15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sannaði það enn sem fyrr, að sjaldan bregður mær vana sínum. Það er greinilegt, að hann og flokksbræður hans eru sannfærðir um, að flest illt í þessu þjóðfélagi eigi eitthvað skylt við mig, og sjá mig alls staðar, þar sem þeim stendur einhver uggur af, með svipuðum hætti og greinilegt er, að hv. þm. telur alla blessun þjóðlífsins stafa af myndun nýsköpunarstjórnarinnar á sínum tíma og þá ekki sízt sínum eigin afrekum í því sambandi. Ég skal ekki fara að rekja þá sögu, en nær er mér að halda, að hv. 2. þm. Reykv. muni ógjarnan vilja lýsa því berum orðum yfir, að ég hafi hvergi nærri þeirri stjórnarmyndun komið eða átt töluverðan þátt í henni.

Þó að ég hafi verið mikill hvatamaður nýsköpunarstjórnarinnar á sínum tíma og telji, án þess að ég ætli mér að fara hér í nokkurn mannjöfnuð eða sjálfshól, að ég eigi þar nokkurn hlut að ásamt öðrum, þá tel ég, að því fari fjarri, að það geti staðizt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði áðan, að hann og hæstv. forsrh. — og talaði þá um þá sem höfuðhöfunda nýsköpunarstjórnarinnar — hefðu komið fótunum undir Eimskipafélag Íslands 1944. Ja, ég spyr: Með hvaða hætti komu þessir góðu menn eða aðrir stuðningsmenn nýsköpunarstjórnarinnar fótunum undir Eimskipafélagið 1944? Ég held sannast sagt, að það sé alþjóð vitað, að Eimskipafélag Íslands hafði að langmestu eða mjög miklu leyti fyrir 1944 og alveg án tillits til allra aðgerða nýsköpunarstjórnarinnar safnað þeim sjóðum, sem hafa orðið grundvöllur til þeirra miklu skipabygginga, sem síðan hafa áít sér stað. Það er þá það eitt, að hv. þm. telji sér það til lofs, að hann hafi ekki lagt í þessa sjóði og rænt þeim og haft þá til annarra hluta. Það er vitað, að Eimskipafélag Íslands var skattfrjálst löngu áður en nýsköpunarstjórnin var stofnuð og að sjóðum Eimskipafélagsins, sem síðan hefur verið varið til þess að byggja upp hinn mikla, glæsilega skipaflota, var safnað að verulegu leyti í stríðinu, og ég minnist þess sérstaklega, að eitt af þeim efnum, sem mjög fór fyrir brjóstið á sumum, — ég tilgreini þar ekki sérstaklega hv. 2. þm. Reykv., — en eitt, sem fór fyrir brjóstið á sumum mjög við stjórnarmyndun 1944, var það, hvort ætti að leyfa Eimskipafélagi Íslands að hafa „jafnóhæfilegan“ gróða áfram eins og það hefði haft sérstaklega á árúnum 1942 og 1943, — þann „óhæfilega“ gróða, sem þá óx ýmsum í augum og mjög var úr gert, en núna er fólginn í skipunum hér niðri við höfnina og hefur runnið til mikillar vinnu bæði sjómanna og verkamanna í þessum bæ og hefur átt mjög mikinn þátt í því að byggja upp íslenzkt atvinnulíf.

Það er sem sé algerlega rangt — og ég vil segja: Það er vísvitandi rangt að tala um Eimskipafélag Íslands og þess gróða sem auðmannagróða, er renni í fárra manna vasa og verði fáum mönnum sérstaklega til hags eða ávinnings. Allt það fé, sem til félagsins hefur komið og hefur orðið til þess gróða, hefur farið í uppbyggingu skipaflotans og starfrækslu honum til fyrirgreiðslu og að nokkru leyti, eins og kunnugt er, sem hlutafé í Flugfélag Íslands, en hluthafarnir sjálfir hafa aldrei fengið nema 4% á ári af því, sem þeir upphaflega lögðu fram. Það er einnig vitað, að það þyrfti ekki og þarf ekki að vera að tala um skattfrelsi til handa Eimskipafélagi Íslands nú vegna þess, að hætta væri á því, að félagið lenti í tilfinnanlegum skatti, jafnvel þótt fullar skattareglur giltu um félagið, því að á þessu ári og þeim árum, sem nú eru að líða, hygg ég, eða svo hefur það a.m.k. verið fram að þessu, að lögheimilaðar afskriftir félagsins hafi verið svo miklar, að til lítillar eða engrar skattgreiðslu mundi hafa komið. Um gróða af félaginu er ekki að ræða hjá neinum öðrum en þeim, sem atvinnu hafa við félagið beint eða óbeint, fyrst og fremst hjá íslenzku farmannastéttinni, hjá verkamönnum hér í Reykjavík og víðs vegar annars staðar og þjóðfélaginu í heild, sem notið hefur góðs af því uppbyggingarstarfi, sem unnið hefur verið í og innan Eimskipafélags Íslands.

