28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur haft frv. á þskj. 503 til umræðu á tveimur fundum. Hún hefur borið það saman við gildandi lög um ýmsa kaupstaði á landinu, einkum þá, sem hafa fengið kaupstaðarréttindi hin síðari árin, og sannfærzt um, að í öllum meginatriðum er það samhljóða þeim lögum, enda er hér um sameiginlega heildarlöggjöf að ræða á líkan hátt og var áður um hafnarlöggjöf, þar til ein allsherjarlöggjöf var samþykkt fyrir landið í heild, að undanskilinni þó Reykjavík, sem hefur sérstöðu í löggjöf um hafnir.

Í þessari löggjöf er því ekki mörkuð nein ný stefna eða farið inn á neinar nýjar leiðir hvað snertir fyrirmæli í frv. Þar er farið eftir áður margræddum og þaulhugsuðum fyrirmælum gildandi laga. Uppbygging frv. og orðalag og efni gefur því ekki tilefni til neinna breytinga. Þykir mér rétt að láta þetta koma fram.

Þá hefur n. einnig kynnt sér öll þau gögn, sem fram hafa komið í þessu máli undir meðferð þess í hv. Nd., og auk þess kvatt á sinn fund hreppsnefnd Kópavogshrepps til þess að ræða við hana um frv. Af hreppsnefndarmönnum mættu þó aðeins oddviti hreppsins, sem eins og kunnugt er á einnig sæti hér í þessari hv. d., og Jósafat Líndal, sem mun vera í andstöðu við meiri hluta hreppsnefndar; aðrir hreppsnefndarmenn mættu ekki á fundinum. Voru hinir mættu hreppsnefndarmenn spurðir að því, hvort þeir vildu taka nokkuð sérstaklega fram í málinu eða benda á nokkur ný atriði, er ekki hefðu þegar komið fram í þskj. eða í umræðum á Alþ., og kváðust þeir geta í heild vísað til þeirra gagna í rökum í sókn og vörn í málinu. Mér þykir einnig rétt að láta þetta koma fram hér í framsöguræðunni.

Rök hv. flutningsmanna fyrir nauðsyn á löggjöf þeirri, sem hér um ræðir, eru sem hér segir samkvæmt grg. frv. og framsöguræðu hv. 1. flm.:

1) Að komið hafi fram ákveðin ósk þriggja stjórnmálafélaga í Kópavogshreppi um flutning á frv. og að á bak við þau félagssamtök standi meiri hluti greiddra atkvæða kjósenda í Kópavogshreppi við síðustu hreppsnefndarkosningar. Á bak við þessa ósk standi enn fremur sýslunefnd Kjósarsýslu, sbr. fskj. í á þskj. 503, og ummæli sýslumannsins í sömu sýslu, sbr. fskj. II á þskj. 503.

2) Að Kópavogshreppur sé langfjölmennasti hreppur landsins og mun fjölmennari en þeir hreppar margir, sem áður hafa fengið kaupstaðarréttindi.

3) Að á fjölmennum borgarafundi í Kópavogshreppi 18. marz þ. á. hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta að skora á Alþ. að gera Kópavogshrepp að sérstöku lögsagnarumdæmi með fullum kaupstaðarréttindum og að enn fremur hafi borizt um þetta sama efni áskorun til Alþ. frá 760 íbúum í Kópavogshreppi, 21 árs og eldri.

Þessum rökum hefur hv. 6. landsk. (FRV), sem jafnframt er oddvíti Kópavogshrepps, viljað hrinda og borið eftirfarandi gagnrök:

1) Að meiri hluti hreppsnefndar hefur ekki óskað, að hreppnum yrðu fengin nú kaupstaðarréttindi, og er hann andvígur því, að um það verði sett lög gegn mótmælum meiri hl. hreppsnefndarinnar.

2) Að tvennar kosningar nýafstaðnar hafi sýnt, svo að ekki verði um villzt, að meiri hluta hreppsnefndarmanna er gefinn löglegur réttur til þess að stjórna málefnum hreppsins út yfirstandandi kjörtímabil.

3) Frv. sé því beinlínis borið fram til þess að koma frá stjórn hreppsins löglega kosnum meiri hluta án saka og á fyrri hluta kjörtímabilsins, þar sem hreppsnefndin hafi ekki starfað nema um eins árs tímabil.

