28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég talaði hér við 1. umr. þessa máls alllangt mál um þetta frv., vegna þess að ég taldi rétt að láta þegar við 1. umr. þess í þessari hv. d. koma fram af minni hálfu öll þau meginrök, sem ég hef fram að færa í sambandi við það, og þau atriði þar með, sem ég vildi benda á að ég teldi sjálfsagt að breyta í þessu frv., ef það yrði ofan á, svo sem virtist vera ráðið, að gera það að lögum nú. Nú hefur hv. frsm. heilbr.- og félmn. rætt um nokkur af þeim atriðum, sem ég drap á í ræðu minni við 1. umr. málsins, og einnig þær brtt., sem ég hef nú flutt við þetta frv. Hv. frsm. virtist ætla sér, er hann hóf ræðu sína, að taka fyrir öll rök, sem til væru með og móti þessu máll. Hann flokkaði þau niður. En mér virtist, að hann gerði a.m.k. ekki gagnrökunum öllum nein endanleg skil eða með öllu viðhlítandi, og skil ég vel, að hv. frsm. treysti sér ekki til að falla um í sinni ræðu fyrir samþykkt þessa frv. öll þau atriði, sem hefur verið bent á að mæla gegn samþykkt þess.

Hv. frsm., þm. Barð., flytur mörg mál og margar tili. í þessari hv. deild, og hann fylgir þeim allajafna fram með allmiklum krafti sinnar sannfæringar. Mér hefur oftast virzt, að þó að við hinir, sem hér eigum sæti í þessari hv. deild, getum oft ekki orðið honum sammála, þá sé hann Fullkomlega trúaður á sanngildi þess, sem hann segir, og mál hans séu flutt af sannfæringu hans. En ég get ekki neitað því, að mér virtist það nú skína í gegnum hans ræðu, að hann væri ekki sjálfur sannfærður um, að þetta mál ætti með öllu þann rétt á sér, sem hv. n. virðist hafa komizt að raun um. Ég fann ekki þann sannfæringarkraft í orðum hans um þetta mál, sem mér virðist hann allajafna hafa, þegar hann ræðir um þær till. og þau mál, sem hann ber fram sjálfur hér í hv. deild, enda trúi ég því ekki, að hann hefði viljað vera viðriðinn flutning þessa máls og málatilbúnað allan, eins og hann liggur fyrir.

Það var meginefni ræðu minnar við 1. umr. þessa máls að sýna fram á, að með samþykkt þessa frv. yrði mörkuð hér á hv. Alþingi stefna. Í fyrsta lagi yrði gefið fordæmi um það, að Alþingi vildi taka gildan slíkan málatilbúnað sem fylgir þessu frv. Með því væri óneitanlega brotið í bága við flestar venjur, sem Alþingi hefur fylgt um meðferð slíkra mála sem þessa. Ég held, að hv. frsm. geti ekki bent á, að mál slík sem þessi hefðu nokkurn tíma fyrr verið flutt inn á Alþingi eftir ósk litilla ákveðinna hópa innan sveitarfélaga, sem óskuðu, að þeim yrði með lögum breytt í kaupstað. Hv. frsm. virtist hafa kynnt sér meðferð þeirra mála hér á Alþingi, sem gætu talizt sambærileg við þetta. Ég held, að hann hefði komizt að raun um, ef hann hefði kynnt sér það, að þau mál hafa alltaf verið borin fram samkvæmt ósk sveitarstjórna, og því hefur fylgt meiri og minni stuðningur íbúa viðkomandi sveitarfélaga. En hér verður ekki um það deilt, að þetta mál er ekki flutt samkvæmt ósk sveitarstjórnar.

