19.04.1955
Neðri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir um bæjarstjórn í Kópavogshreppi, hefur átt því sérstaka láni að fagna hér á Alþingi að vera tekið fram yfir flest önnur mál og fá hér meiri hraða en títt er um mál á Alþingi. Þetta er eitt af hinum seinustu málum þingsins, en að því hefur verið unnið af alveg óvenjulegu kappi. Þannig var það, að þetta frv. var látið ganga fram fyrir mörg mál á sínum tíma, þegar það var hér til 1. umr., og af feiknalegum áhuga var reynt að koma málinu í gegnum 1. umr. og til n. fyrir þinghléið um páskana. Raunverulega var þó enginn eðlilegur tími til þessa, en þetta var samt sem áður barið í gegn. Ég var einn af þeim, sem þá tóku nokkurn þátt í umr. um þetta mál, en vegna þess að svo stóð á hjá mér eins og reyndar fleiri þm., að ég átti nokkuð langt heim að fara í þinghléi, þá vitanlega gat ég ekki verið við alla umr. málsins, varð að fara hér frá í miðju kafi. Og eftir sem sagt að ýmsir þm. voru farnir héðan heim í páskaleyfi, var samt sem áður haldið áfram að reyna að koma þessu máli áfram, svo geysilega þýðingarmikið sem það var.

Í þessu sambandi má svo minna á, að hér fyrir hv. Alþingi liggur fjöldinn allur af málum, sem komu fram á fyrstu dögum þingsins, strax í októbermánuði. Hér hafa ýmsir hv. alþm. fundið að því, að þessi mál hafa ekki fengizt afgreidd, þau liggja enn lítt eða ekki athuguð í nefndum, og þau fá ekki að koma til afgreiðslu þingsins. En þetta Kópavogsmál verður að ganga hér fyrir öllu, eins og um eitthvert lífsnauðsynlegt stórmál væri að ræða, og það skal barið hér í gegn.

Nú er svo ástatt, eins og menn vita, að það eru ýmis stórmál uppi með þjóðinni þess eðlis, að flestir landsmenn spyrja um lausn þeirra. Verkfallið hefur nú staðið á annan mánuð, og það er eðlilega spurt mikið um það, hvað Alþingi hugsi sér að gera til lausnar þeim mikla vanda, sem allir landsmenn eiga þar við að glíma. En Alþingi er ekkert að fást við lausn á verkfallinu. Hér liggur ekkert fyrir um það, hér fara yfirleitt sáralitlar umr. fram um það, a.m.k. af hálfu þeirra manna, sem mest mega um það ráða. En í staðinn geta menn fengið að glíma við Kópavogsmálið. Þetta minnir á það, þegar stundum áður hefur verið tekið þannig á alvarlegum málum hér á Alþingi, að þegar einhver stærstu og örlagaríkustu mál hafa legið fyrir nauðsynleg til úrlausnar hér á Alþingi, þá hefur verið fundið upp eitthvert einkennilegt mál, eins og t.d. rjúpumálið um árið eða minkamálið í annað skipti, allt um það leyti sem hin alvarlegustu mál lágu hér raunverulega fyrir, sem var virkileg þörf á að leysa.

Ég lít svo á, að þetta Kópavogsmál sé mjög í sama stíl. Vitanlega hafa ekki verið færð hér fram nokkur minnstu rök fyrir því, að það liggi lífsnauðsynlega á að skáka þessu máli fram fyrir önnur mál og ætla að knýja þetta mál hér í gegnum Alþingi nokkrum dögum áður en sá hreppur, sem hér á hlut að máli, lætur fara fram almenna, leynilega atkvgr. meðal íbúa um það, hvort þeir yfirleitt óska eftir því, sem þetta frv. fer fram á, eða ekki. En það eru þung og sterk öfl, sem ýta hér á eftir, krefjast þess af forsetum þingsins að vinna að þessu máli með meira atfylgi en nokkru öðru máli. Þetta skal barið í gegn á tiltölulega örfáum dögum.

Hér í umr. um þetta mál hefur verið m.a. skýrt frá því, að svo mikið lá á í sambandi við afgreiðslu málsins, að þm. máttu ekki einu sinni hafa frið þann tíma, sem var þó yfirlýst þinghlé og menn áttu að eiga frí frá þingstörfum. Á þessum tíma voru þeir nefndarmenn, sem áttu að athuga um þetta frv., kallaðir til starfa. Á meðan yfirlýst þinghlé var og ekki var unnið að neinum málum hér á Alþingi, voru þeir boðaðir til fundar til að ræða um þetta Kópavogsfrv. Þegar neitað var af þm. að taka þátt í slíkum algerum aukastörfum við þetta mál, var þó látið kyrrt liggja um skeið. Nú þegar 2. umr. þessa máls á að hefjast, er það líka mjög athyglisvert, hvenær hún var látin byrja. 2. umr. málsins fór ekki fram hér á Alþingi á venjulegum fundartíma og eins og venjulegast er um mál. Nei, það var byrjað á 2. umr. málsins um kl. 2 í nótt. Þá voru auðvitað flestir alþm. farnir heim að sofa, höfðu ekki treyst sér til þess að vaka svo lengi hér, og í tilraunum hæstv. forseta til þess að fá hér afbrigði fyrir till., sem fram komu, kom í ljós, að þingið var ekki starfhæft, það voru alls ekki nógu margir þm. vakandi hér í húsinu, til þess að hægt væri að sinna hér eðlilegum þingstörfum, og þá varð auðvitað að hverfa frá um sinn og fresta málinu. En enn skal nú þetta mál tekið upp hér og reynt að reka það í gegn af þessu ofurkappi, af því að það liggur lífið við. Það þarf sem sagt endilega að reyna að koma í kring samþykkt málsins hér á Alþingi daginn áður en íbúar þeir, sem þarna eiga hlut að máli, greiða opinberlega atkv. um málið í sínu byggðarlagi. Þetta eru alveg furðuleg vinnubrögð, og þau munu lengi í minnum höfð á Alþingi, ef svo heldur áfram sem til stendur í þessu máli. Að vísu verður að játa það, að nokkuð hefur dregið úr móði þeirra, sem hér beita sér einkum fyrir þessu máli. Það vill nú að vísu svo til, að þeir ofurkappar, sem eru frumkvöðlar að málinu úr byggðarlaginu, eru ekki hér í þessum sölum enn þá og geta því ekki fylgt því eftir af fullum sprettþunga; þeir hafa fengið aðra menn til þess að hlaupa með þetta mál hingað inn fyrir sig, en þeir virðast ekki vera elns sporléttir. Þeir fylgja málinu þannig að vísu eftir, að þeir reka fast á eftir forsetum að halda fund um málið og reyna að koma því í gegn, en þeir hafa sig ekki ýkja mikið í frammi um það að ræða um þetta mál, upplýsa eða sinna því á eðlilegan hátt. Þeir eru venjulega ekki mættir hér, þegar málið er á dagskrá.

Fyrsti flm. þessa frv. er hæstv. forsrh. (ÓTh). Hann talaði hér nokkur orð fyrir þessu frv., þegar málið kom hér fyrir til 1. umr. Síðan hefur hæstv. forsrh. ekki látið sjá sig, og við 2. umr. hefur hann ekki komið hér í deildina. Maður skyldi líka ætla það, eins og ég vék að áðan, að hæstv. forsrh. hefði í sjálfu sér öðrum hnöppum að hneppa nú um þetta leyti en að stússa í þessu Kópavogsmáli, ekki þýðingarmeira en það er í sjálfu sér, enda hefur hann nú valið þann kostinn að kasta málinu hér fram, getur í rauninni engu svarað þeim spurningum, sem fyrir hann voru lagðar, og standa hér þannig frammi fyrir þm. að vera uppvís að því að vera illa undirbúinn um 'allt, sem málinu við kom, og hlaupa svo frá öllu, flýja umr. og taka ekki þátt í þeim á neinn hátt.

Þessi málsmeðferð öll er vitanlega alveg óvenjuleg. Ég vék að því hér við 1. umr. málsins, að það væri unnið að þessu bæjarmáli fyrir Kópavog á allt annan hátt en áður hefði tíðkazt hér á Alþingi um hliðstæð mál. Í öllum tilfellum, þegar sveitarfélag hefur óskað eftir því að breyta skipulagi sínu og taka upp kaupstaðarskipulag með bæjarstjórn, hefur legið fyrir Alþingi ósk frá viðkomandi sveitarstjórn um þessa breytingu. Hér í þessu tilfelli liggur ekki fyrir nein ósk frá sveitarstjórninni í Kópavogshreppi. Þessi almenna regla, sem alltaf hefur verið viðhöfð, er brotin í þessu tilfelli. Í öllum slíkum tilfellum áður hefur líka legið fyrir umsögn viðkomandi sýslunefndar um breytinguna, og það er örsjaldan, sem gripið hefur verið til þess að breyta skipulagi hrepps í einu sýslufélagi gegn mótmælum sýslunefndar. Hér liggur hins vegar fyrir umsögn sýslunefndar, og umsögnin er tvímælalaust neikvæð. Sýslunefndin tekur greinilega fram, að hún telji, að ekki komi til mála að samþ. þessa breytingu, nema á ótvíræðan hátt liggi fyrir viljayfirlýsing meiri hluta hreppsbúa um þessa breytingu. Að þessu leyti til eru líka öll þau form, sem hér hafa gilt áður um breytingu á hreppsfélagi í kaupstað, brotin.

Ég hef bent á það áður, að það er sannarlega þess virði fyrir hv. Alþingi að gera sér fulla grein fyrir því, hvort rétt er að brjóta þessar gömlu reglur, sem gilt hafa í þessum efnum. Ef nú verður farið inn á þá braut að hlaupa eftir till. minni hl. í hreppsfélagi og eftir ákaflega vafasamri undirskriftasöfnun meðal íbúa til þess að fara fram á, að Alþingi breyti skipulagi sveitarfélags, þá getum við fyllilega átt von á því, að hingað berist ákaflega margar beiðnir héðan og þaðan af landinu á hliðstæðan hátt og þarna er gert, því að vitanlega eru æði oft uppi deilur í hreppsfélögum um það, hvaða skipulag skuli þar haft á málum. Og ég hygg, að það hafi gengið svo til í flestum byggðarlögum, sem hafa þurft að glíma við þennan vanda áður, að þá hafi ekki allir verið þar á einu máli í upphafi. Það hefur í upphafi venjulega verið einhver minni hl. og einhver meiri hl. um það, hvort rétt væri að stefna að því að gera viðkomandi stað að kaupstað eða breyta stjórnarskipulagi þar. En sú regla hefur verið látin gilda, að heimamenn verða að jafna sín ágreiningsmál sjálfir á eðlilegan hátt. Meiri hl. meðal hreppsbúa verður að koma fram. Ef meiri hl., sem er í hreppsnefndinni á þeim tíma, sem kröfurnar koma fram, er andvigur því, að breytt verði þar um skipulagsform, þá vitanlega hlýtur vilji hreppsbúa að koma fram t.d. í næstu kosningum á eftir, og ef vilji stendur raunverulega að baki, þá verður það knúið í gegn af hreppsbúum, að meiri hl. skapist í hreppsnefndinni fyrir þeim kröfum, sem hreppsbúar standa að, sem sagt því að breyta um skipulag á staðnum.

