25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

193. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forsetl. Samgöngumálanefndir þingsins hafa tekið þetta frv. til athugunar frá því að 1. umr. lauk um það í hv. þd. Hefur frv. verið yfirfarið með vegamálastjóra og borið saman við upprunalegar till. Í ljós hefur komið, að nauðsyn ber til þess að gera smávægilegar leiðréttingar á frv., og hefur n. ákveðið að bera fram örfáar brtt. eingöngu til leiðréttingar við 3. umr. frv. Ég get nefnt dæmi um það, hvers eðlis þessar leiðréttingar eru. Það er um breytingu á nöfnum vega og leiðréttingar, sem jafnvei eru málseðlis. Um sumar hverjar þeirra þarf ekki að bera fram brtt. í hv. þd., heldur er hægt að leiðrétta það í prentun. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fara að fjölyrða um þessar brtt., sem engar eru efnisbreyt. N. var sammála um að bera ekki fram neinar brtt. um efnisbreytingar á frv. og enn fremur um hitt, að mæla gegn öllum slíkum brtt.

Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, hefur n. ásamt vegamálastjóra reynt að koma á móti óskum hv. þm. úr einstökum kjördæmum eins og frekast hefur verið unnt í þessum till. sínum. Hún væntir þess vegna, að ekki verði fram bornar brtt. við frv., hvorki hér í hv. Nd. né í Ed.

Vegna þeirra ummæla, sem féllu hjá hv. 1. þm. Árn. (JörB) við 1. umr. málsins um Hafnarskeiðsveg, vil ég aðeins taka það fram, að n. er að sjálfsögðu ljóst, að þessi vegur er trúlega framtíðarvegur og mjög nauðsynlegur og gagnlegur fyrir þau byggðarlög, sem þar eiga hlut að máll. En þannig er ástatt um fjöldamarga aðra vegi, sem mjög er sótt á af hv. þm. að koma inn á vegalög, en þm. hafa hins vegar sætt sig við að ekki yrðu teknir með í þetta skipti.

Það er að vísu rétt, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að hvorki þessi vegur né aðrir éta fé frá ríkissjóði með því einu að standa í vegalögum. En eins og ég gat um fyrr, má segja það um flesta aðra vegi, sem mörgum hv. þm. er jafnmikið áhugamál að koma inn við þessa opnun vegalaga og honum er það að fá þennan veg tekinn upp. Ég veit, að hv. þm. skilur aðstöðu n. í þessu efni. Það hefur orðið samkomulag um það að bera ekki af hálfu n. fram till. um neinar efnisbreytingar og enn fremur að beina þeim tilmælum til einstakra hv. þm. að bera ekki fram slíkar tillögur. Með því er að sjálfsögðu enginn dómur felldur um þennan veg, að hann sé ekki gagnlegur og nauðsynlegur og eigi ekki að koma í framtíðinni.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. V-Húnv. (SkG) við 1. umr. málsins vil ég taka það fram, að þar sem girðingar hafa verið settar upp í samræmi við núgildandi ákvæði vegalaga um lengd frá vegarbrún eða miðju vega, er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því, að menn verði skyldaðir til þess að taka þær upp og færa þær út í samræmi við hið nýja ákvæði, sem lagt er til að upp verði tekið í þessu frv.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að gera frekari athugasemdir við málið á þessu stigi þess. En við 3. umr. mun samgmn. flytja nokkrar brtt. um leiðréttingar og tilfærslur til betra máls á frv.