15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað hér í þessum umr. um skattfrelsi Eimskipafélagsins að taka sérstaklega til máls á þessu stigi málsins. Hins vegar voru það nokkur orð í ræðu hæstv. dómsmrh., sem komu mér til þess að standa upp, og virtust þó ekki í beinu samhengi við frv. sem slíkt.

Hæstv. dómsmrh. fullyrti hér í sinni ræðu, að þeir, sem steypt hefðu fólkinu út í verkfall o.s.frv., mundu sóttir til saka og endanlegs uppgjörs fyrir þær sakir sínar á sínum tíma. Ég vil sem stjórnarmeðlimur í mínu stéttarfélagi eindregið mótmæla slíkum ásökunum í garð nokkurs stéttarfélags, sem í núverandi deilu á. Ég veit ekki betur en að í hverju einasta stéttarfélagi hafi farið fram lögleg atkvgr. um þátttöku í verkfallinu og uppsögn samninganna, og það eru meðlimir félaganna sjálfra, sem hafa ráðið því, hvernig endanleg niðurstaða hvers félags um sig hefur orðið. Ég ítreka því eindregið mótmæli mín gegn þessum fullyrðingum um, að í nokkru því félagi, sem í núverandi deilu á, hafi af einum eða fámennum hópi í hverju félagi verið ákveðið að steypa því út í vinnustöðvun gegn vilja meiri hlutans í félaginu, eins og þó mátti skilja á ummælum hæstv. dómsmrh.

Ég vil eindregið minna á það, sem ég sagði í umr. hér á dögunum í hv. Alþ. um till., sem þá lá fyrir um skipun nefndar til rannsóknar á atvinnuháttum og afkomu atvinnuveganna almenat, að sú stefna, sem kemur fram í uppsögn verkalýðsfélaganna nú, er mörkuð fyrir nálega fimm mánuðum. Hún var mörkuð á alþýðusambandsþingi, þar sem sæti áttu á fjórða hundrað fulltrúar hinna ýmsu sambandsfélaga. Og það er þó mest um vert, að stefnan, sem verið er að framkvæma í dag með þeirri baráttu, sem verkalýðsfélögin nú heyja, er samþykkt þar einróma, vitandi þó, að það alþýðusambandsþing, sem þá var háð, var mikið deiluþing og menn mjög í flokka skiptir þar, enda munu allir þeir pólitísku flokkar, sem starfandi eru í landinu, hafa átt þar sína fulltrúa, og þá ekki hvað sízt flokkur hæstv. dómsmrh. A.m.k. var það á sínum tíma látið svo í veðri vaka. Till. þessi, sem því markaði þá stefnu í kaupgjaldsmálunum, sem nú er verið að framkvæma, var samþykkt þar í einu hljóði og ágreiningslaust, og hæstv. dómsmrh. er því að deila á eigin flokksmenn, þegar hann fullyrðir, að nokkur einn eða fámennur hópur eigi eða geti á nokkurn hátt leitt verkalýðshreyfinguna út í slíka baráttu sem nú er háð. Það er gert með meirihlutavilja og samþykki meðlimanna sjálfra, fólksins sjálfs, sem í deilunni á.

Um það atriði ræðu hæstv. dómsmrh., sem hann lagði þó meginþunga sinn í, um tilgangsleysi verkfallsins, benti ég einnig á í minni fyrrnefndu ræðu, og sagði, að þar ylti á, hver stefna hæstv. ríkisstj. yrði í þessum málum, hvað hún hefði til kaupgjaldsmálanna að leggja almennt, og það er því nokkuð djarft um sakir talað af hálfu hæstv. dómsrh., á sama tíma sem hann og hæstv. ríkisstj. leggja til, að kosin sé n. til að athuga um afkomu atvinnuveganna, að segja þá fyrir fram, að sú barátta, sem verkalýðsfélögin nú heyja, sé fyrir fram tilgangslaus. Hvert hefði þá orðið verkefni slíkrar n. sem hæstv. ríkisstj. lagði til að skipuð yrði til að rannsaka afkomu atvinnuveganna á sínum tíma? Verkefni hennar hefði þá m.ö.o. orðið það eitt að sýna verklýðsfélögunum, að þetta væri tilgangslaus deila eða barátta. Öðruvísi verður ekki hægt að skilja orð hæstv. ráðh.

Eins og ég tók fram í upphafi, hafði ég ekki ætlað mér að taka sérstaklega þátt í þeim umræðum, sem frv. þetta fjallar um, sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram, en vildi þó eindregið koma fram mótmælum mínum út af þeim fullyrðingum ráðherrans, að hér ætti nokkur fámennur hópur sök á. Það er fólkið sjálft, sem hefur ákveðið að leggja til þessarar baráttu vegna þess, hve hagur þess er þröngur.