28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Frá því að ég kom á þing, hefur æði oft verið breytt takmörkum á hreppum, sameinaðir hreppar eða hreppsbrot og í öðrum tilfeilum klofnir í sundur hreppar og hreppsfélög og hlutar úr hreppsfélögum gerð að bæjarfélögum. Ég hef alla tíð litið svo á, að þessi þróun væri ekki eðlileg. Ég hef litið þannig á, að það væri miklu meira virði fyrir þjóðfélagið að hafa hreppsheildirnar dálítið stórar og sterkar. En sveitarstjórnarlögin hafa ekki verið uppbyggð þannig, að menn, sem saman eru í sama hreppi, geti fengið aðstöðuna þannig, að þegar atvinnuhættir verða mjög ólíkir innan hreppsfélagsins, þá geti þeir myndað deildir og komið að sínum áhugamálum. Þess vegna hefur það oft verið svo, að þegar komið er upp í hreppnum eitthvert ákveðið hverfi, sem hefur að einhverju leyti samstöðu um framkvæmdamál, önnur en hinn hlutinn, og jafnframt líka þá oft aðra atvinnuhætti, þá hefur hreppunum verið skipt, eins og þegar Þórshöfn er klofin úr Sauðaneshreppi, Hofsós úr Hofsóshreppi, Hafnahreppur úr Nesjahreppnum o.s.frv. Það er af því, að þá er komið upp hverfi innan hreppsins, sem er talið hafa sérhagsmuna að gæta, og þurfa sameiginlega að leggja í sérstakar framkvæmdir, sem heildin þarf að leggja í, eins og t.d. skólpleiðslur og vatnsleiðslur o.fl., sem hinum dreifðu bæjum, sem áður voru í sama hreppnum, þótti ekki rétt að taka þátt í. Þá hefur verið skipt hreppum. Þetta er gagnstætt því, sem er annars staðar, t.d. í Noregi, þar sem eitt hreppsfélag getur haft alveg gerólík sjónarmið á svona löguðum framkvæmdum, en heildarlögin um sveitarstjórnirnar það rúm, að innan þeirra geta rúmazt ólíkar gerðir eða ólíkir hættir í framkvæmdum viðkomandi hreppa, bornir uppi af hluta af hreppnum. Þetta er ekki til í okkar lögum, og af því hefur leitt þessa þróun, að það hefur verið sameinað og skilið til skiptis, eftir því sem á hefur staðið. Þegar Selfosshreppur verður til, er hann klofinn út úr fleiri hreppum, út úr Sandvíkurhreppi, Ölfushreppi og Hraungerðishreppi, og það þó að Ölfushreppur óskaði alls ekki eftir því og vildi ekki missa sinn hluta. Sama er þegar hluti er tekinn úr Engihlíðarhreppnum og lagður undir Blönduós; það var á móti hreppsnefnd Engihliðarhrepps, sem Alþ. gerði það, en það var gert vegna þess, að það var álitið, að það væru sameiginleg hagsmunamál, sem byndu saman þann hluta Engihlíðarhreppsins, sem lagður var undir Blönduós, en þeir höfðu ekki áhuga fyrir, sem eftir voru í Engihlíðarhreppnum.

Svona hefur oft komið fyrir. Ég held, að hér hafi yfirleitt verið skökk stefna. Ég held, að það eigi að víkka út sjálf sveitarstjórnarlögin, þannig að innan þeirra takmarka geti myndazt deildir innan sveitarfélaganna, sem vinni að ólíkum hagsmunamálum. Það þurfi ekki t.d. að jafna niður á alla sveitarmenn fjárupphæð, sem tekin er til vatnsveitu í þorpi, sem myndazt hefur í viðkomandi hreppsfélagi, heldur geti myndazt um það sérsamningur eftir umgerð, sem þar um er sett í lögunum.

Þetta vildi ég láta koma fram fyrst og fremst, að ég tel, að við eigum að vinna að því og styðja að því, að hreppsheildirnar, hvort sem þær eru kallaðar bæjarfélög eða sveitarfélög, séu sem stærstar og sterkastar. En það er nokkuð öfugt við þá þróun, sem verið hefur á Alþ. þann tíma, sem ég hef á því setið.

