15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég bjóst nú ekki við því, þegar ég hélt mína ræðu hér áðan, að ég mundi svo fljótt sem raun hefur á orðið fá staðfestingu á því, sem ég þar hélt fram, en ef máltækið er rétt, að sannleikanum verði hver sárreiðastur, þá hefur nú hæstv. dómsmrh. (BBen) staðfest, að ég hafi farið með satt mál. Hann var reiður í þessari ræðu, sem hann hélt hér áðan, og það er alveg óvanalegt með hann. Hann er vanur að vera ákaflega prúður og stilltur, þegar hann flytur hér ræður, og sízt af öllu að vera með stóryrði, þannig að það var alveg greinilegt, að það, sem ég hafði sagt, hafði komið allmikið við hann og hleypt honum dálítið upp, þannig að hann gætti sín ekki, svo að það er auðséð, að sannleikurinn hefur gert hann sárreiðan, og þess vegna hefur hann líka sagt hluti, sem ég býst við að hann hefði gjarnan ekki viljað segja, og kem ég að því síðar.

Hæstv. dómsmrh. minntist á það hér, að það hefði verið eingöngu vegna þess, að verkalýðurinn hafði gert verkfallið svo pólitískt, hvað það hefði dregizt lengi. Af hverju skyldi nú hæstv. dómsmrh. segja þetta? Hann veit ósköp vel, að þetta verkfall er eingöngu háð um efnahagsleg mál. Verkfallið stendur ekki um neitt annað en ákveðnar grunnkaupshækkanir og annað slíkt. Hins vegar er hæstv. dómsmrh. alltaf að tala um, að það hafi veríð í þessu verkfalli stefnt að því af hálfu verkalýðsins að koma hér á vinstri stjórn, og klykkti út með því að segja, að það væri alveg tilgangslaust að vera alltaf að reyna að koma þessari stjórn frá, það væri bara kommúnistaflokkurinn, sem væri með það að reyna að koma á vinstri stjórn. Þetta er nú mesti misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., eins og allir hv. þm. vita. Sá maður, sem aðallega hefur talað um vinstri stjórn nú upp á síðkastið, er sjálfur formaður Framsfl., þ.e.a.s. ein af aðalstjórnar-„krukkunum“ hér í þinginu, og það er þess vegna vitað, að ef það á ekki að fara að reikna Hermann Jónasson sem kommúnista, eins og stundum var með Ólaf Thors í gamla daga, að það er Framsfl., sem hefur mjög mikinn áhuga á því að koma hér á vinstri stjórn í landinu, en hins vegar er vitanlegt, að verkalýðurinn hefur alls ekki farið í verkfall til þess að steypa stjórninni með verkfalli og koma á vinstri stjórn. Mér er nær að halda, að ef hæstv. dómsmrh. óttaðist það, að t.d. á morgun ætlaði Hermann Jónasson, form. Framsfl., að mynda vinstri stjórn hér í þinginu og væri búinn að tryggja sér þingfylgi til þess, — ja, þá er ég nokkurn veginn víss um, að það yrði samið í nótt. Ég held þess vegna, að það, að hæstv. dómsmrh. fór að ruglast ofur lítið í ríminu hvað þetta snertir, sé af því, að hann sé með þann ótta undir niðri, að með þeirri þrákelkni, sem stóratvinnurekendur beita núna, séu þeir að eggja það fram, að Framsfl., sem eins og Tíminn ber vott um hefur hvað eftir annað viljað láta semja í þessu máli og sættast á sæmilegar kröfur frá hálfu verkalýðsins, allt í einn tæki sig til og leysti málið hér á þingi. Það er þessi ótti við vinstri stjórn, sem er hjá hæstv. dómsmrh., en hann fer bara alveg öfugt, þegar hann setur hana í samband við verkfallið. Ég vil einmitt vísa honum á leiðina, ef hann er svona voðalega hræddur við vinstri stjórnina, að þá er að leysa verkfallið í nótt á grundvelli þeirra efnahagslegu mála, sem verkalýðurinn hefur stillt allan tímann, og hvort hann fær vinstri stjórn þrátt fyrir það einhvern tíma, því getur hann kannske aldrei afstýrt.

