15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur verið nokkurn veginn öruggt og víst á tveggja ára fresti, að fram kæmi hér á Alþ. frv. um skattfrelsi Eimskipafélags Íslands. Það hefur ekki brugðizt fremur nú en venjulega. Þetta frv. er komið fram og er flutt af hæstv. forsrh. (ÓTh). En dálítið er frv. breytt frá því, sem það hefur verið. Það hefur venjulega verið þannig, að þetta skattfrelsi hefur verið samkvæmt frv. framlengt til tveggja ára í senn. Nú er það framlengt fyrir árið 1955 samkv. frv. og hnýtt aftan í því skilyrði, að félaginu skuli skylt að verja afgangi sínum, eftir að það hafi greitt venjulegan 4% arð, sjóðstillög og útsvör samkv. l. frá 1928, til kaupa á skipum eða á annan hátt í þágu samgöngumála. Ég hefði nú haldið, að þessi stutta frvgr. hefði mátt vera styttri og þessi hali hefði ekki þurft að vera; það ætti ekki að þurfa að skylda óskabarn íslenzku þjóðarinnar með lögum til þess að taka ekki fé út úr rekstri sínum. Félagið er vitanlega stofnað til þess og starfrækt að halda uppi siglingum, starfa í þágu samgöngumála. Ég veit ekki annað en það sé lögbrot að taka fé út úr rekstri hlutafélaga til annarra hlutverka en þeim er ætlað samkvæmt sinni stofnskrá.

Ég þykist sjá, að úr því að frv. nú er aðeins framlengt til eins árs, þá muni það eiga einhverja átakasögu innan stjórnarfiokkanna að baki sér, og efast ekki um, að það er Framsfl., sem hefur nú ekki kært sig um að framlengja þetta skattfrelsi lengra fram í tímann en líklegt þætti að hjónaband ríkisstjórnarflokkanna entist. En það má vel vera, að hjúskaparsáttmálinn sé ekki nema til ársloka 1955.

Nú skal ég taka það fram, að ég var einn þeirra, sem glöddust og fögnuðu, þegar Eimskipafélag Íslands hóf göngu sína. Þá var ég unglingur, og ég man alltaf eftir því, þegar ég í fyrsta sinn reri á árabát fyrir stefnið á Gullfossi gamla, þegar hann kom í fyrsta sinn á þann verzlunarstað, þar sem ég ólst upp. — Ég hefði talið, að það væri eðlilegur hlutur, að félagið fengi þá aðstoð frá þjóðfélaginu til þess að komast yfir byrjunarörðugleika og vaxa sig stórt og sterkt. Og það fékk þá aðstoð frá þjóðfélagsins hendi.

Það fékk og hefur notið skattfrelsis. Samkvæmt lögunum, sem enn eru í gildi frá 1928, hefur það alltaf notið skattfrelsis og á verulegan hluta af vexti sínum og viðgangi því að þakka, að það hefur notið þannig þjóðfélagslegrar verndar og hjálpar og aðstoðar í starfi sínu, sem vitanlega átti að vera að öllu leyti starf fyrir þjóðina og þjóðfélagið í heild, en ekki fyrir neinar fáar ríkar fjölskyldur.

Nú tel ég, að þetta ágæta fyrirtæki hljóti að vera komið yfir byrjunarörðugleika og búið að njóta slíkrar hjálpar og aðstoðar frá þjóðfélaginu, að það sé ekki í hættu statt, þó að það sé látið bera byrðar skatta til þjóðfélagsins líkt og ætlazt er til um önnur hlutafélög, og hefði því viljað vona, að sú stund væri runnin upp, að þetta frv. hætti að sýna sig.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að því í sinni ræðu, að 1944 hefði þjóðfélagið undir þeirri stjórn, sem þá fór hér með völd, veitt þessu félagi mikilsverða aðstoð til þess að endurnýja skipaflota sinn og það væri nú sá skipafloti, sá glæsilegi floti, sem bundinn er hér í Reykjavíkurhöfn í dag. Ég er þess minnugur, að á stríðsárunum, það var áður en nýsköpunarstjórnin komst á laggir, eins og hæstv. dómrsrh. vék að hér áðan, þá var lagður grundvöllurinn að þessu með þeim hætti, að stjórnarvöld landsins lögðu þá aðstöðu í hendur Eimskipafélagsins að fá þau leiguskip, sem þá voru tekin í þjónustu íslenzkra flutninga á stríðsárunum, þessi stóru flutningaskip, sem skiluðu Eimskipafélaginu milljónatuga gróða, á sama tíma sem tap var á litlu Eimskipafélagsskipunum gömlu. Ég hefði haldið, að ef það hefði verið meining stjórnarvaldanna þá fyrst og fremst að tryggja grundvöll að íslenzkum skipastóli fyrir íslenzku þjóðina, en ekki fyrir eitt hlutafélag í landinu, þá hefði verið nær að muna eftir því, að íslenzka ríkið á Skipaútgerð ríkisins, sem er ætlað það hlutverk að halda uppi siglingum meðfram ströndinni með vitanlegu tapi, þá hefði verið hugsað um það að heimila henni að taka leiguskipin í sína þjónustu á stríðsárunum og verja þeim gróða til þess, að Skipaútgerð ríkisins eignaðist ný skip, ekki siður glæsileg en þau, sem Eimskipafélag Íslands fékk fyrir þjóðfélagshjálp og aðstoð — að óverðugu — að kaupa fyrir gróðann af leiguskipunum. En það gleymdist, að ríkið átti skipastól, sem innti nauðsynlegt hlutverk af höndum með taprekstri og hefði átt einmitt að fá gróðann af erlendu leiguskipunum, sem voru hingað fengið fyrir milligöngu íslenzkra ríkisstjórnarvalda.

Svo vel hefði samt Eimskipafélag Íslands getað haldið á þessum gróða, að enginn hefði um það sakazt eftir á, þó að Eimskipafélagið væri þarna jafnvei tekið fram fyrir Skipaútgerð ríkisins sjálfs. En því miður má ýmislegt að rekstri Eimskipafélagsins finna og m.a. það, að það núna hvað eftir annað heldur sér og sínum styrkleika, sem er fenginn fyrir þjóðfélagsaðstoð, framarlega í átökunum milli atvinnurekendavalds og verkalýðssamtaka, og það ber að harma. Það er ekki í þágu samgöngumála samkvæmt skilyrðum í þessu frv. að binda Eimskipafélagsskipin í höfn í hverju verkfallinu á fætur öðru út af sanngjörnum kröfum, sem bornar eru fram. Það er ekki í þágu samgöngumála á Íslandi að binda Eimskipafélagsskipin tvisvar sinnum á þeim tíma, sem liðinn er af þessu ári, í verkföllum. Og það eitt ætti í raun og veru að nægja til þess, ef það væri rétt túlkað, að félagið, þó að þetta frv. verði samþykkt, fengi ekki skattfrelsi.

Ég tel víst, að ef Skipaútgerð ríkisins hefði fengið þá aðstöðu, sem Eimskipafélaginu var fengin í hendur með leiguskipunum á stríðsárunum, þá hefði Skipaútgerð ríkisins nú átt allstóran millilandaskipastól. Og Skipaútgerð ríkisins hefur þó hagað sér það skynsamlega í þessu verkfalli og af þeirri ábyrgðartilfinningu, að útgerðin hefur ekki dregizt inn í verkfallið, og ég geri þess vegna ráð fyrir, að nú hefði verið hér í förum á vegum Skipaútgerðar ríkisins stór millilandaskipafloti, sem hefði haldið sér utan við verkfallsátökin og verið þannig í þjónustu samgöngumála þjóðarinnar.

Hæstv. dómsmrh. hélt því fram áðan, að samkvæmt lagaheimildum um afskriftir mundi það hafa orðið reyndin á undanförnum árum, að það hefði eiginlega komið til lítilla eða engra skattgreiðslna af hendi Eimskipafélags Íslands, þó að það hefði ekki notið skattfrelsis. Ég spyr: Til hvers er þá verið að bjástra með þetta skattfrelsisfrv. hér annað hvert ár og nú sennilega á ári hverju á næstunni, ef þetta er enginn hagur fyrir Eimskipafélagið 1 Hæstv. dómsmrh. hlýtur að svara. Það er enginn vafi á því, að þetta frv. er sífellt afturganga á Alþ. af því, að þetta hlýtur að spara Eimskipafélagi Íslands stórfé. Og það verð ég að segja, að það letur mig talsvert að mæla með áframhaldandi skattfrelsi til Eimskipafélags Íslands, þegar ég horfi upp á það, að þetta félag ver hundruðum þúsunda — sennilega milljónum — í herkostnað gegn verkalýð landsins í hverju verkfallinu á fætur öðru. Það á ekki að verja skattfrelsi Eimskipafélagsins til þess að fjandskapast við verkalýð landsins. Hafi það gróða af sínum rekstri, sem það hefur, þá á það að verja honum til einhvers annars gagnlegra en þess.