Annað, sem ég vil leggja áherzlu á, er það, að ég tel, að í hverju hreppsfélagi, hvar sem það er og hvað sem það heitir, þurfi að vera til athafnalíf í hreppsfélaginu, sem geri það að verkum, að mennirnir, sem í því búa, hafi nóg að starfa, eftir því sem hægt er, og geti því borið þau gjöld, sem hreppsfélagið sameinað þarf að hafa til sinna þarfa, borguð af þeim störfum, sem unnin eru í hreppnum, og af þeim atvinnurekstri, sem þar er.

Hér hefur Kópavogshreppurinn algerlega sérstöðu við alla hreppa á landinu, þar sem mér vitanlega er ekki til í hreppnum nema eitt atvinnufyrirtæki, fyrir utan smurningsstöð og fáeinar búðir, atvinnufyrirtæki, sem byggist á hráefni, fiskvinnslu, sem allt er fengið að. En svo að segja allir menn í hreppnum hafa atvinnu utan hreppsins og langmest hér í Reykjavík. Ég hef ekki tekið saman, hvað þetta er mikið, en ég gæti trúað, að það væru yfir 90% af öllum útsvörum, sem lögð eru á í Kópavogshreppi, sem eru lögð á atvinnu, sem stunduð er utan hrepps. Og í hreppnum sjálfum er ekkert atvinnulíf til að bera uppi þau gjöld, sem hreppurinn þarf á að halda. Það er þess vegna ekki neinn sameiginlegur heildaratvinnurekstur, sem þarna er um að ræða og heldur hreppsbúunum saman hvað það snertir, heldur verður að leggja allar þarfir hreppsins á tekjur, sem sóttar eru út úr hreppnum. Ef það væru enn lög um skiptingu útsvara, eins og var fyrir nokkrum árum, þá mundu tekjurnar, sem Kópavogshreppur fengi af mönnum, sem vinna í Reykjavík, vera sáralitlar.

Ég sé þess vegna ekki og hef ekki skilið, hvaða rök liggja að því að gera Kópavogshrepp að sérstöku bæjarfélagi. Ég hef ekki skilið það. Ég sé ekki annað en Reykjavíkurbær í raun og veru eigi rétt á hér um bil öllum útsvörum, sem lögð eru á í Kópavogshreppi. Tekjurnar, sem á er lagt, eru af atvinnu, sem unnin er hér í bænum, og ættu því að falla til Reykjavíkur. Þess vegna er það sjálfsagða í raun og veru, sem hér ætti að gera, að sameina Kópavogshrepp Reykjavík. Þá er bæði unnið að því að stækka og gera sterkari þá heild, sem fyrir er, Reykjavík, og líka settir saman í flokk þeir menn, sem vinna í sama lögsagnarumdæminu og bera þar sameiginleg útgjöld til sameiginlegra þarfa, en ekki eins og núna er, að nokkur hluti af þeim útgjöldum, sem Reykjavíkurbær samkvæmt eðli sínu ætti að hafa, er látinn renna til annars, Kópavogshrepps, sem ekki á tilverurétt.

Enn fremur vil ég benda á það, að þegar bæjarfélögin eru stór, veitist þeim miklu léttara, bæði í stofnkostnaði og í rekstri, að sjá um framkvæmdir í bæjarfélaginu. En ef Kópavogshreppur verður gerður að sérstöku bæjarfélagi, þá er óumflýjanlegt fyrir hann t.d. að fá sér tæki og vélar til að geta gert götur, grafvélar og annað til að geta gert holræsi o.s.frv. Allt saman þetta er til í Reykjavík, og þar er mörgum sinnum hægara að stjórna þannig fyrirtæki, bæði hvað stofnkostnað snertir og eins hvað rekstrarkostnað snertir. Því stærra sem það er, því ódýrari verða afköstin. En hér er ætlað að setja upp tvö hvort við hliðina á öðru, og með því verður allt dýrara. Þetta gildir líka alveg nákvæmlega eins úti í þorpunum á landinu. Því stærri sem hreppsfélögin eru, því betur anna þau verkefnunum, sem fyrir eru, og því hagkvæmari verða allar framkvæmdir.