Hæstv. dómsmrh. talaði um einhverja nefnd, sem hann hefur lagt til að skipa, og það hefði nú verið ósköp gott, sagði hann, ef þessi nefnd hefði verið sett á laggirnar. Hvað hefur nú gerzt þessar fjórar vikur, sem verkfallið hefur staðið og ríkisstj. hefur haft möguleika til að setja ótal nefndir á laggirnar; hún hefur þó meiri hluta hér á þingi til þess að samþykkja þáltill. og jafnvel lög? Hvað hefur hún gert? Hún hefur ekki gert neitt. Hann er þó víst ekki að segja við stjórnarandstöðuna, að við höfum hindrað, að ríkisstj. setti slíka nefnd á laggirnar eins og hann var að stinga upp á, en hún hefði sannarlega getað gert það. Hún hefur ekki gert neitt. Og af hverju? Af því, sem ég benti á, að ákveðin auðmannaklíka hér í Reykjavík, vill fá hörku í þetta verkfall og heldur auðsjáanlega þeirri hörku áfram, eftir því sem nú virðist, nema hún fari þá að hræðast, að það verði kannske einhver önnur öfl, t.d. Framsfl., sem fari að koma þarna inn í og stríða þeim eitthvað.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um, að það væri nú orðið hálfslæmt með hann, að það væri eins og allt, sem mönnum stæði stuggur af, væri sett í samband við hann. Einu sinni hefði þetta verið öðruvísi, og minnti hann þá á, eins og sér til réttlætingar, að einu sinni hefði hann tekið þátt í því að reyna að koma nýsköpunarstjórninni á, og vildi nú minna á, að eitthvað hefði hann einhvern tíma látið gott af sér leiða. Ég hef síður en svo dregið dul á þátt hæstv. núverandi dómsmrh. í því að koma nýsköpunarstjórninni á, það stendur skrifað í Þjóðviljanum af mér, og það einn sinni fyrir kosningar, þar sem við áttum í mjög hatrammri baráttu, að ég hafi af mönnum Sjálfstfl. fyrst talað við hann um mínar hugmyndir viðvíkjandi nýsköpuninni og hann síðan sett mig í samband við formann Sjálfstfl., þannig að við höfum aldrei dregið dul á þann þátt, sem hann átti í því, og það mun sagan ekki heldur gera.

Og það er gott, að hæstv. dómsmrh. nú vitnar í þetta. Hins vegar, svo ágætt verk sem hæstv. dómsmrh. vann þá, er nú svo komið, eins og hann sagði réttilega, að í sambandi við hann er nefnt flest, sem þjóðinni stendur stuggur af. Það er ekki okkur að kenna, að hann hefur versnað svo mjög. Meðan hann hafði samstarf við okkur, var hann nefndur í sambandi við þá hluti, sem þjóðin fagnaði, eins og nýsköpun og nýsköpunarstjórn. Hann hefur lagt lag sitt síðan við aðra, t.d. Ameríkanana alveg sérstaklega, og sé þjóðinni farið að standa stuggur af honum núna, þá er það vafalaust vegna þess, að gamla máltækið rætist: Segðu mér, hverja þú umgengst, og ég skal segja þér, hver þú ert.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um, að það hefði vafalaust verið ofmælt hjá mér, að við, hæstv. núverandi forsrh. og ég, hefðum sett fæturna undir Eimskipafélagið. Það er vafalaust rétt hjá honum, að ef hann hefur skilið það, sem ég sagði, þannig, þá er það ofmælt hjá mér. Það, sem ég vildi sagt hafa, var, að ettir að Eimskipafélaginu hafði farið nokkuð aftur, þess floti hafði minnkað og elzt, þá hefðum við tveir átt góðan þátt í því að setja svo að segja þá nýju fætur undir það, sem það nú gengur á, sem sé þann glæsilega skipaflota, sem það nú á og þjóðin er stolt af.

Þá minntist hæstv. dómsmrh. á, að það væri hálfundarlegt með þessa sjóði og peninga, sem ég talaði um að við hefðum svo að segja fengið Eimskipafélaginu þá, ég og form. Sjálfstfl., og það væri þá bara það, að verkalýðshreyfingin hefði ekki rænt þeim, sem væri hægt að þakka okkur. Ég vil segja það í því sambandi, eins og ég reyndar reyndi að lýsa í mínum ræðum, að fyrir tilstilli verkalýðsflokkanna og betri hluta Sjálfstfl. þá var því forðað, að því útlenda fé, sem þjóðin þá átti, væri eytt í gagnslausar vinnudeilur hér innanlands, þar sem verkamenn og atvinnurekendur stæðu hver gegn öðrum mánuðum saman og hentu fé þjóðarinnar í sjóinn. Það var þar með hindrað, að þjóðin væri rænd þessum inneignum, sem hún átti erlendis, og vegna þess að hún fékk að hagnýta þessar inneignir, sem hún átti erlendis þá, gat Eimskipafélagið byggt upp sinn mikla og glæsilega flota. Ef við hefðum ekki fengið þá að ráða, verkalýðsflokkarnir og meiri hluti Sjálfstfl., hefði þessu verið rænt, annaðhvort á þann hátt, að þessum peningum, sem þjóðin átti þá í útlendri mynt, hefði verið eytt í deilurnar, eða þá, eins og hæstv. dómsmrh. tók sjálfur þátt í, með gengislækkuninni. Þá hefði öllum þeim sjóðum, sem Eimskipafélagið var búið að safna í íslenzkum krónum, verið rænt, þannig að ef við hefðum ekki, verkalýðsflokkarnir og betri hluti Sjálfstfl., bjargað sjóðum Eimskipafélagsins og gert þá fullgilda í útlendri mynt 1944, hefði með þeirri pólitík, sem hæstv. dómsmrh. hefur rekið síðustu 7 ár, þeim verið rænt, með gengislækkunum og öðru slíku, þannig að við höfum forðað þeim undan því ráni.

Svo talaði hæstv. dómsmrh. nokkur orð og var nú óvenju óprúður í sínu orðalagi, talaði um óskammfeilni og afglapa og ég veit ekki hvað og hvað, og allt saman virtist þetta vera tengt við það, að hann gerði ráð fyrir, að ég tileinkaði honum að einhverju leyti sökina á þessari löngu stöðvun, að innsti hringur Sjálfstfl. og hann sem aðalforkólfur í honum ætti sök á því, að þessi deila væri orðin svona harðskeytt. Og hann afsakaði sig með öllu móti, það hefðu verið lengri vinnustöðvanir áður — eða verkföll, sagði hann nú. Ég hafði sagt „vinnustöðvanir“ og átti þar með líka við atvinnuleysið. Ég man ekki eftir, að það hafi nokkurn tíma verið eins langt verkfall hjá Eimskip og nú er búið að vera, þannig að það hefur alveg rætzt, sem ég hef haldið fram, að það eru komnir nýir aðilar, nýir kraftar þarna til skjalanna. Ég hafði í minni ræðu bent á, að hæstv. dómsmrh. ætti þarna nokkra sök á. Hvað gerir svo hæstv. dómsmrh. í sinni ræðu? Hann staðfestir hvert einasta orð, sem ég hef sagt. Ég sagði, að hann, Bjarni Benediktsson, sem dómsmrh. og sem stjórnarmeðlimur Eimskips væri nú orðinn potturinn og pannan í þeirri klíku í Vinnuveitendafélagi Íslands og þar með í innsta hring Sjálfstfl., sem samband hefur við hana, sem gerði þessa deilu svona harðvítuga. Og hvað segir hæstv. dómsmrh.? Jú, hann segir: Ef það á að fara að tileinka mér þá sömu afstöðu sem einn maður, sem áður átti sæti í stjórn Eimskips, hefur haft, þá er ég stoltur af því að taka þá afstöðu. — Og maðurinn, sem hann nefndi, var Eggert Claessen. Ég ætla ekki að segja neitt ljótt um látinn mann, en hitt held ég að sé ekki ofmælt, að sá maður var aðalforustumaður atvinnurekenda í svo að segja öllum þeim vinnudeilum, sem fóru fram meðan hann lifði, og var með öllum þeim kostum og göllum, sem hann hefur haft, einn harðskeyttasti andstæðingur, sem verkalýðurinn átti í öllum vinnudeilum, og nú lýsir hæstv. dómsmrh. því yfir, að hann sé stoltur af því að taka afstöðu þessa manns og erfa svo að segja hans hlutverk. Og manni skilst helzt, að hann hafi farið inn í stjórn Eimskipafélagsins alveg sérstaklega til þess að fá þessa aðstöðu. Ég hafði alls ekki búizt við þessari yfirlýsingu, og mér hafði aldrei dottið sérstaklega í hug og hafði aldrei minnzt á það að tengja hann neitt við nafn þessa manns.