Ég skal hins vegar játa það, að ýmislegt má gott segja um Eimskipafélag Íslands, m.a. það, að núna í verkfallinu heldur þetta félag uppi mjög svo gagnlegri sýnikennslu fyrir Reykvíkinga. Ég hvet þá til að ganga hér niður á hafnarbakkann og notfæra sér þá kennslu. Allur þessi glæsilegi floti Eimskipafélagsins og þau skip skipaútgerðar S.Í.S., sem eru hérna í höfninni núna, sýna okkur það, að á þeim sama tíma sem sagt er, að þjóðfélagið hafi ekki efni á því að hækka kaup þess verkamanns, sem vinnur 8 stundir á dag hvern virkan dag, í 3864 kr., eru hér öll kaupskipin, sem liggja í höfninni, alsett lúxusbílum milli stafna, hvert eitt einasta. Það eru fluttir bílar á þilfari þessara skipa í hverri ferð, þannig að það er ekki nokkur smuga nokkurs staðar á þilfari þeirra fyrir bílum. Það virðast vera þúsundir manna í þessu landi, sem hafa tiltækar 90–100 þús. kr. til þess að kaupa lúxusbíla fyrir, og skipastóll S.Í.S. og Eimskipafélagsins hefur ekki við að flytja þetta góss til gróðamanna í landinu. Það er sönnun fyrir því, að óhóflegur gróði eigi sér stað í þjóðfélaginu, á sama tíma sem verkalýðnum er synjað um sanngjarnar kaupkröfur og lagfæringu á sínum lífskjörum. Betri sönnun er ekki til. Þessa sönnun leggur Eimskipafélag Íslands upp í hendurnar á okkur, og það er gott. Það er líka sönnun þess, að það rennur ýmislegt utan hjá aðalfarvegi framleiðslulífsins af tekjum framleiðslunnar, sem hið vinnandi fólk skapar, að hæstv. dómsmrh. þessa lands hefur orðið að fallast á að nota ákvæði stjórnarskrárinnar um að setja nefnd á laggirnar með víðtæku valdi til að rannsaka okur í landinu, á sama tíma sem verkalýð landsins er neitað um sanngjarna lagfæringu á lífskjörum sínum. Það er líka gott sönnunargagn. Hæstv. dómsmrh., stjórnarmeðlimur í Eimskipafélagi Íslands, er þar ágætur boðberi sannleikans. Það er líka í þessu máli sannleiksvitni, sem rétt er að taka tillit til. (Gripið fram í.) Ég held, að þetta sé nú staðfesting á reglu og einni undantekningu. Reglurnar staðfestast með undantekningum.

Hins vegar get ég sagt það persónulega um forstjóra Eimskipafélags Íslands, — ég hef kynnzt honum aðallega í gegnum vinnudeilur og átök, — en ég hef þær hugmyndir um hann samt, að hann sé drengskaparmaður. Og það get ég sagt hér í þessum ræðustól, án þess að ég vilji á nokkurn hátt, að það sé lagt þannig út fyrir mér, að ég sé að nudda mér upp við hann, að mér virðist hann sá atvinnurekandi í landinu, sem vilji grandgæfilegast og samvizkusamlegast fara í öllu að réttum lögum í verkfalli, þannig að hann gangi á engan hátt á rétt samtakanna í jafnvel hinum hatrömmustu deilum. Hafi maður hans orð fyrir einhverju í sambandi við viðkvæm deilumál, þá má treysta þeim. Ég virði svona eiginleika, og ég veit það, að aðrir slíkir eru til í hópi atvinnurekenda, þeir eru til í hópi þeirra atvinnurekenda, sem láta loka sig hér inni í flokksherbergi Sjálfstæðisflokksins nú kvöld eftir kvöld og viku eftir viku, og verkalýðsfulltrúarnir eru lokaðir hér í öðru herbergi og sáttanefnd ríkisins í því þriðja, og svo líður kvöld eftir kvöld, án þess að eitt einasta orð fari á milli þessara aðila, sem eru þó að leysa viðkvæm deilumál. Deilumálin leysast ekki með þögn og þumbarahætti og að menn skipi sér sitt í hvert horn hússins. Þau leysast ekki fyrr en þeir koma sér saman um að setjast saman að samningaborði með milligöngu sáttanefndar ríkisins, ef þess þarf með, og taka síðan þá samninga, sem þeir ætla að reyna að koma sér saman um breytingar á, til endurskoðunar grein fyrir grein út frá þeim grundvelli elnum, hvað er sanngjarnt, hvað er rétt, hvað er hægt. Og ef hvorir tveggja aðilar og sáttanefnd leggjast á eitt um þetta, þá þarf ekki að taka vikur úr því sem komið er, að lausn fáist. En það hefur ekki bólað á góðvildinni enn. Það hefur ekki verið sýnd sanngirni. Þetta er allt saman sparaður sjóður, sem hlýtur nú að koma til afnota áður en langt um líður. Þessir góðviljuðu menn hafa ekki fengið að njóta sín, það er sannleikur. Það er eitthvert það vald, sem jafnvel lokar þeirra drengskap og þeirra góðvild inni, og meðan leysist deilan ekki. Það er verið að halda því fram við þessa menn:

