25.02.1955
Efri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1991)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er ekkert nema hrósvert, að hv. 4. þm. Reykv., sem er forstjóri trygginganna, hugsar um hag skjólstæðinga sinna, en eins og ég benti á áðan, þá er sá galli á þessu frv. hans, að það nær ekki til fólks. sem hefur alveg hliðstæðar ástæður og er ekkert betur sett í fjárhagslegri lífsbaráttu heldur en þeir, sem féð fá í bætur frá tryggingunum.

Það er svo komið, að töluvert er gert af því í landinu að reyna að haga atvinnuháttum þannig, að þeir, sem hafa aldur til lífeyris eða styrks frá Tryggingastofnuninni, verði tekjulausir, þó að þeir hafi möguleika annars til að afla sér tekna og geri það á vissan hátt. Og víst mundi það koma í ljós, ef fullkomlega væri rannsakað, að Tryggingastofnunin eyðir fé í bótaformi til ýmissa, sem eru fjárhagslega vel stæðir. Ég tala ekki um, að þeir séu þannig vel stæðir, að þeir eigi margt vandamanna, sem gætu vel séð þeim farborða, þó að á það mætti einnig líta. Og þegar nú er komið til sögunnar, að sparifé er skattfrjálst, þá er enn gripið til þess að koma eignum þannig fyrir, að það sé alveg löglegt, að sæmilega efnum búinn maður fái bætur líka, það getur verið maður, sem liggur á sjúkrahúsi eða er á gamalmennahæli. Það getur sem sé vel verið, að hann hafi vaxtatekjur, svo að hagur hans sé betri en annarra, sem engar bætur fá. Þess vegna er það, að það er ekki algild regla eða fullkomlega örugg til réttlætis, að sá eigi að vera skattfrjáls, sem bætur þiggur frá tryggingunum.

Hv. frsm. minni hl. lagði áherzlu á það, að það væri eiginlega fjarstæða, að ríkið tæki með annarri hendinni það, sem það veitir með hinni, í þessum tilfellum, sem hann vitnaði til. En í mörgum efnum er það nú svo, þannig er það með fjölskyldubæturnar t. d., svo að þetta er ekkert rökstuðningsatriði út af fyrir sig. — Þá lagði hann áherzlu á það, að innheimta þessara upphæða, sem greiddar eru af hinum lágu tekjum, væri svo kostnaðarmikil, að gera mætti ráð fyrir, að jafnvel skatturinn færi í þá innheimtu. Þetta geta í fljótu bragði virzt rök, en eru þó í raun og veru ekki þung, vegna þess að innheimtustarfið á sér stað hvort sem er og mundi í flestum tilfellum ekki kosta minna, þó að skattgreiðendum fækkaði um þá, sem hér um ræðir.

Hv. 4. þm. Reykv. gat þess, að hann væri reiðubúinn að taka upp till. um að fella niður innheimtu þess skatts, sem væri neðan við eitthvert tiltekið mark, og þá í samræmi við þessa till., sem felst í frv., en gilti um alla. Fjhn. athugaði þetta, og með skírskotun til þess, að mþn. er starfandi, taldi fjhn. enga ástæðu til þess að flytja brtt. við frv., og ég held mér sé óhætt að lýsa því yfir f. h. meiri hl., sem ég tala fyrir, að hann mun ekki styðja þá till., því að úr því að mþn. er starfandi, þá má það teljast fjarstæða, að Alþingi sé að grípa inn í með smávægilegar breytingar, sem orka tvímælis og valdið geta ósamræmi.