26.04.1955
Efri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið allmikið rætt í hv. Nd. og raunar miklu meira en venja er til um svipuð mál. Ég þykist vita, að allir hv. efri deildar menn hafi fylgzt það með málinn af þeim skjölum, sem frammi liggja, og blaðaskrifum, sem um það hafa orðið, að það sé nauðsynjalaust að fara út í langar umr. um það af minni hendi hér í deildinni.

Það, sem er aðalatriði málsins, er, að Kópavogsbúar hafa óskað eftir því, að stofnað verði sérstakt lögsagnarumdæmi, enda eru íbúarnir nú orðnir það margir og þau störf, sem hvíla á þeim, sem hreppnum eiga að stjórna, svo umsvifamikil, að það er ekki eðlilegt, að hreppurinn búi lengur við það form eða við þá sveitarstjórn, sem ætluð er miklu minni hreppsfélögum.

Um þetta, að stofnað sé sérstakt lögsagnarumdæmi, hafa Alþingi borizt áskoranir og óskir frá yfirgnæfandi meiri hl. hreppsbúa, eða ef ég man rétt nokkuð á níunda hundrað manns, en á kjörskrá þeirri, sem nú liggur frammi og að sönnu mun ekki vera rétt, er 1351 maður. Til þess þó að frekar yrði gengið úr skugga um vilja kjósendanna, stofnaði meiri hl. hreppsnefndar til atkvgr. um þetta mál, sem fór fram s.l. sunnudag. Lýðræðisflokkarnir í hreppnum lýstu yfir, að þeir mundu ekki taka þátt í þessari atkvgr., því að þeir teldu, að þeirra vilji lægi ljóst fyrir af yfirlýsingum þeirra félagssamtaka annars vegar og undirskriftunum hins vegar, og þó náttúrlega fyrst og fremst af undirskriftunum. Hins vegar var lögð á það megináherzla af þeim, sem voru á móti því, að stofnað yrði sérstakt lögsagnarumdæmi, að þeirra liðsmenn mættu á kjörstað og berðust gegn þeirri hugmynd, og í því skyni að reyna að tryggja, að allt það lið, sem væri andvígt lögsagnarumdæminu, mætti á kjörstað, var það haft á oddi, að hreppsbúum mundi heppilegra að sameinast Reykjavík en að stofna sérstakt lögsagnarumdæmi.

Niðurstaðan af þeim kosningum var, eins og ég segi, að af 1351 manni, sem talinn er á þeirri kjörskrá, sem frammi liggur, voru það ekki nema 533, sem voru andvígir stofnun sérstaks lögsagnarumdæmis, þ.e.a.s. rúmlega 5/13 hlutar þeirra, sem á kjörskrá eru, en 824 menn hafa sent þinginu áskorun um, að þetta verði gert.

Þó að það væri haft á oddi, sem talið var að væri líklegast til að skapa andúð gegn því frv., sem hér liggur fyrir, voru ekki nema 533 menn af 1351, eða 5/13, sem andvígir voru frumvarpinu. Aftur á móti hafa 8/13 lýst sig samþykka frv., sem liggur fyrir. Þar við er svo því að bæta, að bæjarráð Reykjavíkur hefur sagt það sem sína skoðun í málinu, að það sé alls ekki tímabært að taka upp svo mikið sem viðræður um sameiningu við Reykjavík á þessu stigi málsins, enda engin tilraun verið gerð til þess af hendi hreppsstjórnar eða þess hreppsstjórnarmeirihluta Kópavogs, sem af mestum fjandskap hefur beitt sér gegn þeirri hugmynd, sem felst í því frv., sem hér er til umr. Og það er mjög eftirtektarvert, að sá þm. Nd., sem var frsm. málsins af hendi andstöðumanna frv., beitti sér beinlínis gegn því, að Reykjavík væri um það spurð, hvort hún vildi fallast á sameiningu, og þarf þó sannarlega vilja Reykvíkinga ekki síður en Kópavogsbúa, til þess að sameining geti átt sér stað.

Meginkjarni málsins er þess vegna sá, að það liggur fyrir ljós yfirlýsing frá 8/13 hlutum hreppsbúa um það, að þeir vilja, að frv. verði samþ., að þrátt fyrir magnaðan undirróður hefur ekki tekizt að draga á kjörstað, og það þó að hv. minni hl. í þessu máli hafi haft sérstaka aðstöðu nú í verkfallinu til að fá nóg benzín til að keyra sína bíla, sem aðrir höfðu ekki, nema 5/13 og tæplega það til þess að vera á móti frv. Vilji hreppsbúa liggur þess vegna ljóst fyrir, og það er tæplega sæmandi, þegar slíkur vilji liggur jafnaugljóslega fyrir, ef þessu máli verður hér fylgt með eitthvað svipuðu ofurkappi og því var fylgt í Nd. af hendi andófsmanna eða andstæðinga þess. Ég vil raunar engar getsakir gera þeim manni, sem ég á helzt von á að sé nú í hjarta sínu á móti frv., um baráttu hér í d. gegn því, enda situr það illa á honum, sem sjálfur er oddviti hreppsins, að berjast nú augljóslega á Alþ. gegn yfirlýstum vilja kjósenda sinna.

Ég endurtek svo það, að slík mál hafa ekki, svo að ég muni eftir, sætt svipaðri andúð og þetta. og mér hefur fundizt sem vinnubrögð andstæðinga málsins hafi verið nokkuð einræðiskennd og ofstækisfull, og er kannske út af fyrir sig ekki að undra það, þegar athugað er þeirra pólitíska hugarfar í einu máli og öðru.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þetta frv. geti nú fengið skjóta afgreiðslu samkv. yfirlýstum vilja mikils meiri hluta kjósenda í hreppnum, og að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn.