22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1957)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Allshn. klofnaði um mál þetta, og hefur meiri hl. n. skilað áliti á þskj. 385 og leggur til, að þetta frv. sé fellt, enda lá þá fyrir deildinni og hefur nú verið afgreitt til 3. umr. frv. um Brunabótafélag Íslands, sem fjallar í meginatriðum um sama efni og þetta frv.

Meginuppistaðan í þessu frv. er það, að með því er gert að aðalreglu, að húseigendum sjálfum verði heimilt að brunatryggja húseignir sínar hjá hverju því vátryggingarfélagi, sem viðurkennt er af ráðherra. Þetta er meginbreytingin. En í frv. því, sem nú var afgreitt til 3. umr., eru húseigendur í sama bæjar- og sýslufélagi skyldaðir til að vera einn samningsaðili.

Ég ræddi um þetta í gær við umræðu málsins hér í d. og skal því ekki fara frekar út í það, en ég vildi gjarnan nota þetta tækifæri til þess að svara að litlu leyti þeirri fsp., sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) bar hér fram um það, hvers vegna tryggingar megi ekki vera frjálsar. Ég er forviða, að hv. þm. skuli spyrja svona, því að ég tel að samkv. frv. um Brunabótafélag Íslands séu tryggingarnar frjálsar. Ég kalla þær tryggingar frjálsar, sem hægt er að segja upp með sex mánaða fyrirvara og hægt er eftir þann tíma fyrir bæjarfélögin að semja um við hvaða tryggingarfélag sem býður þeim hagkvæmust kjör. Ég sé ekki neinn mun á þessu og frjálsum tryggingum, að öðru leyti en því, sem ég gat um hér í gær. Þó að ég sé fylgjandi frjálsu framtaki, þá verð ég að viðurkenna það, að það er venjulega hægt að ná hagkvæmari samningum, ef margir standa saman um það, sem út er boðið, á opnum markaði. Ég sný ekki aftur með það, að hver einstaklingur stendur verr að vígi með brunatryggingar sínar og iðgjöld af þeim, ef hann á einn að semja beint við félögin. Hver einstaklingur getur aldrei haft í fullu tré við voldug vátryggingarfélög, og þess vegna er samningsaðstaða heildarinnar í þessu efni miklu sterkari. Þetta sást bezt þegar Reykjavíkurbær bauð út tryggingarnar í einu lagi. Iðgjaldagreiðsla af tryggingunum stórlækkaði við þessa aðferð og hefur farið lækkandi síðan vegna þeirrar samkeppni, sem hefur komið fram um tryggingarnar frá ýmsum vátryggingarfélögum.

Þetta er aðalatriði málsins í því frv., sem hér liggur nú fyrir, og það, sem var deilt um í sambandi við það frv., sem nú er afgr. til 3. umr., hvort samningsaðilinn ætti að vera einstaklingurinn eða bæjar- og sýslufélagið. Ég tel ekki, að það sé á nokkurn hátt vikið frá hugsjón frjáls framtaks, þó að mönnum í sama bæjarfélagi sé gert að skyldu að semja í heild um slík málefni sem þessi.

Ég er ekki í neinum vafa um, að það er að mörgu leyti farsælla fyrir vátryggjendur húseigna úti á landi, að lögin eru þannig úr garði gerð, að menn verða að standa saman um tryggingarnar. Ég tel ekki, að neitt frelsi sé tekið af bæjar- eða sveitarfélögum, ef þau mega semja við hvern þann aðila, við hvert það tryggingarfélag sem veitir þeim hagkvæmust kjör.