02.05.1955
Efri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 6. landsk. þykir mér rétt sem frsm. í þessu máli f.h. heilbr.- og félmn. að segja hér nokkur orð.

Ég get að sjálfsögðu ekkert um það sagt, hver hafi verið tilgangur flutningsmanna, þegar þetta frv. var fram borið. Um það hefur ekki neitt legið fyrir í hv. n. En ég get aðeins sagt það, að ekki hefur verið tilgangur n. með því að leggja til, að frv. yrði samþ., sá, sem hv. ræðumaður lýsti. Því máli hefur ekkert verið blandað í n. inn í afgreiðslu málsins. Það hefur verið farið fullkomlega eftir þingreglum og lýðræðisreglum um afgreiðslu málsins í n., eins og ég raunverulega hef lýst áður. Það hefur verið borið saman við löggjöf, sem samin hefur verið hin síðari árin um hliðstæð mál. N. hefur fullvissað sig um, að það er enginn hreppur á landinu, sem hefur verið fjölmennari, þegar hann hefur fengið kaupstaðarréttindi, heldur en sá hreppur, sem hér um ræðir. N. lítur einnig svo á, m.a. af þeim gögnum, sem fyrir liggja, að það sé sannanlegt, að meiri hluti hreppsbúa, sem nú búa í hreppnum, hafi sett fram ótvíræðar óskir um að fá kanpstaðarréttindi og að í frv. séu engin þau ákvæði, sem víkja í nokkrum aðalatriðum frá því, sem áður hefur verið samþ. hér á Alþ., þegar aðrir hreppar hafa fengið kaupstaðarréttindi. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram vegna þeirra ummæla, sem hv. þm. hafði hér áðan. Hvaða erjur liggja svo persónulega milli hans og flm., kemur út af fyrir sig ekki nefndinni við. Það er mál, sem þeir geta gert upp sín á milli, en ekki má blanda inn í nefndarstörf.

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að þakka hv. 6. landsk. fyrir að hafa ekki haldið uppi málþófi hér í þessu máll. Hann hefur fullkomlega haldið þau orð, sem hann hefur sagt við mig sem forseta í sambandi við það, og hefur það orðið til þess, að hægt hefur verið að flýta þingstörfum hér og ljúka þeim á þeim tíma, sem ætlað var.