En hvernig stendur nú á því, að þetta má ekki ganga fyrir sig í þessu byggðarlagi eins og annars staðar? Það hefur verið á það bent, að í þessu byggðarlagi hafa farið fram tvennar sveitarstjórnarkosningar nú á stuttum tíma. Í fyrsta lagi fóru þar fram almennar sveitarstjórnarkosningar um sama leyti og í öllum öðrum sveitum á landinu af þessari stærð. Þá mátti taka eftir því meira að segja allt austur á land, maður eins og ég gat orðið var við hávaðann af kosningum þaðan. Þá mátti taka eftir því, að þar fóru ákaflega hávaðasamir menn og án efa sprettharðir og duglegir ungir menn. Þeir ætluðu að steypa viðkomandi meiri hl., sem þarna var, og tryggja sínu sveitarfélagi miklu betri forustumenn á næsta kjörtímabili. Það fór eins og gengur, eins og oft hefur farið fyrir okkur ýmsum, sem að sveitarstjórnarmálum höfum unnið, að þeir töpuðu í kosningunum; þeir gátu ekki náð meiri hluta. En vegna þeirrar sérstöðu kannske, sem þessir menn hafa, að þeir sögðust eiga ríkisstj. landsins og marga ákaflega sterka menn á bak við sig, undu þeir ekki úrslítunum, eins og ævinlega var algengt að una. Þeir stóðu fyrir því að gera sitt sveitarfélag ákaflega hlálegt í augum almennings í landinu og knúðu fram aðrar kosningar eftir örstuttan tíma. Auðvitað hafa þessar síðari kosningar í Kópavogshreppi verið sveitarfélaginu til baga á allan hátt. Í þessum síðari kosningum var vopnabrakið ekki minna þar, en úrslitin urðu þau sömu. Þessir menn, sem börðust um á hæl og hnakka og sprikluðu sem fastast og ekki vildu una eðlilegum úrslitum í kosningum, féllu enn á rassinn og náðu ekki meiri hluta.

Í þessum tvöföldu kosningum höfðu þessir menn ekki verið búnir að finna út, að það væri lífsnauðsyn fyrir þetta sveitarfélag að skipta um stjórnarform og hætta að vera hreppsfélag, en verða bæjarfélag. Þá voru þeir ekki enn farnir að berjast fyrir því, voru ekki enn búnir að finna þetta upp. En svo kemur þriðja atrennan á örskömmum tíma, og þá á að nota hið mikla ríkisvald, sem þessir menn eiga, sem höfðu tapað í kosningum í byggðarlagi sínu, — þá á að nota hið mikla ríkisvald, nota það, að ráðh. standi á bak við þá, o.s.frv., og þá skal nú knýja það í gegn, að enn einu sinni verði efnt til kosninga í þessu byggðarlagi, þvert ofan í lög og rétt allan, það skuli breytt um stjórnarform í byggðarlaginu, þetta skuli ekki lengur heita hreppsfélag, þar skuli ekki lengur vera hreppsnefnd, heldur skuli nú koma bæjarstjórn og það skuli verða kosnir bæjarfulltrúar með öllu tilheyrandi. Ég held, að það geti varla farið fram hjá mönnum, sem eitthvað hafa hlustað á þessar deilur, að svona er þessu varið, að hér er verið að knýja fram með einhverju ofurkappi manna, sem hafa tapað í kosningum, eftir mjög afbrigðilegum leiðum ákvörðun um það, að þarna skuli kjósa enn einu sinni og þarna skuli þeir, sem hingað til hafa tapað, fá að reyna enn einu sinni við það, hvort þeir gætu nú ekki náð meiri hluta eða a.m.k. einhverjir gætu orðið bæjarfulltrúar, sem hafa ekki hingað til getað orðið hreppsnefndarmenn.

Það atriði út af fyrir sig, hvort á að veita Kópavogshreppi rétt til að öðlast bæjarréttindi eða ekki, er allt annað mál en það, sem hér liggur raunverulega fyrir. Hér eru engar deilur um það, að Kópavogshreppur er orðinn það fjölmennur, að honum yrði ekki neitað um að gerast kaupstaður með þeim réttindum og skyldum, sem kaupstaðir hafa, ef farin væri venjuleg leið um breytingar í þessu efni, eins og farin hefur verið hjá öðrum hliðstæðum aðilum á landinu.

Ég fyrir mitt leyti hef lýst því hér yfir, að ég skyldi glaður vera með því, greiða því hér atkv., að Kópavogshreppur fengi kaupstaðarréttindi, en ég vorkenni honum ekki að sækja um þetta og ganga í gegnum þessi form á venjulegan hátt. Íbúarnir eiga að óska eftir því. Ef meiri hluti hreppsnefndar gerir það ekki f. h. þeirra, þá á að láta fara fram atkvgr. meðal íbúanna, og sú atkvgr. á að segja til um það. Einhverjir pólitískir ofurkappar, sem geysast um í blöðum og á fundum og hafa tapað í nokkrum kosningum, eiga ekki, þó að þeir eigi að baki sér heila ráðh. og stóra stjórnmálaflokka, að hafa vald eða aðstöðu til þess að troða sínum málum inn á Alþ. og heimta forgang til afgreiðslu á sínum málum fram yfir aðra og brjóta þær reglur, sem í gildi hafa verið í þessum efnum um áraraðir. Til slíks er engin ástæða.

Þegar þetta mál var lagt hér fram og lítils háttar talað fyrir því af 1. flm. málsins, hæstv. forsrh., fann hann sjálfur, að það vantaði veruleg rök fyrir framgangi þessa máls hér. En hann þóttist þó geta fest sig við eitt ákvæði, sem hann hefði í höndum og ætti út af fyrir sig að nægja, en það var, að það hefði verið hlaupið á milli húsa í hreppnum og óskað eftir því, að hreppsbúar skrifuðu undir skjöl, þar sem þeir skoruðu á Alþ. samþ. þessa breytingu, sem hér er farið fram á. Og forsrh. benti á, að nú væru komnir hingað til Alþ. undirskriftalistar með 760 nöfnum kjósenda úr þessum hreppi, en 760 kjósendur mundu vera meiri hluti hreppsbúa og þar með væri í rauninni þessu fullnægt, að meiri hluti hreppsbúa óskaði eftir breytingunni.

Nú var hæstv. forsrh. bent á það, að allnákvæm athugun kunnugra manna hefur farið fram á þessum undirskriftalistum, og þá hafði komið í ljós, að við samanburð á gildandi kjörskrá í hreppnum, — en það er vitanlega sú eina kjörskrá, sem getur verið hið gildandi plagg í þessum efnum í hreppnum, það er sú opinbera skýrsla, sem er lögð til grundvallar, þegar kosningar fara þar fram, hún er samin samkvæmt lögum, og það er auðvelt að sjá um, að hún sé samin á réttan hátt, því að um það eru skýr lagafyrirmæli til, - þá sögðu þessir kunnugu menn, að eftir nákvæman samanburð hefði komið í ljós, að af þessum 760 undirskriftum væru, ef ég man rétt, 224 nöfn, sem væru ekki finnanleg á kjörskrá í hreppnum. Það var því alveg augljóst mál, að ef þessi athugun á undirskriftalistunum var rétt, þá hafði ekki einu sinni fengizt meiri hluti hreppsbúa til þess að greiða atkvæði á þennan sérkennilega hátt, sem sagt á opinberan hátt, með undirskriftum á undirskriftalista; þá vantaði alhnikið upp á, að fengizt hefði meiri hluti kjósenda í hreppnum.

Síðan hefur sannazt, þannig að ekki verður um deilt, að hinir mestu ofurkappsmenn í þessu máli og höfundar málsins, sem hafa hrundið því á stað, hafa jafnvel viðurkennt það hér fyrir þingnefnd á Alþ., að það sé veruleg brotalöm á því, hvernig þessi undirskriftasöfnun hefur farið fram. Þeir hafa t.d. fyrir þingnefnd á Alþ. viðurkennt, að í þessum undirskriftum sé að finna nafn 11 ára gamals barns, og engum dettur vitanlega í hug að halda því fram, að þetta 11 ára gamla barn sé kjósandi í hreppnum. Fleira hafa þeir svo viðurkennt í sambandi við þessar undirskriftir, sem sannar alveg ótvírætt, að þarna er ekki um kjósendur í hreppnum að ræða að öllu leyti.

Þegar þessir menn hafa nú séð, að þeir höfðu enga undankomu í þessum efnum, að þeir gátu ekki haldið því fram með neinum sanni, að þessir listar væru nöfn kjósenda úr Kópavogshreppi,

hafa þeir horfið að því einkennilega ráði að reyna að halda því fram, að raunverulega ætti ekki að leggja kjörskrána í hreppnum til grundvallar, þegar talað er um það, hvort meiri hluti hreppsbúa hefur lýst sig fylgjandi þessari breytingu eða ekki, heldur ætti að leggja til grundvallar manntalið í hreppnum. Þetta er vægast sagt alveg furðuleg tilraun til þess að snúa sig út úr miklum vandræðum. Allir, sem nokkuð hafa komið nærri hreppsmálum og að ég tali nú ekki um nærri bæjarmálum, hljóta að þekkja það, að manntölin eru allt annað en kjörskrá. Á manntal verður að taka fjöldamargt fólk, sem hefur ekki samkvæmt landslögum rétt á því að komast inn á kjörskrá. Á manntal eru t.d. skráðir útlendingar, sem hafa ekki borgararéttindi og hafa ekki rétt til þess að verða settir á kjörskrá og vera fullgildir kjósendur. Og ýmislegt fleira getur komið til greina í sambandi við þá, sem á manntal kunna að koma, að þeir lendi aldrei á kjörskrá. Sú regla er líka svo gömul, að það ættu ekki einhverjir sprettfiskar þarna sunnan úr Kópavogi, sem nú standa fyrir þessu máli, að vera menn til þess, þó að þeir eigi sterka menn að baki sér, að ætla að breyta þeirri reglu líka, að þegar kosningaleg átök þurfa að fara fram í byggðarlagi hér á landi, þegar um það er deilt, hvort meiri hluti eða minni hluti er til staðar í einu máli, að þá megi ekki leggja kjörskrá þar til grundvallar og almenna leynilega atkvgr. samkvæmt gildandi kjörskrá, — hún skuli ekki vera hinn rétti mælikvarði í þessu efni, heldur eigi að taka upp allt aðra reglu, sem aldrei hefur verið farið eftir áður, reglu t.d. um það, að þeir greiði atkvæði í málinu, sem staddir eru í hreppnum, þegar deilan stendur yfir, eða eitthvað því um líkt. En það er nánast það, sem menn eru að fara fram á, þegar þeir vilja taka tillit til manntalsins.

Mér virðist, að þeir menn, sem standa nú mest að þessu Kópavogsmáli, eigi eftir að læra allmikið í meðferð hreppsmála og hefðu endilega þurft að fá að vera í námunda við hreppsnefnd eða jafnvel í hreppsnefnd nokkuð mörg ár enn, áður en þeir fara í bæjarstjórn, því að það virðist vera, að þá skorti ákaflega mikið á kunnugleika í þeim efnum, hvernig menn verða að haga sér í slíkum málum sem þessum, ef þeir ætla að neita eins gömlum og settum reglum og þessu.

Svo hefur verið þyrlað upp nokkru moldviðri um það, hvernig kjörskráin í þessum hreppi muni vera til komin og hvernig hún sé. Og það er verið að draga í efa, að kjörskráin sé samin þannig, að hægt sé í rauninni að leggja hana til grundvallar. Ja, hvað er að heyra! Það eru þó til lög í þessu landi, og svo er líka til yfirvald í þessu umdæmi, sem þarna á hlut að máli. Það eru til mjög skýr lög um það, hvernig á að semja kjörskrá og hvenær hún á að semjast og eftír hvaða reglum, og það er allajafna svo, að það eru ákveðnir aðilar á hverjum stað, sem semja kjörskrá, venjulega er það sérstök kjörskrárnefnd. Og löggjafinn í þessu efni gerir ráð fyrir því, að það geti verið svo óvandaðir menn til í einni hreppsnefnd eða í einu byggðarlagi, að þeir semji kjörskrána vísvitandi rangt og svíkist um eitthvað í þessum efnum, — lögin gera fyllilega ráð fyrir öllu slíku, og þá er til kærufrestur samkvæmt lögum, og það hefur hver og einn rétt til þess að kæra yfir framlagðri kjörskrá, ef kjörskrá hefur ekki verið rétt samin. Það sýnist þá vera hægur vandi í þessu efni fyrir þá, sem mest hafa beitt sér fyrir þessu máli og nú vilja tortryggja kjörskrána í þessu umdæmi, að leita til yfirvalds síns, fyrst til hreppstjórans í umdæminu, sem mér skilst að muni vera á þeirra bandi, og síðan til næsta yfirvalds, sem er sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu og m.a. þingmaður úr kjördæmi þeirra, og mér skilst nú, að hann muni heldur vera á þeirra bandi í þessu máli líka, því að hann hefur a.m.k. lagt hér fram heldur meðmæli með því sem sýslumaður, að þessi breyting yrði gerð. Og hvernig stendur á því, að þessir spretthörðu og duglegu menn leita ekki eftir eðlilegum lagaleiðum, kæra samningu kjörskrár, kæra kjörskrána, sem kann að vera ólögleg, ettir réttum lagalegum leiðum og tryggja það samkvæmt landslögum, að í þeirra byggðarlagi eins og alls staðar annars staðar sé viðurkennd kjörskrá, sem hægt sé að kjósa eftir, og það í tíma?