Þetta eru staðreyndir, sem er sjálfsagt að hér komi fram, og það óneitanlega lýsir meira en lítilli tvöfeldni og sannast sagt óskammfeilni, þegar þessi hv. þm. annars vegar er að tala um Eimskipafélag Íslands sem sérstakt fjárplógsfyrirtæki og þess óhæfilegu skipagjöld og hins vegar forstjórann, sem þar hefur unnið og er að þakka að langmestu það uppbyggingarstarf, sem unnið hefur verið, og fyrst og fremst og öllum öðrum fremur ber ábyrgð á því, hvernig félagið hefur verið rekið, — að tala um hann sem fjandmann þeirrar stefnu, sem félagið hefur verið rekið samkvæmt. Hv. þm. veit ósköp vel, að hann er með blekkingar í þessu skyni, og blekkingarnar urðu helzt til auðsæjar, þegar hann vildi, þessi hv. þm., halda því fram, að vegna þess að ég á s.l. aðalfundi var kosinn í stjórn Eimskipafélags Íslands, væri Eimskipafélagið nú í lengra verkfalli en nokkru sinni áður. Hv. þm. sagði nú sjálfur: Verkamenn í Reykjavík hafa séð framan í lengra verkfall en þetta, og þeim blöskrar það því ekki. — Ekki var ég þá í stjórn Eimskipafélags Íslands. Og hv. alþingísmenn og allur almenningur á Íslandi kannast ósköp vel við það nið og þau illyrði, sem stöðugt voru látin dynja á Eggerti heitnum Claessen, sem var næst Guðmundi Vilhjálmssyni höfuðforustumaður þessa félags á síðustu áratugum, meðan hann lifði, og ég skammast mín sízt fyrir það, ef hlutur minn í þessu félagi yrði einhvern tíma sambærilegur við verk þess ágætismanns. En meðan hann lifði, var hann níddur og svívirtur og talinn vera höfuðfjandmaður verkalýðsins.

Nei, það er engin nýjung, að ráðizt sé á Eimskipafélag Íslands og þess forustumenn í samþandi við vinnudeilur, enda er eðillegt, að þeir blandist inn í slíkar deilur, þar sem Eimskipafélag Íslands er einn höfuðatvinnurekandi landsins.

Um afskipti mín af þessari vinnudeilu þarf ég hins vegar ekki að fara í neinar grafgötur. Það liggur alveg ljóst fyrir öllum, sem um það vilja vita, og alþjóð. Fyrir rúmum mánuði flutti ég hér á Alþ. í þessum stól tvisvar ræðu til stuðnings og málaleitunar um það, að verkfallinu, sem þá var yfirvofandi, yrði frestað, meðan rannsókn á ýmsum höfuðatriðum þessa máls yrði komið fram, og ég sagði og lagði á það megináherzlu, að ég teldi sjálfsagt, að verkalýðurinn tryggði það og sæi um það, að ekki yrði gengið á haus hlut um skiptingu þjóðarteknanna frá því, sem verið hefði. En ég taldi, að greinilegt væri samkvæmt því, sem þá hefði komið fram, að hugmyndir manna um þau efni, þeirra er stóðu fyrir verkfallinu, væru svo ólíkar hugmyndum flestra annarra, að mjög ólíklegt væri, að saman gæti gengið vandræðalaust. Og einmitt vegna þess, að mér var þetta ljóst, beitti ég mér fyrir og gerði að eindreginni till., að tekin yrðu upp hófsamlegri og skynsamlegri vinnubrögð í þessum efnum en ofan á urðu.