Ég vil segja það að lokum, að svo miklar deilur sem við áttum við þann ágæta mann að mörgu leyti, þá eru deilurnar, sem nú standa yfir, margfalt harðvítugri og harðsvíraðri og sorglegri fyrir Eimskip en nokkur sú della, sem sá maður háði við verkalýðinn í Reykjavík, og ég held ég megi fullyrða: nokkur sú deila, sem hann hefði kært sig um að standa í, þannig að það er auðséð, að hæstv. dómsmrh. ætlar að fara langt fram úr öllu því, sem þessi fyrirrennari, sem hann sjálfur nú kaus sér í þessari ræðu, nokkurn tíma fór. — Því er þannig lýst yfir af hæstv. dómsmrh. sjálfum, að hann hafi tekið að sér þetta hlutverk. Nú var hins vegar Eggert Claessen um leið framkvæmdastjóri Vinnuveitendafélags Íslands og hafði sem slíkur sérstakar skyldur gagnvart því félagi. Hæstv. dómsmrh. er ekki framkvæmdastjóri Vinnuveitendafélags Íslands, en telur sig samt hér á Alþ. reiðubúinn til þess að lýsa yfir því, að hann ætli alveg sérstaklega að feta í fótspor þess manns, sem var um alilangt skeið framkvæmdastjóri Vinnuveitendafélagsins.

Svo að síðustu vegna spurningar, sem hæstv. dómsmrh. kom með um þá styrki, sem verkalýðurinn hefði fengið frá alþjóðasamböndunum í síðustu vinnudeilu í desember 1952, skal hann upplýstur um það, að frá Alþjóðasambandi frjálsra verkalýðsfélaga, eins og það heitir, það er það samband, sem er nú talið frekar hægra sinnað, höfðu borizt 500 sterlingspund, og sú upphæð var endursend af þáverandi stjórn Alþýðusambandsins, af því að hún kom ekki fyrr en eftir að vinnudeilunni var lokið. Frá hinu alþjóðasambandinu, sem talið er róttækara og á aðsetur í Vín, hafði borizt tilkynning um, að það mundi veita allmiklu stærri fjárupphæð, en það var tilkynnt líka því félagi, af því að sú tilkynning barst ekki fyrr en það seint, að verkfallinu væri lokið og þessi styrkur þess vegna ekki þeginn. Í því verkfalli tók þess vegna verkalýðurinn ekki á móti neinu fé frá þessum samtökum, vegna þess að frá báðum þeirra kom þetta of seint.

Hæstv. dómsmrh. talaði hér nokkur orð um, hvernig væri farið að sverfa að verkalýðnum. Það er alveg óþarfi fyrir fulltrúa atvinnurekenda að vera nokkuð að hlakka yfir því. Þeir þurfa ekki að halda, að jafnvel þó að það sverfi að verkamannafjölskyldum hér í Reykjavík, þá beygi þær sig undir hnútasvipu Sjálfstfl. þar fyrir. Það hefur áður sorfið að þeim hér, sorfið að þeim, þegar verkamenn fengu ekki nema eina viku í mánuði til þess að vinna og átti að lækka kaupið hjá þeim í þeirri einu viku. Og þeir hafa svarað Sjálfstfl. á sinn hátt. Við þurfum engin krókódílstár frá Sjálfstfl. eða miðstjórn hans. Hæstv. dómsmrh. getur sparað sér þau. En hitt getur hann gert, og það er að semja strax, og ef hann er mjög hræddur við að mynduð verði vinstri stjórn, þá er honum bezt að fara að gera það.