En í staðinn fyrir að fara alla þessa venjulegu leið grípa menn til þess ráðs að segja: Ekki kjörskrána, hún er samin af vondum mönnum og illa samin og óréttlát og ekkert hægt eftir henni að fara, en við notum hið mikla vald, sem á bak við okkur stendur, við eigum ráðh., við eigum ríkisstj., og við skulum keyra þetta eftir óvenjulegum leiðum í gegn, hvað sem öllum lagareglum líður.

Nei, ég held, að það verði að viðurkennast, að svona vinnubrögð eru ekki þess eðlis, að hv. Alþ. geti fallizt á þau og geti gefið mönnum fordæmi um að óska eftir því, að svona sé á málunum haldið.

Ég vil líka í þessu efni minna á það, eins og ég kom að áður, að það hafa nú með stuttu millibili farið fram kosningar í þessu hreppsfélagi,. væntanlega eftir kjörskrá, og sú kjörskrá hefur auðvitað verið samin samkvæmt lögum, og þá trúi ég ekki öðru en þeir menn, sem þar deildu fast um það, hvort þeir gætu náð meiri hluta í þessu byggðarlagi eða ekki, hafi kært yfir samningu kjörskrár, hafi þeir talið á sinn hlut hallað, og einhver vindgangur held ég að hefði nú sézt um það einhvers staðar, ef kjörskráin hefði verið talin vera mjög vilhöll í seinustu kosningum, þegar hin hörðu átök fóru þarna fram. Nei, þá var sem sagt kjörskráin góð, og hún átti a.m.k. að vera góð, ef upplesturinn úr atkvæðakassanum hefði orðið hagstæður. Þá var allt í lagi, og þá var ekki kært yfir neinu. En svo þegar á að fara að nota þessa kjörskrá við almenna atkvgr. í hreppsfélaginu um allmikið hitamál þar, er hlaupið í að segja, að kjörskráin sé svo vafasöm, að það sé ekki hægt eftir henni að fara. Svona rök geta ekki dugað, það er útilokað.

Eins og ég vék að, eru undirskriftaskjöl, sem til Alþ. hafa borizt, og á skjölunum, sem fyrst komu, voru 760 nöfn, og kunnugir menn töldu, eins og ég sagði, að 224 nöfn af þeim væru ekki finnanleg á kjörskrá í hreppnum. Nú eru auðvitað deilur manna á milli um það, hve miklu kunni að skakka þarna, þó að allir viðurkenni, að á þessa lista hafi skrifað ýmsir, sem eru ekki á kjörskrá í hreppnum og ættu ekki þarna að vera. Þó að allir séu orðnir sammála um það, þá eru hins vegar ekki allir sammála um það, að hve miklu leyti þessir undirskriftalistar eru réttir um kjósendur í hreppnum og hve margir þeir menn séu, sem þarna ættu ekki að vera taldir sem kjósendur.

Af hálfu þeirra manna, sem andæfa hér á móti þessu frv. og telja hér rasað um ráð fram, hefur verið bent á það og óskað eftir því, að þessir undirskriftalistar yrðu lagðir fyrir opinberan aðila, bæjarfógeta eða annan slíkan, hann yrði látinn lesa þessa undirskriftalista saman við gildandi kjörskrá, og á þann hátt fengi Alþ. á ótvíræðan hátt upplýsingar um það, hvað margir raunverulegir kjósendur í þessu sveitarfélagi hafa með undirskrift sinni óskað eftir þessari breytingu og að hve miklu leyti þessar undirskriftir eru aðeins markleysa.

Hvernig bregðast nú þeir, sem ákafast sækja þetta mál, við þessum tilmælum? Nei, auðvitað máttu þeir ekki vera að því að bíða eftir þessu, og þessu neituðu þeir harðlega, þetta kæmi ekki til mála. Og svo fast var að þeirri n. gengið hér í Alþ., sem þetta mál fékk til meðferðar, að þar voru fulltrúar stjórnarliðsins, en það virðist aðallega standa að þessu máli, reknir til að neita þessu sjálfsagða ákvæði. Ég verð nú að segja það, að borið saman við það, sem algengast er hér í nefndum á Alþ., þykir ekki goðgá að senda þau bréf og þær skýrslur og þær umsagnir, sem hingað berast, til ýmissa aðila til þess að fullprófa þessi gögn eða til að fá úr því skorið, hvort þau eru rétt eða ekki rétt. Það þykir alltaf sjálfsagt að verða við slíkum tilmælum, svo framarlega sem nokkur leið er að koma því við. En í þessu tilfelli má ómögulega beita þessari reglu. Það á að fara hina leiðina. Helzt af öllu á að berja málið svo fast hér í gegnum þingið, að það sé búið áður en yfirlýsingar frá opinberum starfsmönnum, eins og t.d. fógeta, um það, hversu traustar þessar undirskriftir séu, geta legið fyrir.

Hvers konar ofurkapp er nú þetta? Nú er alveg ómögulegt, held ég, að halda því fram, að það geti haft úrslítaþýðingu fyrir þetta sveitarfélag, hvort það öðlast sín bæjarstjórnarréttindi deginum fyrr eða deginum síðar. Því hefur ekki verið haldið fram af neinum, og mér er ekki nokkur leið að koma auga á, að það geti skipt máli í þessu tilfelli. Og ef menn hefðu því viljað fara eftir eðlilegum reglum, virðist ekkert vera sjálfsagðara um afgreiðslu þessa máls en að játa, að það sé réttmætt, að það fari fram nákvæm athugun opinbers aðila á þessum undirskriftaplöggum, sem eru einu rökin, sem standa á bak við flutning þessa máls, og beðið sé einn dag eða svo, meðan þessi athugun fer fram. Kæmi það svo í ljós, sem hinir kunnugustu menn hafa haldið fram í þessum efnum, að það vanti allmikið á, að með þessum undirskriftum hafi meiri hluti kjósenda í hreppnum óskað eftir breytingunni, þá virðist ekkert annað liggja beinna við en að fallast á það að doka við með afgreiðslu þessa máls hér á hv. Alþ. fram yfir næstu helgi, þar til íbúarnir eru búnir að ganga að kjörborðinu í sínu byggðarlagi og greiða þar atkvæði samkv. réttum, lýðræðislegum reglum um það, hvort þeir óska eftir þeirri breytingu, sem þetta frv. fer fram á, eða ekki.

Því hefur verið hér lýst yfir af þeim, sem andæft hafa þessu máli hér á Alþ., að færi nú svo, að atkvgr. um næstu helgi leiddi til þess, að meiri hluti hreppsbúa óskaði greinilega eftir því, að hreppnum yrði breytt í bæjarfélag, þá mundi verða svo til einróma samþykkt þetta frv. hér á Alþ. og þá gæti þetta orðið afgr. á tiltölulega örfáum mínútum og þyrfti ekkert um það að karpa á neinn hátt. Og það er vitað mál, að Alþ. á eftir að standa a.m.k. eina viku fram yfir næstu helgi, það er það minnsta, svo að það er mjög auðvelt að tryggja þessu sveitarfélagi bæjarréttindi eftir réttum reglum, ef menn bara þora að glíma um þessi mál eftir réttum lýðræðislegum reglum. En það er svo hjá þeim miklu lýðræðisköppum, sem að þessu máli standa og í tíma og ótíma eru að tala um lýðræðisást sína og það, hvernig þeir séu verndarar lýðræðisins, að þegar þeim er boðið upp á að leysa eitt mál eftir þessum sönnu lýðræðislegu reglum með almennri, leynilegri atkvgr. fólksins, sem hlut á að máli, þá þora þeir ekki að taka slíkri hólmgöngu á neinn hátt. Það er alveg augljóst mál, að þeir menn, sem neita slíku, treysta ekki á það, að meiri hlutinn í þessu byggðarlagi óski við leynilega atkvgr. eftir þessari breytingu. Ef þeir treystu á það, að meiri hl. óskaði eftir breytingunni, þá sjá allir menn, að það kæmi ekki til mála annað en að þeir féllust á að fresta þessu fram yfir næstu helgi. Þá ættu þeir sigurinn alveg vísan. Þá ættu þeir það alveg öruggt, að þetta mundi fljúga gegnum Alþ. umræðulaust og málið væri leyst.

En er það þá hitt, sem þeir vilja? Er það það, sem þeir óska eftir, að samþykkja þetta mál hér á þann hátt, sem ég hef nú nokkuð rakið, með öllum þeim afbrigðum frá settum reglum, sem hér er farið fram á, þvert ofan í vilja meiri hl. kjósenda í hreppnum, daginn áður eða þar um bil en íbúarnir tjá vilja sinn í málinu? Langar hv. alþm. til þess, langar stjórnarflokkana til þess raunverulega að standa frammi fyrir því, að þeir hafi knúið hér í gegnum Alþ. þetta mál, sem er brot á öllum starfsreglum í þessu efni, undir þeim forsendum, að meiri hl. íbúanna hafi óskað ettir þessu og vilji þessa breytingu, en standandi þó frammi fyrir því innan örfárra daga, að á ótvíræðan hátt lægi fyrir eftir leynilega atkvgr., að meiri hlutinn hefði ekki verið sá, sem þeir reyndu að halda hér fram á Alþ.? — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði fyrr í dag á þessum fundi rætt nokkuð um þá óvenjulegu meðferð, sem þetta mál hefur sætt hér á Alþ., og ég rakti þar í stórum dráttum, í hvaða efnum er brugðið hér út af þeim margviðurkenndu reglum, sem gilt hafa í öllum hliðstæðum málum, sem hafa komið fyrir hv. Alþ. Ég benti einnig á það, að ef þessi háttur yrði almennt upp tekinn, þá væri það hættulegt fordæmi, og mætti þá fyllilega búast við því, að minni hlutar í hreppsnefndum, þar sem deilur eru uppi um ýmis mál, notuðu sér þetta fordæmi og sneru sér til Alþ. og óskuðu eftir breytingum, jafnvel þó að ekki hefði verið fullnægt heima skilyrðum, sem almennt hefur verið krafizt fram til þessa. Og ég er ákaflega hræddur um, að það mundi í slíkum tilfellum geta farið nokkuð svipað og í þessu tilfelli, sem hér liggur fyrir, að það yrði erfitt fyrir alþm. að gera sér fulla grein fyrir því, hvað rétt er af þeim rökum, sem minni hluti og meiri hluti leggja fram í málinu, t.d. eins og það, sem hér hefur gerzt, þegar minni hlutinn í hreppsnefnd Kópavogshrepps hefur safnað undirskriftum meðal íbúanna þar og lagt þessar undirskriftir fram hér á Alþ. og heldur því fram, að þessar undirskriftir sanni meirihlutavilja kjósenda í hreppnum, en meiri hluti hreppsnefndar heldur því hins vegar fram, að þarna sé um að ræða fjöldamarga menn, sem eigi ekki kosningarrétt í hreppnum. Vitanlega eru ýmis svona gögn, sem koma fram í deilum stríðandi aðila í einu hreppsfélagi, þannig, að það getur verið erfitt fyrir hv. Alþ. að átta sig á þeim, þó að þessar undirskriftasafnanir út af fyrir sig í þessu tilfelli séu tiltölulega auðveldar viðfangs.

