22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

193. mál, vegalög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessu frv., sem hv. samgmn. flytur, og þar sem hv. n. hefur starfað að þessu ásamt samgmn. hv. Ed., er þess að vænta, að málið fái afgreiðslu nú á þinginu.

Það er eitt atriði í frv., sem ég vildi óska skýringar á. Það er 5. gr. þess. Hún er um það að breyta nokkuð ákvæðum gildandi laga um girðingar meðfram vegum. Er lagt til, að bilið frá vegi að girðingu verði gert lengra en það þurfti að vera samkvæmt fyrri lagaákvæðum. Nú vil ég leyfa mér að óska upplýsinga frá hv. frsm. um það, hvernig þetta mundi snerta þá mörgu, sem hafa komið upp girðingum, oft um ræktað land meðfram vegum, og hafa farið að öllu leyti eftir þeim lagafyrirmælum, sem þá voru í gildi um þetta atriði. Mundi þeim verða skylt, ef þetta verður samþ., að færa girðingarnar, til þess að þær verði löglegar eftir hinum nýju ákvæðum? Þetta gæti að sjálfsögðu haft allmikinn kostnað í för með sér fyrir marga menn, auk þess sem, eins og ég sagði áður, víða er ræktað land svo nærri vegi sem leyfilegt hefur verið, og gætu þeir því einnig orðið fyrir tjóni af þeim sökum.

Ég sé ekkert að þessu vikið í grg. í frv. og þætti gott að fá nú eða við 2. umr. skýringar á þessu frá hv. nefnd.