlegri nefnd Reykjavíkur og allra þessara sveitarfélaga, sem hér eiga hlut að máli. Og ég sé ekki, hvaða maður eða menn eða hvaða flokkar gætu haft nokkurt ógagn af því, að málin væru tekin upp á þennan skynsamlega hátt, annaðhvort eftir að búið væri að hverfa frá að samþ. þetta frv. eða í sambandi við afgreiðslu þess. Það væri t.d. ekkert óeðlileg lokaafgreiðsla þessa frv., t.d. hér við 3. umr., að horfið væri frá afgreiðslu þess og samþykkt af þinginu að kjósa slíka nefnd, sem tæki skipulagsmál allra þessara sveitarfélaga í kringum Reykjavík og Hafnarfjörð til rækilegrar yfirvegunar. Það er að myndast sams konar byggð í Garðahreppi, þar sem Silfurtún er, eins og var að myndast fyrir nokkrum árum í þeim núverandi Kópavogshreppi, sem er orðinn nú eins fjölmennur og ýmsir kaupstaðir landsins. Það er út frá fjölmenninu í byggðarlaginu ekki nokkur skapaður hlutur á móti því. að þetta byggðarlag yrði kaupstaður, ef á það eitt er lítið.

Ég veit það fyrir víst, að ef hæstv. forsrh. hefði haft áhuga á þessu máli, þá hefði hann ekki látið sig vanta hér við umr. En hann hefur forðazt það eins og heitan eld að vera við umr. um þetta hans ágæta mál, sem hann er 1. flm. að. Hæstv. félmrh. höfum við ekki séð hér í húsinu, þegar málið hefur komið á dagskrá. Það er eins og þeir hafi hlaupið leiðar sinnar eins og byssubrenndir, þegar málið er komið nálægt dagskrá og líkur til þess, að það yrði tekið til umr. Og minn ágæta flokksbróður, Emil Jónsson, fyrrv. ráðh., sem er 3. flm. frv., hef ég ekki heldur séð hér nærverandi, þegar málið hefur verið til umr. Það er eins og hér hafi verið sett, að því er þessa menn snertir, upp svo ægileg fuglahræða, að þeir hafi hlaupið leiðar sinnar og út úr þinghúsinu og vilji hér ekki nærri koma. Ég veit ekki, af hverju þetta er. En svo mikið er víst að það lýsir hvorki áhuga né því, að þeir beri mjög fyrir brjósti, að þetta frv. þeirri nái fram að ganga. Menn eru vanir að leggja sig fram sjálfir og berjast fyrir hverju því máli, sem þeir leggja mikið kapp á að verði samþykkt.

Það reyndist hér áðan, að það eru ekki svo margir þm. hér við, að hv. d. væri ályktunarfær. Hæstv. forseti gerði skyldu sína um að leita eftir því og komast að þeirri niðurstöðu, að það væri fjarri því, að d. væri ályktunarfær, og það sýnir líka, að þetta ágæta frv. hefur haft svona dreifandi áhrif á lið stjórnarinnar líka, ekki aðeins á ráðh. og flm., heldur allt þeirra lið. Það er, eins og ræðumaður sagði í kjördæmi hæstv. forseta fyrir nokkrum árum: „Það er bara eins og það hafi komizt hundur í hænsnahóp“, þegar þetta frv. hefur komizt hér á dagskrána. Allt er tvístrað. Þess vegna held ég, að það væri bezt að geta kveðið frv. sem fyrst niður eða a.m.k. lagt það einhvers staðar á hillu og til hliðar fram yfir sunnudaginn, þangað til fólkið hefur látið í ljós vilja sinn.

Það er þó vitað um einn mann, sem virðist hafa áhuga fyrir því, að frv. um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað verði að lögum. Það er bæjarfógetinn í Hafnarfirði, sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og hann segir, að það sé vegna þess, að það sé mjög erfitt fyrir hann sem embættismann að gera þar sínar embættisskyldur, byggðin sé orðin svo fjölmenn og hann hafi ekki mannafla í sinni skrifstofu til að sinna þessu, eða eins og hann segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ósk Kópavogsbúa um bæjarréttindi fyrir hreppinn kemur mér ekki á óvart og hefði ekki gert, þótt fyrr hefði komið. Mér hefur verið ljóst um skeið, að óhjákvæmilegt væri að gera sérstakar ráðstafanir að því er varðar stjórn og skipan mála þessa sveitarfélags, svo ört sem það hefur vaxið hin síðari ár, og hef því fyrir nokkru látið þá skoðun í ljós við rétta aðila. Get ég því fyrir mitt leyti mælt með því, að hreppurinn fái kaupstaðarréttindi, og tel rétt, að nauðsynlegri breytingu á skipan mála í hreppnum verði flýtt.