Hv. frsm. vildi einnig skýra það svo, að þetta mál væri flutt með meðmælum sýslunefndar. Ég get ekki skilið, hvernig hv. frsm. getur staðhæft slíkt, þar sem umsögn sýslunefndar liggur fyrir í prentuðu þingskjali og þar segir berum orðum, að sýslunefnd telji það eina eðlilegt í slíkum málum sem þessu, að fram komi eindregin viljayfirlýsing meiri hluta sveitarstjórnar eða óumdeilanlegur meiri hluti atkvæðisbærra íbúa hreppsins; því aðeins að þetta liggi fyrir, annað hvort eða hvort tveggja, telji sýslunefnd eðlilegt, að Kópavogshreppur verði gerður að sérstökum kaupstað. En hitt liggur einnig ljóst fyrir, að sýslunefnd Kjósarsýslu óttast um framtíð síns sýslufélags við það, að Kópavogshreppur verði skilinn frá sýslunni, með því að þá mundu athafnamöguleikar sýslunnar verða veiktir stórlega, en hún er þegar lítil og veik fyrir.

Eins og umsögn sýslunefndar liggur fyrir, getur ekki verið neinn vafi á því, að sýslunefnd mælir ekki með málinu. Um hitt er svo hægt að deila og hefur verið deilt, hvort nú liggi fyrir vilji meiri hluta atkvæðisbærra íbúa hreppsins — atkvæðisbærra, eins og sýslunefndin komst að orði. Það hefur í blöðum og hér á hv. Alþingi verið fullyrt, að það, sem liggur fyrir í því efni, séu þær undirskriftir manna, þær áskoranir í þessu efni, sem sendar hafa verið Alþingi, og nú upp á síðkastið hefur verið sagt, að það liggi fyrir undirskriftir 822 manna, en hins vegar vill enginn þeirra, sem nefna þessa tölu, telja þá kjósendur í hreppnum eða atkvæðisbæra menn. Það getur enginn, því að það er upplýst, að í þessum hópi, jafnvel þó að þessi tala væri tekin, er fjöldi manna, sem er ekki og verður, held ég, seint atkvæðisbærir menn í Kópavogshreppi. Það er í þeim hópi fjöldi manna, — það hefur þegar verið upplýst, — sem alls ekki eru íbúar í Kópavogshreppi, alls ekki finnanlegir í neinni íbúaskrá Kópavogshrepps, margir tugir manna. Það er í þeim hópi stór hópur útlendinga, sem verða ekki fyrst um sinn og ég held varla næstu árin atkvæðisbærir í Kópavogshreppi. En síðan hefur verið um það deilt, við hvað ætti að miða, þegar rætt væri um það, hverjir séu atkvæðisbærir í Kópavogshreppi um þetta mál, og menn hafa sagt: Það má ekki miða við núgildandi kjörskrá, heldur þá kjörskrá, sem á að ganga í gildi næsta ár og gilda frá 24. jan. 1956 til 23. jan. 1957. En ef menn vilja miða við þá kjörskrá, þá vandast málið fyrir þá, sem vilja gera undirskriftahópinn að meginrökum í þessu máli, því að þótt sú tala manna á undirskriftaskjölunum, sem hæst er nefnd, væri tekin, er það ekki helmingur af þeirri kjörskrá, sem ég nú nefndi, ekki líkt því. Ef menn segja, að í Kópavogshreppi eigi allir fulltíða menn, 21 árs eða eldri, skulum við segja, að ráða þessu, þá eru þeir mun fleiri vitanlega en kjósendur, og þessi tala, 822, þó að ég taki hana enn, er ekki nálægt því meiri hl. íbúa á þessum aldri.

