18.10.1954
Neðri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þetta er ekki lengur neinn nýr kunningi og þetta frv. hefur nú verið framlengt ár eftir ár, en samt hafa alltaf verið að gerast á þessum undanförnu árum, þegar þetta frv. hefur verið framlengt, atvik, sem hafa greinilega sýnt, að ekki hefur nú verið staðið við þær upphaflegu forsendur fyrir þessu frv.

Eins og hv. þingmönnum er ljóst, þá er þetta frv. framlenging á tekjuöflunarkafla eða tekjuöflunaratriðum úr 3. kafla laganna viðvíkjandi tekjuöflun í dýrtíðarsjóð. 1. og 2. kafli laganna hafa verið afnumdir. Öll ákvæðin um það, sem átti að gera upphaflega við þennan dýrtíðarsjóð, sem enn þá standa eftir tekjuöflunarfyrirmælin um, eru farin burt. Það átti með því að tryggja afkomu sjávarútvegsins, með fiskábyrgðinni, og tryggja það að fá fé til þess að geta haldið niðri dýrtíðinni í landinu. Það eina, sem er eftir, er m.ö.o. söluskatturinn sjálfur og sú aukning á dýrtiðinni, sem hann veldur. Síðan þessi lög upphaflega voru samþykkt, er nú búíð að gera þrennar ráðstafanir, sem allar saman hafa átt að vera hver um sig fullnægjandi til þess að tryggja afkomu sjávarútvegsins, aðrar en þessi söluskattur. Það er búið að setja á gengislækkunina 1950. Það er búið að setja á bátagjaldeyrinn, sem veldur því, að teknar ern 90–100 milljónir á ári af fólkinu beinlínis í því skyni, og álagningin á því gerir það þar að auki hærra. Og nú í þriðja lagi hefur bílaskattinum verið bætt ofan á. En það er ekki minnzt á, enn sem komið er, að það eigi að fara að lækka söluskattinn.

Ég held, að það væri ákaflega heppilegt, að hv. fjhn., sem nú fær þetta mál til athugunar, gerði nokkra tilraun um það, hvort ekki væri hægt að knýja fram einhverja lækkun á söluskattinum. Það hefur sýnt sig, að síðasta ár hefur bann farið 20 milljónir fram úr áætlun. Hins vegar hafa þær till., sem bæði við sósíalistar og aðrir höfum flutt á undanförnum þingum um t.d. að létta honum af íslenzku iðnaðarvörunum eða draga nokkuð úr honum á annan hátt, allar saman verið felldar með þeim forsendum, að söluskattinn mætti alls ekki minnka, hann þyrfti að standa, því að annars mundu fjárlögin bila. En það hefur alltaf sýnt sig, að söluskatturinn er sá þáttur fjárlaganna, sem mest hefur farið fram úr áætlun. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. fjhn. athugi þetta mál mjög rækilega með það fyrir augum að sjá, hvort ekki sé hægt að knýja það fram, þó að það hafi ekki tekizt á undanförnum þingum, að nokkuð væri dregið úr þeim þunga, sem söluskatturinn er fyrir almenning.