Ég gat þess, að það væri mín skoðun, að meginástæðan til þessarar málsmeðferðar allrar væri sprottin af því, að hér væru á ferðinni pólitískir ofurkappar heima í þessu hreppsfélagi, sem gætu ekki sætt sig við að hlíta settum lögum og reglum og hlíta þeim kosningaúrslítum, sem þeir hafa nú staðið frammi fyrir, og þeir krefðust svo þess að fá sérréttindi í þessum efnum og geta komið fram einum kosningum enn í krafti þess, að þeir eigi á bak við sig ráðamenn í þjóðfélaginu.

Ég held, að þetta sé að öllu leyti rétt, orsökin fyrir þessu mikla brambolti nú skyndilega liggi einmitt í þessu. Það er áreiðanlega ekki hægt að finna því stað, að það sé neitt, sem kallar á þessa breytingu svona skyndilega, annað en þetta pólitíska ofurkapp.

Þessi einu rök, sem haldið hefur verið fram af þeim, sem talað hafa fyrir þessu máli hér á Alþ., að þessar undirskriftir, sem Alþ. bárust, 760 talsins, ættu að sanna, að meiri hlutinn í hreppnum óskaði eftir þessari breytingu, eru fyrir löngu að engu orðin. Ég minntist á það í fyrri hluta ræðu minnar, að samkvæmt athugun gerkunnugra manna á þessum málum væri því haldið fram, að af þessum 760 nöfnum væru 224, sem stæðu ekki á kjörskrá í hreppsfélaginu. Nú hefur þetta verið sannað á óvefengjanlegan hátt. Í því nál. minni hl., Hannibals Valdimarssonar, sem hér hefur nýlega verið útbýtt á þinginu, kemur fram, að borgarfógetinn í Reykjavík hefur staðfest það með bréfi, þar sem segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þér hafið, herra alþingismaður, með bréfi, dags. 14. þ. m., sent mér ljósprentuð áskorunarskjöl um kaupstaðarréttindi fyrir Kópavogshrepp, tölusett með númerunum 1–63, og auk þess fimm skjöl ótölusett, og óskið þér eftir því sem alþingismaður að fá undirskriftaskjölin borin saman við kjörskrá, sem fylgdi bréfi yðar, og notarial-vottað, hverjir undirskrifendur séu ekki á skránni.

Leyfi ég mér hér með að senda yður notarialstaðfesta skrá yfir nöfn manna, sem ritað hafa undir áskorunina, en finnast ekki undir því nafni eða tilgreindu heimilisfangi á kjörskrá, staðfestri af oddvita Kópavogshrepps þann 16. þ. m.

Hin ljósprentuðu skjöl ásamt áminnstri kjörskrá endursendast hér með.

Kristján Kristjánsson.

Hr. alþm. Hannibal Valdimarsson, c/o

Alþingi Íslands.“

Bréfinu fylgdi svo hljóðandi notarialvottorð: „Það vottast hér með notarialiter eftir samanburð, að nöfn þeirra manna, sem hér eru skráð að framan, 224 að tölu, með þar tilgreindu heimilisfangi, finnast ekki í því endurriti af kjörskrá, staðfestu af oddvita Kópavogshrepps 16. þ. m., sem talin er gilda frá 24. jan. 1955 til 23. jan. 1956.“ — Og undirskriftin er svo: Ólafur A. Pálsson fulltrúi.

Það sem sagt kemur í ljós við nána athugun málsins, eins og ég hef haldið fram, og þar með er það staðfest sem fullkomlega rétt, að 224 af þeim, sem skrifa undir skjölin, eiga ekki kosningarrétt í Kópavogshreppi.

Þegar ég við 1. umr. málsins skýrði frá því, að þessu væri haldið fram, að þessar undirskriftir væru vefengdar á þennan hátt, þá virtist 1. flm. frv., hæstv. forsrh., vera með öllu óviðbúinn þessu. Hann hafði byggt allar röksemdir sínar fyrir því, að hann hefði tekizt á hendur að flytja þetta mál inn í þingið, á því, að meiri hluti kjósenda hefði raunverulega óskað eftir þessu. Þá sagði hæstv. forsrh., að hann tryði því ekki, að það gæti verið um nokkrar skekkjur í þessum undirskriftum að ræða, hann tryði því fastlega og hv. alþm. yrðu að trúa því, að þessar undirskriftir væru áreiðanlegar, það væru heiðarlegir og góðir menn, sem hefðu staðið að söfnun þessara undirskrifta, og alþm. hefðu ekki á neinn hátt ástæðu til að vefengja það. Ef 1. flm. frv., hæstv. forsrh., væri nú staddur hér, þegar þessi dómsumsögn um málið liggur fyrir, þá ætla ég, að eftir þeim málflutningi, sem hann hafði hér frammi fyrir málinu, hefði hann, a.m.k. ef hann hefði viljað breyta rökrétt, átt að óska nú eftir því, að þessum umr. yrði slitið hið fyrsta og málinu frestað a.m.k. fram yfir næstu helgi til þess að sjá, hvort meiri hluti íbúanna, eins og hann hafði byggt málflutning sinn á, væri raunverulega þessu máli fylgjandi.

Ég held nú samt, að þegar á þetta var minnzt við 1. flm. frv., hafi gert vart við sig hjá honum nokkur skjálfti í sambandi við þessar undirskriftir, hann hafi orðið svona eilítið hræddur. Og af þeim ástæðum voru menn reknir af stað á nýjan leik og margir undirskriftalistar sendir út meðal hreppsbúa, og átti nú að gersópa þannig, að tryggt væri, þó að veruleg afföll yrðu á umræddum tölum, að samt yrði hægt að merja upp meiri hluta á þennan hátt.

Eftir nokkra daga — í páskafríinu hefur það líklega verið — barst Alþ. viðbótarskammtur af svona undirskriftum. En ekki reyndist þetta uppsóp vera ýkja mikið, því að það komu aðeins 23 nöfn. Nöfnin voru 23, en listarnir voru mjög margir, því tók ég eftir; það voru ekki ýkja mörg nöfn á hverju blaði. En það tókst nú ekki, þó að svona ískyggilega stæði á um málið, að fá nema 23 til viðbótar.

Ef upphaflega talan, sem kom á undirskriftaskjölunum, er nú tekin til greina, 760, og bætt við þessum 23, sem bættust í hópinn síðar, þá hafa samtals verið talin 783 nöfn á þessum undirskriftalistum. Nú er upplýst, að miðað við kjörskrá hreppsins má draga frá þessari tölu a.m.k. 224 nöfn, þó að gert sér ráð fyrir því, að þessir 23, sem seinna komu, séu allir þar rétt tilfærðir. Þá eru eftir 559. (Gripið fram í.) Eru komnir margir í viðbót? Nú, er enn verið að sópa? En þetta er nú það eina, sem hefur legið hér frammi opinberlega á Alþ. Ég var meira að segja að líta í gluggakistuna, þangað sem þetta berst, fyrir stuttu, og þá var þetta ekki komið, svo að það er ósköp eðlilegt, að ég haldi mér við þá tölu. Ég vona þá, að sá hv. þm., sem kallaði hér fram í, eigi eftir að koma hér fram og lesa upp þessi viðbótarnöfn, sem enn hefur tekizt að skrapa upp. — En sem sagt, fyrir mitt auglit hefur ekki borið meira en þetta; ég hef ekki séð það. Það var hér fyrir nokkrum mínútum ekki hærri tala en 783. Frá því er svo óhætt að draga 224, og þá er þarna í mesta lagi um að ræða 559 nöfn. Hins vegar er mér sagt, að á kjörskránni sé 1351 maður. (Gripið fram í.) Það er því alveg augljóst mál, að þessi 559 nöfn, sem hér eru á undirskriftalistunum, ná hvergi nærri því að skapa meiri hluta, þar sem 1351 maður er á kjörskrá.

Hvernig sem á þetta mál er litið, er sýnilegt, að þessi höfuðröksemd, sem notuð var hér við flutning málsins, að þessar undirskriftir ættu að sanna, að meiri hluti íbúanna óskaði eftir þessari breytingu, nær ekki tilgangi sínum, hún er ónýt.

En svo er hitt atriðið, að það er líka vitað mál, að það er ógeðfelld aðferð, sem yfirleitt ætti ekki að eiga sér stað, að þegar verið er að ganga úr skugga um það, hvort meiri hluti kjósenda í einu bæjar- eða sveitarfélagi óskar eftir einu eða öðru, á ekki að fara þá leið, nema ekki sé annað hægt, að fá úr því skorið með því að ganga á milli manna og fá menn til þess að skrifa opinberlega undir einhver skjöl um það. Slíkt er vitanlega opinber atkvgr. Menn hafa ekki fengið að tjá vilja sinn í leynilegum kosningum, sem er miklu eðlilegri aðferð. Og þegar full völ er á, að menn geti fengið að segja álit sitt í leynilegri atkvgr., þá á vitanlega að viðhafa þá aðferð, en ekki þessa undirskriftaaðferð, sem hér er tekin upp.

Þegar hæstv. forsrh. var bent á það í umr. málsins, að vitanlega hefðu svona undirskriftir aldrei nema takmarkað gildi, leynileg atkvgr. væri miklu eðlilegri, þá komst hann alveg í mát, af því að hann sá ekki margar leiðir út úr þessu máli, en sagði hér í ræðustóli, að það ætti að viðhafa opinbera atkvgr., opinber atkvgr. væri sú réttasta og bezta. Ja, þetta lætur dálítið einkennilega, og það er sannarlega þess virði, að menn veiti þessu athygli. Hæstv. forsrh., sem er formaður stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, leyfir sér að segja þetta hér í ræðustól á Alþ. Ég vil ætla, að hann hafi ekki sagt aðra eins fjarstæðu og þetta nema mjög aðþrengdur í málinu, þar sem hann hafði ekki komið auga á neina aðra leið út úr þeim vandræðum, sem hann var kominn í. Eða er það kannske meining hans, að það væri æskilegt að stefna að því yfirleitt, þar sem kjósendur eiga að segja sitt álit, að hverfa frá hinni leynilegu atkvgr. og stefna til opinberrar atkvgr., þar sem ýmsir öflugir menn ganga fram fyrir almenning og óska eftir því, að þeir skrifi nafn sitt undir eitthvert blað, sem þeir sýna þeim?

Ég vil því benda þeim hv. þm., sem vilja reyna að halda sér við þessa undirskriftaleið, á það, að hún er fjarri því að geta nokkurn tíma verið sú leið, sem Alþ. getur yfirleitt lagt til grundvallar í svona málum, ef bægt er á auðveldan hátt að koma leynilegri og formlegri atkvgr. við. Og nú stendur þetta til boða. Ágreiningurinn í þessu hreppsfélagi, sem virðist vera æði mikill á milli meiri hluta og minni hluta, a.m.k. í hreppsnefndinni, er ekki ágreiningur um, að það fari fram almenn, leynileg atkvgr. eftir kjörskrá, þar sem íbúarnir eru greinilega spurðir um, hvort þeir vilji óska eftir þeirri breytingu, sem hér er farið fram á með þessu frv. Menn eiga því af báðum örmum í þessu fulla samleið um að geta farið æskilegustu leið í málinu, sem sagt leið hinnar leynilegu atkvgr. Ég held því, að það sé langsæmilegast fyrir þá menn, sem vilja nú halda uppi vörnum fyrir þá, sem eru upphafsmenn þessa máls, að hverfa með öllu frá undirskriftaleiðinni, játa það, að hún ætti ekki að vera þeim samboðin. Þeir hljóta að vera menn til þess að stefna liði sínu að kjörborði og fá þar úr því skorið á eðlilegan hátt, hvort skoðun þeirra á meirihlutafylgi að fagna eða ekki í hreppnum.

