22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

193. mál, vegalög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það varð að samkomulagi hjá okkur þm. Árn., að hv. samþm. minn skyldi flytja brtt. þær, sem við hugsuðum fyrst og fremst um að flytja að þessu sinni, í hv. Ed., því að eins og hv. þm. vita, á hann þar sæti, en ég flytti ekki hér brtt., þó að annað frv. væri nú komið fram í þessari hv. d. Ukkur fannst það fara betur á því, að við höguðum flutningi þessara mála þannig, heldur en að fara að skipta milli deilda hinum einstöku till. En þegar ég varð þess áskynja — eða við, að þessi háttur yrði hafður á um afgreiðslu þessa máls, að vegalögin mundu verða tekin til meðferðar öll í heild og frv. flutt hér í þessari hv. d., get ég ekki annað en boðað það, að ég mun verða að flytja eina brtt., og það er sakir þess, að hv. samgmn. hefur ekki tekið hana upp í þetta frv. Ég hef flutt aðeins eina till. hér í hv. Nd., þ.e. um Hafnarskeiðsveg frá Þorlákshöfn að Ölfusárósi hjá Óseyrarnesi, og það gerði ég sakir þess, að ég vissi, að það mundi verða byrjað á afgreiðslu þessa máls hér í hv. Nd. En því miður sé ég á þessu frv., að hv. samgmn. hefur ekki tekið til greina þessa brtt. mína. Hv. n. eða nm. höfðu það á orði við mig, að það mundu ekki fást meðmæli vegamálastjóra með þessari till., og sé ég þá, að n. hefur til að byrja með látið það ráða. Ég skil mætavel, að hv. samgmn. sé nokkur vandi á höndum um slíkt mál sem þetta. Og eins og hv. frsm. tók fram, hefur verið sá háttur á hafður um afgreiðslu þessa máls að reyna samkomulag við hv. þm. um afgreiðslu málsins, og ég hef jafnan litið svo á, að sú leið væri sú eina skynsamlega, til þess að væri eitthvert vit í afgreiðslu málsins. Till. hv. n. þykist ég því kunna að meta og vil þakka henni fyrir till., sem snerta mitt hérað og hún hefur tekið til greina. Það er vitaskuld ómögulegt að verða við öllum till., því að það er það mikið ógert og einstakir þm. hafa vitaskuld mikinn áhuga fyrir héruð sín, að koma sem mestu til leiðar til umbóta, eftir því sem þeir gera sér nokkrar vonir um. Þó að hv. frsm. n. hefði nú það hér á orði og óskaði eftir því, að menn flyttu ekki till., vil ég reyndar vona, að ef n. íhugar betur, hvernig ástatt er um þessa till. mína, muni hún fallast á að verða við óskum mínum.

Fyrir hvað er verið að auka vegi um landið? í hvers þágu er það? Það er vitaskuld fyrst og fremst af nauðsyn. Það er fyrst og fremst fyrir þá íbúa héraðanna, sem veganna eiga að njóta, og þá til viðbótar því umbætur á þeim vegum, sem liggja í gegnum héruð og kannske landsmenn meira og minna njóta, menn úr öðrum héruðum. Þess vegna er það, að þegar verið er að koma með nýjar till., er alveg sjálfsagður hlutur að meta nauðsynina, hvað hún er mikil. Og án þess að ég hafi sérstakan kunnugleika alls staðar á þeim nýju vegum, sem ætlazt er til að verði nú samþykktir inn á vegalög, er ég fyrir fram alveg sannfærður um, að enginn vegarspotti af þessum, sem hv. n. leggur til að komi inn á vegalögin, hefur jafnmikla þýðingu og þessi spotti, sem ég legg til að verði tekinn inn á vegalög, þ.e. Hafnarskeiðsvegurinn frá Þorlákshöfn austur að Óseyrarnesi. Það er sakir þess, að þetta er einn þáttur í atvinnu fólks, sem er á annað þúsund íbúa í kauptúnunum Stokkseyri og Eyrarbakka og í þeirri byggð, sem er nú að myndast í Þorlákshöfn. Og þegar hafnargerðin er komin lengra áleiðis, þá er ekkert vafamál, að þarna myndast fljótlega allmikið kauptún og fjölmenni. Ég vék að því ýtarlega í fyrra, þegar rætt var um brúargerðir og samþ. var till. um, að brú hjá Óseyrarnesi á Ölfusá væri sett inn á brúalög, hvernig ástatt væri um þessi kauptún og hvaða þýðingu slík brúargerð hefði fyrir íbúana. Ég get því í þessu efni allmikið vitnað til þeirrar ræðu. En þetta er þáttur í sama máli. Brú verður ekki gerð á Óseyrarnesi öðruvísi en það verður að leggja veginn fyrst að brúarstæðinu, og það veit ég að allir hv. þm. gera sér alveg fullkomlega ljóst, úr því að nú er svo ástatt, að ekki verður hægt að fara með flutninga að brúarstæði öðruvísi en vegur verði gerður, en það er ekki mögulegt. Það skiptir engu máli, hvort horfið verður fljótlega eða ekki að brúarsmiði. Þegar sú ákvörðun verður tekin að hyggja brú á Ölfusá, er óhjákvæmilegt að byrja á því að leggja veginn, og hvað mundi það nú skaða, þó að samþykkt væri að taka þennan veg inn á vegalög? Ekki étur heiti hans, þó að standi á vegalögunum, fé, fyrr en byrjað er á að leggja veginn. Og hvað er þá á móti þessu?

