25.02.1955
Efri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þessu, sem hér liggur fyrir, var við 1. umr. eða eftir hana vísað til hv. fjhn.

Nefndin varð ekki sammála um afstöðuna til frv. Meiri hl. leggur til, að frv. verði afgr. með rökstuddri dagskrá, en minni hl., hv. 4. þm. Reykv., leggur til, að frv. verði samþykkt, enda er hann fyrri flm. þess.

Efni frv. er, að persónufrádráttur við skattlagningu skuli aldrei vera lægri hjá neinum, sem bætur fær frá Tryggingastofnun ríkisins, heldur en bótunum nemur. Í grg. og enn fremur í áliti frá minni hl., sem ég sá nú í fyrsta sinn, eftir að fundur var byrjaður, er gerð grein fyrir því, að gamalmenni eða öryrki, sem dvelji á sjúkrahúsi eða elliheimili og fái þar af leiðandi uppbætur á lífeyri sinn frá Tryggingastofnun ríkisins, geti lent, að óbreyttum lögum, í lítils háttar skatti, og enn fremur ekkja, sem fær ekkjubætur í eitt ár og barnalífeyri að auki. Þetta mun alveg rétt vera. En ekki verður séð, að það sé óréttlæti, ef jafntekjulítið fólk, sem fær ekki tekjur sínar frá Tryggingastofnuninni, greiðir sams konar skatt. Það getur meira að segja verið, að sá, sem Tryggingastofnunin veitir bæturnar, sem um ræðir, sé betur efnum búinn en hinn, sem þarf að lifa af sömu upphæð og Tryggingastofnunin veitir þeim, sem á að létta skattinum af. Þar af leiðandi væri það svo, að ef undanþegnir væru þeir, sem Tryggingastofnunin styður, yrði öðrum gert rangt til. Í því sambandi má á margt benda, en nægir sjálfsagt að benda á það, að t. d. ekkja, sem nýtur lífeyris samkv. 18 gr. fjárlaga, mundi þurfa að greiða skatt af sinni upphæð, þrátt fyrir það að frv. það, sem hér liggur fyrir, væri samþykkt.

Hv. minni hl. gerir grein fyrir því í áliti sínu. að hann hafi áður flutt till. um það að hækka persónufrádrátt hjá öllum, sem þessu nemi, sem hér er farið fram á, en ekki komið því fram og því verið við borið, að með því móti fengju þeir tekjuhæstu mesta ívilnun í skatti.

Nú er svo, að fyrir liggur endurskoðun skattalaganna í mþn., og þó að það sé rétt, sem hv. minni hl. segir, að á síðasta þingi voru nokkuð heildarlega afgreiddar till., sem snertu skatta einstaklinga, þá hefur þrátt fyrir það ekki verið lokað í n. leiðum til þess, að fram geti komið breytingar á þeim kafla skattalaganna, og allir þeir, sem hafa hug á því að koma fram því, sem þeir kalla leiðréttingar, hafa opna leið til þess að snúa sér til þessarar nefndar.

Með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt um frv. og efni þess, og þá ekki sízt vegna þess, að skattalögin eru í endurskoðun hjá mþn., telur meiri hl. fjhn. hvorki rétt að samþykkja frv. né bera fram brtt. við það, en leggur til, að það verði afgr. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem prentuð er á þskj. 374.