4) Að meiri hlutinn líti svo á, að rétt sé að sameina Kópavogshrepp Reykjavík, vilji hreppurinn ekki vera sjálfstæður hreppur, í stað þess að gera hann að kaupstað, og að verið sé að athuga þá möguleika og því eigi ekki að gera frv. að lögum, fyrr en þeir möguleikar hafi verið athugaðir að fullu.

5) Að í frv. séu auk þess ákvæði, sem séu óeðlileg, m.a. ákvæði um verzlunarlóð, sbr. 3. gr. frv. Hv. 6. landsk. (FRV), sem er oddviti hreppsins, eins og ég tók fram áðan, hefur því lagt höfuðáherzlu í andmælum sínum á þau atriði, að rangt sé að skipta um löglega kosna sveitarstjórn, fyrr en kjörtímabil hennar sé útrunnið, og að hér sé verið að skapa hættulegt fordæmi af Alþ., sem haft geti í för með sér örlagaríkar afleiðingar fyrir lýðræði landsins. Þykir því rétt hér í framsöguræðu að ræða nokkuð öll þessi atriði, sem fram hafa verið selt frá báðum aðilum.

Skal ég þá fyrst ræða 1. atriðið.

Það hefur ekki verið vefengt, að komið hafi fram áskorun frá þeim aðilum, sem ég hef minnzt á, um að leggja fram frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Kópavogshrepp og að það yrði gert að lögum á þessu þingi. Það sýnast engin rök vera fyrir þeim mótmælum, þó að þessar óskir séu bornar fram af þrem pólitískum félögum í hreppnum. Það hefði verið nægilegt fyrir hv. Alþ. til að taka afstöðu til málsins, þó að það hefði ekki verið borið fram af neinum nema hv. þm. kjördæmisins. Um það eru engar reglur eða fyrirmæli laga, hvaða óskir þurfi að koma fram til þess að bera fram slíkt frv. Það er sýnilegt af þeim lagafrumvörpum, sem áður hafa verið borin fram í þingi um slík mál. Það verður því ekki hægt að taka það sem nein gild rök til að stöðva frv., þó að það sé borið fram samkv. ósk þriggja pólitískra félaga í Kópavogshreppi, einkum þegar vitað er, að á bak við þá ósk standa 760 íbúar hreppsins. Ég hygg, að það sé vandfundið, að nokkru sinni hafi staðið á bak við ósk um að gera einn hrepp að kaupstað meiri mannfjöldi en hér um ræðir. Og það er sýnilegt, að síðustu kosningar, eins og hefur verið tekið fram hér í þingsölunum, sýna það, að þessi fjöldi er meiri hluti kjósenda í hreppnum, svo að ef á að fylgja hreinum lýðræðisreglum, er sýnilegt, að þeim hefur verið fylgt hér frekar en oft áður í sambandi við sams konar mál. Það atriði verður því ekki hægt að vefengja.

Þá er ekki heldur hægt að vefengja það, að sýslunefndin í Kjósarsýslu er því meðmælt, að lög um þetta atriði nái fram að ganga, segir að vísu ekki, að það skuli endilega vera á þessu þingi; en hún er því meðmælt, að Kópavogur fái sérstök kaupstaðarréttindi, svo framarlega sem íbúarnir óski þess, þ.e.a.s. sannanlegur meiri hluti hreppsbúa óski þess, eins og kemur fram í fskj. l. Hún bendir hins vegar á, eins og segir í skjalinu í 2. tölul., með leyfi hæstv. forseta:

„Kjósarsýsla er ein af minnstu sýslufélögum landsins, telur aðeins fimm hreppa, og af þeim er Kópavogshreppur langfjölmennastur. Það mundi því veikja athafnamöguleika verulega, ef Kópavogshreppur verður skilinn frá henni.“

Þetta bendir sýslunefndin á. En hún setur sig þó engan veginn á móti því, að hreppurinn fái kaupstaðarréttindi, og tekur einmitt alveg berlega fram í sinni ályktun, að hún telji það eðlilegt, þegar fyrir liggi vilji eða vitund um vilja meiri hluta íbúanna í hreppnum. Hún beygir sig því sjáanlega undir að taka á sig þá erfiðleika, sem af því kunna að stafa, ef hreppurinn verði gerður að sérstökum kaupstað, og hefur ekkert við það að athuga út af fyrir sig.

