28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Gils Guðmundason:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. (SkG) hefur nú upplýst, að sú till., sem við flytjum, ég og hv. 8. landsk., gangi ekki einu sinni svo langt, að þar sé lagt til, að Eimskipafélagið greiði sömu skatta og samvinnufélögin. Það ætti því ekki að vera mikil ástæða til að ætla annað en að þeir, sem bera hag samvinnufélaganna fyrir brjósti, geti aðhyllzt svona lítilfjörlega till. Ef þeim þykir hún of smá, vil ég bjóða hv. þm. V-Húnv. að flytja með honum brtt. við 3. umr., þar sem væri lagt til, að Eimskipafélagið greiddi nákvæmlega sömu skatta og skipaútgerð S. Í. S. eða samvinnufélögin.