Nú hef ég talið, að úrskurðarvald um það, hvort stofna ætti kaupstað í Kópavogshreppi eða ekki, ætti að vera, eins og sýslunefnd taldi, á valdi atkvæðisbærra manna, þ.e.a.s. kjósenda á þeim tíma, sem slík könnun færi fram eða atkvgr., eins og allajafna verður að vera og er í okkar landi, þegar kosið er um einhverja hluti. Jafnvel þó að ekki séu kosningar í kjördæmum, þá er það til, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún hlýtur að fara fram og hefur farið fram hér á landi samkv. kjörskrá. Engum hefur til þessa dottið í hug að halda því fram, að allir íbúar í landinu ættu að kjósa um það, sem lagt er fyrir til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þess vegna verður að leggja af öllum ástæðum einhverja kjörskrá til grundvallar. Þá hef ég talið, að hið eina rétta væri að leggja til grundvallar gildandi kjörskrá samkv. okkar lögum, og það er vitanlega sú kjörskrá, sem kosin yrði eftir bæjarstjórn í nýstofnuðum Kópavogskaupstað, ef kosning færi fram á næstu mánuðum á þessu ári. Og ég hef sagt: Hvað er eðlilegra en að þeir menn, sem hefðu rétt til að kjósa sér bæjarstjórn, þeir og ekki aðrir, hefðu rétt til þess að ráða um það, hvort eigi að fá þessa bæjarstjórn?

Um hitt, að þessi kjörskrá, sem fyrir liggur, hafi legið frammi kjósendum til könnunar, til þess að þeir gætu mótmælt henni í þeim atriðum, sem þeir teldu röng, um það, hvort hún sé rétt gerð og samkv. gildandi lögum og venjum í landinu, geta ekki verið hér á Alþingi neinar deilur. Hím er rétt samkv. gildandi lögum.

Ég hef kynnt mér það sérstaklega hjá kunnugustu mönnum, forráðamönnum Reykjavíkurbæjar, sem kunnugir eru þessum efnum, hvort nokkurn tíma hafi verið víkið frá gildandi lagaákvæðum um kjörskrár í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík, eins og ég þekki þær og aðrir, sem hafa kynnt sér þær. Nei, það hefur aldrei verið. Það hafa aldrei verið teknir gildir sem kjósendur í Rvík aðrir en þeir, sem fluttir eru sannanlega inn í byggðarlagið á þeim tíma, sem kjörskrá er samin, en það er í samræmi við ákvæði gildandi laga. Öll blaðaskrif, sem hafa átt sér stað í Rvík um þetta atriði, að það hafi ekki verið lögð fyrir rétt kjörskrá í Kópavogshreppi við þá atkvgr., sem þar fór fram, eru því ekki á neinum rökum reist, enda vil ég benda á það, eins og ég benti hv. n. á, að heima í Kópavogshreppi komu ekki fram af hálfu minni hl. hreppsnefndar nein mótmæli nokkurn tíma gegn því, að fyrirhuguð atkvgr. færi fram samkvæmt þessari gildandi kjörskrá. Það hefur hvergi komið fram og er hvergi bókað af hálfu minni hluta sveitarstjórnar Kópavogshrepps, og engin tilmæli um það, að farið yrði eftir öðrum reglum, þegar ákveðið yrði, hverjir skyldu greiða atkvæði um þetta mál í Kópavogshreppi. Ég held því að þessu athuguðu, að það yrði harla erfitt að sýna fram á, að fyrir liggi nú meiri hl. atkvæðisbærra manna í Kópavogshreppi, sem óski eftir því, að hann verði gerður að kaupstað, hvaða tölur sem yrðu teknar, hvaða kjörskrá sem yrði tekin, verði erfitt að sýna fram á þetta.

Það liggur því hvorugt fyrir hér, hvorki ósk sveitarstjórnar né meiri hluta atkvæðisbærra manna, og það er í því fyrst og fremst, sem Alþingi víki frá fyrri venjum í þessum málum og gengi á móti þeirri umsögn sýslunefndar, sem fyrir liggur í málinu.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál við þessa umræðu í öllum atriðum, þó að það væri ef til vill ástæða til þess að taka fyrir til umræðu jafnvel hverja grein þessa frv., sem fyrir liggur.

Hv. frsm. komst svo að orði, að uppbygging og orðalag þessa frv. gæfi ekki tilefni til breytinga, þetta frv. væri samið eftir þaulhugsuðum fyrirmyndum. Það er leiðinlegt frá því að segja, en ég hef vakið athygli á áður í umræðum um þetta mál, að fyrirmyndirnar, sem Alþingi hefur í þessum lagasetningum um bæjarstjórnir, virðast ekki hafa verið þaulhugsaðar nú á síðustu árum, þegar Alþingi hefur sett lög í þessu efni, því að það hefur alltaf verið farin sú leið að samþykkja lög eftir hinum elztu fyrirmyndum. Öll bæjarstjórnarlög, sem nú gilda, eru samin eftir hinum elztu fyrirmyndum, sem til eru, og þau eru algerlega úrelt, ef ætti að taka hvert ákvæði laganna bókstaflega og hafa þau í heiðri, eins og rétt væri.

Hver sveitarstjórnarmaður hlýtur að viðurkenna, að mörg ákvæði bæjarstjórnarlaga og það nýlega settra og þar á meðal þessa frv. eru alveg óframkvæmanleg, svo að ekki eru þaulhugsaðar nýlega fyrirmyndirnar, sem þetta frv. er samið eftir. Það er þess vegna hin mesta nauðsyn, að bæjarstjórnarlög einhver og helzt þá sameiginleg bæjarstjórnarlög fyrir bæjarstjórnirnar í landinu væru tekin fyrir að nýju og þaulhugsuð, en það liggur ekki fyrir um þetta frv. Það er svo langt frá því, að það hafi verið hugsað að nýju, að mörg ákvæði þess, sem tekin eru eftir öðrum lögum, eru beinlínis fáránleg, ef litið er á aðstæður í Kópavogshreppi; þau eiga alls ekki við, svo sem ákvæðið um verzlunarláð kaupstaðarins til dæmis.

Mun ég freista þess að bera fram nokkrar brtt., sem ég óska að kæmu til atkvæða hér í hv. deild, ef það væri sýnt, að þetta frv. ætti að ná fram að ganga, og þ. á m. um nokkur af þessum atriðum. En ég tel það ekki meginatriði þessa máls. Ég tel það höfuðatriði þessa máls, að Alþ. markar með því þá stefnu, að það vilji, að aðgreindar verði miklu fremur en nú er byggðirnar í kringum Reykjavík, aðgreindar frá höfuðstaðnum sjálfum, og það álít ég aðalatriði þessa máls. Og það er um það, sem ég vildi fara nokkrum orðum, þó að ég ræddi það rækilega í ræðu minni við 1. umr. málsins.

Ég hef alltaf viðurkennt það, að ef fólksfjöldi í sveitarfélagi er lagður til grundvallar um það, hvort gera eigi það sveitarfélag að kaupstað, þá er sá fólksfjöldi fyrir hendi í Kópavogshreppi nú og hann var það fyrir mörgum árum, án þess að nokkrum mönnum dytti þá í hug að bera það fram, hvorki í héraði né hér á Alþ., að sjálfsagt væri að gera Kópavogshrepp að kaupstað vegna fólksfjöldans eins. Þetta hefur ekki verið gert, vegna þess að öllum heilvita mönnum hefur verið það ljóst, eftir að sá fólksfjöldi var orðinn í Kópavogshreppi, sem var sambærilegur við það, sem önnur kauptún höfðu, þegar þau voru gerð að kaupstað, að allar aðrar ástæður en fólksfjöldinn voru á móti því að gera Kópavogshrepp að kaupstað. Svo fullkomlega sem ég játa það, að fólksfjöldinn gæti verið ástæða til þess, þá er hitt jafnljóst, að hann hefur fyrir löngu verið til staðar nægilegur, en án þess að mönnum hafi þó komið til hugar að gera Kópavogshrepp að kaupstað.

Kópavogshreppur var kominn yfir 1000 íbúa á öðru ári eftir að hann var stofnaður. Það hefði verið frambærilegt að gera hann að kaupstað, þegar hann var stofnaður sem hreppur, því að þá var hann að nálgast að komast í 800 íbúa og margir voru á leiðinni, ef þetta eitt ætti að ráða. En ef fólksfjöldi einn ætti að ráða og það væri sjálfsagt að gera hverja byggð, sem hefði 900–1000 íbúa, að kaupstað, þá væri það sjálfsagt um Seltjarnarneshrepp t.d. í dag, jafnvel Mosfellshrepp, Silfurtún með hluta af Garðahreppi gæti svo komið, og ef þessi rök ein valda því, að Alþingi vill gera Kópavogshrepp að kaupstað, þá er þar með mörkuð sú stefna, að hinar byggðirnar í nágrenni Reykjavíkur eigi að hljóta sömu meðferð, hljóta sömu réttindi, ef menn vilja orða það svo, a.m.k. ef þær óska eftir því. Og það er þetta, þessi stefna, sem verður tekin upp með þessu frv., ef það nær samþykki Alþingis, sem er í mínum augum fjarri heilbrigðri skynsemi.

Um öll þau kauptún, sem hafa verið gerð að kaupstöðum með sérstökum lögum á fyrri árum, hefur það verið alkunnugt, að þau hafa vaxið upp sem verzlunarstaðir stórra héraða, sem að þeim hafa legið. Þau hafa verið kaupstaðir þessara héraða og nokkurs konar höfuðstaðir. Þangað hafa legið allar leiðir úr þeirri sýslu, sem þau hafa verið hluti af. Það eru staðir, þar sem útgerð hefur svo risið upp í sambandi við verzlun og atvinnurekstur ýmiss konar þar á eftir, og þar hefur komið, að þessir höfuðstaðir þessara héraða hafa óskað eftir því að losna úr stjórnarfarslegum tengslum við sínar sýslur af ýmsum ástæðum og fá eigin framkvæmdarstjórn. Það geta verið þar ríkar ástæður til, aðrar en þær, að sýslurnar hafi nokkuð gengið á rétt þessara kauptúna eða þjakað þeim. Það hafa verið þær ástæður, sem ég drap á hér áður, erfiðleikar að koma á t.d. framkvæmdarstjórn, sem ekki þurfa að liggja fyrir nú. En öllum hefur verið ljóst, að þessi kauptún, sem hafa verið gerð að kaupstöðum, hafa verið sjálfstæðar heildir atvinnulega og efnahagslega. Þar hefur verið verzlun, útgerð, iðnaður o.s.frv., og fólkið hefur dregizt að vegna þess. En þetta horfir þveröfugt við um Kópavogshrepp. Þar kom fólkið fyrst, þúsundir manna, án þess að atvinnutækin fylgdu á eftir. Það er rétt, sem hv. 1. þm. N-M. sagði hér áðan, í aðalatriðum, að þar eru örfá atvinnufyrirtæki, sem nokkra teljandi atvinnu veita í sveitarfélaginu. Og hversu mikið sem íbúum Kópavogshrepps kann að fjölga á næstu árum, þá er það víst, að atvinnutækin geta ekki komið hlutfallslega í samræmi við það. Það er nær óhugsandi. Það er því í dag því miður hægt að fullyrða, að það er útilokað, að Kópavogshreppur geti verið sjálfstætt atvinnusvæði. Reykjavík og allar nágrannabyggðir hennar eru eitt atvinnu- og efnahagssvæði, og það verður svo. því getur engin lagasetning breytt. En spurningin fyrir hv. Alþ. er sú, hvort það eigi að aðgreina þetta sameiginlega atvinnu- og efnahagssvæði í mörg, frekar en nú er, með því að hólfa það niður í sérstaka kaupstaði eða sérstök sveitarstjórnarumdæmi í ríkari mæli en þegar er orðíð. Það er þetta, sem ég tel óeðlilegt og gegn heilbrigðum rökum heilbrigðrar skynsemi, því að fyrir liggur augljóslega í hugum allra manna, sem um þetta hugsa, hin önnur leið, að leitað verði eftir því að sameina þessar byggðir á skynsamlegan og sanngjarnan hátt, svo að bæði Reykjavíkurbær, sem þarfnast útþenslu vegna svívaxandi íbúafjölda og síaukinnar byggðar, geti unað við það og líka byggðirnar í kring. En hingað til hefur það verið svo, að Reykjavíkurbær hefur ekki þekkt nema eina leið til þess að færa út lögsagnarumdæmi sitt eftir þörfum, og hún er sú að krefjast þess af Alþ., að lög verði sett á hverjum tíma eftir þeim þörfum, sem Reykjavíkurbær hefur talið liggja fyrir, og hlutar af nálægum byggðarlögum og sveitarfélögum innlimaðir, án þess að sveitarfélögin hafi nokkuð getað þar rönd við reist, þó að þau hafi verið á móti því að verða svo skert sem raun hefur verið. Ég tel þessa leið, sem farin hefur verið til þessa af hálfu Reykjavíkurbæjar, ósanngjarna í garð nágrannabyggðarlaganna, og þó að ég viðurkenni þörf Reykjavíkur fyrir aukið landrými, þá vil ég ekki viðurkenna þessa leið, sem hefur verið farin til þessa.

En ég vil ekki heldur viðurkenna, að það sé skynsamlegt að aðgreina enn þá frekar og undirstrika mörkin milli Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga hennar. Ég álít, að það sé fullkomlega tímabært að taka þessi mál, sem eru vandamál, sem liggja fyrir í dag, til rækilegrar athugunar, og það verði bezt gert með því, að hæstv. ríkisstjórn belti sér fyrir slíkri athugun og fulltrúar þessara byggðarlaga, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Gullbringusýslu og Kjósarsýslu og hreppanna í kringum Reykjavík, setjist saman að borði og reyni að finna leiðir, sem allir þessir aðilar geti fellt sig við og verði farnar í framtíðinni, í náinni framtíð eða fjarlægri, eftir því sem þeir legðu til. En þá leið að taka eitt af þessum byggðarlögum út úr, sem er auk þess, eins og það er í dag, einna verst sett til þess að sjá íbúum sínum farborða atvinnulega, vegna þess að það hefur risið upp á örskömmum tíma, á miklu skemmri tíma en öll hin byggðarlögin í nágrenni Reykjavíkur, tel ég svo fráleita, að ég hefði ekki trúað því, að sú tili. yrði tekin alvarlega af hv. Alþ., sem áreiðanlega skilur þetta mál í nokkurri heild. En ég veit, að það kann aldrei góðri lukku að stýra, þegar mál eru tekin upp eingöngu á pólitískum grundvelli, miðuð við þrönga pólitíska hagsmuni, eins og menn ímynda sér þá í ákveðnum flokkum eða flokksbrotum. Það eru sjaldnast hinar skynsamlegu leiðir, sem finnast, ef látnir eru ráða eingöngu pólitískir hagsmunir. En það er það, sem gerir allt þetta mál óeðlilegt, frá því að það var tekið upp fyrst fyrir tveimur mánuðum í Kópavogshreppi og til þessa dags, að það er aðeins miðað við það, að kosningar geti farið fram á næstu mánuðum í Kópavogi.

Ég veit, að enginn hv. þdm. tekur það alvarlega, að stofnun kaupstaðar í Kópavogi sé spor í þá átt að sameina byggðina í Kópavogi Reykjavíkurbæ. Það tekur það enginn alvarlega. Það er hægt að slá slíku fram í einhverjum deilum, en það veit ég að enginn hv. þdm. trúir á. En ég hef nú og raunar áður undirstrikað þetta sem aðalatriði þessa máls, að Alþingi markar með samþykkt þessa frv. þá stefnu, að það vilji aðgreina byggðirnar í kringum Reykjavík, en ekki sameina þær, og að það vilji taka gildan allan þann málatilbúnað og þá málsmeðferð, sem liggur fyrir í þessu máli. Ég hef varað við þeim afleiðingum, sem það kynni að hafa. Það er ólýðræðislegt athæfi, sem hér hefur farið fram, en það er mjög alvarlegt, ef Alþ. leggur blessun sína yfir það allt og gefur þannig það fordæmi fyrir framtíðina, að slíkur málatilbúnaður og málsmeðferð sé af hálfu lýðræðisflokka, eins og þeir eru í landinu í dag, talin góð og gild.

Ég hef nú fært fram þau rök fyrir því, sem ég tel liggja augljóslega fyrir, að það eigi að athuga þetta mál á þeim grundvelli, að reynt verði að finna leiðir fyrir framtíðina um skipun mála að því er sveitarstjórnarmál snertir í Reykjavík og nágrenni hennar, og ég álít, að það eigi einnig að taka til Hafnarfjarðar og nágrannahreppa Hafnarfjarðarbæjar. Ég vil því leyfa mér að bera fram á þessu stigi málsins svofellda till. til rökstuddrar dagskrár, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að deildin telur tímabært, að tekin verði til athugunar skipun sveitarstjórnarmála í nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, telur hún það eðlilegustu meðferð þessa máls, að ríkisstjórnin skipi nú þegar 9 manna nefnd til þess að athuga og gera tillögur um, hvernig bezt verði fyrir komið til frambúðar skipan sveitarstjórnarmála í næsta nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þannig að bæði þessir bæir og núverandi nágrannasveitarfélög þeirra megi vel við una, og sé nefndin skipuð mönnum tilnefndum af þeim sveitarfélögum öllum, sem hér eiga hlut að máli, og enn fremur af sýslunefndum Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Í trausti þess, að nefnd þessi hraði störfum, svo að tillögur hennar geti komið fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég mun nú að loknu máli mínu eða innan stundar afhenda hæstv. forseta þessa till. En ég vildi aðeins að síðustu leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram og hefur verið leitað afbrigða fyrir hér í hv. d. og ég óska að komi til atkvæða að fallinni þessari rökstuddu dagskrá. Ég hef þegar rætt efni þessara till. og skal ekki tefja tímann með því að fara um þær mörgum orðum.

Fyrsta brtt. er þess efnis, að væntanlegur bæjarfógeti í Kópavogshreppi verði jafnframt sýslumaður í Kjósarsýslu. Sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þá till., sem ég tel alveg sjálfsagða.

Önnur brtt. er um verzlunarlóð kaupstaðarins, sem ég hef einnig rætt. Ég flyt nú brtt., sem þrengir nokkru meir en sú till., sem kom fram í hv. Nd. um þetta atriði, þau takmörk, sem verzlunarlóð væntanlegs kaupstaðar í Kópavogi yrðu sett. Eins og ég tel það ekki ná neinni átt, að verzlunarlóð nái upp um fjöll og firnindi, þá tel ég ekki heldur vit í því, að verzlunarlóð verði látin ná til landareigna jarða, sem stofnaðar hafa verið sem nýbýli fyrir örfáum árum, að það verði gefið undir fótinn með það, að úr landi þessara nýstofnuðu nýbýla, sem menn hafa tekið við til ræktunar með samningum við nýbýlastjórn fyrir hönd ríkisins, verði veittar lóðir til verzlunar, verði hægt að gera þá kröfu samkv. skilningi á lagaákvæðum um það. Ekki heldur tel ég að það gæti komið til mála, að það væri hægt að gera kröfu um verzlunarlóð í landi hælanna í Kópavogi, sem hefur verið afhent heilbrmrn. sérstaklega handa þessum hælum og til búrekstrar vegna þeirra, en þetta land liggur að vegum, sem gera það mjög eftirsóknarvert, ef það fengist sem verzlunarlóð. Ég álít, að það væri beinlínis varasamt að láta verzlunarlóð ná til þessa lands hælanna, því að það getur orðið mjög eftirsótt sem verzlunarlóð, en hins vegar fjarri lagi að taka það af hælunum.

Þriðja brtt. er um það, að ekki sé skylt að stofna slökkvilið í hreppnum, nema því aðeins að yfirumsjónarmaður brunavarna telji það nauðsynlegt, en það er skylda samkv. nýlega settum lögum um brunavarnir, að slökkvilið sé í hverjum kaupstað. Eins og ég hef áður sagt hér í hv. d., liggur það fyrir, að engir, sem til þekkja og sérfróðir eru um þau mál, telja nauðsynlegt að stofna sérstakt slökkvilið fyrir þennan kaupstað, en starfræksla þess eins og reyndar fjölmörg önnur starfræksla langhagkvæmust og sjálfsögðust í sambandi við Reykjavíkurbæ.

Síðasta brtt. er svo þess efnis, að ríkissjóður afhendi hinum nýja kaupstað verzlunarlóð hans, eins og hún er ákveðin í 3. gr., og er þar vitanlega átt við: að samþykktri þeirri takmörkun, sem felst í brtt. minni, og verði þetta gert kvaðalaust af hálfu ríkissjóðs. En hugsanlegt er vitanlega, að einhverjar kvaðir liggi á þessum löndum, en ég á við það með þessu orðalagi till., að ríkissjóður láti af sinni hálfu ekki fylgja því neinar kvaðir, þegar kaupstaðurinn tekur við. Þær gætu verið nógar aðrar annars eðlis, þó að ríkissjóður setti þær ekki.

Auk þess legg ég til, að ríkissjóður leggi kaupstaðnum til 2 millj. kr. framlag vegna óvenjulegs kostnaðar við hina ört vaxandi byggð. Um það atriði hef ég rætt líka og leyft mér að minna á í því sambandi ummæli hv. aðalflutningsmanns þessa frv., þess efnis, að Kópavogshreppur og íbúar hans eigi siðferðislega kröfu á hendur ríkissjóði um stórar upphæðir. Og hv. aðalflutningsmaður frv. nefndi í því sambandi engar smáupphæðir, heldur milljónir króna. Ég leyfi mér að minna á þessi ummæli hv. þm. G-K., hæstv. forsrh., sem standa prentuð eftir honum í blaði, sem hann sendi kjósendum sínum væntanlegum í Kópavogshreppi ekki alls fyrir löngu. Vona ég, að hæstv. forsrh. muni eftir því enn, að hann gaf kjósendum sínum undir fótinn með það, að því yrði ekki illa tekið, ef þeir færu fram á nokkurra millj. króna framlög úr ríkissjóði vegna allra aðstæðna þar í hreppnum.

Hann taldi um leið, að íbúarnir í Kópavogshreppi gætu átt dálítið svipaða kröfu á hendur Reykjavíkurbæ, en það liggur nú ekki fyrir að krefja hann í þessu sambandi. En mér kæmi það undarlega fyrir sjónir, ef hv. aðalflutningsmaður þessa frv. vildi nú láta fylgismenn sína hér á hv. Alþingi, sem hann kveður nú til þess með allmikilli hörku suma að fylgja þessu frv., fella þessa till. um ofur lítið framlag til þess að styðja hinn nýstofnaða kaupstað til að standa undir sínum hlutverkum, eftir að hann hefur gefið þeim svo fagurt fyrirheit um það í opinberu blaði fyrir kosningar, að þeir eigi til þess siðferðislegan rétt. Mig langar til að heyra rökin, sem hv. aðalflutningsmaður þessa frv., hæstv. forsrh., kann að hafa fyrir því, að það sé ekki rétt að samþykkja þessa brtt. mína eins og hún liggur hér fyrir.