14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1954)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Eins og grg. þessa frv. ber með sér, þá er það flutt eftir ósk hæstv. félmrh. af mér og hv. þm. Dal.

Efni þessa frv. er, að sett verði allsherjarlöggjöf um brunatryggingar húsa utan Rvíkur. Það er samið af minni hluta mþn. þeirrar, er hafði þessi mál til meðferðar, og eins og grg. ber með sér, þá ræðir hún ekki eingöngu um efni þessa frv., heldur er og vikið að nokkrum ákvæðum í frv. meiri hlutans, og er það vitaskuld sakir þess, að ágreiningur var innan n., og ræðir minni hl. þess vegna nokkuð um þau atriði, sem á milli ber.

Félmrn. hefur einnig nokkra umsögn um málið. og snertir umsögnin ekki eingöngu efni þessa frv., heldur og nokkuð ákvæðin í frv. meiri hlutans. Það gerir vafalaust, að sú umsögn er látin í té, áður en hv. meiri hl. flutti sitt mál inn í þingið. En þó að þannig sé þetta orðað í grg. frv., þá þarf það vitaskuld á engan hátt að trufla meðferð þessara mála eða getur talizt á nokkurn hátt óeðlilegt eða óheppilegt, þar sem svona er háttað um undirbúning málsins.

Aðalatriði þessa frv. er, að eigendur húsa utan Rvíkur hafi frjálsræði til þess að tryggja hús sín hjá því félagi, sem þeir óska helzt, eða fela sveitarstjórn að annast vátrygginguna fyrir sína hönd. Frv. er ákvæði um allsherjarlöggjöf um brunatryggingar utan Rvíkur, og í það er ekki blandað öðru. Það eru engin ákvæði í því, sem snerta Brunabótafélag Íslands, og getur það ekki talizt annað en eðlilegt, að í löggjöfinni sé þessu haldið aðskildu.

Þetta mál sýnist mér liggja ákaflega ljóst fyrir og auðvelt að gera sér grein fyrir, hver stefnan er, og geta menn svo valið, hvort þeir eru heldur því fylgjandi eða ekki, því að það er ekki farið í neinar grafgötur í ákvæðum frv. um, hvernig þessu skuli hagað. Og samkvæmt því, sem fyrir liggur, skilst mér sem það sé vandalaust að velja sér afstöðu til þess, með eða móti málinu.

Ég sé ekki, að það sé ástæða til að þessu sinni að fjölyrða mjög um málið. Efni frv. kemur ljóslega fram í greinum þess og einnig í grg. fyrir frv.

Ég vil leyfa mér að mælast til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til hv. allshn.