Kópavogshreppi var skipt úr Seltjarnarneshreppi um áramótin 1947 og 1948 og hann gerður að sérstöku sveitarfélagi. Þegar skiptin fóru fram, voru í Kópavogshreppi um 850 íbúar, en síðan hefur þeim fjölgað svo, að nú 7 árum síðar eru þeir 3230, og nú eru þeir víst orðnir enn fleiri. Verður ekki betur séð en að þessi öri vöxtur muni halda áfram 1 nokkur ár enn. Störf þau, sem embættið hér þarf að leysa af hendi í þessum fjölmenna og ört vaxandi hreppi, eru mörg og margvisleg. Auk sjálfrar löggæzlunnar og dómsögunnar og þeirra rannsókna, sem þeim eru samfara, annast embættið, svo sem kunnugt er, alla álagningu skatta á hreppsbúa til ríkissjóðs og trygginganna og innheimtu þeirra. Voru skattgreiðendur í hreppnum á s.l. ári um 1500 talsins. Embættið fer með greiðslu bóta frá Tryggingastofnun ríkisins til hreppsbúa, bæði ákveður, hverjum skuli greitt, hve mikið hverjum, og greiðir út bætur. Bótaþegar í hreppnum eru nú um 560, og njóta um 900 einstaklingar bótanna, og er fyrsta barn á fjölskylduheimilum þá ekki talið með. Þinglýsingar úr Kópavogshreppi eru nú 700 á ári. Mörg önnur störf eru unnin hér vegna Kópavogshrepps, eins og vera ber.“

Þetta eru aðalrök sýslumannsins fyrir því, að hann mæli með, að Kópavogshreppi sé breytt í kaupstað og að frv. um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað verði gert að lögum. En þetta hreppsfélag er aðeins búið að vera til á því sniði, sem það nú er í, 7 ár. Og þetta er aðallega vegna þess, að sýslumannsembættið hefur ekki mannafla til að inna þarna störf af hendi, og þetta er orðið svo umfangsmikið, að hreppstjórinn, sem er annars mikill dugnaðarmaður, hefur ekki heldur bolmagn til að inna þessi störf af hendi fyrir sinn sýslumann, og þarf enginn að undrast það. En það hefur verið hins vegar bent á, að það væri hugsanleg leið að leysa þessi vandkvæði á annan hátt en að breyta hreppnum í kaupstað, með öllu því, sem því fylgir. Það hefur verið bent á, að það væri hugsanlega heldur ódýrara fyrir ríkissjóð að leyfa bæjarfógetanum í Hafnarfirði eða sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu að bæta við einum fulltrúa hjá sér og að hann fengi athvarf í skrifstofu hreppstjórans annaðhvort hluta úr degi eða svona annan hvern dag til þess að taka á móti tryggingagjöldum og til þess að auðvelda hreppsbúum að koma sínum gjöldum af sér og hafa samband við sýslumannsembættið og losna við ferðir til Hafnarfjarðar nálega daglega í sambandi við þetta. Og þetta væri a.m.k. fyrst um sinn sómasamleg úrbót á þeim vandkvæðum, sem sýslumaðurinn talar um. En aðrar nauðsynjar til þess að breyta þessu minnist hann ekki á. Þetta er þess vegna eins hjákátlegt og þegar vitfirringur fer að sækja vatn yfir lækinn, að biðja um endilega að breyta hreppsfélagi í kaupstað, þó að það þurfi að gera einhverja ráðstöfun í sýslumannsembættinu til þess að framkvæma innheimtustörf og önnur embættisverk þar á staðnum. Það virðist bókstaflega í rauninni ekki hafa neitt hugrænt samband við skipun sveitarstjórnarmálanna í þessu hreppsfélagi. Hitt virðist mér vega miklu þyngra í þessu máli, þegar sýslunefndin í Kjósarsýslu bendir á það, að sýslufélagið mundi verða veikt eftir, ef langfjölmennasti hreppurinn skildi við sýslufélagið.

Ýmsar fleiri breytingar væru einnig eðlilegar í sambandi við stofnun kaupstaðar í Kópavogshreppi, t.d. það, að Gullbringu- og Kjósarsýsla yrðu aðskildar og bæjarfógetinn í hinum nýja kaupstað yrði þá einnig sýslumaður í Kjósarsýslu. Það sýndist vera mjög eðlileg skipan, því að sennilega er embættið ærið stórt og erfitt og umfangsmikið: Hafnarfjarðarkaupstaður og hin sívaxandi byggð, erlend og innlend, á Suðurnesjum í Gullbringusýslunni — svo að það sýnist vera ástæða til að taka óskir sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu til greina með því að taka einmitt tillit til framtíðarinnar á þann veg að minnka þá sýslumannsembættið um leið og leggja nokkuð af hans ábyrgðarþunga yfir á herðar þess væntanlega bæjarfógeta, sem kæmi í Kópavogskaupstað.