Þraukið þið enn þá eina viku eða tvær, þá eru þrotin öll þau meðul, sem verkalýðurinn hefur til að standast í verkfallinu lengur. Þá gefast þeir upp, og þá komizt þið af án kauphækkana. — En þetta er alger misskilningur. Verkalýðurinn hefur sagt: Við erum reiðubúnir til samninga á hvaða degi og hvaða nóttu sem er. En við höfum búið okkur undir langt stríð, og við erum þannig á vegi staddir með þann undirbúning, að við stöndumst langt stríð. — Þetta er öfgalaust, og þetta er sannleikur. Það er ekki til neins fyrir vinnuveitendasamtökin að ætla sér að loka sanngirni og drengskap sinna beztu manna inni upp á það, að það sé hægt að svelta verkalýðinn hér til hlýðni. Það verður ekki gert. Það kostar mánaða verkfall. Ég fullyrði það. Það er rétt, að það hefur verið hafin fjársöfnun til styrktar verkfallsmönnum. Hún er ekki eins stór og hæstv. dómsmrh. hafði látið segja sér. Hún er samt glæsileg, þegar tekið er tillit til þess, að það eru fátæk verkamannafélög og fátækt verkafólk, sem að söfnuninni stendur og hefur opnað sína litlu buddu. Upphæðin er ekki nema nokkuð á fjórða hundrað þúsund krónur. Og ef því er deilt niður á þá 7 þús. verkamenn, sem í verkfallinu standa, þá eru það ekki 40 kr. á viku. Það eru 40 kr. á mann þær 4 vikur, sem verkfallið er búið að standa. Ef reiknað er með, að 20 þús. manns séu á framfæri þessa fólks, þá er þetta ekki nema milli 10 og 20 kr. á hvern einstakling enn sem komið er. En það kemur meira fé, og það er ekki nein líknarstarfsemi, sem er hafin með því, að verkalýðssamtök nágrannalandanna og Evrópu eru beðin hjálpar. Það er talin sjálfsögð bróðurskylda allra þeirra heimssamtaka, sem standa saman, að rétta hvert öðru hjálparhönd eftir getu sinni undir svona kringumstæðum. Og það verður gert, þó að hér sé reynt að spilla fyrir árangri þess, eins og í Vísi í dag, með því að segja, að hingað til hafi verkalýðssambönd ekki rétt fjárhagslegan stuðning til kommúnistasamtaka hingað og þangað um veröldina. Það er íslenzkur verkalýður, sem hefur beðið um hjálp, og hann fær hana.

Dómsmrh. hélt því blákalt fram hér áðan, að þetta verkfall væri ekki háð til þess að ná fram þeim kröfum, sem hafðar væru á oddinum. Ef þetta væri rétt og hæstv. dómsmrh. tryði þessu sjálfur, þá ætti hann að beita sínu sterka afli í stjórn Eimskipafélagsins og á stjórn Vinnuveitendasambandsins og segja: Gangið þið að obbanum af kröfum verkamannanna. — En þær eru óskert vísitala, þriggja vikna orlof, sem löngu er búið að lögleiða hér í öllum okkar nágrannalöndum, og 25–30% kauphækkun, en nú hafa verkamennirnir slegið af þeirri kröfu, þannig að nú stendur þetta í 22–23%, og þá þýðir það um 3600 kr. mánaðartekjur til verkamannsins. Og ef sanngirnin er leidd þar að og réttsýnin og spursmálið um það, hvað hægt sé, þá getur enginn maður svarað því öðruvísi en játandi. Það er hægt að verða við þessum kröfum. Og mér finnst dómsmrh. ætti að segja við atvinnurekendur: Gangið að þessum kröfum. Þá afhjúpast þessir — hvað hann sagði nú í ræðulok — afglapar. Hann sagði þá að síðustu: Þá afhjúpast þessir afglapar, ef þeir ganga ekki að lausn deilunnar þegar í stað; þá sjáum við, að það vakir allt annað fyrir þeim. — En ég fullyrði, að á þeirri stundu, sem væri gengið að sanngjörnum kröfum verkamanna og sanngjörnum kröfum iðnaðarmanna, þá er deilan leyst. Það er ekkert það pólitískt afl til á bak við þessa deilu, sem heldur henni í gangi degi lengur, þegar búið er að ganga að þeim kröfum, sem alveg grímulaust hafa verið lagðar fram og hafa legið fyrir atvinnurekendum frá því að samningum var sagt upp og kröfurnar fram lagðar. Það eru þess vegna getsakir, það er hugarburður, það er alveg tilefnislaus hugarburður hæstv. dómsmrh. og ríkisstj. að halda því fram, að þetta verkfall sé pólitískt verkfall. Það er hagsmunabarátta, sem hefur fengið hljómgrunn meðal alls verkalýðs, hvar sem er á landinu, alveg án tillits til flokka.

