22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Eyf. flutti hér áðan nokkurn boðskap um afstöðu nokkurra bæjarfulltrúa í Reykjavík til sameiningar Kópavogshrepps við Reykjavíkurbæ. Það hafa sem sé þrír bæjarfulltrúar Sjálfstfl. í Reykjavík, þeir sem eiga sæti í bæjarráði í svipinn, lýst því yfir, að það hafi enn ekki verið talað um neina samninga um sameiningu Kópavogshrepps og Reykjavíkurbæjar og að þeir sæju fyrir sitt leyti ekki, að það stæði neitt í vegi fyrir slíkri sameiningu, þó að Kópavogshreppur yrði gerður að kaupstað.

Satt að segja er nú ekki sérstaklega mikið með þessa yfirlýsingu þessara þriggja bæjarfulltrúa Sjálfstfl. í Reykjavík að gera. Í fyrsta lagi er þarna um að ræða þrjá bæjarfulltrúa af 15. Í öðru lagi er vitað, að borgarstjórinn í Reykjavík, sem einnig er þm. Reykjavíkur, einnig er einn af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og á sæti í bæjarráði, þegar hann er hér heima, er fylgjandi því, að Kópavogshreppur sé sameinaður Reykjavík. Enn fremur vil ég leyfa mér að fullyrða, að a.m.k. 6 bæjarfulltrúar í Reykjavík séu fylgjandi því, að nú þegar væru teknir upp samningar, ef meiri hluti Kópavogsbúa óskar eftir því, um sameiningu Kópavogshrepps við Reykjavíkurbæ. Og mikið má vera, ef það sýnir sig ekki, þegar farið væri að ræða það mál fyrir alvöru, að jafnvel þeir flokkar, sem eiga til samans 7 fulltrúa í bæjarstjórn Reykjavíkur, en hafa meiri hluta Reykvíkinga á bak við sig í kosningum, yrðu e.t.v. allir saman sammála um að taka upp samninga við Kópavogshrepp um sameiningu við Reykjavík. Og þegar svo þar að auki liggur fyrir yfirlýsing um, að borgarstjórinn í Reykjavík er fylgjandi slíkri sameiningu, þá má meira að segja vel vera, að auk þess sem þeir flokkar, sem hafa á bak við sig meiri hluta Reykvíkinga, séu fylgjandi slíkri sameiningu og samningum um það nú þegar, þá væri kannske meira að segja meiri hlutinn í sjálfri bæjarstjórn Reykjavíkur, eins og hún er skipuð núna, með því að taka upp slíka samninga.

Með þessa pöntuðu yfirlýsingu, sem hér var flutt áðan frá þrem bæjarfulltrúum, sem sem stendur eiga sæti í bæjarráði, meðan borgarstjóri er fjarverandi, er ekki neitt að gera. Þetta er alger markleysa, sem sýnir sig líka bezt í því, að þeir hafa ekki einu sinni þorað að fara í sjálfa bæjarstjórn Reykjavíkur og spyrja bæjarstjórn Reykjavíkur, spyrja borgarstjóra Reykjavíkur og bæjarstjórn Reykjavíkur um þeirra álit á þessum hlutum. Þess vegna er ekki neitt með þessa yfirlýsingu að gera frá einni n. bæjarins, sem þar að aukí er ekki einu sinni frá öllum þeim mönnum, sem eiga fast sæti í henni.

Viðvíkjandi því spursmálinu, hvort ekki mundi að neinu leyti tefja fyrir slíkri sameiningu, ef Kópavogshreppur væri gerður að kaupstað áður, verð ég að segja, að ég er dálitið hissa á þeim mönnum, sem halda því fram, að slíkt mundi ekki tefja fyrir. Það er ekkert dæmi til um það á Íslandi, að einn kaupstaður hafi sameinazt öðrum kaupstað. Það er ekki til neitt dæmi um það. Um leið og búið er að mynda kaupstað úr einum hreppi, er farið að koma þar upp og það er skylda að koma þar strax upp svo og svo miklu af öllum mögulegum stofnunum, embættum bæjarfógeta og allra mögulegra annarra embættismanna; enn fremur er löggjafinn ákaflega frjálslyndur hvað snertir að byggja bústaði fyrir slíka menn, og ég býst við, að þótt mikillar sparsemi hafi gætt í stjórn hreppsins sem hrepps, þá verði talið sjálfsagt, þegar hann væri orðinn kaupstaður, að fara að verða ósköp „flott“. Ég held þess vegna, að það sé alveg misráðið að halda, ef Kópavogshreppur væri gerður að kaupstað, að hann mundi ekki fara sömu leið og aðrir kaupstaðir hvað þetta snertir, það yrði komið upp öllu því embættiskerfi, sem snertir kaupstaðina, og þar með yrði líka komið upp heilmiklu af embættismönnum, sem ynnu á móti því, að þessi kaupstaður væri lagður niður.

Það að leggja niður hrepp á Íslandi og sameinast stórum kaupstað er altítt fyrirbrigði. Það höfum við hvað eftir annað verið að gera hér á Alþ. En að leggja niður kaupstað og sameina hann öðrum kaupstað, það hefur aldrei komið fyrir áður.