Nú fyrir skömmu hafa bátar frá Stokkseyri og Eyrarbakka sótt sjó frá Þorlákshöfn á aðra viku í einu. Þeir hafa orðið að flytja fiskinn á bátum sínum milli 40–50 km til þess að koma honum í verkun. Á báðum stöðunum eru frystihús, og það er óhjákvæmilegt fyrir þá, þegar þeir koma með aflann á land, að koma fiskinum í verkun. Þetta verða þeir að vinna til, og hver heilskyggn maður getur gert sér grein fyrir því, hver kostnaður er við þetta og hvað miklir erfiðleikar eru á þessu. En þó að þeir losnuðu ekki við það að flytja fiskinn, þá er annað atriði líka í þessu, sem er ekki lítilvægt. Það er með mannflutningana, sem verða á milli þegar þeir sækja sjó. Þá mundi því, unz brúin er komin, verða hagað þannig, að bílar frá Þorlákshöfn bæði færu með og sæktu fólk yfir að Ölfusá, en bílar að austanverðu, frá Stokkseyri og Eyrarbakka, skryppu bæði eftir fólki og með fólk út að ánni, og þá yrði fólkið ferjað á bátum yfir ána. Þungaflutningar allir og þess konar, eins og fiskflutningur, gætu vitaskuld ekki orðið nema þá með alveg sérstökum útbúnaði, sem mundi kosta of fjár, og ég geri tæpast ráð fyrir, að nokkurn tíma yrði horfið að því ráði, heldur mundi verða lagt í brúarsmíðina. Það getur því mjög fljótlega haft hina mestu þýðingu fyrir þetta fólk, að vegurinn verði gerður. Það er ekki nema smáspotti frá Eyrarbakka að austanverðu, en vegarlengdin öll, sem þarf að leggja veg þarna, mun verða um eða lítið yfir 12 km alls.

Þetta er þá það, sem um er að ræða í till. minni, þ.e. að koma því inn á vegalög, að heimild verði til þess að gera þennan veg, og hann getur ráðið þetta miklu, hvort mönnum reynist mögulegt að sækja sjó frá Þorlákshöfn eða ekki. Ég þarf ekki að fjölyrða um það, hvernig ástatt er um sjósókn frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Allir, sem þekkja skerjaklasann fram af ströndinni, geta gert sér í hugarlund, þegar ókyrrt er í sjó og Atlantshafsaldan fellur óbrotin á skerjaklasanum fyrir framan, og þess vegna er það líka á þessum stöðum, að landlegudagarnir hjá sjómönnunum hafa verið svo margir, að í seinni tíð hafa menn flúið með báta sína í burtu, af því að það hefur ekki verið nema brot af vertíðinni, sem þeir hafa getað sótt sjó. Þetta mundi gerbreytast, þrátt fyrir mikla erfiðleika, ef menn kæmust á milli með lítilli fyrirhöfn, og fyrirgreiðsla í þessu efni getur haft mjög mikið að segja, að hægt sé að skjóta mönnum á bil bæði að ánni og frá beinustu leið. Ég þarf ekki heldur að minna hv. dm. á það, að fiskímiðin við Þorlákshöfn eru einhver þau beztu, ef ekki tvímælalaust þau allra beztu, sem eru hér við land. Það er langoftast, að þegar göngufiskur er kominn, þá þurfa þeir ekki að sækja nema svona fjögurra, fimm og upp í tíu mínútna róður frá bryggjunni. Nú er í ráði að gera allverulegar umbætur á höfninni í sumar, og menn vonast eftir að geta gert skjólgarð, svo að skjól verði fyrir 30 eða jafnvel 50 báta, svo að þeir séu ekki í neinni hættu að vetrinum. Þetta gerbreytir allri aðstöðu að sækja sjó frá Þorlákshöfn, því að þrátt fyrir það að komin sé nokkur bryggja, þá vantar alveg þennan skjólgarð fyrir bátana. Það er ætlunin að gera hann í sumar og til hans fengið allmikið fé, sem ég vil vona að nægi til þess, að a.m.k. 30 bátar geti fengið afdrep þar. Og maður vonast eftir því jafnvei á næsta vetri. Þetta mundi þýða það fyrir kauptúnin Stokkseyri og Eyrarbakka, að hvenær sem þeim litist svo, að ekki væri tryggt útlit um að geta sótt sjó að heiman, þá færu þeir með útveg sinn út í Þorlákshöfn og sæktu sjó þaðan.