Ég skal nú ekki fjölyrða miklu meira um þetta mál. Ég hef látið í ljós, að mér þyki það furðulegt, að frv. skuli vera borið fram á Alþ. um breytingu sveitarstjórnar í sveitarfélagi, án þess að með þeirri breytingu sé mælt og það mál sótt af meiri hluta sveitarstjórnar, án þess að það mál sé stutt af ótviræðum vilja kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi og ekki einn sinni búið að spyrja kjósendurna um það, hvaða skipan sinna mála fólkið vilji helzt. Ég hef enn fremur bent á, að það séu óleyst vandkvæði þarna hjá fleiri sveitarfélögum í kringum Reykjavík og Hafnarfjörð, sem öll skynsemi mælir með að séu leyst í sameiningu með tilliti til þess, hvort ekki sé ástæða til að taka, að undangenginni rannsókn á því máli, ákvörðun um, hvernig skuli ákveða mörkin milli Hafnarfjarðarbæjar í framtiðinni og Reykjavíkurbæjar og hvort ekki eigi þar með að leggja Garðahrepp og Kópavogs- og Seltjarnarneshrepp undir þessi bæjarfélög og sameina þau, eða jafnvel að taka til athugunar, hvort lögsagnarumdæmi Reykjavíkur ætti ekki að ná yfir Mosfellssveitina, Seltjarnarnesið, Kópavogshreppinn, Garðahreppinn og Hafnarfjörð og þetta væri allt saman ein borg, því að þetta er allt að vaxa saman, — Mosfellssveitin er auðvitað alveg sjálfsögð undir þetta líka, því að þangað er Reykjavík að byggjast nú óðfluga. Þetta er í eðli sínu allt ein og sama borgin. Það er einnig hugsanlegt, að n., sem athugar þessi mál í heild, komist að þeirri niðurstöðu, að það væri það skynsamlegasta og réttasta. En það, sem ég tel að liggi mest í augum uppi í sambandi við þetta frv., er, að það er hlálegt, að Alþ. skuli sitja að fundarhöldum fram á nætur til þess að reyna að geta komið frv. í gegnum báðar d. einum degi áður en fólkið getur fengið tækifæri til að láta í ljós vilja sinn um efni málsins. Það er og verður hlægilegt og það ber lýðræðinu á Íslandi í dag því miður ekki fagurt vitni, ef hæstv. ríkisstj. undir forustu forsrh. heldur fast við að geta komið því í gegn. Ég er nú í raun og veru að vona, að hann sé frá því horfinn sjálfur, úr því að hann kemur ekki nálægt þessu. Það er líka augljóst mál, að brennandi áhugi er ekki fyrir málinu í Kópavogshreppi.

Ég tók eftir því um daginn, að það var auglýst, að flokksfélag Sjálfstfl. í Kópavogshreppi boðaði til fundar, ekki bara um hreppsmál, heldur um hreppsmál og þjóðmál, viðhorfið í stjórnmálunum í dag. Og það var auglýst í Morgunblaðinu, og það var auglýst í ríkisútvarpinu, að hæstv. forsrh. mundi mæta á fundinum. Og hvernig var mætt? Var ekki allur Kópavogshreppur mættur á stundinni til að bugta sig fyrir sínum forsrh., sem hafði tekið að sér að flytja um það frv., að það skyldi verða bæjarstjórn í Kópavogskaupstað í staðinn fyrir hreppsnefnd í Kópavogshreppi og að hreppnum skyldi í skyndingu breytt í kaupstað? Maður skyldi ætla, að það hefðu ekki margir af hinum trúu þegnum okkar ágæta forsrh. látið sig vanta. En það mættu um 20 manns í þessari fjölmennu byggð. Ég er alveg sannfærður um, að þá hefur hæstv. forsrh. runnið í skap, þegar hann sá, að dónarnir, sem höfðu staðið yfir 11 ára barni við að skrifa undir undirskriftaskjalið, höfðu ekki einu sinni svo mikið við í trú og hollustu við hæstv. forsrh. að mæta, þegar það hafði verið auglýst með miklu yfirlæti, að hann kæmi til að ræða hreppsmál og þjóðmál. Og þetta er vafalaust skýringin á því, að hæstv. forsrh. lætur ekki sjá sig í sambandi við umr. um þetta mál. Hann er búinn að fá á því skömm og forsmán, og ég lái honum það ekki.

Ég á sem sé mitt nál. í prentun frá því snemma í dag, en því hefur ekki verið útbýtt hér, af því að það vantar annað fskj. með, sem sé notarial-vottorðið frá borgarfógetanum, sem virðist ekki hafa getað lokið því í dag, en hefur nú lofað að ljúka því í fyrramálið. En þar lagði ég til í því nál., að umr. yrði frestað fram yfir þann tíma, sem atkvgr. um skipulagsmál Kópavogshrepps fer fram, en það er á sunnudaginn kemur, eins og ég hef áður sagt. Og ég vil nú leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að bera fram þessa till., sem er í mínu hálfprentaða eða fullsetta nál., og sú till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þar sem ákveðin hefur verið leynileg atkvæðagreiðsla kosningabærra manna í Kópavogshreppi innan fárra daga um framtíðarskipan sveitarstjórnarmála þar, ályktar deildin að fresta umr. um málið, þar til atkvgr. hefur farið fram og vitneskja þannig fengin um vilja kjósenda í Kópavogshreppi um skipan þessara mála.“

Ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till og bið afsökunar á því, að hún er borin fram skriflega, þar sem ekki hefur sem sé verið hægt að bíða eftir því, að nál. fengist prentað til fulls og því útbýtt hér, og læt þar með lokið málið mínu um þetta að sinni.