Ég held þess vegna, að það sé sjálfsblekking, þegar menn eru að halda því fram, að það að gera Kópavogshrepp að sjálfstæðum kaupstað mundi ekki standa í vegi fyrir sameiningu við Reykjavík. Ég held, að það mundi þvert á móti spilla mjög allri heilbrigðri framtíðarlausn á skipulagsmálum bæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og þar með allrar byggðarinnar þarna á milli. Það mundi skapa þarna alveg óeðlilegt ástand, sem mundi valda margs konar vandræðum fyrir okkur, enda er vitanlegt, að það er ekki nokkur skapaður hlutur, sem rekur á eftir þessu, nema þetta brambolt nokkurra pólitískra æsingarmanna suður í Kópavogshreppi, sem hafa platað sjálfan forsrh. og sjálfan félmrh. út í að flytja þetta frv. hér, sem svo hvorugur þeirra vill koma nálægt og hvorugur þeirra vill verja hér í þinginu.

En síðasta og stærsta málið í sambandi við það, sem er að gerast, er þó það, sem ég gerði að aðalmáli eftir ræðu hæstv. forsrh., hans yfirlýsing um, að það væri beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins að lofa því að greiða atkv. opinberlega. Lýsti ég yfir, að það væri hættuleg yfirlýsing af hálfu formanns Sjálfstfl. og af hálfu forsrh. landsins, og sýndi, hvað við ættum í vændum, svo framarlega sem ekki yrði svarað bæði af hálfu þings og þjóðar slíkri yfirlýsingu, að þess háttar yrði ekki látið fram ganga. Það að ætla að fara að greiða atkvæði með undirskriftasöfnun er tilræði við almennan kosningarrétt í landinu, tilræði við almennan, leynilegan kosningarrétt. Ég lagði áherzlu á það í umr. um þetta mál, og hæstv. forsrh. hefur, síðan það var undirstrikað, ekki reynt að verja þetta, hann hefur séð, hvaða glópska þetta var. En það er það versta í þessu sambandi, að í staðinn fyrir að snúa við á þessari braut, virðist nú eiga að halda áfram. Nú hefur því verið lýst yfir suður í Kópavogi af hálfu þeirra manna, sem stundum leyfa sér að kalla sig lýðræðisflokka, að þeir muni ekki taka þátt í þeirri leynilegu atkvgr., sem fram fer á sunnudaginn, heldur muni þeir sitja heima, og þeir muni gera meira, þeir muni reyna að fylgjast með því, hvaða fólk það sé eiginlega, sem leyfi sér að nota rétt sinn sem íslenzkir kjósendur til þess að taka þátt í leynilegrí atkvgr. M.ö.o.: Það á að fara að beita þeirri tegund af ógnunum við menn, að ef þeir leyfi sér að kjósa á þann hátt, sem stjórnarskráin mælir fyrir og fyrirskipar með leynilegri atkvgr., þá eigi svo að segja að fara að brennimerkja menn. Fyrst er gengið á milli manna og safnað undirskriftum og sagt af hálfu forsrh.: Þetta er sú eina sanna aðferð, þetta er sá rétti lýðræðisandi. — Síðan er komið, þegar rétt stjórnarvöld fyrirskipa leynilega atkvgr. samkvæmt stjórnarskrá og kosningalögum, og sagt af hálfu þessara ofbeldismanna: Það að taka þátt í leynilegri atkvgr. er sama sem að vera kommúnisti eða eitthvað annað ljótt, að vera fjandmaður lýðræðisins.

Þá sjáum við, á hvaða braut við erum, ef á að fara inn á þetta. Þess vegna vil ég hér eindregið mótmæla þeim aðferðum, sem hér hafa verið hafðar í frammi. Þessar aðferðir eru viðvörun til manna um það, hvers konar hættir megi ekki viðgangast á okkar landi. Svona aðferðir eru tilræði við lýðræði, við þann vilja, þann rétt fólksins, sem helgaður er af stjórnarskrá og kosningalögum, að fá að láta í ljós sínar skoðanir með leynilegri atkvgr.

Þess vegna er tvímælalaust sú eina sómasamlega lausn, sem Alþ. getur nú fundið á þessum málum og allir ættu að geta sætt sig við, sú sem hv. 3. landsk. þm. (HV) leggur hér til með sinni rökstuddu dagskrá, að allir aðilar, sem þetta mál snertir, fyrir forgöngu ríkisstj. skipi n. til að athuga þessi mál í ró án allra pólitískra æsinga með hliðsjón af vilja kjósendanna, þeim vilja, sem látinn er í ljós á þann lýðræðislega hátt, sem lög og stjórnarskrá fyrirskipa.

Ég vil þess vegna eindregið lýsa fylgi mínu við þessa rökstuddu dagskrá hv. 3. landsk. þm. og vonast til þess, að hv. þm. geti á hana fallizt, vegna þess að með því móti yrði þetta mál leyst þannig, að það væri Alþ. til sóma.