Enn fremur verður því ekki á móti mælt, að sýslumaðurinn í Kjósarsýslu telur það mjög aðkallandi, að Kópavogshreppur fái kaupstaðarréttindi nú þegar, og færir fyrir því allsterk rök. Hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ósk Kópavogsbúa um bæjarréttindi fyrir hreppinn kemur mér ekkert á óvart og hefði ekki gert, þótt fyrr hefði komið.“

Hann segir enn fremur:

„Mér hefur verið ljóst um skeið, að óhjákvæmilegt væri að gera sérstakar ráðstafanir að því er varðar stjórn og skipan mála þessa sveitarfélags, svo ört sem það hefur vaxið hin síðari ár, og hef ég fyrir nokkru látið þá skoðun í ljós við rétta aðila. Get ég því fyrir mitt leyti mælt með því, að hreppurinn fái kaupstaðarréttindi, og tel rétt, að nauðsynlegri breytingu á skipan mála í hreppnum verða flýtt.“

Hér eru ummæli manns, sem óneitanlega hefur engan fjárhagslegan hag af því, að hreppurinn gangi undan sýslunni, nema síður sé, og verður því ekki sagt, að hann geri það í hagnaðarskyni, þvert á móti. Hann hlýtur að sjálfsögðu að tapa allmiklum aukatekjum, ef jafnstórt svæði og Kópavogur er tekið undan hans lögsagnarumdæmi, og getur því ekki vakað fyrir honum hér annað en bein nauðsyn á því vegna málanna sjálfra. Hann bendir enn fremur á, hversu ör hafi verið stækkunin í Kópavogshreppi síðan um áramótin 1947 og 1948, að hann var gerður að sérstökum hreppi, sérstöku sveitarfélagi, þá hafi íbúarnir verið 850, en nú séu þeir orðnir 3230, en það er hærri tala en hefur verið í nokkrum öðrum hreppi undanfarið, sem óskað hefur eftir að fá kaupstaðarréttindi og fengið þau án nokkurrar andstöðu hér í hv. Alþingi. Vil ég í sambandi við það leyfa mér að benda á, að í Ólafsfirði munu aðeins hafa verið um 900 íbúar, á Sauðárkróki munu íbúarnir hafa verið um 1300, og á Húsavík munu íbúar hafa verið 2048. Mun það hafa verið þá fjölmennasti hreppur, sem hafði fengið kaupstaðarréttindi, þar til nú, að óskað er eftir kaupstaðarréttindum fyrir Kópavog, sem hefur á fjórða þúsund íbúa.

Sýslumaðurinn segir enn fremur:

„Verður ekki betur séð en að þessi öri vöxtur muni halda áfram í nokkur ár enn. Störf þau, sem embættið hér þarf að leysa af hendi í þessum fjölmenna og ört vaxandi hreppi, eru mörg og margvísleg. Auk sjálfrar löggæzlunnar og dómsögunnar og þeirra rannsókna, sem þeim eru samfara, annast embættið, svo sem kunnugt er, alla álagningu skatta á hreppsbúa til ríkissjóðs og trygginganna og innheimtu þeirra.“ — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar frestað var fundi áðan, var ég að lýsa því, hvernig álit sýslumannsins í Kjósarsýslu væri um þetta atriði samkv. fskj. H, og stöðvaðist við það að benda á, að hann hefði sagt, að það væru 1500 skattgreiðendur í hreppnum. Hann segir enn fremur, að embættið fari með greiðslu bóta frá Tryggingastofnun ríkisins til hreppsbúa, í hreppnum muni nú vera um 560 bótaþegar og 900 einstaklingar njóti bótanna. Svo segir hann hér um störfin, sem mér þykir rétt að benda á í þessu sambandi:

„Til aðstoðar við störf í Kópavogshreppi hefur embættið engu starfslíði á að skipa í hreppnum sjálfum, nema hreppstjóranum einum. Er ráðuneytinu kunnugt um, að laun hreppstjóra eru slík, að þeir geta ekki haft hreppstjórastörf ein að atvinnu og jafnvel ekki stundað þau sem aðalstörf, þótt í fjölmennum hreppi sé.“ Telur hann þetta vera mikil óþægindi fyrir hreppsbúa. „Lögregluþjónn er enginn í Kópavogshreppi,“ segir hann, „og verður því að leita aðstoðar bæjarlögreglunnar í Hafnarfirði og Reykjavíkurlögreglunnar, ef eitthvað ber út af, sem ekki verður ætlazt til að hreppstjórinn geti einn annað. Á þetta jafnt við er rannsaka þarf mál, stilla til friðar og fjarlægja ölvaða menn.“

Í þessu sambandi vil ég benda á, að það er ekki þess að vænta, að aðrir hreppar eða önnur sveitarfélög vilji standa undir lögreglukostnaði í svo stórum hreppi, eins og hér er réttilega bent á, enda segir sýslumaðurinn, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar sé ekki ánægð með, að lögreglulið það, er hún kosti, sé þannig notað til óeðlilegra starfa utan svæðis Hafnarfjarðar.

Allt eru þetta rök, sem styðja að því, að frv. verði samþ. um að gera Kópavog að sérstöku lögsagnarumdæmi og þá um leið að kaupstað.

Hv. 6. landsk. hefur nokkuð í ræðu sinni hér við 1. umr. vefengt, að raunverulegur meiri hl. hreppsbúa stæði á bak við þessa ósk. Í því tilefni hefur hann látið fara fram athugun á því, hve mikill hluti af þeim 760 mönnum, sem skrifað hafa undir áskorunarskjalið, sé á gildandi kjörskrá hreppsins, og liggur fyrir vottorð frá yfirvaldi um það, að af þeim séu ekki 224 aðilar á þeirri kjörskrá, sem kosið var eftir síðast. En jafnvel þó að sú upphæð öll sé dregin frá, þá er þó eftir enn stærri fjöldi en sá, sem hefur óskað eftir því í ákveðnum kosningum, sem fram hafa farið, að frv. verði frestað. Og þó er víst, að allmargir af þessum 224 aðilum, sem hér um ræðir, hafa flutzt inn í hreppinn síðan kjörskráin var samin og hafa þar af leiðandi mikinn siðferðislegan rétt og áreiðanlega einnig lagalegan rétt til þess að segja um það á einn eða annan hátt, hvort þeir eru fylgjandi þessari skipan málanna eða ekki. Það verður því á engan hátt hægt að viðurkenna, að ekki liggi fyrir ósk frá meiri hl. íbúanna um, að frv. nái fram að ganga, og er þá einnig uppfyllt það skilyrði, sem sýslunefndin hefur sett í sambandi við ályktun sína, sem birt er á fskj. I.

Um hitt atriðið, að Kópavogur sé langsamlega fjölmennasti hreppur landsins, hefur mér verið bent á, að þær tölur, sem ég las hér upp áðan, í sambandi við aðra hreppa, sem fengið hafa kanpstaðarréttindi, muni vera á einhverjum misskilningi byggðar, og skal ég fara yfir þessar tölur, en þær hef ég fengið gefnar upp af skrifstofu Alþingis.

Sauðárkrókur hefur fengið þessi réttindi 24. maí 1947 samkv. l. nr. 55 1947, og hafa þá verið á 10. hundrað manns í hreppnum. Ólafsfjörður hefur fengið þau samkv. l. nr. 60 1944. Gengu þau í gildi 1. jan. 1945, og þá hafa íbúar í Ólafsfirði verið um 900. Húsavík hefur fengið réttindi 1949 með l., sem gengu í gildi 30. des. 1949, og íbúar þá 1213. Þar mun hafa mistalizt hjá mér áðan, að ég hef talið tölu, sem heyrði til öðru bæjarfélagi, og leiðréttist það hér með. Keflavík hefur fengið réttindin samkv. l. nr. 17 1949, er gengu í gildi 28. marz það ár, og þá er íbúatalan þar 2048. Allir þessir hreppar hafa því haft færri íbúa en Kópavogshreppur hefur nú, þegar þetta frv. liggur hér til umr., svo að það sýnist einnig full ástæða til þess að taka það til greina.

