25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

193. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Það eru aðeins örfá orð vegna þeirrar brtt., sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) hefur borið fram.

Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, þá er það útkljáð mál í samgöngumálanefndum, að nm. voru sammála um að leggja eindregið til, að ekki verði gerðar efnisbreytingar á frv. Ég tel þess vegna því miður þýðingarlaust að fara fram á það við minn hv. vin, forseta Sþ. (JörB), að taka þessa brtt. aftur til 3. umr.

Ég skil mætavel áhuga hans fyrir þessu máll, sem eins og ég sagði áðan er mál, sem einhvern tíma í framtíðinni verður áreiðanlega leyst. Við eigum allir þm. úr sveitakjördæmum landsins einhver slík börn, sem við vonum að verði í náðinni bæði hjá löggjafanum að því er snertir það að komast á vegalög og hjá fjárveitingavaldinu um fjárveitingu síðar meir. Ég vil þess vegna biðja hv. þm. f.h. samgmn. um að lita alls ekki svo á, að hún sé með þessu að fjandskapast við þarfa og skynsamlega framkvæmd, sem í framtíðinni mun verða unnin. En hv. þm. skilur það, bæði frá fyrri tíð og frá þessum vetri, að það er alls ekki vandalaust verk að ná samkomulagi um afgreiðslu vegalaga. Það er alls ekki vandalaust verk að fá samkomulag milli allra hv. þm. um tillögur, sem menn geta staðið saman um í heild. En að þessu verki hafa samgmn. þingsins unnið sameiginlega og reynt að ná sem beztu samkomulagi við hvern einstakan þm., þannig að hann fái þeim óskum fram komið, sem mesta nauðsyn ber til að lögfesta í vegalögum fyrir hans hérað og það fólk, sem það byggir. Á grundvelli þessa skilnings á eðli þessa máls og meðferðar þess leyfi ég mér f. h. samgmn. að fara þess á leit við hv. þd., að hún breyti frv. ekki við þessa umr.