26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

193. mál, vegalög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér þykir miður, hvað mér gengur illa að fá hv. samgmn. til þess að líta á þetta mál með velvilja. Reyndar fer ekki mikið fyrir þeim rökum, sem færð eru fram gegn þessari till. af hendi hv. frsm., og veit ég þó, að hann er fundvis á rök, ef þau eru til staðar, og honum er sýnt um að túlka sitt mál. En gegn þessari till. minni hefur hv. frsm. ekkert annað fært en það, að þessir 12 km megi ekki koma inn núna. Mér skilst, að ef slíkt hendi, sé eitthvað raskað réttlætinu, sem ríkir í þessu frv. Hv. frsm. hefur ekki heldur efazt um, — og það er ekki hægt, það liggur alveg ljóst fyrir, — að á þessum vegarspotta er afar mikil nauðsyn og að það varðar atvinnulíf eystra mjög miklu, hvort vegurinn verður til eða ekki. Þarna eiga hlut að máli 3 þorp, sem þetta snertir fyrst og fremst. Það eru Stokkseyri og Eyrarbakki, og það er Þorlákshöfn. Í þessum þorpum er á annað þúsund manns. Áður hef ég gert grein fyrir því, hve þetta kynni að greiða fyrir samgöngum.

En hvað sem um þetta er, þá vill hv. frsm. ekki taka það gilt; að þessi till., þessi undur litla till., þessi spotti, megi koma inn á vegalögin, því að þá sé einhverju réttlæti raskað. Ég get ekki tekið það öðruvísi. Hann hefur gefið góðar vonir um, að næst þegar vegalög verði opnuð komi þessi till. og verði vafalaust samþ. Ja, segjum það. Er endilega víst, að þá standi mikið öðruvísi á? Er það sjálfsagður hlutur, að þeir menn, sem koma til með að fjalla um þetta, liti þannig á þá fremur en hv. samgmn. kann að gera nú? Ég efast nú reyndar um, að öll n. geri það, en einhverjir vafalaust; það er auðséð.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. frsm. telji alveg sjálfsagt, að nm. verði næst hinir sömu, en eftir því sem hann taldi að málið kæmi til meðferðar á ný, þá verður það þó ekki fyrr en eftir næstu kosningar. Ég er nú engu að spá um það, hvort þessir hv. þm. komi allir; það liggur mér í léttu rúmi, því að það er ekki það atriði, sem ég er að fást um. En út frá þessu tali hv. frsm. hef ég ekki getað annað en litið á þetta mál, hvernig það liggur fyrir.

Þá er það um málið að segja, að engin sýsla á landinu hefur nándar nærri jafnlanga sýsluvegi sem Árnessýsla. Þrjár sýslur á landinu hafa aðeins lengri hreppavegi en Árnessýsla, en þar munar mjög litlu. Árnessýsla hefur hvað gjöld áhrærir til sýsluvegasjóðs jafnan verið í hámarki með greiðslur til vegalagningar, svo að ekki þarf þetta að hindra það, að þessi spotti bætist við. Nú er lagt til, að þjóðvegir í Árnessýslu lengist um 35 km, og það tjái ég n. þakkir fyrir. Ef þessum 12 væri bætt við, þá yrðu þetta 47 km. Hvað þetta atriði áhrærir yrði engu réttlæti raskað. Það mundi samt sem áður stórhalla á Árnessýslu í þessum efnum, svo að ekki þyrfti það að koma mjög við tilfinningar manna í þessum efnum. En það er ekki þetta atriði, sem mér er svo einkar hugarhaldið að gera að umtalsefni. Ég hef aldrei tamið mér það í meðferð mála hér á þingi að vera öðrum mönnum þröskuldur í vegi með þau umbótamál, sem þeir hafa barizt fyrir og ég hef talið að ættu skilið að fá fyrirgreiðslu, og það er vitaskuld jafnan höfuðatriðið. En þegar til viðbótar koma þær ástæður, sem ég hef nú fært fram um réttmæti þessa liðsinnis við héraðsbúa, þá skilst mér, að enn síður ættu menn að hafa hvöt til þess að standa í vegi fyrir því, að þessum óskum yrði fullnægt.

Ég hef áður gert grein fyrir því, að þessi vegur kemur að fullu gagni, þ.e. sem vegur austur að ánni, hvað fólksflutninga áhrærir, ferðalög á milli þessara staða, þó að brúin komi ekki. Nú þessa dagana er verið að smala mönnum víðs vegar úr bæði kauptúnum og austur um sveitir til þess að hjálpa til við aflann í Þorlákshöfn, en þeir verða að aka milli 40 og 50 km og sumir lengra, í stað þess að það yrðu ekki nema 12–15 km eftir því, úr hvaða þorpinu þeir kæmu austan að, sem þeir þyrftu að aka, ef vegur kæmi að ánni og fólkið yrði svo ferjað á bát yfir Ölfusá.

Síðastliðinn laugardag öfluðu þeir 6 bátar, sem núna eru gerðir út frá Þorlákshöfn, 187 lestir af fiski. Sumir þríhlóðu. Einn báturinn, sem þríhlóð, — það er ekki stór bátur, 17 tonna, aflaði 45 lestir í hvert skipti, og róðurinn frá bryggju á þær stöðvar, þar sem aflað er, var um 50 mínútur, og það er nú reyndar oft miklu styttri sigling en þarna. Það er mér alveg dulið og hrein ráðgáta, hvað vakir fyrir þeim hv. þm., sem í n. eru, að standa á móti þessu, nema það eigi að fara að skoða það sem ekkert góðverk fyrir þjóðina að afla verðmæta úr sjó og verka aflann, gera hann að verðmætri vöru í þágu þjóðarinnar allrar meira og minna.

Ég veit ekki, hvort ég skil það rétt, — ég held það hljóti að vera samt, — að þessar nýju till., sem hv. n. leggur til að samþ. verði, séu viðbót við þjóðvegina, sem eru á skránni og fyrir eru, og að sama skapi styttist annaðhvort hreppavegir eða sýsluvegir, stundum kannske hvort tveggja. Ég held, að það hljóti að vera þannig, því að annars get ég ekki fundið út, hvað tölurnar ættu að merkja. Ég vildi nú gjarnan spyrja hv. frsm., hvort ég skil þetta ekki rétt, ef hann vildi gera svo vel bara að skjóta því inn í, að viðbótartill. um þjóðvegina, þessa nýju, komi til viðbótar við töluna, sem er á skránni, og séu þá annaðhvort teknar af sýsluvegum, þ.e.a.s. þeir styttist um það, eða hreppavegum eða kannske hvorum tveggja, eftir því sem á stendur. (Gripið fram í.) Hv. frsm. segir, að það sé rétt skilið.

Þá vil ég og geta um, ekki af því að ég ætli að fara að átelja það, að í einni sýslu, það varðar ekkert um, hver hún er, eru hreppavegir og sýsluvegir til saman 53.6 km. Till. n. er, að í þessu héraði séu 45.5 km gerðir að þjóðvegum. Eftír eru þá 8.1 km sýsluvegir og hreppavegir í héraðinu öllu. Ég er ekkert að átelja þetta. Þetta má gjarnan vera svo fyrir mér. En ef maður ber það saman við héruð, þar sem eru mörg hundruð km og vegir hafa áratugum saman verið í hámarki, eftir því sem l. leyfa með tillög til vega, þá er þetta eitthvað skrýtið réttlæti, ef ekki stendur eitthvað alveg sérstaklega á, og það liggur ekki fyrir þarna; það þekki ég. Ég er ekki að taka þetta fram af því, að ég ætli að fara að átelja það eða vera meinsmaður neins. En ég vil gjarnan benda hv. frsm. á, að það verður að vera eitthvert samræmi í hlutunum, ef menn ætla að geta rökstutt mál sitt með því, að réttsýni ráði. Öðru máli er að gegna náttúrlega, ef ofbeldi á að ráða, hnefaréttur, þá þarf engan rökstuðning, — bara þetta skal gilda, hvort sem það er gott eða illt. En það hefði ég haldið, að við hv. þm. N-Ísf. vildum ekki fylgja slíkri stefnu.

Nú skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég skírskota máli mínu til allra sanngjarnra hv. dm. og skora eindregið á þá að vera með jafnsjálfsögðu máli og þessu. Það er ekki mín vegna, sem þetta er gert. Það er fyrir það fólk og þjóðina, sem á að njóta þess, og ef það eru einhverjir hér í hv. d., sem endilega vilja vera meinsmenn þessa fólks, þá verða þeir náttúrlega að velja sér það hlutskipti; við það fæ ég ekki ráðið. Ég hef reynt að leggja málið svo ljóst fram, að menn viti, hvað hér er um að tefla, og lengra má náttúrlega ekki mínar röksemdir. En þær óskir hef ég fram að færa til hv. dm., að þeir gæti réttsýni við afgreiðslu þessa máls.

Ég skoraði á hv. frsm. við 2. umr. málsins, að ef hann gæti borið saman, þótt ekki væri nema einhvern smávegakafla af þessum till., sem fyrir liggja, sem hefði jafngildar ástæður til þess að vera tekinn með og þessi, þá væri mér þökk á, að hann væri nefndur. Það hefur frsm. ekki gert, og það get ég heldur ekki ætlazt til, því að það er alls ekki til staðar. Ég hef lesið þessar till., sem gerðar eru, farið nákvæmlega í gegnum frv., og slíkt fyrirfinnst ekki. Hitt er annað mál, að það getur átt fullan rétt á sér fyrir því, því að mismiklar þarfir eru fyrir umbætur, og um slíkt verður ekki fengizt.