Á þriðja atriðið, sem var það, að vísað er til borgarafundarins í Kópavogi 18. marz og undirskrifta 760 íbúa, hef ég þegar minnzt og þarf ekki að endurtaka það. Mér sýnist því öll rök hníga að því, að það eigi samkv. ósk hv. fim. að samþ. þetta frv. óbreytt, en þó skal ég fara hér nokkrum orðum um þau andmæli, sem hafa komið fram frá hv. 6. landsk. í sambandi við þetta mál og ég minntist nokkuð á áðan.

Það fyrsta, sem hann ber fram sem mótmæli, er, að hreppsnefndin eða, meiri hl. hreppsnefndar hafi ekki óskað,að hreppurinn fengi kaupstaðarréttindi. Ég sé ekki annað en það sé fullkomlega í samræmi við lýðræðislega hugsun, að ef sannað er, að meiri hl. íbúa eins hrepps hafi óskað eftir einhverju, þó að það stríði á móti skoðun og vilja meiri hl. ákveðinna hreppsnefndarmanna, jafnvei þótt þeir séu löglega kosnir, þá beri að taka meira tillit til íbúanna en til hreppsnefndarinnar. Það er mín skoðun. Ég hygg, að það fylgi alveg fullkomlega þeim reglum, sem eru um lýðræðið í landinu, og það sé réttur skilningur á því hugtaki, að þá sé fylgt meira lýðræðisreglunni, ef meira tillit sé tekið til þeirra manna, sem við eiga að búa, heldur en til þeirra einstöku fulltrúa, sem á einhverjum tíma hafa verið kosnir til þess að fara með þeirra umboð, svo að þessi rök fái ekki staðizt sem mótrök.

Hv. 6. landsk. sagði einnig, að tvennar kosningar hefðu sýnt það, svo að ekki verði um deilt, að meiri hl. hreppsnefndar er gefinn löglegur réttur til að stjórna málefnum hreppsins út yfirstandandi kjörtímabil. Það atriði hefur ekki verið vefengt af neinum aðila. En það sannar hins vegar ekki, ef íbúarnir sjá, að á kjörtímabilinu komi upp einhver sérstök mál, sem þeir tvímælalaust telja sér hagsbót í að nái fram að ganga, að þeir geli ekki haft fullkominn rétt til þess að óska þess, að slíkri skipun verði komið á, og það er það, sem hefur verið gert hér í þessu tilfelli. Sá réttur meiri hl. hreppsnefndarmanna, þó að þeir séu réttilega kjörnir, að halda niðri umbótum fyrir íbúana gegn vilja meiri hl. þeirra, getur ekki verið svo sterkur, að hann eigi að halda, og brýtur það ekki heldur í bága við hugmyndina um lýðræði. Og í þessu sambandi vil ég benda á, að það er ekkert nýtt fyrirbrigði, m.a. á Alþingi, að Alþingi sé rofið, stytt umboð þeirra manna, sem hafa fengið með löglegum kosningum umboð kjósenda í 4 ár, það umboð sé stytt með því að rjúfa Alþingi og láta fara fram nýjar kosningar, einmitt vegna þess, að á bak við liggur, a.m.k. að skoðun þeirra manna, sem það gera, að Alþingi fari ekki að vilja meiri hl. íbúanna í landinu og með nýjum kosningum eigi síðan að sanna, að sú skoðun sé rétt.

Þá get ég ekki heldur fallizt á, að hér sé verið að gera þetta beinlínis til þess að koma frá löglega kosinni stjórn meiri hl. án saka. Um sök er ekki að ræða hér, því að það hafa ekki verið bornar fram neinar sakir yfirleitt í sambandi við þetta mál, aðrar en þær, ef það á að kallast sök, sem ég vil ekki fullyrða að sé nein sök, þó að það sé óviðkunnanlegt, að hér virðast fulltrúarnir setja sig á móti sjálfsögðum umbótum í máli og móti því, að það nái fram að ganga, með því að vilja ekki láta frv. það, sem hér um ræðir, verða að lögum. Hér er því ekki að ræða um pólitísk átök á milli þessara aðila, heldur um átök um það, hvað sé bezt fyrir hreppinn sjálfan.

