22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég lít nú að vísu svo á, að með afgreiðslu þess máls, sem var síðast til umr. hér í þessari hv. d., frv. til l. um Brunabótafélag Íslands, séu örlög þessa máls ráðin, því að ágreiningurinn, sem var við lausn þess, er enn sá sami við afgreiðslu þessa máls. sem hér liggur fyrir. Spurningin er einvörðungu eða aðallega um það, hvort einstaklingarnir sjálfir í bæjum eigi að hafa leyfi til að tryggja hver í sinu lagi eða hvort bæjarfélögin eigi að koma fram sem heild fyrir þessa aðila og tryggja fyrir þá alla í einu.

Hv. þm. V-Húnv. spurði að því áðan, hvers vegna brunatryggingar mættu ekki vera frjálsar á sama hátt og bifreiðatryggingar mega vera frjálsar. Mig langar til að fara um þessa spurningu hv. þm. nokkrum orðum og segja honum, hvað því veldur frá mínu sjónarmiði, að um þetta sé eðlilegt að gildi nokkuð mismunandi reglur.

Þegar brunatryggingarnar eru allar á einni hendi, þá er ekki nóg með það, að aðstaða þeirrar húseigendaheildar, sem þar kemur saman sameinuð gagnvart tryggingarfélaginu, sé sterkari en þegar einn og einn semur hver í sínu lagi, heldur kemur líka það til greina, að áhugi tryggingarfélagsins fyrir því að halda brunavörnum staðarins í góðu lagi hlýtur að vaxa, eftir því sem hann hefur meira af tryggingunum á einni hendi. Þetta hefur komið ákaflega greinilega fram í starfi Brunabótafélags Íslands, sem nú síðasta aldarfjórðunginn a. m. k. hefur beinzt að því að bæta brunavarnir hjá þeim kaupstöðum og hreppsfélögum, sem hjá því tryggja, og orðið svo verulega ágengt í því, að brunatryggingaiðgjöldin hafa getað lækkað með hverju ári vegna bættra skilyrða til þess að ráða við eld eða við bruna, á sama tíma sem bifreiðatryggingarnar frjálsu eru á stöðugri leið upp á við. Þetta er munurinn, að brunatryggingarnar eru í dag með sífellt lækkandi iðgjöld vegna bættra brunavarna, en bifreiðatryggingarnar eru, eftir því sem mér skilst, enn þá hækkandi.

Hv. 1. þm. Árn. vildi þakka frelsinu í tryggingunum, að brunabótaiðgjöldin væru lækkandi. Ég held, að þetta sé mikill misskilningur hjá hv. þm. Lækkunin á brunabótaiðgjöldunum, sem fengizt hefur, er fyrst og fremst og aðallega því að þakka, að varnirnar hafa verið bættar. Og það er óneitanlega þetta félag, sem haft hefur hingað til eitt tryggingarnar utan Reykjavíkur, sem unnið hefur að því að bæta brunavarnirnar. Ég er að vísu ekki mjög gamall maður, en ég man þó eftir því, þegar brunavarnirnar, þar sem ég þekkti, voru þannig, að ef kviknaði í húsi, þá gengu nokkrir menn um, staðinn með lúðra og blésu í þá. Skyldu þá allir staðarins íbúar koma á vettvang til þess að vinna að slökkvistarfinu. Þeir skiptu sér svo sumir niður á nokkrar handdælur og aðrir til þess að bera vatn í fötum á brunastaðinn, með mismunandi árangri þó, sem oftast varð náttúrlega ekki mjög mikill vegna þess að tækin sem þeir höfðu til umráða, voru mjög ófullkomin.

Mjög snemma á starfsferli sínum hefur Brunabótafélag Íslands farið út í það að hjálpa sveitarfélögunum til þess að bæta úr þessu, fyrst og fremst með því að veita þeim lán til þess að kaupa tæki til slökkvistarfa. Mér er tjáð, að Brunabótafélag Íslands hafi nú í útlánum nokkuð hátt á annan tug milljóna króna, aðallega til sveitarfélaga, til þess að bæta úr brunavörnum sínum. T. d. hafa verið veitt lán til þess að byggja vatnsveitur, til þess að kaupa slökkvitæki, til þess að koma upp brunasímum o. fl., og niðurstaðan af öllu þessu hefur svo verið sú, að vegna þess arna hefur verið hægt að lækka iðgjöldin. Tjónunum hefur fækkað, og möguleikinn til þess að vinna bug á eldsvoða hefur vaxið.

Það hefur oft verið vitnað til þess, að iðgjöldin í Reykjavík væru lægri en þau eru víða úti um land. Þetta helgast fyrst og fremst af því, að brunavarnir Reykjavíkur hafa verið í betra lagi og fullkomnari en þær eru víða úti á landsbyggðinni. Starfsemi Brunabótafélagsins hefur miðað að því m. a. að jafna þessi met, og því hefur tekizt að ná verulegum árangri í þessu á þeim tíma, sem þessi starfsemi hefur verið höfð uppi. Ég er ekki viss um, að þetta mundi verða gert á sama hátt, ef fjögur eða fimm tryggingarfélög kepptu um tryggingarnar eða stæðu öll að tryggingunum á hverjum stað. Þá mundi kannske verða frekar tilhneiging til þess, að einn mundi ætla öðrum að gera það, sem augljóst er, að sá verður að gera, sem einn hefur tryggingarnar.

Ég vildi aðeins vegna þess að mér hefur fundizt þessi starfsemi ekki koma nógu ljóst fram í þeim umr. sem hér hafa farið fram um brunatryggingar, benda á þetta sem ekki ómerkara atriði en ýmislegt annað í starfsemi Brunabótafélags Íslands og þeirra annarra, sem um þessar tryggingar keppa. Mér finnst, að þarna sé einmitt grundvöllinn að finna undir hinum lækkuðu iðgjöldum og að þeim grundvelli væri að verulegu leyti kippt í burt, ef menn ættu hver og einn út af fyrir sig að tryggja sín hús, án tillits til þess, hvað aðrir gerðu og hjá hverjum þeir tryggðu þau, ef með öðrum orðum væri kippt í burt möguleika bæjar- eða hreppsfélags til þess að tryggja í einu lagi fyrir alla sína meðborgara. — Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í umr., vegna þess að mér hefur fundizt, að á það hefði ekki verið bent sem skyldi, en virðist þó alveg greinilegt, að þetta séu mjög sterk rök í þessu máli.