Ég hef hér aðallega dvalizt við þann hluta þessa máls, sem snýr að málsmeðferðinni, að því, hvað hér er unnið óeðlilega að framgangi málsins. En það er ekki óeðlilegt, að í þessu sambandi sé líka nokkuð rætt um þá breytingu, sem hér er verið að ræða um í sjálfu sér, sem sagt að breyta Kópavogshreppi í kaupstað.

Ég hef lýst því yfir áður, að fyrir mitt leyti er ég ekki á neinn hátt andvígur því, að Kópavogshreppur verði gerður að kaupstað, ef farin er í þeim efnum eðlileg leið og meiri hluti hreppsbúa óskar eftir því. Ég hef hér fyrst og fremst deilt á leiðina, sem unnið er eftir í málinu, fyrst og fremst á þessar starfsaðferðir, sem brjóta allar venjur. En ég vildi nú fara nokkrum orðum líka um þá breytingu, að Kópavogshreppur hætti að vera hreppsfélag, en taki upp að verða sérstakur kaupstaður.

Kópavogshreppur er orðinn svo fjölmennur, að hann hefur fulla ástæðu til þess að vera kaupstaður þess vegna; það er rétt. Og ég hygg, að það reyni enginn alþm. að neita hreppnum um að fá kaupstaðarréttindi, ef meiri hluti hreppsbúa óskar eftír því, af því að hreppsfélagið er orðið það fjölmennt.

Því er ekki heldur að neita, að það eru einstaka kostir, sem geta fylgt því að breyta einu hreppsfélagi yfir í kaupstað. En þeir eru ekki út af fyrir sig ýkja margir. Það getur í ýmsum tilfellum verið kostur. í staðinn fyrir það, að yfirvaldið í hreppsfélaginu í Kópavogi er t.d. nú ekki búsett þar, heldur í Hafnarfirði, getur verið í vissum tilfellum hentugra og eðlilegra, að sérstakur bæjarfógeti ætti heima í hreppsfélaginu. Ég hef ekki á móti þessu. Ég teldi í mörgum tilfellum eðlilegt, að það yrði skipaður sérstakur bæjarfógeti fyrir Kópavogshrepp eða Kópavogskaupstað. Það gæti í einstaka tilfeilum verið hentugra. Þó er því ekki að neita, að það er ekki ýkja langt á milli Kópavogshrepps og þess staðar, þar sem yfirvald þeirra á heima, í Hafnarfirði, og tiltölulega mjög greitt um samgöngur þar á milli, svo að a.m.k. mér, sem kem utan af landi, óar það ekki út af fyrir sig að þurfa að sækja þangað til yfirvalds. Þó má gera nokkuð úr þessu. En það væri þó ákaflega auðveit að bæta úr þessu, og sýnist ekkert annað eðlilegra en að yfirvald þeirra í Kópavogshreppi nú, sýslumaðurinn í Hafnarfirði eða bæjarfógetinn í Hafnarfirði, skipaði eða setti fastan starfsmann, sem þjónaði undir hans embætti, fastan fulltrúa, sem hefði skrifstofu í Kópavogshreppi, þangað sem allir hreppsbúar gætu eðlilega leitað til með öll þau mál, sem þarf annars að leita til fógetaskrifstofu um. Ég verð að segja það, að mér sýnist þetta ákaflega auðvelt framkvæmdaratriði, svo að þess vegna eins getur varla verið ástæða til þess að taka á sig ýkja stóran krók.

En það eru líka ýmis önnur atriði í sambandi við breytingu úr hreppsfélagi í kaupstað, sem gera þetta miklu erfiðara einmitt í þessu tilfelli, eftir því sem mér sýnist málið liggja fyrir. En mér þykir nú rétt að víkja nokkrum orðum að því, sem ég hef tekið eftir að fram hefur komið frá upphafsmönnum þessa máls og þeim, sem harðast hafa beitt sér fyrir því, — að víkja nokkrum orðum að þeim rökum, sem þeir hafa flutt fyrir því, að það sé nú alveg brýn nauðsyn á því að breyta Kópavogshreppi í kaupstað.

Ég hef tekið eftir því, að meðhaldsmenn þessa máls hafa sérstaklega haldið því fram, að þeir ættu við slík ókjör að búa í sambandi við oddvitann í hreppnum, það sé slæmur oddviti, hreppurinn sé orðinn svo stór, að sá maður, sem nú er oddviti, geti á engan hátt annað sínum störfum eðlilega o.s.frv.

Ég þekki talsvert inn á þessi mál, því að ég hef búið í hreppsfélagi, sem síðar tók upp á því að breytast úr hreppsfélagi og verða að kaupstað, og þekki nokkuð inn á hvort tveggja. Í mínum augum er þetta alger tylliástæða. Þessi vondi oddviti, sem þeir eiga að búa við nú, gæti hæglega orðið bæjarstjóri hjá þeim eftir kosningar. Það er ekkert, sem bannar það. Kópavogshreppur út af fyrir síg minnkar ekkert við það, þó að hann verði að Kópavogskaupstað. Og bæjarstjóri þeirra getur vitanlega setið hér á Alþ. og unnið að ýmsum störfum, þó að hann verði nú bæjarstjóri í staðinn fyrir að heita oddviti. Það er ekkert, sem bannar honum slíkt, og ég veit ekki betur en að sjálfur borgarstjórinn í Reykjavík sitji hér á Alþ. og hafi ýmsum hnöppum að hneppa. Það leysir ekki þennan minni hluta, sem þarna kvartar sáran undan því, hvernig málum er skipað í Kópavogshreppi, undan þessum vanda, þó að umdæmið hætti að heita hreppur og verði að kaupstað. Sami maður, jafnvondur maður getur haldið áfram að vera bæjarstjóri eins og nú er oddviti. Ekkert bannar slíkt.

Ég vil líka benda á, að það er heimilt samkv. lögum að ráða í hreppsfélagi sérstakan sveitarstjóra, sem þá gefur sig algerlega að þeim málum. Það er framkvæmdaratriði hreppsnefndar og íbúanna sjálfra með milligöngu hreppsnefndar að breyta til í þessum efnum, ef það er talið æskilegt og er meiri hl. á einlægan hátt óskar eftir þessari breytingu, enda hefði það vitanlega átt að koma fram í hreppsnefndarkosningum, sem þarna hafa farið fram tvær á stuttum tíma. Ef meiri hluti hreppsbúa er óánægður með oddvita og telur hann rækja störfin illa og hann geti ekki gefið sig nægilega mikið að þeim, þá eiga vitanlega kjósendurnir í þessu sveitarfélagi eins og öllum öðrum að hrinda þessum meiri hluta af sér, sem svona skipar málunum, og koma þeim fyrir á annan veg. En meiri hlutinn hefur ekki gert það. Meiri hlutinn hefur staðið enn þá að því, að þessi sami oddviti verði þarna í meiri hl. og meiri hl. haldi áfram að efla hann til starfa í þessu sveitarfélagi.

Þessi aths. hjá upphafsmönnum þessa máls ber greinilega vitni um það, að þeir eru hér að glíma við hrein sveitarmálefni, hrein rifrildisefni, sem eiga sér stað í flestum sveitarfélögum landsins. Haldið þið virkilega t.d., að það séu ekki mörg sveitarfélög annars staðar, þar sem minni hl. segir, að oddvitinn sé með öllu óhæfur og að hann sinni á engan hátt svo sveitarstjórnarmálum sem hann ætti að gera? Jú, ég hygg, að þeir séu meira að segja margir kaupstaðirnir, sem fengið hafa kaupstaðarréttindi, þar sem minni hl. segir, að viðkomandi bæjarstjórar séu með öllu óhæfir og að það sé lítt þolandi að búa við ástandið hjá þeim. Þetta eru sveitamálefni. Þetta eru rifrildisatriði, sem allir sveitarstjórnarmenn þekkja. En það eru bara einstaka menn í sveitarstjórnarmálefnum, sem eru þannig gerðir, að þeir una því ekki að hafa beðið lægri hlut í kosningum. Þeir geta ekki sætt sig við það að bíða út kjörtímabilið og reyna á nýjan leik og fylgja réttum lýðræðislegum reglum. Þeir verða að brjótast út úr því, sem þeir hafa sjálfir sett sig í, og leita á óvenjulegan hátt til Alþ. í gegnum vald stórra flokka og óska eftir því, að þeir breyti reglum sér í hag, þannig að þeir geti komið vilja sínum fram. Og það er um þessa menn, sem ég sagði áður í þessum umræðum, að mér sýnist, að þeir menn, sem svona eru gerðir, þurfi að búa í hreppsfélagi talsvert lengi enn og læra ýmislegt af því, sem fer fram í einu hreppsfélagi, áður en þeir verða fluttir upp í bæjarfélag. Og þeir þyrftu að fá að vera í hreppsnefnd í nokkur kjörtímabil til að læra þar eðlilegustu vinnubrögð í þessum efnum, áður en þeir fara að brjótast um á þennan hátt og vilja ekki una eðlilegri niðurstöðu.

Þá hafa upphafsmenn þessa máls mikið bent á það, að við völd í Kópavogshreppi sé mjög vondur meiri hluti, afleitur meiri hluti, ofbeldisríkur, beiti minni hlutann ofbeldi í alls konar tilfeilum, og við þetta sé ekki unandi. Jafnvel er kvartað undan því, eins og ég vék að fyrr í dag, að það fáist ekki samin eðlilega rétt kjörskrá í hreppnum samkv. lögum. Þetta er líka nákvæmlega sama eðlis. Hér er um venjulegt hreppsmál að ræða, ekki málefni um það, hvort er í eðli sínu eðlilegra, að þetta hreppsfélag hætti við það stjórnarform, sem það hefur búið við að undanförnu, eða hvort rétt er að breyta því yfir í kaupstað.

Það er nauðsynlegt, að menn geri sér fulla grein fyrir þessu, því að slík baráttumál á milli minni hl. og meiri hl. í hreppsnefndum og bæjarstjórnum eru alltaf fyrir hendi. Minni hlutinn heldur allajafna fram, að meiri hlutinn sé ráðríkur og ofbeldisgjarn og það sé erfitt að búa við hans meirihlutavald. Og það eru því engin rök í sambandi við það, hvort breyta á um skipulagsform í þessu byggðarlagi eða ekki, þegar minni hlutinn heldur því fram, að meiri hl. sé ofbeldisgjarn og erfiður í viðskiptum. Sérstaklega er það mikil fjarstæða að reyna að halda því fram sem rökum í þessu máli, að ofbeldi meiri hl. komi m.a. fram í því, að kjörskrá sé ekki samin á eðlilegan hátt. Minni hl. hefur, eins og ég vék að fyrr í dag, alla aðstöðu til þess að beita fyrir sig þar lögum og réttum yfirvöldum til að tryggja það, að kjörskrá sé samin á réttan hátt. Kjörskrá á að semjast á tilteknum tíma. Það eru ákveðnar reglur, sem gilda um samningu kjörskrár. Kjörskrá á að liggja frammi. Menn geta kært yfir henni. Og ef meiri hl. brýtur þar gildandi lagareglur, þá hlýtur að vera hægt í gegnum rétt yfirvöld að koma því til leiðar, að kjörskráin verði höfð samkv. lögum. Og ég þekki dæmi um það úr mínu byggðarlagi, að minni hl. hefur kært yfir samningu á kjörskrá; þar sem minni og meiri hluti rifust um það í bæjarstjórn, hvort nafnið ætti að vera á kjörskrá eða ekki, fór fram eðlilegur úrskurður um það, hvað var rétt í málinu, hvað skyldi standa. Og samkv. lögum stendur þessi úrskurður yfirvaldsins, hvað svo sem meiri hl. segir um það. Það er því alger fyrirsláttur líka hjá talsmönnum þessa máls að vera að finna að þessum störfum. Þeir hafa þar eðlilega leið til að vinna eftir, aðra en þá, sem þeir virðast kjósa að fara hér.

