28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls ræddi ég lítils háttar um Eimskipafélag Íslands og hvort ástæða væri til þess, að það nyti alveg sérstakra fríðinda um skattgreiðslur umfram önnur sambærileg félög. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég þá sagði, en vil aðeins árétta það, að ég hef ekki heyrt neinar röksemdir bornar fram til stuðnings því, að Eimskipafélagið eigi að njóta þarna sérstakra fríðinda umfram aðra aðila eða að því sé nauðsynlegt að njóta slíkra fríðinda. Það er upplýst og á allra vitorði, að þetta félag er mjög vel efnum búið og þarf að því leyti til ekki þessa stuðnings við. Enn fremur er það vitað, að önnur félög og fyrirtæki inna nú af hendi sams konar þjónustu fyrir þjóðfélagið og Eimskipafélag Íslands og gera það engu síður en það, og þess vegna virðist mjög óeðlilegt, að þetta eina félag njóti nú öllu lengur þessara sérstöku fríðinda.

Ég hef ásamt hv. 8. landsk. leyft mér að bera hér fram dálitla brtt. við þetta frv. Hún er í því fólgin, að í stað algers skattfrelsis Eimskipafélagsins á þessu ári greiði það í skatt 8% af skattskyldum tekjum síðasta árs, en það er hið sama og samvinnufélög greiða. Ég hygg, að það verði erfitt að mæla því í mót, að Eimskipafélagið eigi eðli sínu samkvæmt að greiða a.m.k. hliðstæða skatta og samvinnufélögin. Ég ætla ekki að rekja rökin til þess, mér virðast þau liggja svo í augum uppi. Og mér þykir það mjög ótrúlegt, ef hv. framsóknarþm. þessarar d. gera þann mun á Eimskipafélagi Íslands og skipadeild S.Í.S., að þeir kjósi, að Eimskipafélagið sé skattfrjálst, meðan svo er ekki um skipadeild S.Í.S.