25.02.1955
Efri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hygg, að ræða hv. frsm. meiri hl. hin síðari hafi byggzt á mjög alvarlegum misskilningi, ef ég mætti segja svo. Hann fór að koma með hugleiðingar um það, að svo væri ástatt, að ýmsir, sem í raun og veru hefðu tekjur, væru nú farnir að fela þær, svo að þeir fengju lífeyri, og yrðu svo kannske sérstakra skattfríðinda aðnjótandi, ef þetta frv. yrði samþykkt. Ég held þetta sé hinn mesti misskilningur. Yfirleitt mundi þetta nú vera svo, að fyrir lífeyrisþega á öðru verðlagssvæði, sem hann mun nú kannske bera mest fyrir brjósti, eru bótaupphæðirnar 25% lægri en þær, sem ég nefndi áðan á fyrsta verðlagssvæði, þannig að þeir nálgast ekki neitt skattmörkin með sínar venjulegu bótaupphæðir. Í öðru lagi er það, að skatturinn kemur ekki til á venjulegan lífeyri. heldur því aðeins, að hækkun komi á hann. Ef engar tekjur eru umfram skattmarkið. 6500 kr., nema þær 350 kr., sem fastur lífeyrir er hærri. þá er ekki lagður skattur á þær út af fyrir sig. Þær eru taldar með, ef hærra verður, en ella er þeim sleppt. Þess vegna skiptir þetta ekki máli fyrir aðra en þá, sem svo er ástatt um, að þeir fá viðbót, sem einhverju nemur, umfram þann fasta, venjulega lífeyri. Og það eru þeir menn, sem verst eru settir, þurfa umönnun sökum sjúkleika eða hjúkrun. Ég vil fullyrða það, að af þeim ca. 1500 mönnum, sem njóta þessarar hækkunar, eru sárafáir, sem hafa haft aðstöðu til að leyna tekjum og afla sér þannig viðbótarlífeyris, því að það eru kannaðar kringumstæður þeirra manna, áður en þessi hækkun er veitt. Þetta hygg ég að hv. þingmenn viti líka. Þetta snertir aðeins þann hóp manna, sem fær vegna sérstakra ástæðna greiðslu umfram venjulegan lífeyri, vegna þess að hann þarf hjúkrunar við og umönnunar, ef hann er í heimahúsum, eða dvelur á hælum, sem sjá honum fyrir hjúkrun og umönnun, og tilskilið, að hann sé eignalaus og eigi ekki efnaða eða aflögufæra aðstandendur. (Gripið fram í.) Ég held það sé nú sízt hætta á, að þetta fólk eigi sparifé. — Ég er fullkomlega sammála því, sem mér finnst liggja á bak við orð hv. frsm. meiri hl., að það var mesta glapræði að létta af framtalsskyldu sparifjár og hlýtur að rugla og gera næstum ókleifa sómasamlega framkvæmd skattalaganna og mjög erfiða framkvæmd tryggingalaganna. En það er ekki við mig að sakast um það. Ég var mjög andvígur því og mælti því í gegn, að mönnum væri leyft að fela sparifé mitt og leyna þannig ástæðum sínum í skattframtölum og leyna ástæðum sínum gagnvart Tryggingastofnun ríkisins. En það er ekki við mig að sakast um það, eins og hv. þm. veit. Ég var því mjög andvígur.

Þá lýsti hv. þm. því yfir, sem ég vissi reyndar áður, að hann og meiri hl. n. vildi ekki fallast á að fella niður innheimtu á tekjuskatti undir ákveðinni upphæð, — það var rætt um. 50 eða 100 kr. í nefndinni, þegar ég var þar, —og rök hans fyrir því voru ekki þau, að þetta væri ekki rétt og eðlilegt, heldur voru rökin þau, að það væri alltaf hægt að opna skattalögin, þegar manni sýndist. Það er nú engin ný opinberun. Ég er að gera hér tilraun til þess að opna skattalögin. Náttúrlega getur hver maður hvenær sem er gert tilraun um breytingar á skattalögunum, og það er það, sem ég hef gert nú. Það þarf ekki endilega að bíða eftir, að komi álit mþn. um skatta fyrirtækja, með að leggja fram slíkar brtt. sem þessa um skatta einstaklinga. Eftir því sem mér hefur heyrzt hjá hv. n., þá eru ekki miklar líkur til, að mþn. í skattamálum muni flytja brtt. þess efnis og yfirleitt ekki um þann hluta skattalaganna, sem fjallar um skatta einstaklinga. því að þær till. voru afgreiddar á þinginu seinast. Mér finnst því röksemd hv. frsm. meiri hl. fyrir því að vilja ekki vera með þessu núna næsta veigalítil, heldur aðeins yfirskin eða til að segja með öðrum orðum, að hann sé á móti efni frv. og greiði atkv. á móti því. Og það er náttúrlega kjarni málsins.

Ég vil enn undirstrika það, sem ég sagði í upphafi míns máls, að þessi ívilnun hér eða hækkun á persónufrádrættinum tekur aðeins til takmarkaðs hóps þess fólks, sem af þeim ástæðum, sem ég hef greint, þykir nauðsynlegt að bæta upp lífeyrinn, að hækka þann lífeyri, sem ætlazt er til að nægi öllum þorra almennings. vegna þess að það sé verr sett en allur þorri almennings að því er snertir heilsufar, umönnunarþörf og fjárhag. Það væri því harla misráðið, ef neitað væri um þessa sjálfsögðu lagfæringu á skattalögunum, sem ekki kostar ríkið nokkurn skapaðan hlut.