Ég ætla, að enginn vegarspotti muni hafa meiri þýðingu í atvinnulegu tilliti en einmitt þessi vegarspotti, sem ég flyt hér till. um og óska eftir að tekinn verði inn á vegalög. Vel má vera, að það sé enginn vegarspotti, þegar miðað er við vegalengd, sem hafi jafnmikla þýðingu. Hvað feginn sem ég vildi nú verða við óskum hv. samgmn., þá get ég ómögulega lagt á mig þann kross vegna umbjóðenda minna, — ég gæti það kannske mín vegna, en ég get ómögulega vegna umbjóðenda minna annað en gert það ýtrasta, sem ég get, til þess að fá hv. Alþ. til að sinna þessu máli. Og ég verð að játa hreinskilnislega, að ég skil það ekki, ef hv. samgmn. fellst ekki á að taka þessa till. til greina. Ég vil geta mér þess til, að þegar hún í þetta sinn lætur þessa till. liggja, stafi það af því, að hún hafi ekki nógsamlega komið auga á þýðingu málsins. Hér getur verið fyrir þjóðina ekki svo lítið atriði um að ræða, meira en aðeins þetta fólk þarna í þremur þorpum, sem er á annað þúsund manns, heldur fyrir þjóðina í heild. Víða hefur verið góður afli í vetur, því fer betur, en hvergi uppi í landssteinum önnur eins uppgrip og í Þorlákshöfn, og þeir, sem þekkja okkar fiskisögu, söguna um okkar fiskimið og reynslu þeirra, munu ekki vita dæmi um það, þegar til lengdar lætur, að nein fiskimið jafnist á við miðin í Þorlákshöfn. Hér er því verið að tala um hagsmuni þjóðar, ekki eingöngu þeirra manna, sem fyrst og fremst það snertir, heldur getur verið um mikið verðmæti á mælikvarða þjóðarinnar að ræða. Og víst er um það, að undireins og Þorlákshöfn getur tekið á móti miklum fiskiflota, þá er hann kominn þar. Og meira að segja mundu oft og einatt menn frá þeim verstöðvum, sem hafa góð fiskimið, eins og t.d. Vestmannaeyjum, leita til Þorlákshafnar, þegar óhagstæð eru veður. Þessi vegarspotti skipti kannske ekki miklu fyrir Vestmannaeyinga að þessu leyti, en í öðru tilliti hefur hann þó sína þýðingu, og það er um þær ferðir að sumarlagi, sem eru frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar. Þá mundi fólk taka sér bíl, ef það ætlaði eitthvað áfram, hvort sem það væri nú austur um eða vestur yfir fjall, — þá mundi það fara í vegarsamband við Eyrarbakkaveg, því að það væri stytzta leiðin og sú langhagfelldasta.

Eitt atriði er líka í þessu sambandi, sem rétt er að minnast á, að á meðan ekki verður ráðin bót á sandfokinu, sem stendur yfir veginn, sem nú liggur frá Þorlákshöfn upp á Selvogsveg, yrði það mikið hagræði að geta farið eftir þessum vegi, því að þegar sandfok er mikið, er það ákaflega oft, að hann verður ófær og fólksbílar komast ekki eftir veginum frá Þorlákshöfn upp á Selvogsveginn.

Ég vil því í fullri vinsemd biðja hv. samgmn. að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega, áður en hún gengur frá því til fulls. Mér væri enn kærara, að hv. n. tæki það upp í till. sína og ég þyrfti enga brtt. að flytja, þá get ég orðið við óskum hennar með glöðu geði, og á því færi áreiðanlega bezt.

Hv. frsm. minntist í lok ræðu sinnar lofsamlega á vegamálastjóra, sem senn mun nú sakir aldurs láta af störfum. Ég ætla síður en svo að amast við slíku; hann hefur áreiðanlega rækt starf sitt af alúð og skyldurækni, það þykist ég á mörgu hafa séð. En einstaklega færi vel á því, að hv. vegamálastjóri sæi sér þá fært að vera a.m.k. ekki andvígur því, að slík till. sem þessi kæmi inn á vegalög. Ef ekki strax, þá a.m.k. síðar meir, mundi það verða talið eitt með betri dæmum um það, hve langsýnn hann hefði verið og viljað gera till. sínar þannig úr garði, að þær kæmu almenningi að sem mestum notum og til fyrirgreiðslu.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um málið frekar. Ég vil aðeins endurtaka óskir mínar til hv. samgmn. og óska eftir, að hún láti mér í té vitneskju um það, hvort hún geti ekki orðið við tilmælum mínum, því að annars mun ég neyðast til þess að flytja till. Annað væri fullkomin vanræksla á mínum skyldum, sem ég hef ekki eingöngu við þetta fólk, eins og ég hef sagt áður, heldur og skortur á trúmennsku hjá mér gagnvart þjóð minni og afkomumöguleikum hennar.