Þá halda stuðningsmenn málsins því fram, að það sé kostur fyrir Kópavogshrepp að fá kaupstaðarréttindi, því að sveitarfélagið verði miklu sjálfstæðara með því, það sé þá algerlega sjálfstætt um sín málefni, þetta sé því á sinn hátt sjálfstæðisbarátta. Í hverju kemur þetta sjálfstæði fram? Ég hef ekki orðið var við það af mínum kunnugleika til þessara mála, að bæjarfélag hafi á nokkurn hátt réttindi, sem umtalsverð eru, fram yfir það, sem hreppsfélög hafa. Það væri þá ekki heldur úr vegi í þessu efni að spyrja þessa menn um það:

Í hverju hefur þetta ósjálfstæði Kópavogshrepps komið fram? Hvað er það, sem þeir hafa ekki fengið ráðið við sjálfir? Og hver hefur legið á rétti þeirra? Hefur sýslunefndin þeirra, þar sem þeir eru eitt hreppsfélag, verið að banna þeim að aðhafast eitthvað? Er það svo, að minni hlutinn í hreppsnefndinni hafi flutt till. um gagnleg framfaramál og jafnvel fengið þau samþ. í hreppsnefndinni, en þá hafi komið til ósjálfstæðis hreppsins, vegna þess að sýslunefnd hafi bannað að framkvæma þessi nauðsynjamál? Ég er alveg viss um það, að ef einhverju slíku væri til að dreifa, þá væri búið að minnast á þessi mál. Nei, það er alveg ábyggilegt, að það er ekki um það að ræða í neinum málefnum þessa sveitarfélags, að það verði á nokkurn hátt sjálfstæðara um málefni sín, þó að það verði kallað kaupstaður, heldur en þótt það heiti hreppsfélag.

Þá er minnzt á það, — ég sá það einhvers staðar í grein um þessi mál, — að mikill yrði nú munurinn, ef þetta væri orðinn kaupstaður. Þá yrðu t.d. haldnir opnir bæjarstjórnarfundir, svo að allir íbúar í hreppnum gætu þarna hlýtt á mál manna. En ég vil nú bara spyrja: Hver bannar hreppsnefnd að halda opna fundi um máletni sín? Mér er ekki kunnugt um það. Mér er hins vegar kunnugt um það, að hreppsnefndir hafa æði oft haldið opna hreppsnefndarfundi. Það má vel vera, að það hafi ekki verið haldnir opnir fundir í Kópavogi, en hafi þetta t.d. verið eitt af baráttumálum þeirra manna, sem eru upphafsmenn þessa máls, í fyrirfarandi sveitarstjórnarkosningum, þá hafa hreppsnefndarbúar ekki talið þetta ýkja mikilsvert, fyrst þeir hafa ekki tekið það upp við þessa baráttu þeirra. Þar að auki verð ég að segja það, að það er sá siður í flestum bæjarstjórnum, sem ég þekki, að talað er um, að það skuli halda einn opinn bæjarstjórnarfund í mánuði hverjum. Það vill nú víða við brenna á hinum stærstu stöðum, að þeir séu ekki einu sinni haldnir, og meira að segja á allra stærstu stöðum í landinu vill það líka við brenna, að því er komið þannig fyrir, að ekki geta æði margir hlustað á fundina. Ég held því, að það ætti ekki að þurfa að breyta neinum lögum eða umskíra neitt sveitarfélag bara til þess að koma því fram, að sveitarfundir verði þar hafðir opnir, svo að mönnum gefist kostur á að hlýða þar á fundi, þetta sé afar einfalt framkvæmdaratriði, ef einhver brennandi hugur er á bak við þessa beiðni. Þetta er því að mínum dómi líka algert hreppsmál, rifrildismál, sem vill verða á milli minni og meiri hluta, hvenær eigi að hafa fundi opna og hvenær þeir eigi að vera lokaðir.

Einhvers staðar sá ég hjá stuðningsmanni þessa máls, að það var rætt mikið um, að það væri ríkjandi ófremdarástand í ýmsum málefnum hreppsins, m.a. væri hið skaðlegasta ástand þar í öllum skólpveitumálum og öðrum slíkum, að þrifnaður þar væri víða í lakara lagi, og margt fleira var tiltekið í sambandi við framkvæmdir í hreppnum, þar sem var mjög áfátt. Mér er nú spurn: Eru einhverjar sjáanlegar líkur til þess, þó að skyndilega yrði breytt þarna um nafn og þetta héti á eftir Kópavogskaupstaður, að þá yrðu einhverjar verulegar breytingar í þessum efnum? Koma nokkrir peningar við það út af fyrir sig í kassann, að þetta yrði Kópavogskaupstaður í staðinn fyrir Kópavogshreppur? Hækka útsvörin allt í einu? Hækka tekjurnar? Nei, ekkert slíkt gerist; ekki er mér kunnugt um það. Það er því áreiðanlega ekkert auðveldara fyrir þann meiri hluta, sem þarna fer með völd, að leysa hreinlætismál þarna í hreppsfélaginu eftir en áður, og það verður ekkert auðveldara að vinna að framkvæmdum þar, þó að þetta heiti kaupstaður í staðinn fyrir hreppur áður. Barátta á milli meiri hluta og minni hluta um þessi mál er vitanlega afar eðlilegt hreppsmál þarna eins og annars staðar. Og þetta á ekkert skylt við það, að breyta þurfi þarna um stjórnarform. Ekkert í þessum efnum yrði auðveldara, nema jafnvel síður sé í einstaka tilfellum. Í nokkrum tilfellum er það svo, og það eru í rauninni þau einu, sem eru umtalsverð, að löggjafinn hefur mælt svo fyrir, að framlög ríkisins til framkvæmda eða styrkir eru nokkru lægri í kaupstöðum heldur en í hreppum. Þannig er þessu t.d. háttað, þegar sjúkrahús eru byggð. Ef sjúkrahús er byggt í hreppsfélagi, leggur ríkissjóður fram 2/3 hluta eða 67% af byggingarkostnaði, en viðkomandi hreppsfélag þarf að leggja fram 1/3. En ef þetta er í kaupstað gert, þá leggur ríkissjóður ekki fram nema 40%, en bæjarfélagið verður að leggja fram 60% sjálft. Sama er einnig að segja um ýmsar aðrar framkvæmdir, sem eru styrktar úr ríkissjóði, að framlögin eru yfirleitt lægri, ef um kaupstað er að ræða, heldur en ef um hreppsfélag er að ræða. Það er því alveg víst, að Kópavogsbúar geta ekki vænzt þess að óbreyttum ástæðum, að þeim gengi neitt betur að leysa sín áhugamál, hvorki viðvíkjandi hreinlætismálum, mennin garmálum, vegamálum né öðru slíku, sem talsmenn þessa máls hafa gert að umtalsefni, eftir að búið er að breyta stjórnarformum þarna á staðnum.

Eg held því, að rök upphafsmanna þessa máls séu ákaflega veik. Öll þeirra rök sanna það, sem ég hélt fram hér í upphafi míns máls, að það er ekki vegna efnishliðar þessa máls, sem verið er að knýja það í gegn, það er ekki af brýnni nauðsyn, það er ekki vegna áhuga á málefnum í þessu sveitarfélagi, heldur er það fyrst og fremst vegna þess, að það er þetta feiknarlega pólitíska ofurkapp í nokkrum mönnum, sem geta ekki með neinu móti sætt sig við að bíða lægri hlut í kosningum og hlíta almennum leikreglum og bíða þangað til næstu kosningar eiga eðillega að fara fram. Þeir vilja í krafti ráðherravalds, í krafti meirihlutavalds hér á Alþ. grípa inn í þær reglur, sem almennt gilda, og knýja fram kosningar sér til handa í von um, að þeir geti einhvern tíma í síendurteknum kosningum í þessu sveitarfélagi slysazt á meiri hlutann. Það er alveg áreiðanlegt, að þetta eru orsakirnar fyrir því, að þessu máli er nú kastað hér inn á Alþ. á seinustu stundu og það er rekið á eftir því á þann hátt, sem hér er gert.

Ég segi það alveg eins og er, að við mundum ekki standa hér, komið langt fram á kvöld, og sennilega verðum við að standa hér lengi í nótt, ef hér væri á ferðinni mál, sem raunverulega skipti miklu máli fyrir landsmenn yfirleitt, eins og t.d. verkfallsmálin, sem svo að segja allir landsmenn spyrja nú um daglega, hvað Alþ. muni gera í. En vegna þess að hér er á ferðinni algert hégómamál, sem engu máli skiptir, hvort leyst verður t.d. fyrir næstu helgi eða ekki, þá er Alþ. haldið hér uppi til afgreiðslu á þessu máli, alveg að ástæðulausu. Það er verið að tefja eðilleg störf þingsins, en að öllu eðlilegu hefði málið mátt liggja og bíða eftir þeirri leynilegu, almennu atkvgr., sem á að fara fram meðal íbúa hreppsins og væntanlega mundi segja til um það, hvort þeir yfirleitt óska eftir þessu eða ekki.

Nú er það svo, að þótt ég fyrir mitt leyti vilji ekki mæla gegn því, að Kópavogshreppur geti fengið kaupstaðarréttindi, eins og ég hef margsinnis tekið fram, og ég ætla mér ekki að vera á móti því, — ef ótvíræður vilji hreppsbúa lýsir yfir, að þeir vilji þessa skipulagsbreytingu, þá skal ég gjarnan vera með því, — þá sé ég það samt sem áður, þó að ég sé heldur lítið kunnugur aðstæðum í Kópavogshreppi, að það eru margir verulegir annmarkar á því fyrir þetta sveitarfélag að breyta um stjórnarform eins og nú háttar málum.

Kópavogshreppur er með yngstu sjálfstæðu hreppsfélögunum, þannig að þar hafi verið um nokkra teljandi byggð að ræða. Hann hefur vaxið ákaflega ört á fáum árum, og hann hefur vaxið upp á alveg hliðstæðan hátt og ýmis úthverfi Reykjavíkur hafa vaxið upp nú á síðustu árum. Mér sýnist, að vísu sem heldur ókunnugum manni í þessum málum, vera ákaflega hliðstætt háttað með Kópavogshreppinn í þessu efni og t.d. Kleppsholtið. Ég sé engan verulegan mun á uppvexti þessara tveggja svæða hér í nágrenni Reykjavíkur. E.t.v. verður það næsta baráttumál þessara manna að berjast fyrir sérstökum bæ í Kleppsholtinu. Það er sjálfsagt að athuga það á sínum tíma, ekki sízt ef íbúarnir þar óska eftir því, og e.t.v. mundi þessi hv. þm., sem kallaði fram í hjá mér, vilja vinna að því með mér að láta athuga, hvort meiri hluti íbúanna í Kleppsholtinu vildi ekki óska eftir sérstakri bæjarstjórn, og fylgja þá málinu, ef það kæmi hér fyrir. Það er sjálfsagt, ef íbúarnir raunverulega óska eftir því, að verða við þeirra vilja; ég sé ekkert á móti því.

En Kópavogskaupstaður er þannig á vegi staddur í þessum efnum, svipað og Kleppsholtið, að hann á í rauninni ekkert sjálfstætt atvinnulíf. Flestallir íbúar í Kópavogshreppi sækja vinnu sína í önnur sveitarfélög og þá fyrst og fremst hingað til Reykjavíkur. Þetta er nokkuð sérstakt. Ég held, að öll þau sveitarfélög, sem hafa hingað til sótt um að breyta stjórnarformi sínu úr hreppsfélagi í kaupstað, hafi verið komin vel til ára og búin að búa við sitt sveitarskipulag í mörg ár, hafi smám saman vaxið upp í það gegnum sjálfstætt atvinnulíf að vilja breyta til. En hér gegnir allt öðru máli um þetta sveitarfélag. Það hlýtur að þurfa að glíma við ýmis sérstæð vandamál, ef þarna verður gerður kaupstaður, nema svo takist til, að nágrannastaðirnir, eins og Reykjavík, veiti þeim, þrátt fyrir það að þeir hafa gerzt kaupstaðir, nokkur sérréttindi.