Þá hafði hv. 6. landsk. þm. einnig borið fram, að meiri hl. líti svo á, að rétt sé að sameina Kópavogshrepp Reykjavík, ef hreppurinn vilji ekki vera sjálfstæður hreppur, í stað þess að gera hann að kaupstað, og það sé verið að athuga þá möguleika og því eigi ekki að gera frv. að lögum nú. Það gæti að sjálfsögðu vel komið til greina að sameina Kópavogshrepp og Reykjavík eða leggja Kópavogshrepp undir Reykjavík. Ég hygg, að það gæti og vel komið til greina að sameina Hafnarfjörð, Kópavog og Reykjavík og Seltjarnarnes og þróunin geti farið í þá átt, en það mál þarf áreiðanlega langan og góðan undirbúning, og er ekki hægt að búast við því, að hægt verði að gera það á svo stuttum tíma sem hér um ræðir. Og sýnilegt er, að meiri hl. hreppsbúa telur það varða allmiklu fyrir hreppsbúana, að komið sé á umbótum á þeim málum, sem þeir hafa bent á og sýslumaðurinn í Kjósarsýslu hefur mjög tekið undir; það sé mjög mikil nauðsyn að koma þeim á fljótar en hægt sé að koma á þeirri sameiningu, sem hér um ræðir, ef nokkur grundvöllur er til að koma henni á. En það má segja um þetta atriði eins og um hjónabandið, að það þarf tvo til þess að giftast, og það liggur ekkert fyrir um það, hvort vilji er hjá Reykvíkingum að taka við Kópavogshreppi og innlima hann í Reykjavík eða með hvaða kjörum það yrði gert. Ég sé því ekki, að það sé ástæða til þess að fresta frv. af þeim ástæðum sérstaklega.

Þá benti hv. þm. einnig á, að í frv. væri óeðlilegt ákvæði um verzlunarlóðina, og hefur, að ég sé, borið fram brtt. um, að því ákvæði verði breytt. Nefndin hefur alveg sérstaklega athugað þetta ákvæði. Í öllum þeim hreppsfélögum, sem hafa fengið kaupstaðarréttindi, hefur verið ákveðið um verzlunarlóð. Og undantekningarlítið er það ákvæði í þeim lögum, að verzlunarlóðin skuli vera öll landeign hreppsins. Þó er þar ein undantekning, og það er í Ólafsfirði. Þar er sagt, að verzlunarlóðin skuli takmarkast af 200 m frá stórstraumsfjöru á einn veg og svo takmörkuð að öðru leyti eins og segir í lögunum. Þetta er eina undantekningin. Nú er það svo, að það getur aldrei verið neinn óhagur fyrir hrepp að hafa stóra verzlunarlóð, nema síður sé, og ég hygg, að það séu engin dæmi til þess, að nokkur kaupstaður hafi farið fram á að fá með lögum breytt sinni verzlunarlóð þannig, að hún skyldi minnka frá því, sem ákveðið er í lögunum. Það mun hins vegar vera fordæmi um það, að verzlunarlóðartakmörk hafi verið færð út, m.a. í Reykjavík. Og það er enginn vafi á því, að það mun koma fyrr eða síðar fyrir í Ólafsfirði, að takmörk verzlunarlóðarinnar þar verði færð út, vegna þess að það verði óhjákvæmileg nauðsyn fyrir Ólafsfjörð að fá takmörkunum breytt. Eðlismunurinn á verzlunarlóð og öðrum lóðum innan bæjarfélagsins er í rauninni ekki annar en sá, að hver maður, sem er búandi á verzlunarlóðarsvæði, getur krafizt þess að fá sér afhenta ákveðna lóð, annaðhvort kelda eða leigða, undir verzlunarrekstur, án þess að til komi sérstök eignarheimild. Þetta getur hann hins vegar ekki, ef farið er út yfir takmörk verzlunarlóðarinnar. Það getur því engan veginn verið til erfiðleika fyrir Kópavogshrepp að hafa þessa heimild, að hver maður, sem þar býr, geti fengið leyfi til að láta úthluta sér verzlunarlóð, ef hann sér sér og íbúunum hag í því að reka þar verzlun. Ef einhver væri svo hygginn eða þannig settur í hreppnum, að hann teldi sér hag í því að verzla einhvers staðar uppi á þeim fjöllum, sem hv. 6. landsk. benti hér á að væru innifalin í verzlunarlóðinni, þá sé ég ekki, að það sé til neinna óþæginda fyrir bæinn sjálfan, að hann hafi rétt til þess, nema síður sé. Hann þyrfti að fá sérstök sveitarverzlunarleyfi, ef hann væri utan takmarka verzlunarlóðarinnar, en ef það yrði á verzlunarlóðinni, þá lýtur það sömu reglum og aðrar lóðir, svo að engin ástæða er til þess að breyta lögunum af þeim ástæðum. Komi það hins vegar fyrir síðar, að einhver ástæða sé til þess að breyta þessu, sem nefndin sér ekki, þá er það alltaf opið fyrir hina nýju bæjarstjórn að fá því breytt. En nefndin getur ekki séð, eins og málin liggja nú fyrir, að nein ástæða sé til að breyta frv. vegna þessa ákvæðis.

