11.11.1954
Neðri deild: 16. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég er minni hl. fjhn. sammála um aðaltill. minni hl., að fella söluskattinn alveg úr gildi, enda hefur minni hl. n. rökstutt þá till. sína nánast tiltekið með orðum hæstv. fjmrh. sjálfs, og að öllu leyti tel ég að það væri hin bezta aðstoð, sem aðþrengdum atvinnuvegum þjóðarinnar væri hægt að veita eins og nú háttar, að fella þennan skatt úr gildi.

Hins vegar þykir mér líka rétt að taka fram, að þó að ég sé sammála minni hl. n. um það, að ekki séu miklar líkur á því, að þessi till. um að fella söluskattinn niður nái fram að ganga á þessu þingi, þá get ég ekki verið minni hl. n. sammála um, að það sé rétt, úr því að svo er, að þetta réttlætismál nær ekki fram að ganga, að verja hluta af þessum skatti til sveitarfélaga. Þetta er sama afstaða og ég hafði í fyrra og færði rök fyrir, og hirði ég ekki að endurtaka þau hér. Ég vil þó geta þess, sem mér finnst vera höfuðatriðið í þessu máli, að mér finnst nokkurrar mótsagnar gæta í því hjá þeim mönnum, sem vilja fella skattinn algerlega niður, en ef það tekst ekki, að afhenda þá sveitarfélögum hluta af honum, þ.e.a.s. að gera hann að tekjustofni fyrir sveitarfélögin, því að sú ráðstöfun hlyti að festa skattinn í sessi, hlyti að gera það erfiðara fyrir að nema hann endanlega úr gildi. Ætti að nægja í því sambandi að benda á, að það mundu fáir gerast til þess að flytja till. um að fella þennan skatt úr gildi, ef öll sveitarfélög landsins væru farin að reikna með honum sem tekjustofni og hefja framkvæmdir, sem þau ár eftir ár ætluðu kannske að nota sinn hluta af söluskattinum til þess að rísa undir.

Ég vil ekki ætla flm. þessarar till. um að afhenda sveitarfélögunum hluta af söluskattinum þau óheilindi, að þeir flytji till. sína aðeins vegna þess, að þeir þykist vita það, að hún nái ekki fram að ganga. Hitt þykir mér miklu sennilegra, að þeir hafi ekki athugað málið eins og skyldi, hafi ekki athugað það gaumgæfilega, hverjir erfiðleikar hlytu á því að verða að nema þennan skatt úr gildi, eftir að hann væri orðinn tekjustofn ekki aðeins ríkisins, heldur allra sveitarfélaga landsins. En ef svo færi, þá er það mín skoðun, að vafasamt sé, að þessum skatti — eins og hv. 1. landsk. orðaði það: þessum ranglátasta skatti — yrði nokkru sinni eða a.m.k. um mjög langa framtíð létt af þjóðinni.

En þar sem það er mín skoðun og okkar þingmanna Þjóðvarnarflokksins, að því fáist ekki. framgengt nú á þessu þingi, að söluskattinum verði af létt, þá höfum við borið fram brtt. við frv. á þskj. 141. Í aðalatriðum eru þetta sömu brtt. og við bárum fram í fyrra, og skal ég ekki fara mörgum orðum um. Þó þykir mér rétt að taka það fram, vegna þess hvernig málið er lagt fram hér, að till. þessar fjalla í meginatriðum um það að afnema söluskattinn í smásölu og af þjónustu og af íslenzkum iðnaðarvörum, en innheimta hann aðeins af innfluttum vörum í heildsölu. Mér þykir ástæða til að taka þetta fram, vegna þess að málið er svo óljóst lagt hér fram, að það er ástæða til að ætla, að hv. þingmenn átti sig ekki á þessu, og ég vil í því sambandi heina þeim tilmælum til hæstv, ríkisstj., að í næsta skipti sem hún leggur þetta mál fyrir Alþingi til framlengingar, sem ég býst við að verði á næsta þingi, þá láti hún endurprenta lögin um dýrtíðarráðstafanir, það sem eftir er af þeim, í einu lagi, svo að málið geti verið aðgengilegt og auðskilið hv. þingmönnum, en þeir þurfi ekki að fletta í stjórnartíðindum margra ára til þess að fá yfirlit yfir það, hvernig málið stendur eins og nú er.

Um það atriði, að við leggjum til, að söluskatturinn verði felldur niður á smásölu, þjónustu og innlendum iðnaðarvörum, skal ég ekki fjölyrða. Ég ræddi það nokkuð ýtarlega á siðasta þingi og þarf ekki að endurtaka það, sem ég þá sagði; vil þó aðeins benda á, að það er staðreynd, að söluskatturinn að þessu leyti kemur ekki allur í ríkissjóð. Það er hæstv. fjmrh. kunnugt og fjmrn. og þeim, sem eiga að annast innheimtu á skattinum, enda ógerlegt fyrir þá aðila að fylgjast með því, hvort hann rennur allur í ríkissjóð eða ekki.

Þar að auki flytjum við hér á þskj. 141 brtt., sem við fluttum ekki í fyrra, en er um það að undanþiggja nokkrar vörutegundir algerlega söluskatti, einnig í heildsölu. Er þar um að ræða vélar og tæki til fiskiskipa, öryggistæki og annað fleira; að það skuli ákveðið og skýrt tekið fram, að söluskattur skuli ekki innheimtur af skipum, sem smiðuð eru innanlands, en í sumum tilfellum geta þetta orðið allmiklar upphæðir. Ég nefni sem dæmi fyrsta stálskip, sem var smíðað hér á landi og kostaði 4 eða 5 millj. kr., að þá er söluskattur af því ekki lítil upphæð. Þá leggjum við enn til, að dráttarvélar, heyvinnslu- og garðyrkjuvélar skuli undanþegnar söluskatti og þetta skuli greinilega tekið fram.

Þó að söluskattur hafi hér verið framlengdur á þingi ár eftir ár nú undanfarið, þá er þó ljóst, að það hafa ekki allir hv. þm. verið ánægðir með þá ráðstöfun. Þegar skatturinn hafði verið framlengdur hér í fyrra óbreyttur og allar brtt. felldar, þá fluttu tveir hv. þm., þeir Björn Ólafsson og Pétur Ottesen, frv. til laga um það að afnema söluskattinn af mótorvélum fyrir fiskiskip og vélahlutum, svo og dráttarvélum. Þetta frv. sýndi ljóslega hug manna hér almennt til skattsins, en af einhverjum ástæðum varð þetta frv. aldrei útrætt á þinginu. En þar sem í ljós kom með þessu frv., að vilji var fyrir hendi til þess að létta þessum skatti af, þó að ekki væri nema að litlu leyti, þá vona ég, að sá vilji sé enn fyrir hendi og sá skilningur, sem þá ríkti, og vænti þess því, að það dugi til þess að fá þessa litlu leiðréttingu fram, sem við þm. Þjóðvfl. höfum hér borið fram sem brtt. á þskj. 141.