Ég efast ekki um það, að allur almenningur í þessum bæ mundi nú miklu fremur hafa kosið, að sú leið hefði verið valin, sem ég og sumir aðrir gerðumst þá talsmenn að. Þeir hefðu fremur kosið, að Alþýðusamband Íslands hefði gerzt aðili að þeirri rannsókuarnefnd, sem ríkisstj. stakk upp á, og verkfallinu hefði verið frestað, meðan þeirri nefnd gafst færi á því að vinna sín störf. Því miður var það ráð ekki tekið, og verður þó enn og aftur að spyrja: Hvaða ástæða gat legið til þess, að sá háttur var ekki hafður? Látum jafnvel vera, að Alþýðusamband Íslands og þess forustumenn hefðu sagt, að þeir treystu sér ekki til að fresta verkfallinu, en að þeir vildu þó tilnefna menn í þessa rannsóknarnefnd. Hvernig stendur á því, að þeir fengust ekki einu sinni til þess að bera fram þá miðlunartillögu, heldur neituðu algerlega að taka þátt í þessari rannsókn? Svo kemur hv. 2. þm. Reykv. hér og heimtar, að ýmissa upplýsinga sé aflað í hv. fjhn. þessarar d. varðandi hag Eimskipafélags Íslands.

Ef farið hefði verið að till. ríkisstj. um lausn þessa máls, þá hefði sú n., sem fulltrúar A.S.Í. áttu að hafa fulltrúa í, nú getað verið búin að vinna að þessu máli allar þær vikur og nokkru lengur en verkfallið hefur staðið. Þá væri búið með hlutlausri rannsókn að fá grundvöll til efnislegra umr. um þessi efni. Þá þyrfti ekki slíkar fullyrðingar, þá þyrfti ekki slíkar getgátur, slíkar hálfkveðnar vísur sem hv. 2. þm. Reykv. er nú að reyna að sefa fylgismenn sína með. Og það er sannast sagt nokkuð of ljóst dæmi um blygðunarleysi hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræðra í málflutningi, þegar hann leyfir sér í sambandi við þetta verkfall að halda því fram, að til þess sé sérstaklega efnt af innsta hring Sjálfstfl. Það er þvert á móti vitað og upplýst, að flokksbræður hv. 2. þm. Reykv., og mikið má vera, ef hann hefur ekki sjálfur skrifað um það greinar og flutt ræður, ég hef ekki fylgzt glögglega með því, — en flokksbræður hans hafa ekkert farið dult með það, að þetta verkfall væri fyrst og fremst pólitískt verkfall, væri fyrst og fremst verkfall til þess að koma fram öðru en þeim fjárkröfum, sem að nafninu til eru bornar fram. Þessu var skýlaust lýst fyrir fram, og kröfurnar, sem settar hafa verið fram, eru þess eðlis, að engum manni í þessu bæjarfélagi eða á Íslandi blandast hugur um, að þetta eru staðreyndir. Hv. 2. þm. Reykv. má ekki ímynda sér, að hann með málskrafi sínu geti skafið þetta út úr huga almennings, jafnvei þó að hann sjái nú, að með þessu hafi þeir ofmælt og ekki farið hyggilega að. Ég fagna því vissulega, ef hv. 2. þm. Reykv. er nú virkilega genginn af hinni fyrri villu, þeirri villu að láta sér detta í hug, að þetta verkfall gæti orðið til þess að stelpa ríkisstj., koma hér á stjórnarskiptum og öðru slíku, sem skiljanlegt er að einhverjir vilji í því landi, þar sem lýðfrelsi ræður, en vitanlega á að koma fram eftir öðrum leiðum en þessari. Ef hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræður eru nú fallnir frá þessum hugmyndum og þessum yfirlýsta tilgangi sínum með verkfallinu, þá er sannarlega mikið unnið, og þá kann svo að fara, að það takist, sem allir góðviljaðir menn vissulega hljóta að vona og biðja um að megi takast, að þetta verkfall verði leyst sem fyrst, þessu þjóðarböli verði sem fyrst bægt frá. En það tekst því aðeins, að menn fáist til þess að skoða þetta sem efnahagslega deilu, sem fjárhagsdeilu, og leysa það innan marka þess, sem mögulegt er í þeim efnum, en ætli sér ekki að nota þetta sem tæki til að koma fram sínum pólitísku áhugamálum, gersamlega óskyldum þeim, sem verkfallið í raun og veru ætti að snúast um, ef meiningin er sú ein að hugsa um fjárhag og raunverulegar tekjur verkalýðsins.

Ég hef ekkert lagt til, hvergi þar sem ég hef verið að því spurður, annað í þessum málum en það, sem ég hef nú sagt og stenzt alla rannsókn. Hversu nákvæm sem hún verður, þá mun það reynast rétt, sem ég hef nú sagt. En hv. 2. þm. Reykv. veit ósköp vel, að hans fylgismenn, hans málgagn, hans málpípur hafa sagt, að verkfallið væri fyrst og fremst pólitískt verkfall, væri ekki nema að litlu leyti um þau launakjör, sem það er þó að öðru leytinu sagt eiga að fjalla um eða snúast um.

