20.04.1955
Neðri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti: Undir umr. málsins bar ég fram tillögu um það, að þar sem vitað væri um, að fram ætti að fara í Kópavogshreppi leynileg atkvgr. n.k. sunnudag um afstöðu til þess máls, sem hér er um að ræða, og niðurstaðan af þeirri atkvgr. gæti valdið því, að þm. tækju afstöðu til málsins í samræmi við þá niðurstöðu, væri rétt að vera ekki að eyða tíma Alþ. í að ræða þetta mál fyrr en sú niðurstaða úr leynilegri atkvgr. í hreppsfélaginu lægi fyrir. Ef það verður ofan á, að meiri hluti hreppsbúa óski eftir sameiningu við Reykjavík, þá þykist ég vita, að þetta mál eigi ekki erindi í gegnum þingið, og þá væri öllum þeim tíma spillt, sem færi í umr. um það. Hins vegar væri það meirihlutavilji kjósenda í þeirri leynilegu atkvgr., að stofnaður verði kaupstaður, þá geri ég ráð fyrir, að þá þurfi heldur engum tíma að eyða, því að þá yrði þingheimur sammála um málið, og það þyrfti enga næturfundi og ekkert annað en að afgreiða málið eins hratt og nokkurt mál getur verið afgreitt. Ég bar því fram till. um þetta, hún var lögð fram hér á þingfundi og liggur fyrir þinginu. Það voru ekki tilmæli til forseta, og ég álít því, að hann hafi ekki heimild til þess að stinga slíkri till. í sinn vasa. Að minnsta kosti hafi hann tekið það svo, að þessum tilmælum væri til hans beint, þá bar að svara því undir umræðunni, og er enn tími til þess, áður en atkvgr. fer fram. En þetta var í tillöguformi til þd., og tel ég, að það verði einhver úrskurður forseta að koma til, ef sú till. á að hverfa í hans vörzlu, og ég mótmæli því.