25.02.1955
Efri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson.):

Herra forseti. Ekki vil ég neita því, að mér voru nokkur vonbrigði, hvernig meiri hl. hv. fjhn. snerist við þessu litla frv. Mér fannst sjálfum og finnst enn, að þetta sé svo sjálfsagt réttlætismál, að tæplega geti verið um það skiptar skoðanir.

Það liggur í augum uppi, að það er fullkomin meiningarleysa, fyrir utan það ranglæti, sem í því felst, að ætla þeim, sem engar tekjur hafa aðrar en bætur Tryggingastofnunarinnar, sem eru miðaðar við lægstu möguleika til að lifa og í ýmsum tilfellum hrökkva ekki til þess, að greiða skatt af þessu, — og mér liggur við að segja því fráleitara, þegar þess er gætt, að ríkissjóður stendur að verulegu leyti undir greiðslu þessara bótaupphæða frá Tryggingastofnuninni og tekur því með annarri hendinni það, sem hann lætur með hinni. Ég hef reynt í nál. mínu að gera grein fyrir þessu, þannig að það mun vera ljóst hverjum manni.

Samkv. skattalögunum frá í fyrra er persónufrádráttur nú fyrir einstakling 6500 kr. Ég hygg, að það hafi verið miðað við, að hann næmi sömu upphæð og lífeyrir til gamalmenna og öryrkja nemur samkv. tryggingalögunum. Síðan hefur þessi lífeyrir verið hækkaður um 5%, þannig að allir, sem njóta fulls lífeyris, verða a. m. k. 350 krónum yfir skattmarkinu, þó að þeir engan einasta eyri hafi í tekjur umfram bæturnar frá Tryggingastofnuninni. Heimild er í lögunum til þess að hækka þessar bætur um allt að 40%, og það munu vera milli 1300 og 1500 lífeyrisþegar, sem njóta þessarar hækkunar. Hækkunin er 10–40%. Flest það fólk, sem á ekki aflögufæra aðstandendur og dvelur á elliheimili, fær 40% uppbætur á lífeyrinn, ef það er eignalaust. Lífeyririnn getur þannig komizt upp í 9600 kr. hæst, þegar hlutaðeigandi dvelur á elliheimili, en af þessari upphæð verða 3100 kr. skattskyldar og skatturinn nokkuð yfir 40 kr. eftir núgildandi skattstiga. En dvölin á elliheimili, t. d. í Reykjavík, kostar a. m. k. 15–16 þús. kr., þannig að þótt gamalmennið fái þennan hæsta lífeyri, þá hrekkur samt ekki bótaupphæðin nema fyrir 2/3 hlutum af dvalarkostnaðinum.

Mér finnst, að það sé augljóst, að hér sé ekki einasta rangsleitni gagnvart þessu fólki, heldur fullkominn skynsemisskortur, ef ég mætti orða það svo, að hækka bæturnar, en leggja jafnframt á þær skatt, taka með annarri hendinni það, sem látið er úr hinni.

Það eru ekki eingöngu gamalmenni og öryrkjar, sem hér eiga hlut að máli, heldur líka ekkjur, sem njóta ekkjubóta og hafa auk þess barnalífeyri og mæðralaun. Þó að þær hafi engar tekjur aðrar en bæturnar frá Tryggingastofnuninni, geta þær farið yfir skattmörkin. Það gildir sama um þetta og um bæturnar til gamalmenna og öryrkja.

Í raun og veru er löggjafinn búinn að viðurkenna. að það sé rétt og eðlilegt að undanþiggja þessar bætur skatti. Þannig er það t. d., að eingreiðslur trygginganna eru undanþegnar skatti. Ef maður verður öryrki vegna áfalls við vinnu og fær greidda í einu lagi upphæð, hvaða upphæð sem það nú er, þá er hún undanþegin skattskyldu. Ef ekkja fær dánarbætur í eitt skipti fyrir öll, þegar maður hennar deyr, þá er það einnig undanþegið skattskyldu. Maður, sem er metinn öryrki undir 50% og fær útborgaða nokkuð stóra fúlgu í eitt skipti, greiðir enga skatta af henni, sem er rétt og eðlilegt, en hvaða vit er þá í því, að hinn, sem er yfir 50% öryrki og fær þess vegna lífeyri, en ekki eingreiðslu, eigi svo að greiða skatt af lífeyrinum? En það gerir hann að óbreyttum lögunum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta þyrfti að taka til fleiri en þeirra, sem frv. fjallar um, það væru ýmsir menn, sem væru á þessu sama tekjubili og yrðu þó að greiða skatt, og það væri engu óeðlilegra, að elli- og örorkulífeyrisþegar greiddu það, heldur en þessir einstaklingar. Að nokkru leyti er þetta rétt, eins og ég vík að síðar, en í meginatriðum er þetta rangt. Það er að vísu svo, að það er alltaf til eitthvað af fólki á því tekjubili, sem hér greinir, milli 6 og 9 þús. kr., sem er heilt heilsu. En aðstæður þessa fólks eru á engan hátt sambærilegar við aðstæður öryrkja og ellilífeyrisþega, því að það geta ýmsar ástæður valdið því í eitt skipti, að fólk á starfsaldri og við heila heilsu lækkar í tekjum, að ég ekki tali um þá, sem eru að fást við viðskipti og þess háttar og sveiflast til frá ári til árs. Það er engin ástæða til og ekki eðlilegt að bera það saman við ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega, þar sem þeir hafa a. m. k. þriðjunginn af sínu framfæri frá ríkissjóði sjálfum og hina tvo þriðju frá öðrum aðilum. Hins vegar er það rétt, að ef persónufrádráttur er hækkaður hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, þá væri alveg eðlilegt, að slíkt hið sama gilti um þá, sem ekki hafa annað sér til framfæris en fjárveitingar t. d. á 18. gr. Ég er því alveg sammála. Og hv. frsm. veit, að ég bauð nefndinni að taka það upp í frv. Um það er enginn ágreiningur.

Ég get aðeins vikið nokkrum orðum að því, sem hv. þm. sagði um áhrif þess að hækka persónufrádráttinn. Ég er honum sammála um það, að það sé æskilegt að hækka persónufrádráttinn frá því, sem nú er þó að ég hins vegar sjái, játi og viðurkenni, að það léttir mest á þeim skattgreiðendum, sem mestar hafa tekjurnar. En sú leið hefur verið lokuð til þessa, og ég sé ekki fram á, að meiri líkur séu til, að hún sé fær, nú heldur en áður vegna þeirrar afstöðu, sem meiri hluti d. hefur tekið til slíkra tillagna. Því taldi ég þýðingarlaust að bera slíkar till. fram, enda met að nokkru þá röksemd, að það sé meiri ívilnun fyrir tekjuhærri mennina en þá tekjulægstu. Einmitt þess vegna er þessi leið farin hér, sem frv. gerir ráð fyrir, að hækka ekki persónufrádráttinn almennt, heldur setja sérákvæði um þá, sem lifa á bótunum einum saman, að þeirra persónufrádráttur skuli hækkaður eins og bótaupphæðinni nemur, sem í hæsta tilfellinu er það, sem ég hér gerði grein fyrir, upp í 9600 kr. að ábreyttri vísitölu á bótaupphæð. Sú upphæð, sem skatturinn mundi lækka um vegna þessara breytinga, er hverfandi lítil. Það eru ekki nema örfáir tugir þúsunda, og ríkissjóð munar ekkert um það. Ég fullyrði, að bara innheimtan á þessum sköttum hjá þessu lágtekjufólki, sem allt er á lægstu þrepum skattstigans, kostar ríkissjóðinn meira en skattgreiðslurnar frá þessum mönnum nema, þó að þær heimtist allar inn.

Mér þykir rétt, af því að farið var að tala hér um önnur atriði, eins og persónufrádráttinn almennt, að minnast á það, að til orða kom í n., að önnur leið væri líka til til þess að ná því sama sem stefnt er að í frv., sem sé að setja þau ákvæði inn í skattalögin, að skattur, sem færi ekki fram úr ákveðinni upphæð, skyldi felldur niður, hann ,skyldi ekki innheimtur. Ég er fullkomlega samþykkur því, að þessi leið væri fær og sama marki mætti ná með því. Að vísu mundi það taka til töluvert fleiri manna en eftir þessu frv., en ég skal viðurkenna, að það eru þá menn, sem eru svo lágir í tekjum, að ég sé ekkert á móti því, að þeim sé ívilnað á sama hátt. Ég spurði að því í hv. fjhn., hvort n. væri fáanleg — eða meiri hl. hennar — til þess að fallast á slíka breytingu á skattalögunum, og fékk engar undirtektir með það. Ég vil lýsa því yfir hér í hv. d., að ég er enn þá reiðubúinn til þess að breyta frv. í þetta horf, ef líklegra væri til samkomulags.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð nú. Vildi ég mega vænta þess, að þrátt fyrir afstöðu meiri hl. nefndarinnar gæti hv. d. fallizt á og viðurkennt nauðsyn þess að leiðrétta þessar misfellur í skattalögunum og samþykkja frv. Ég mundi þá að sjálfsögðu bera fram við 3. umr. málsins till. um að breyta gr. í það horf, að það gæti einnig náð til ekkna, sem ekki hafa neinar aðrar tekjur sér til framfæris en t. d. styrki á 18. gr., sem fara ekki fram úr þeirri upphæð, sem bætur Tryggingastofnunarinnar geta numið.