Ég býst við, að það mætti búast við því um ýmis samtök manna hér í Reykjavík, t.d. í sambandi við stéttarfélög ýmis og ýmis fleiri samtök, að það yrði farið að draga skarpari línu en nú er gert á milli þessa uppvaxandi hreppsfélags, sem þarna er við hliðina á Reykjavík, og Reykjavíkurborgar. Það yrði farið að draga skarpari linur á milli, og það yrði farið að segja: Þá samninga, sem segja, að stéttarfélagið hér í Reykjavík skuli fyrir sína meðlimi hafa forgangsrétt til þessa eða hins, vill það láta gilda, og það gerir þar ekki neinn greinarmun á, hvort það heitir Kópavogskaupstaður eða einhver annar kaupstaður annars staðar á landinu. — Ég mundi a.m.k. fyrir mitt leyti óttast þetta nokkuð, meðan Kópavogur á við þá sérstöðu að búa að hafa ekkert sjálfstætt atvinnulíf, sem teljandi er. Það er alveg ástæðulaust að ganga alveg fram hjá þessu, þegar er verið að ræða um það, hvort rétt er, eins og nú standa sakir, að gripa til þessara breytinga.

Ég tel á ýmsan hátt eðlilegra, að það yrði unnið að því í hinum unga hreppi í Kópavogi, að þar yxi upp skipulegur atvinnuvegur, að þar yxu upp atvinnugreinar, sem verulegur hluti íbúanna hefði vinnutekjur sínar frá. Það mundi auka mjög á rökin fyrir því, að þetta sveitarfélag óskaði síðar eftir skipulagsbreytingu og yrði sjálfstæður kaupstaður.

Ég tel líka þó nokkurn annmarka á því fyrir Kópavogshrepp að gera þessa breytingu í sambandi við lögreglumálið. Einmitt á meðan eins er háttað og nú í Kópavogi, að þar hefur ekki vaxið upp neinn sjálfstæður atvinnurekstur, sem heitið getur, hlýtur sveitarfélagið að eiga á ýmsan hátt erfiðara með að standa undir miklum útgjöldum heldur en mörg önnur sveitarfélög. Af atvinnurekstri eru vitanlega margvíslegar tekjur, sem koma að verulegu leyti á óbeinan hátt fram. Halda menn t.d., að Reykjavík hafi ekki miklar óbeinar tekjur af öllum þeim miklu verzlunarstörfum, sem rekin eru hér í borg? Jú, Reykjavík hefur gífurlega miklar atvinnutekjur meðal annars af allri þeirri innflutningsverzlun og heildverzlun, sem hér er rekin fyrir alla landsbúa. Og Reykjavík hefur auðvitað líka gífurlega miklar óbeinar og beinar tekjur af þeim atvinnurekstri, sem hér er rekinn, reyndar að verulegu leyti í þágu allra landsmanna, sem er rekstur skipafélaga. Þannig er það yfirleitt með allan atvinnurekstur, að sveitarfélögin hafa verulegar tekjur af atvinnurekstrinum. Nærri öll sveitarfélög á landinu og bæjarfélög afla talsverðs hluta af sínum bæjartekjum á hverju ári í formi veltuútsvars af atvinnurekstri, og þar að auki er svo vitanlega atvinnureksturinn sjálfur meira og minna skattlagður. En þar sem atvinnureksturinn er nær enginn fyrir hendi, hlýtur að verða skarð fyrir í þessum efnum, og tekjurnar hjá sveitarfélaginu verða þá að byggjast næstum einvörðungu á tekjum íbúanna, sem þar eru.

Ég held því, að fyrir byggðarlag eins og Kópavog verði að sínu leyti á margan hátt erfiðara en fyrir marga aðra staði að risa undir verulegum lögreglukostnaði, t.d. að taka. Ef þarna væri kominn kaupstaður, þá er ekki um það að villast, að skylt yrði að halda þarna uppi ákveðnum fjölda af lögregluþjónum. Og mér vitanlega hefur enginn kaupstaður komizt undan því að hafa lögreglu, sem jafngildir um það bil einum lögregluþjóni fyrir 1000 íbúa, og hann verður að hafa meira að segja einn lögregluþjón fyrir hverja 700 íbúa, ef hann vill fá örlitla þátttökugreiðslu í lögreglukostnaði frá ríkissjóði.

Það er því alveg augljóst mál, að það þyrfti að setja upp í Kópavogskaupstað þó nokkurt lögreglulið samkvæmt því, sem lög og reglur standa til um, og kaupstaðurinn yrði að standa að langsamlega mestu leyti undir þessum útgjöldum. Nú mun Kópavogshreppur sleppa við þetta að mestu eða kannske öllu leyti. Ég mundi fyrir mitt leyti líta á þetta, eins og nú standa sakir, sem verulega annmarka, og ég get ekki séð, hvað knýr á það sérstaklega að etna til þessara útgjalda, eins og nú er háttað málum þarna í hreppnum.

Lögreglustjórinn yrði auðvitað búsettur þarna. Það kæmi bæjarfógeti, sem ríkið greiðir laun, og hreppurinn þyrfti auðvitað ekki að sjá fyrir því sérstaklega. En það er ekki aðeins sá kostnaður, sem hlýzt af allmörgum lögregluþjónum. Það er ekki hægt að reka svo lögreglumál í einu sveitarfélagi, þar sem lögregluþjónarnir eru orðnir kannske 5–6, að ekki fylgi allmikill annar kostnaður líka. Það verður að hafa dálitla lögreglustöð, einhvers staðar verða þessir menn að hafa sína bækistöð, og þeir lifa þar ekki í kuldanum. Það verður áreiðanlega að sjá þeim fyrir sæmilegu húsnæði og upphitun o.s.frv. Nokkur rekstrarkostnaður vefst upp á þetta; útgjöld af lögreglumálum mundu áreiðanlega segja talsvert til sín í þessu byggðarlagi. Það er svo ekki því að neita, að vel getur komið til mála að leggja í þennan kostnað, en ég kem ekki auga á það, að þetta skipti máli, eins og sakir standa enn þá, og það mætti vel bíða a.m.k. í nokkurn tíma að taka upp þetta skipulag þess vegna.

Ég held, að Kópavogur eigi í þessu efni hliðstætt vandamál og úthverfin í Reykjavík, nema að því leyti til, að Reykjavíkurkaupstaður er á margan hátt ákaflega eðlilegur aðíll að eiga að standa undir þeim óneitanlega óhjákvæmilegu útgjöldum, sem hlýtur að verða að leggja í í uppvaxandi byggðarlagi eins og þarna. Það er Reykjavíkurkaupstaður, sem nýtur góðs af mestöllu því vinnuafli, sem býr suður í Kópavogshreppi. Ef íbúarnir þar ynnu ekki á vinnumarkaðnum hér í Reykjavík, þá væri beinlínis ekki hægt að reka ýmis fyrirtæki hér. Reykjavíkurbær hefur því á óbeinan hátt verulegar tekjur, umsetningartekjur, á margan hátt af vinnuaflinu úr Kópavogi, sem hér starfar.

Og það væri því ákaflega eðlilegt, sýnist mér, að Reykjavík legði fram af sínum miklu tekjum nokkuð til þess að leysa ýmis sameiginleg vandamál Reykjavíkur og íbúanna suður í Kópavogshreppi.

Ég tel því ekki óeðlilegt út af fyrir sig, að það yrði athugað, hvaða samstarf eða samstöðu íbúarnir í Kópavogshreppi og íbúarnir í Reykjavík gætu haft sín á milli. Reykjavík og Kópavogur hljóta að eiga margt sameiginlegt, þannig að það væri eðlilegt að hafa þar samstarf, ef ekki yrði um neina sameiningu á milli þessara svæða að ræða.

Ég vil t.d. nefna í þessu efni málefni eins og brunamálefni, sem allir kaupstaðir verða að sinna að nokkru leyti og hafa talsverð útgjöld af. Það er auðvitað ekkert annað eðlilegra en að Reykjavík og Kópavogur hafi sameiginlegar brunavarnir, sama brunavarnarliðið starfi á báðum svæðunum, og þetta á vitanlega að gerast með gagnkvæmu samkomulagi, með hlutagreiðslu frá hálfu Kópavogs, eða þá að þetta rynni alveg saman í sambandi við sameiningu, ef menn væru á þeirri skoðun.

Þá vil ég einnig benda á öll umferðarmál. Hér ganga umferðaræðar svo að segja í gegn á báðum stöðunum og eru sameiginlegar. Rekstur strætisvagna og annað þess háttar er þannig lagað, að þarna fara hagsmunir eðlilega saman. Það þarf að flytja menn að og frá vinnu og annað eftir því. Þessi mál eru þannig samtvinnuð hjá þessum eiginlegu úthverfum Reykjavíkur, að það er ofur eðlilegt, að það sé haft samstarf um þessi mál, eða þá að þessir aðilar séu að meira eða minna leyti undir sömu stjórn og reki þessi mál saman sem einn aðili.

Mér sýnist líka, að það væri í rauninni ekkert annað eðlilegra en hin fjölmenna lögregla hér í Reykjavík, þar sem er allveruleg ríkislögregla líka, annaðist lögreglumál fyrir þetta svæði, sem ég kalla eiginlegt og eðlilegt úthverfi Reykjavíkur engu síður en t.d. Kleppsholtið, sem ég minntist á. Mér sýndist það vera ákaflega eðlilegt og sennilega langkostnaðarminnst að annast lögreglueftirlit á þessu svæði með Reykjavíkurlögreglunni og því öðru lögregluliði, sem hún hefur hér yfir að ráða, og að um þetta ættu að takast gagnkvæmir samningar á milli hreppsfélagsins í Kópavogi, ef það heldur áfram að vera sjálfstætt, eða þá með beinni sameiningu þessara svæða.

Þetta eru almennar hugleiðingar um það, hvernig ég lít á þetta. Mér sýnist því, auk þess sem þetta mál vekur furðu flestra um alla málsmeðferð hér á Alþ., að málið sé einnig þannig vaxið, að það sé ákaflega eðlilegt, að heima í sveitarfélaginu séu menn ekki allir á eitt sáttir um það, hvernig þessum málum á að koma fyrir. Það er ofur eðlilegt, að sumir hallist þar að því að sameina hreppsfélagið við Reykjavík, og út af fyrir sig er ekkert við því að segja, þótt ýmsir haldi því fram, að það væri eðlilegt að gera þetta að sjálfstæðum kaupstað, og líka eðlilegt, að menn haldi því fram, að þetta mætti áfram vera í nokkur ár í því formi, sem það hefur verið. Þetta eru hrein innanhreppsmál, sem íbúarnir verða að gera upp við sig. Komi í ljós eftir tilheyrandi þrætur heima fyrir, að það hefur skapazt eðlilegur meiri hluti fyrir því, að ein þessara leiða verði valin, þá á að fara þá leið, þá á að leggja þann ótvíræða vilja íbúanna fyrir Alþ. og reyna að vinna að lausninni eftir þeim till. En vitanlega á ekki á neinn hátt að reyna að vinna að framgangi málsins á þann hátt, sem hér er gert. Hér er beinlínis stefnt að því að þvinga fram samþykkt um breytingu á hreppsfélagi í kaupstað, án þess að nokkuð liggi öruggt fyrir um það, hverju íbúarnir á staðnum óska eftir og hvað þeir vilja í þessum efnum.

