05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

26. mál, náttúruvernd

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. n. fyrir athugun hennar á þessu máli og viðurkenni fyllilega, að málið er svo margþætt og í því svo mörg vafasöm atriði, að eðlilegt er, að það sé sent til umsagnar þeirra aðila, sem n. gerir till. um. Og ég hygg, að það muni síður en svo spilla fyrir málinu, heldur verða til þess að greiða fyrir framgangi þess.

Mér var það mjög ljóst, er ég ákvað að leggja frv. fyrir þingið, að frv. er enn ekki búið að fá svo ýtarlega athugun, að eðlilegt sé, að það verði lögfest þegar í stað. Ég taldi þó rétt að leggja það fyrir Alþ. til þess að kynna því málið og þar með öllum almenningi í landinu. En það er nauðsynlegt, að menn átti sig á, hvaða kvaðir þarna er um að ræða, til þess að ekki rísi andstaða eftir á gegn því góða máli, sem hér er um að ræða, sem ef til vill yrði til þess að eyðileggja allt málið í framkvæmd eða knýja fram skjótar breytingar eftir á. Ég held þess vegna, að sú meðferð, sem n. leggur til, sé sú heppilegasta, og er sannfærður um, að það skiptir ekki meginmáli, hvort frv. nær samþykki árinu fyrr eða síðar, eða þó að einstökum atriðum þess sé breytt, heldur er hitt meginatriðið, að málinu sé fylgt eftir og það í höfuðatriðum verði samþykkt, áður en yfir lýkur.