Ég hef þá bent á þau atriði, sem hafa komið fram bæði með og móti í sambandi við þetta mál, og skal ekki ræða mikið þetta mál frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en vil þó, áður en ég lýk máli mínu, benda á, að oddviti hreppsins sýnist vera sjálfur á þeirri skoðun, að það sé alveg nauðsynlegt að setja sérstakt sýslumannsembætti fyrir Kjósarsýslu, eftir því sem kemur fram í nál. á þskj. 595. Fer þá að verða ákaflega mjótt á mununum, hvort settur er upp sérstakur sýslumaður í Kjósarsýslu og þar af leiðandi sérstakur sýslumaður Kópavogshrepps eða hvort setja skal hér á stofn nýtt embætti, sem hann annars telur kosta ríkissjóðinn allmikla peninga. En þegar þetta er athugað, að talið er nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir, sýnist mér falla niður þau rök, sem hann hefur fært fyrir því, að þetta frv. skuli ekki ná fram að ganga vegna kostnaðarins, því að kostnaðarmunur við að setja sýslumann eða bæjarfógeta getur ekki verið ýkja mikill.

Þá þykir mér einnig rétt að benda á, að það er engin vissa fyrir því, þó að nýjar kosningar fari fram í Kópavogshreppi, eftir að hann yrði gerður að sérstökum kaupstað, að þá haldi ekki þeir menn persónulega eða flokkslega þeim stöðum eða því valdi, sem þeir hafa í hreppnum nú. Ef tvennar undanfarnar kosningar hafa sýnt það, að fólkið hefur heldur viljað trúa þeim fyrir sínum málefnum, þá eru öll líkindi til þess, að einar nýjar kosningar enn eftir svo stuttan tíma muni einnig sýna það, að fólkið vilji fá þeim mönnum mál sín enn í hendur, nema því aðeins að annað af tvennu hafi skeð, að nýir aðilar hafi komið í hreppinn, sem litu á, að önnur stefna væri betri í málum hreppsbúa, eða að þessir aðilar hafi haldið svo á málunum þennan tíma, þó að hann sé ekki langur, að íbúum hafi snúizt hugur og vilji þá heldur láta fara aðrar leiðir í framkvæmdum. Ber þá allt að sama brunni, að þeim málum er skotið undir dóm fólksins sjálfs. Sýnist mér vera í því fullt lýðræði.

Þá þykir mér einnig rétt að benda á, að það er ekki farið eftir því um setningu laga hér á Alþingi, er hreppar fá kaupstaðarréttindi, hvort það hefur verið í enda kjörtímabils; það hefur verið gert á öllum tímum. Hins vegar hefur verið samkomulag í öðrum tilfellum en hér í hreppsnefndunum um að láta ekki fara fram nýjar kosningar og að hreppsnefndin færi með umboð íbúanna, þar til kosningar ættu að fara fram samkv. öðrum lögum, og það hefði getað legið fyrir hér, ef það hefði verið fullkomið samkomulag um þessi mál í hreppsnefndinni. En það samkomulag hefur ekki verið fyrir hendi. En þetta, sem ég hef sagt nú, sannar það einmitt, að það er ekki verið að beita neinum sérstökum pólitískum samtökum gegn meiri hl. hreppsnefndar Kópavogshrepps, því að lögin um að gefa kaupstaðarréttindi til hreppa áður hafa ekki farið eftir því, hvort það væri bundið við kjörtímabil, heldur hafa verið aðrar ástæður, sem hafa knúið fram þær óskir, og það þótti sjálfsagt að verða við þeim.

Með tilvísun til þess, sem ég hef þegar skýrt frá, vill nefndin í heild leggja til, að frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt.