02.05.1955
Efri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

192. mál, Dísastaðir í Breiðdal

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Dísastöðum í Breiðdal er í raun og veru orðið skipt í þrjár jarðir. Við 1. umr. þessa máls hér spurði ég um, hvernig væri með eignarheimild á 10 hundruðum af jörðinni, sem sjóðanefndin hefur upplýst að hafi verið gefin Vopnafjarðarhreppi til almenningsþarfa, og eins og þá stóð, var ekki hægt að upplýsa það. En nú hefur þetta mál skýrzt að því leyti, að þessir upprunalegu Dísastaðir, sem þá voru um 30 hundraða jörð, eru skiptir í þrennt, Dísastaðahól, sem ríkissjóður á og byggt hefur verið á gott steinhús, Dísastaði, sem eru í eyði og eru eign manns, sem nú er búsettur hér í Rvík, og Dísastaðasel, sem hefur skipt um nafn og fengið nafnið Skarð og nú er byggt aftur eftir að vera búið að vera í eyði nokkur ár.

Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort á að samþykkja það, að ríkisstj. kaupi Dísastaði, þ.e. þriðjunginn af þessari gömlu Dísastaðajörð, sem nú er í eyði, og leggja hana undir Hól, jörðina, sem ríkið á — eða þann hlutann, sem ríkið á. Það liggur fyrir með frv. umsögn frá Pálma Einarssyni landnámsstjóra, þar sem hann mælir með þessum kaupum, og getur hann þess í sinni umsögn að sér þyki það verð, sem jörðin hafi verið boðin fyrir, of hátt, og nefnir í því sambandi, að hann telji hæfilegt verð 16–20 þús. kr. Samkvæmt fasteignamatinu gamla, sem gert var 1942, er land jarðarinnar metið á 2600 kr., húsalaust, og það er þá dálitið sýnishorn af því, hvað Pálmi telur að rétt sé að hækka landverð þar í sveit mikið, hvaða verð honum finnst sanngjarnt, og til athugunar fyrir þá, sem vilja ekki láta fasteignamat hækka neitt, þegar nýja fasteignamatið fer fram.

Við sendum málið til umsagnar þeirri ráðuneytisdeild, sem hefur með opinberar jarðeignir að gera, og þeir eru á sama máli og landnámsstjóri um, að það sé rétt, að ríkið kaupi jörðina. Landnámsstjóri færir það til sem rökstuðning fyrir því, að það sé hægara, þegar land þessara tveggja jarða sé sameinað, að skipta því aftur á eðlilegan átt til þess síðar að gera úr jörðunum tvær sjálfstæðar jarðir.

Eftir að þessir tveir aðilar, landnámsstjórinn og stjórn jarðeigna ríkisins, leggja þetta til, þá getur n. ekki út af fyrir sig lagt á móti því eða vill ekki gera það. Hins vegar finnst henni, að þar sem nú sé fyrir dyrum að gera nýtt fasteignamat, þá sé engin ástæða til annars en að leggja til grundvallar kaupunum það mat, sem þá kemur á Dísastaðina. Þegar lögin um jarðakaupasjóð ríkisins voru samþykkt, og þau eru reyndar í gildi enn, var heimilt að kaupa jarðir, en enga fyrir ofan fasteignamat. Eins gæti komið til mála að setja það beint inn í frv., að jörðin skyldi keypt eftir því mati, sem hún fengi með hinu nýja fasteignamati, sem nú liggur fyrir dyrum að gera. Nefndin hefur þó ekki gert þetta enn, en mun athuga það á milli 2. og 3. umr., hvort ekki sé rétt að bæta inn í frv. ákvæði um það, að jörðin skuli kaupast fyrir væntanlegt fasteignamat.