18.10.1954
Efri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

26. mál, náttúruvernd

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Prófessor Magnús. Jónsson, þáverandi þm. Reykv., var upphafsmaður þess á Alþingi, að sett skyldu lög um náttúrufriðun. Hann flutti frv. um það efni fyrst á árinu 1932. Það frv. náði ekki fram að ganga, og hefur málinu síðan nokkrum sinnum verið hreyft á Alþ., en aldrei orðið úr lagasetningu.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið að tilhlutan Björns Ólafssonar, fyrrv. menntmrh., af þeim dr. Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi og Ármanni Snævarr prófessor. Enn fremur hefur dr. Finnur Guðmundsson verið með í ráðum um samningu frv.

Frv. fylgir löng og ýtarleg grg., þar sem bæði er gerð grein fyrir hinum almennu sjónarmiðum, sem farið hefur verið eftir við samningu frv., og fyrir einstökum ákvæðum þess og get ég að mestu leyti látið mér nægja að vísa til þeirrar grg., en vil þó taka nokkur atriði fram.

Náttúruverndarlög hafa nú verið sett víða í löndum, t. d. var slík löggjöf sett í Svíþjóð árið 1909, í Noregi 1910 og í Danmörku 1917. Það er því ekki vonum fyrr, að gerð sé gangskör að því, að Íslendingar eignist hliðstæð lög, enda má segja með sanni, að ekki sé síður þörf á þeim hér á landi en annars staðar. Óvíða hefur á skömmum tíma orðið slík gerbylting á ytri aðstæðum og í verklegum framkvæmdum og hér á landi. Og því meiri framförum sem náð hefur verið í margs konar framkvæmdum, því meiri röskun hefur orðið á náttúru landsins, eins og öllum er kunnugt.

Við samningu frv. þessa hefur verið höfð hliðsjón af hinni fullkomnustu löggjöf annarra þjóða um þessi efni, jafnframt því sem íslenzkir staðhættir hafa auðvitað verið hafðir í huga. Íslenzk náttúra er, svo sem kunnara er en frá þurfi að segja. um margt einstæð, m. a. að því leyti, að hún hefur fram á hin síðustu ár orðið fyrir minni áhrifum af mannavöldum, a. m. k. beinlínis, en náttúra flestra annarra menningarlanda. Veldur því það, hversu Ísland byggist seint, miðað við önnur lönd, að landið er strjálbyggt, og síðast en ekki sízt, hve einfaldir allir lifnaðarhættir manna hafa verið til skamms tíma, og er því þó ekki að neita, að einmitt vegna úrræða- og aðgerðaleysis hafa landskostir stórspillzt á undanförnum öldum, skógar eyðzt og stór landssvæði orðið örfoka.

Með breyttum lifnaðarháttum og auknum framkvæmdum koma nýjar hættur, svo að ekki verður lengur við unað að vera án heildarlöggjafar um náttúruvernd. Í íslenzkri löggjöf eru að vísu til fjölmörg lagaboð, sem miða að því að vernda einstaka þætti í náttúru landsins, svo sem gróður og dýralíf, og einnig eru í gildi lög um bann gegn jarðraski o. fl. Þessi lagaákvæði veita þó náttúru landsins hvergi nærri þá vernd, sem æskilegt verður að teljast. Þau styðjast flest við fjárhagsleg sjónarmið, þannig að þeim er fyrst og fremst ætlað að stuðla að hæfilegri nýtingu hlunninda, og nægja því ekki til raunhæfrar verndunar á sjálfri náttúru landsins almennt. Nefna mætti mörg dæmi um það, hversu þörfin á náttúruvernd er orðin brýn hér á landi, en þar sem þetta er ýtarlega rakið í grg., sem fylgir frv., skal ég ekki fara frekar út í þá sálma nú.