Þó að minni hlutanum í hreppsnefndinni í Kópavogi, þeim sem hefur komið þessu máli af stað, tækist nú að koma því fram, að ákveðið yrði að stofna bæjarstjórn í Kópavogi, og síðan yrði þar efnt til nýrra bæjarstjórnarkosninga og kosnir yrðu 7 bæjarfulltrúar í stað 5 hreppsnefndarmanna, og a.m.k. einhverjir tveir, sem hingað til hafa ekki getað komizt í stjórn sveitarmála þarna, fengju þó pláss fyrir sig í bæjarstjórn, þar sem hún yrði nokkru fjölmennari, þá held ég, að það yrði sízt af öllu þessu sveitarfélagi til nokkurra happa, eins og málin standa nú. Ég trúi því ekki, að það sveitarfélag, sem hefur verið dregið nú á skömmum tíma út í tvennar kosningar og ætti að fara út í þriðju kosningarnar, græði á slíku kosningastússi. Mín skoðun er sú, að sveitarfélagið og öll málefni þess hafi óhag af því. Hörð og illvíg kosningabarátta æ ofan í æ truflar vitanlega eðlilegan gang hreppsmála. Þetta þekkja allir, sem nærri þessum málum hafa komið. Ég held því, að það sé síður en svo nokkur greiði við íbúana í þessu byggðarlagi að steypa þeim nú út í einar kosningarnar enn, og ég held, að það mætti vel bíða til eðlilegs tíma að láta þá spreyta sig á því að velja sér nýja forustu.

Allar ofbeldisaðgerðir, sem gripið er til, hvort sem þær eru notaðar af meiri hluta eða minni hluta í einu sveitarfélagi, hljóta að segja til sín og koma mönnum í koll. Það er ómögulegt annað. Ef meiri hlutinn hefur gert sig sekan um það, ætti minni hlutinn að reyna að tileinka sér það á eðlilegan hátt og vinna kosningasigur, þegar að kosningum kemur. En ef til vill er það svo, að minni hlutinn sé jafnvel allfljótur að grípa til ofbeldisaðgerða, og það liggur við, að ég haldi það af öllum þeim vinnubrögðum, sem hér hafa greinilega komið fram, að minni hlutinn í hreppsnefndinni í Kópavogi sé ákaflega næmur á að reyna að grípa til þess að koma sínu fram með algerum ofbeldisaðgerðum. Ég held t.d., að ráðstafanir eins og þær, sem gerðar hafa verið í þessu hreppsfélagi í sambandi við úthlutun lóða, hljóti að vera ákaflega óheppilegar. Það er alveg tvímælalaust álit allra þeirra, sem farið hafa með hreppsmál eða bæjarmál, að það sé eitt þýðingarmesta atriði í sambandi við stjórn slíkra mála, að viðkomandi hreppsnefnd eða bæjarstjórn ráði á óumdeilanlegan hátt yfir sínu bæjarlandi, og því er það, að flestar bæjarstjórnir og hreppsstjórnir hafa reynt, eftir því sem efni og geta hefur staðið til, að ná eignarhaldi á bæjarlandinn. Það vill nú víst svo til, að ríkissjóður á annaðhvort allt eða mikinn hluta af Kópavogslandi, — ég er ekki gagnkunnugur því, en veit, að ríkissjóður á þarna allmikið land. Nú eru í gildi lög, sem hér voru sett á sínum tíma um það, að ríkissjóður getur veitt hreppsfélögum sérstaka aðstoð til þess að eignast sitt eigið bæjarland eða næsta nágrenni. Það var gert ráð fyrir því vegna þess, að það er óumdeilanleg nauðsyn fyrir sveitarfélög að ráða yfir sínu bæjarlandi, að ríkisstj. mætti takast á hendur fyrir sveitarfélagið allverulega ríkisábyrgð eða raunverulega framkvæma kaup á bæjarlandinu og láta síðan bæjarfélaginu eða hreppsfélaginu landið í té til þess, að viðkomandi sveitarstjórn gæti á óumdeilanlegan hátt ráðstafað landinu.

Í Kópavogi hygg ég að þessu hafi verið þannig farið lengst af, að ríkið hafi viðurkennt þetta í framkvæmd með því að leyfa viðkomandi hreppsnefnd að ráðstafa nokkuð hindranalítið lóðum undir byggingar í hreppsfélaginu. En svo hefur orðið á þessu veruleg breyting. Það, sem áður hafði verið viðurkennt hér á Alþ. með setningu laga sem mjög nauðsynlegt atriði í sambandi við yfirráð sveitarfélaga yfir landi sínu, og það atriði, sem almennt hafði verið framkvæmt úti um allt land hjá sveitarfélögum, að þau reyndu að eignast sitt bæjarland, — allar þessar gömlu viðurkenningar og reglur voru nú allt í einu brotnar, meira að segja þar sem ríkið átti sjálft hlut að máli, og einmitt sá maðurinn, sem sprellað hefur harðast í þessu máli og virðist aldrei fá sig fullsaddan í sambandi við kosningakeppni í þessu sveitarfélagi, gerist svo forgöngumaður þess að svipta eðlilega kosinn meiri hluta í hreppsnefnd síns byggðarlags þessu sjálfsagða og nauðsynlega valdi yfir bæjarlandinu og vill nú gerast sjálfskipaður landstjóri þarna og ráðstafa sjálfur lóðum og lendum til íbúanna þarna, eftir því sem honum býður svo við að horfa. Og þá var vitanlega skapað þarna það vandræðaástand. sem alþekkt er úr sveitarstjórnarmálefnum á Íslandi, þar sem einstakir menn eða félög hafa ráðið yfir tilteknum hluta af bæjarlandinu og getað ráðskað með það, leigt það út í fullkomnu ósamræmi við það, sem meiri hluti í hreppsnefnd eða bæjarstjórn hafði ætlazt til eða óskað eftir á hverjum tíma, og þannig höfðu þessir aðilar beinlínis orðið til þess að trufla eðlilegan gang á stjórn viðkomandi bæjarfélags. En nú grípur sem sagt þessi minnihlutamaður í hreppsnefnd Kópavogshrepps, sá sem gengur nú einna harðast fram í því að koma þessu máli hér fram í gegnum Alþ., til þess alveg óumdeilanlega þvert við hagsmuni síns sveitarfélags að ætla að gerast valdamaður sem minnihlutamaður, en í skjóli ríkisvaldsins sem valdamaður yfir meiri hluta þeim, sem íbúarnir hafa valið sér og á að fara með málefni hreppsins. Slík ráðsmennska sem þetta ber vitni um mikla ofbeldishneigð. Hún ber vitni um það, að þessi maður, sem beitir sér fyrir þessu, kann ekki á eðlilegan hátt að vinna að hreppsmálum í sínu byggðarlagi, og hann vinnur sýnilega byggðarlaginu til óþurftar.

Menn verða að sætta sig við það hverju sinni að vera í minni hluta í einu byggðarlagi og keppa síðan aftur við næstu kosningar, ef svo ber undir. En ef sá, sem hefur á einum tíma viðurkennt, að það sé grundvallarnauðsyn, að meiri hluti sveitarstjórnar geti ráðið yfir sveitarlandinu, grípur svo til þess, þegar hann er sjálfur ekki í meiri hluta, heldur í minni hluta, að reyna þá að hrifsa til sín þetta vald, þá er hann að vinna sínu sveitarfélagi ógagn. Það mundi líta alleinkennilega út, ef svo yrði haldið á málunum. En það er alveg jafngildi þessa, ef svo yrði haldið á málunum í öðrum kaupstöðum, að þegar menn héldu, að það væri komið að því, að þeir gætu sjálfir misst meiri hlutann og hætt á þann hátt að ráða yfir bæjarlandinu, þá yrði bara gripið til þess að ráðstafa bæjarlandinu, að selja það, að leigja það út með slíkum skilmálum, að það væri alveg öruggt og tryggt, að sá nýi meiri hluti, sem á að taka við, gæti ekkert með yfirstjórn þeirra mála haft að gera, og þannig ætti að reyna að gera hann svo að segja óstarfhæfan við þau málefni, sem íbúarnir höfðu annars kosið hann til þess að fara með. Svona vinnubrögð ættu vitanlega ekki að þekkjast i neinu sveitarfélagi á Íslandi, og svona vinnubrögð eiga að dæma sig sjálf. Um svona vinnubrögð á vitanlega að deila á eðlilegan hátt i hreppsnefndarkosningum og hlýtur að verða gert í þessu byggðarlagi, þegar þar að kemur, og það á sem sagt ekki að geta skýrt málið, hvorki í sambandi við framkvæmd svona mála né í sambandi við það, hvort breytt er um stjórnarform í sveitarfélagi. Það á ekki að geta ráðið um úrslit mála, hvort menn eiga að baki sér háa ráðh. og sterka þingflokka. Eðlilegar reglur verða að gilda einnig um þá, sem eiga mikið og öflugt vald að baki sér. Annars erum við komnir út á æði hálar brautir í þessum efnum, og er þá ekki gott að segja, hvar menn geta stöðvað sig.

Ég held fyrir mitt leyti, að það hljóti að vera í Kópavogshreppi eins og viða annars staðar, í þessu unga hreppsfélagi, ört vaxandi með mörg vandamál, sérstök nauðsyn á því, að hreppsnefndarmönnum þar geti tekizt að vinna saman um stærstu og þýðingarmestu málin. Ég held, að það væri miklu nær af ríkisvaldinu og hv. alþm. að segja þessum aðilum, sem þarna berjast á þennan hátt, á kurteisan hátt og eðlilegan, að þeir ættu nú að hylla þetta mál og snúa sér að þeim málum heima hjá sér, sem meira máli skipti, því að það er ótrúlegt, að þrátt fyrir allan ágreining, sem kann að vera á milli þeirra, eigi ekki allir þeir menn, sem sitja í hreppsnefnd Kópavogshrepps nú, sameiginlega allmörg eða þó nokkur stórnauðsynjamál, sem biði úrlausnar þar í hreppnum og þeir hafi nóg við að gera. Hins vegar mæltist Alþ. svo til þess, um leið og óskað væri eftir því, að hreppsnefndin í Kópavogshreppi gæfi sig að þarflegri og nauðsynjameiri málum en þessu, að hv. Alþ. fengi næði frá relli eins og þessu til þess að sinna líka þýðingarmeiri málum en þetta er fyrir þjóðfélagið sem heild. Ég tel það mesta rell, þegar minni hluti í einu byggðarlagi getur ekki sætt sig við orðinn hlut í kosningaúrslitum og leitar eftir óvenjulegum leiðum, eins og í þessu tilfelli, eftir því að fá undanþágu frá lögum og reglum og vill knýja fram ótímabæra breytingu.

Ég skal svo enda þessa ræðu mína með því að benda á það, að fyrir hv. Alþ. liggja hér mál, sem krefjast úrlausnar, mál, sem raunverulega er ekki hægt að bíða með afgreiðslu á lengi enn, mál t.d. eins og verkfallsmálið, sem ég sé ekki annað en sé að fara út í algert öngþveiti fyrir okkar þjóðfélag. Verulegur hluti af framleiðslu landsmanna er stöðvaður og þar með allur kaupskipaflotinn. Nú mun t.d. vera komið að því, að bændur landsins almennt kalla á það, að hafizt geti flutningur á áburði út á land. Á kannske að eyðileggja alla framleiðslu bænda á næsta sumri líka, vegna þess að Alþ. kemst ekki að því að snúa sér að þýðingarmiklum málum, af því að Kópavogsmálið bíður úrlausnar? Á þá kannske að fara svo, að það verði engin grasspretta og það verði kannske ekki nokkur þörf einu sinni fyrir allar þær þýzku vinnukonur, sem var verið að panta til landsins? Á hér yfirleitt að stefna til stórvandræða í landinu, vegna þess að Alþ. er önnum kafið við þetta Kópavogsmál?

Ég fyrir mitt leyti held því fram, að hæstv. forseti ætti að beita sér fyrir því, að þessum næturfundi yrði nú sem fljótast slítið, þetta mál yrði látið hvílast a.m.k. fram yfir næstu helgi, þangað til hin almenna atkvgr. hefur farið fram i Kópavogshreppi, en hins vegar verði nú hafizt handa um það, að Alþ. taki til verulegrar lausnar hin miklu vandamál þjóðfélagsins og þá fyrst og fremst verkfallsmálið.