22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1981)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Við endurskoðun laga um tekju- og eignarskatt á seinasta þingi leyfði ég mér að benda á og bera fram till. um, að persónufrádrátturinn yrði ákveðinn það hár, að tryggt væri, að bótagreiðslur frá Tryggingastofnuninni kæmu ekki til skatts, ef ekki væri um aðrar tekjur að ræða.

Í lögunum, eins og þau voru afgreidd, er tekið fram, að dánarbætur, sem greiðast í einu lagi, teljast ekki skattskyldar. Að því er snertir aðrar bætur, þá er það svo, að þær teljast með öðrum tekjum og koma til skatts, ef fer fram yfir það mark, sem lögin tiltaka. Þó hefur við afgreiðslu tekjuskattslaganna verið höfð nokkur hliðsjón af bótum Tryggingastofnunarinnar í þessu sambandi, þegar hámark persónufrádráttar var ákveðið. Það er í lögunum ákveðið 6500 kr. fyrir einstakling, og það er hér um bil sama upphæð og fullur lífeyrir til elli- eða örorkulífeyrisþega nú nemur. En fari upphæðin fram úr þessu, kemur hún til skatts eftir reglum tekjuskattslaganna, þ. e. a. s. ef hún fer 1000 kr. umfram persónufrádráttinn. Þetta var rækilega bent á við afgreiðslu tekjuskattslaganna á síðasta þingi, en ekki fékkst meiri hækkun á persónufrádrættinum en þá var.

Ég hygg, að það geti varla orkað tvímælis, að það sé hið mesta ranglæti — og heimska, liggur mér við að segja — að ætla að skattleggja það fólk, sem engar aðrar tekjur hefur en þær bætur, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir, því að það er fullvist, að það er svo naumt skammtað þar, að ekki er möguleiki á að greiða skatt af þessum fjárhæðum. En við framkvæmd skattalaganna á síðasta sumri kemur í ljós, að það er verulegur fjöldi fólks, sem hefur ekki neinar aðrar tekjur en bætur frá Tryggingastofnuninni, aðrar en eingreiðslur, sem á að greiða tekjuskatt. Skal ég leyfa mér að gera nokkra grein fyrir þessu.

Lífeyrir gamalmenna og öryrkja er ákveðinn í lögunum með gildandi vísitölu mjög nálægt 6500 kr. á ári. Í lögunum er heimilað að hækka þessa upphæð um allt að 40%, ef hlutaðeigandi þarf á umönnun og hjúkrun að halda, og þá getur upphæðin komizt upp í milli 8800 kr. og 8900 kr. Persónufrádrátturinn fyrir þennan mann er ekki nema 6500 kr., og þó að 1000 kr. í viðbót sé sleppt undan skatti. þá lendir hann samt í 15–20 kr. skatti eða e. t. v. 30 kr. Satt er það. að upphæðin er ekki há, en það er beinlínis óeðlilegt á allan hátt, að slíkar tekjur sem þessar séu skattlagðar. Fyrir það, að maðurinn þarf á umönnun og hjúkrun að halda og ellilífeyrir hækkar af þeim sökum, lendir hann í skatti. Þetta er algengasta dæmið. — En það er annað líka. Ekkja fær greiddar í bætur á fyrsta árinu rösklega 9 þús. kr., auk barnalífeyris og annars þess háttar. Þessar 9 þúsund kr., ef hún er ekki öryrki og ekki orðin 50 ára, eru það eina, sem hún fær á því ári greitt með mánaðarlegum greiðslum. Persónufrádráttur hennar er 6500 kr. Hún á að borga skatt af þessu, þó að hún hafi engar aðrar tekjur. Barnalífeyririnn er 3800 kr. Sé barnið munaðarlaust, má hækka þessa upphæð um allt að 50%. Þá getur upphæðin orðið 5700 kr., en barnafrádrátturinn er 4500 kr. Þetta barn ætti líka að lenda í skatti.

Ég hirði ekki að rekja fleiri dæmi. Þetta er augljóst.

Efnisgrein frv. okkar hljóðar á þessa leið: „Frádráttur þessi“ — þ. e. a. s. persónufrádrátturinn, sem upp er talinn hér á undan í greininni — „skal þó aldrei nema lægri upphæð en þeirri, sem skattgreiðandi hefur fengið greidda í bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins á árinu.“

Efni gr. er í stuttu máli það, að þegar svo fer, að bætur frá Tryggingastofnuninni, aðrar en eingreiðslur, sem út hafa verið greiddar eftir sérstöku ákvæði, eru hærri en persónufrádráttur samkvæmt lögunum, þá hækkar persónufrádrátturinn sem því nemur, þannig að ekki er lagður skattur á þessar upphæðir. Þetta er svo einfalt og auðskilið, eðlilegt og réttlátt, að ég skal ekki þreyta hv. þdm. á langri ræðu um það.

Ég vænti, að menn sjái, að þetta er alveg eðlileg og sjálfsögð breyting, og vil vænta, að það hafi verið aðgæzluleysi, sem olli því, að þetta var ekki tekið, þegar lögunum var breytt síðast. Þær fjárhæðir, sem hér um ræðir, eru að sjálfsögðu einskis virði fyrir ríkissjóð. Þetta gildir bara um þá, sem hafa þessar lágu tekjur, og hefur engin áhrif á skatta þeirra, sem komast hærra í skattstiga. Hins vegar er það réttlætismál, sem sjálfsagt er að leiðrétta, og upphæðir skattsins, þó að ekki þyki okkur háar, eru þó þær, að fólk, sem á að greiða þær af slíkum tekjum, finnur til þeirra.

Ég býst við samkv. formi frv., að eðlilegt sé, að málið fari til fjhn., þó að kannske ætti það jafnvel heima í félmn. Ég leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni umr. vísað til fjhn.