En hitt er skiljanlegt, og við vitum það allir, hvað sem við segjum að öðru leyti um þá hörmulegu deilu, sem hér hefur átt sér stað, að hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans vita, að þeirra upphaflega stefna, þeirra upphaflegi vilji hefur þegar beðið skipbrot. Þeir hafa þegar orðið þess áþreifanlega varir; að þeir hafa misreiknað sig í þessari deilu, að hún verður þeim ekki til þess pólitíska ávinnings, sem þeir höfðu vonað. Þeir finna það glögglega, að almenningur vill, að verkfallið sé leyst eftir fjárhagslegum leiðum með það fyrir augum, hvernig verkalýðurinn geti skapað sér sem bezt lífskjör, en almenningur fordæmir hinar pólitísku áætlanir og svívirðilegu „spekulationir“, sem kommúnistaflokkurinn sérstaklega hefur haft í frammi í sambandi við þetta verkfall, og það er enginn efi á því, að allur almenningur er nú orðinn sannfærður um, að betur hefði farið, ef ráðum ríkisstj. hefði verið fylgt og þeirri hlutlausu rannsókn komið af stað, sem ríkisstj. á sínum tíma gerði till um.

Við sjáum þess getið, að það er verið með söfnun handa verkfallsfólki, og það er talið, að hún gangi mjög vel. Fróðir menn hafa sagt mér, að það svari nokkurn veginn til þess, sú söfnun, að hægt væri að láta hvern þann mann, sem í verkfallinu er, hafa sem svarar 40 kr. á viku frá því verkfallið var hafið. Við heyrðum líka, að nú er því hampað framan í verkfallsfólk, að leitað hafi verið eftír fjárstyrk frá verkalýðssamböndum á Norðurlöndum, í Englandi og hjá alþjóðasambandi, sem Alþýðusambandið sé í.

Það er eðlilegt, að þeir, sem hafa steypt almenningi út í þetta ónauðsynlega verkfall, reyni á einhvern hátt að bæta verkfallsfólkinu þetta. Það er skiljanlegt, og það ber að þakka út af fyrir sig. En í því sambandi er þó eðlilegt, að spurt sé: Hvað varð um það fé, sem sagt var að fengizt hefði frá einhverju alþjóðasambandi í desember 1952 og átti þá að renna til verkfallsfólksins? Kom það nokkurn tíma fram? Og ef svo var ekki, hver hefur það fé þá með höndum? Væri ekki mögulegt að verja því fé nú til þess að bæta úr sárustu neyð þeirra, sem búnir eru að vera í tilgangslausu verkfalli í fjórar vikur? Ég segi, að verkfallið sé tilgangslaust, vegna þess að verkfall, sem ekki er háð til þess að ná því fram, sem fjárhagslega er mögulegt, verður engum til góðs. Það er því aðeins, að farið sé fram á og leitað sé eftir því, sem mögulegt er að láta innan fjárhagskerfis þjóðarinnar, sem líklegt er, að jafnvel sýndarsigur kynni að verða verkfallsmönnum að gagni. Ríkisstj. vildi beita sér fyrir því og sýndi það með till. um þá nefndarskipun, sem hún bar fram, að hún vildi beita sér fyrir því, að verkamenn fengju allt það, sem fjárhagskerfi þjóðarinnar gæti þolað. Það voru forustumenn Alþýðusambandsins, sem hindruðu það, að rannsóknin gæti átt sér stað, en ef þeir tryðu á sinn málstað, þá hefðu þeir vissulega séð, að sú hlutlausa rannsókn, sem ekki aðeins var borin fram, heldur beðið var um, hefði orðið styrkasta vopnið í þeirra höndum til þess að koma kröfunum fram. Á þetta vildu þeir ekki fallast. En ef þeir hefðu fallizt á það, þá hefðu þeir sennilega baráttulaust getað náð miklu betri árangri raunverulega til handa sínum umbjóðendum en þeir geta með öllum þeim þjáningum, sem þeir nú leggja á landslýðinn. Þessir menn eiga því eftir að verða kvaddir til reikningsskapar af alþjóð fyrir frammistöðu sína í þessu máli, og þeim mun ekki takast að koma ábyrgðinni af sér, þeirri þungu ábyrgð, yfir á neina aðra og allra sízt á þá, sem staðið hafa að þeim till., sem mundu, ef fylgt hefði verið, hafa leitt til þess, að komizt hefði verið hjá þeim þjóðarvoða, sem þessir afglapar hafa nú stefnt almenningi í.