Segja má, að ástæðurnar, sem liggja til þess, að æskilegt er að setja almenna löggjöf um náttúruvernd, séu af þrenns konar rótum runnar. Í fyrsta lagi má nefna hreinar menningarástæður, ef svo má að orði komast. Er þar einkum átt við ákvæði, sem ætlað er að girða fyrir spjöll á náttúruminjum og náttúrumyndunum, sem hafa náttúrufræðilegt eða sögulegt gildi Það er og menningarleg skylda að koma í veg fyrir, að náttúrunni sé spillt að þarflausu, að varðveitt séu fögur og sérstæð landssvæði og yfirleitt að stuðlað sé að góðri umgengni um náttúru landsins. Á þetta ekki sízt við, þegar mannvirki eru gerð, hvar sem er á landinu. Í öðru lagi má svo nefna félagslegar ástæður. Er þá átt við nauðsyn þess, að greitt sé fyrir því, að almenningur geti átt þess kost að njóta náttúrunnar, og þá einkum sá hluti landsmanna, sem býr í þéttbýli. Í nágrannalöndum okkar er lögð sérstök áherzla á þetta atriði. Í þriðja lagi eru svo fjárhagslegar ástæður, sem lúta að því að tryggja möguleika á notkun ýmissa náttúruauðæfa á sem hagfelldastan hátt. Frv. þetta er að meginefni byggt á þessum þremur höfuðástæðum.

Í I. kafla frv. er svo gert ráð fyrir heimild til að friðlýsa sérstakar náttúrumyndanir, sem mikilvægt er að varðveita vegna fræðilegs gildis eða vegna þess, að þær eru fagrar eða sérkennilegar. Þá er heimilt að friðlýsa vissar tegundir jurta og dýra og enn fremur heil landssvæði, annaðhvort til þess að stemma stigu við umferð um þessi svæði vegna hættu á því, að sérstæð náttúra spillist, eða til þess að gefa almenningi kost á að njóta náttúrunnar við ákjósanleg skilyrði. Þá eru einnig í I. kafla ákvæði, sem koma eiga í veg fyrir óþörf náttúruspjöll og náttúrulýti. Þar eru og fyrirmæli, sem stuðla eiga að góðri umgengni.

II. kafli frv. hefur að geyma ákvæði, sem tryggja almenningi sem frjálsastan aðgang að náttúru landsins. Þörf fyrir slík ákvæði vex eða skapast með vaxandi þéttbýli, svo að borgarbúum gefist kostur á að kynnast landi sínu og sækja styrk í fegurð þess og tign.

III. kafli frv. fjallar um stjórn náttúruverndarmála. Lagt er til, að yfirstjórn þeirra heyri undir menntmrn., en stofna á svonefnt náttúruverndarráð, er verði skipað þremur deildarstjórum náttúrugripasafnsins, einum manni með sérþekkingu í búnaðarmálum samkv. till. Búnaðarfélags Íslands, einum manni tilnefndum af Ferðafélagi Íslands, einum verkfræðingi tilnefndum af Verkfræðingafélagi Íslands og einum embættisgengum lögfræðingi, er menntmrh. skipar án tilnefningar, og sé hann form. ráðsins. Þá er lagt til, að í hverju sýslufélagi, sé náttúruverndarnefnd, skipuð þremur mönnum, og eiga sýslumenn að vera formenn nefndanna.

Ýmsum kann að virðast, að fyrirkomulag þetta sé allumfangsmikið og kostnaðarsamt. En þess ber að gæta, að með þessari skipun mála ætti að vera tryggt, að sem flest sjónarmið komi til greina, er ráða skal fram úr þeim vandamálum, sem rísa í sambandi við framkvæmd laganna. Í náttúruverndarráði eiga að sitja menn, er fyrst og fremst hafa sérþekkingu á þessum málum, og í náttúruverndarnefndum sitja menn, sem hafa fyrst og fremst staðarþekkingu til brunns að bera.

Eins og ég hef tekið fram, þá fjallar frv. þetta um efni, sem er nýtt í íslenzkri löggjöf, og er því, eins og ætíð í slíkum tilfellum, ærinn vandi á höndum, þegar ekki er hægt að styðjast við reynsluna. Er þess að vænta, að n. sú, sem mál þetta fær til meðferðar, athugi það gaumgæfilega, því að þótt menn séu vonandi sammála um höfuðmarkmið frv., tel ég víst, að sitt sýnist hverjum um ýmis einstök ákvæði þess.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. gangi til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. menntmn.