28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

122. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í frv. þessu er lagt til, að samþ. verði viðauki við 1. gr. l. nr. 43 frá 1954, um kirkjubyggingasjóð, að heimila stjórn sjóðsins að veita lán til endurbygginga eða varanlegra endurbóta á svokölluðum bændakirkjum, og gert er ráð fyrir, að sjóðsstjórnin geti notað þessa heimild, ef fyrir liggur, að hlutaðeigandi söfnuður hafi neitað að taka við kirkjunni, þótt kirkjueigandi hafi boðið söfnuðinum hana með sanngjörnum kjörum, enda sé kirkjan notuð í þágu þjóðkirkjusafnaðar eins og hún væri safnaðarkirkja. Frv. gerir ekki ráð fyrir, að kirkjubyggingasjóði verði lögð sú skylda á herðar að lána fé til þessara kirkna, heldur fái sjóðsstjórnin heimild til þess, ef fyrir liggja eftirtaldar staðreyndir:

1) Að hlutaðeigandi prófastur votti, að að hans dómi hafi kirkjueigandi boðið söfnuði kirkjuna með sanngjörnum kjörum;

2) að fyrir liggi, að söfnuðurinn hafi hafnað því boði;

3) að kirkjan sé notuð í þágu þjóðkirkjusafnaðar eins og hún væri safnaðarkirkja; og

4) að eignir kirkjunnar séu að dómi sjóðsstjórnar ófullnægjandi til framkvæmdanna.

Hv. menntmn. sendi frv. þetta til umsagnar stjórnar kirkjubyggingasjóðs, sem sendi svo n. bréf og leggst þar á móti því, að frv. verði samþ., og er bréf þetta prentað með nál. sem fylgiskjal.

Ég held, að það megi fullyrða, að hv. menntmn. hafi orðið nokkuð undrandi á afstöðu sjóðsstjórnarinnar, og var hún því fengin til að mæta á fundi n. til að gera frekari grein fyrir afstöðu sinni og þeim ástæðum, sem hún bar fram í áliti sínu.

Að öllum málavöxtum athuguðum var það sameiginlegt álit nefndarmanna, að mótstaða sjóðsstjórnarinnar gegn frv. sé ekki réttmæt og að ekki sé sjáanlegt, að hún hafi tilgreint nægilegar frambærilegar ástæður fyrir því, að frv. eigi ekki að samþykkja.

Afstaða meiri hl. hv. menntmn. er því sú, að hann leggur til, að frv. verði samþ., svo að stjórn kirkjubyggingasjóðs öðlist heimild til að lána fé til endurbóta á þeim kirkjum, sem hér um ræðir, þegar tilgreindar staðreyndir eru fyrir hendi og kirkjan á svo litlar eignir, að knýjandi nauðsyn er að hlaupa undir bagga með lán til þess að fyrirbyggja, að kirkja og þar með kirkjuleg þjónusta leggist niður hjá þeim söfnuðum, sem í hlut eiga.

Þess ber að geta, að einn nm., hv. 9. landsk. (KGuðj), óskaði ekki eftir að taka þátt í afgreiðslu málsins. Hygg ég, að mér sé óhætt að segja, að það hafi ekki stafað af því, að hann sé andvigur þessu frv., heldur af hinu, að hann hafi ekki áhuga fyrir kirkjubyggingasjóðnum í því formi, sem hann starfar nú.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég kýs ekki að gera bréf stjórnar kirkjubyggingasjóðs að umræðuefni, nema sérstakt tilefni gefist.

Ég leyfi mér svo að ítreka að lokum meðmæli hv. meiri hl. menntmn. um, að frv. verði samþ.