22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

162. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, en gert þó till. um breytingar á þskj. 589. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að hér er ekki um neinar efnisbreytingar að ræða frá því, sem felst í frv. sjálfu, heldur taldi n. rétt að hafa formshlið málsins nokkuð öðruvísi en gert var ráð fyrir í frv.

Frv. er um breyt. á 14. gr. l. um síldarverksmiðjur ríkisins frá 1938, og þeirri grein var búið áður að breyta með tvennum l., þ.e. lögum frá 1941 og 1943. Það var þess vegna orðið nokkuð óaðgengilegt að átta sig á greininni eða löggjöfinni um þetta atriði. Leggur n. þess vegna til, að málið verði samþykkt í því formi að umorða 14. gr. þannig, að inn í hana komi sú brtt., sem lögð er til með frv., og svo tekin upp eldri ákvæði um breyt. á gr., sem eru í l. enn og ekki var lagt til í frv. að felld yrðu úr l., og í samræmi við það er fyrri brtt.

Önnur brtt. gerir svo ráð fyrir, að jafnframt séu úr gildi numin þau tvenn l., sem ég vék að, sem áður hafa fólgið í sér breytingar á 14. gr. l. um síldarverksmiðjur frá 1938.

Ég vænti, að hv. þm. sé þetta ljóst. Aðalatriðið er það, að um efnisbreytingu er ekki að ræða, heldur málið fært í annan búning að formi til.