Ég hef þess vegna aldrei skilið neitt heilbrigt sjónarmið, sem gæti legið til grundvallar því, að það ætti að gera Kópavog að sérstöku bæjarfélagi. Það er í bága við það, sem mér finnst eðlileg þróun í landinu, og það eykur að óþörfu fjárfestingu og kostnað, miðað við það, sem þarf að vera í Kópavogi, ef hann væri sameinaður Reykjavíkurbæ.

Nú er mér ekki vitanlegt, að fram hafi farið nein veruleg samkomulagsumleitun í þessu skyni. Ég hygg það hafi tekið a.m.k. 2 ár að ná samkomulagi um sameiningu á hluta af Glæsibæjarhreppnum við Akureyri og reyndar miklu meira, því að það var miklu lengur búið að tala um það. Það tók nokkuð langan tíma að sameinast um það, þegar lagður var undir Reykjavík hluti af Mosfellssveitinni, sem var þó ekki eiginlega nein brýn þörf á að leggja undir Reykjavík, að því leyti til, að sá hluti, sem þá var um að ræða, hafði enga sérstaka samstöðu með Reykvíkingum frekar en Mosfellssveit, nema síður væri. Það tók þó dálítinn tíma, þegar verið var að sameina Engihlíðarhreppinn og Blönduós. Það hafðist ekki fram, þegar fyrst var farið fram á það, af því að það var ekki búið að undirbúa málið nóg heima fyrir, svo að menn væru alveg sammála um það, báðir aðilar, og urðu það nú reyndar aldrei alveg, o.s.frv.

Þess vegna held ég, að hér sé verið að rasa fyrir ráð fram og það eigi að vinna að því að reyna að sameina Kópavogshrepp Reykjavík.

Það er mín skoðun. Og til viðbótar því, sem ég hef sagt um hana, vil ég enn bæta því við, að þessi skoðun styðst enn fremur við það, að því lengra sem líður, eftir að þetta frv. verður samþykkt og Kópavogshreppur gerður að sérstöku lögsagnarumdæmi, því erfiðara verður að sameina kaupstaðina. Þess vegna er ég alveg víss um, þegar þessir menn nú telja, að þetta sé spor til sameiningar, sem þeir telja að eigi að koma á eftir, og þá skoðun hef ég orðið var við hér hjá allmörgum, að því fleiri ár sem líða, því erfiðari verður sameiningin. Þess vegna held ég, að það sé misstigið spor, sem hér er um að ræða; þótt það verði kannske stigið, þá sé það misstigið spor, sem jafnvel þeir, sem stíga það núna, komi til með að sjá eftir, ef þeir lifa lengi og sitja hér á Alþ. og þurfa aftur að glíma við sameiningu. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að Seltjarnarnesið, Bessastaðahreppur og líklega Hafnarfjörður fer allt undir Reykjavík. Alveg eins og við tókum Skerjafjörð á sínum tíma undir Rvík, fara þessi svæði öll undir Rvík. Og má vel vera, að spádómurinn rætist, sem prentaður var í pésa 1938 af einhverri konu, — ég man ekki, hvað hún hét, — þar sem hún þóttist sjá ártalið 1965, og þá var Reykjavík orðin einn stór bær og náði alla leið suður fyrir Hafnarfjörð og Hafnarfjörður innlimaður í hann og allt svæðið þar á milli. Þetta voru fjórar hlaðsíður. Ég sá pésann einhvern tíma á götu, kostaði held ég 50 aura eða eitthvað, — hann er nú týndur fyrir löngu, — en ég býst við, að sá draumur rætist, hvort sem það verður það ár eða ekki, og að þetta spor, sem nú er stigið, tefji fyrir því. En þetta verður áreiðanlega þróunin. — Þetta vildi ég nú segja, þannig að það sjáist seinna meir, að ég hef ekki verið með því að stíga þetta víxlspor, sem hér verður stigið.