Ef þetta verkfall væri bara háð til þess að ná því fram, sem er fjárhagslega mögulegt fyrir hagkerfi landsins, þá væri deilan leyst, sagði hæstv. dómsmrh. Ég er sannfærður um það, að það er ekki farið fram á neitt það með óstýfðri vísitölu, þriggja vikna orlofi og 20% kauphækkun til verkamanna, sem þjóðfélagið rís ekki undir. Það getur verið, að það kostaði það, að það sæist í auðan blett á einhverju þilfari einhvers hafskips á Íslandi fyrir lúxusbílum, þegar væri búið að gera þetta, og það væri minna tilefni til að okurnefndin starfaði til þess að rannsaka okrið í þjóðfélaginu. En þjóðfélagið stæðist. Það þýddi bara það að ætla aðeins nokkrum hundraðshlutum meira af framleiðsluverðmæti þjóðarinnar til hins vinnandi fólks en til milliliðanna, sem nú fá í skjóli ríkisvaldsins að hirða til sín allt of stóran gróða.

Hæstv. dómsmrh. hélt sig mjög að því, að nú væri þessi deila leyst, ef farið hefði verið að þeim ráðum, sem hann hefur borið fram í tillöguformi hér í þessum ræðustól fyrir mánuði. Ja, þvílík ímyndunarveiki. Sú till. var um, að það skyldi skipuð 7 manna nefnd, sem í átti að vera 1 eða 2 fulltrúar frá verkalýðssamtökunum, og hún átti að byrja að rannsaka almennt, hvað atvinnulífið þyldi. Ef hæstv. ríkisstj. hefði haft áhuga á, að upplýsingar um þetta lægju fyrir, þá hefði hún átt að bjóða þennan kostinn þegar í haust, þegar vitað var, að samningum mundi sagt upp upp úr áramótum. Það gerði hún ekki. Hún gerði það þegar komið var út í verkfall, og þá sagði samninganefnd verkalýðssamtakanna: Við teljum ekki hægt að hefja slíka rannsókn nú, eftir að út í deilu er komið, og höfnum því þessari tillögu. — Það er alveg áreiðanlegt, að slík rannsókn á fjárhagsþoli atvinnuveganna hefði tekið ekki aðeins margar vikur, heldur marga mánuði. Það var sett mþn. á s.l. sumri í að rannsaka hag togaraútgerðarinnar, hún starfaði mánuðum saman, og nú segir hæstv. forsrh., að það mál sé ekki til hlítar rannsakað enn og sé ekki hægt að víta, hvort það þurfi nákvæmlega að veita togaraútgerðinni þá aðstoð, sem togaraútgerðarmennirnir sjálfir halda fram, að afstaðinni þessari löngu og ýtarlegu rannsókn sérfróðra manna. Á meðan á verkfalli stendur er ekki hægt og var ekkert vit að hef ja slíka rannsókn, bara til þess að atvinnurekendur gætu sagt:

Það er verið að rannsaka, og á meðan reynum við ekki til að semja.

Ég skal svo segja það að síðustu, að hæstv. dómsmrh. sagði, að þeir afglapar, sem hefðu hrundið þessari deilu af stað, þ.e. fólkið í verkalýðsfélögunum, — þeir afglapar, sem hann nefnir svo, verði krafðir reikningsskapar síðar, reikningsskapar fyrir að hafa beðið um hækkað kaup úr 2900 kr. í 3800 kr. á mánuði; það er afglapahátturinn, sem þetta fólk hefur gert sig sekt um. Alþýðusamband Íslands hefur ekki metið þetta afglapahátt og stendur með þessu fólki. Þeir afglapar, sem verða krafðir reikningsskapar, eru harðsvíruð atvinnurekendaklíka undir stjórn Vinnuveitendasambands Íslands með hæstv. dómsmrh., því miður, að bakhjarli og líklegast ríkisstj. alla.