24.02.1955
Efri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2009)

157. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Árið 1953 skipaði ríkisstj. mþn. til þess að endurskoða tollalöggjöfina og gera till. um breyt. á henni. Skyldu tillögur n. sérstaklega miðaðar við það að styrkja íslenzkan iðnað meir en verið hafði, sumpart með því að létta tollum af innfluttu hráefni til iðnaðarins og sumpart með því að þyngja tolla á innfluttum vörum sömu tegundar og rétt þótti að framleiða og fullvinna hér í landinu.

N. lagði fram till. sínar, en þær voru síðar að mestu leyti teknar upp í frv., sem lagt var fyrir síðasta þing og samþykkt var þar með nokkrum breytingum, sbr. lög frá 1954 um tollskrá.

Ákvæði það, sem tekið er upp í frv. á þskj. 396, sem hér er til 1. umr., var einnig í till. n., en var aldrei tekið upp í frv. fyrir einhver óskiljanleg mistök eða einhvern misskilning, en till. og álit n. um þetta atriði hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lýsissamlag íslenzkra botnvörpunga framleiðir nú tæpar 500 smálestir á ári af hertu þorskalýsi til notkunar í smjörlíki og bökunarfeiti. Lýsissamlagið telur sig geta aukið þessa framleiðslu þannig, að fullnægt yrði feitiþörf smjörlíkisiðnaðarins í landinu: Smjörlíki og önnur tilbúin matarfeiti er með 7 aura vörumagnstolli og 3% verðtolli, sbr. nr. 25 í 15. kafla, en nr. 4 í sama kafla — hvalfeiti, hert, svo og hert síldarlýsi — með 2 aura vörumagnstolli og 8% verðtolli. Álítur n. rétt, að herzla á þorskalýsi, sem er notað til hliðstæðrar framleiðslu eins og hert hvalfeiti og hert síldarlýsi, njóti meiri tollverndar en nú er, og leggur því til, að nr. 4 í 15. kafla hækki í 7 aura vörumagnstoll og 15% í verðtoll.“

Með tilvísun til þess, sem hér er sagt; hef ég leyft mér að bera þetta fram hér í sérstöku frv. og vil freista þess að fá það samþ. á þessu þingi, þótt allmjög sé nú liðið á þingtíma.

Um langan aldur hefur lýsið verið framleiðsluvara á Íslandi og jafnframt allverulegur þáttur í útflutningi sjávarafurða, og mun svo væntanlega verða enn um ókomin ár. Um langt skeið var lýsið notað jöfnum höndum til manneldis og til iðnaðar, m. a. til ljósa utan lands og innan, en ljóstækni síðari tíma leysti þó lýsið af hólmi frá þeirri þjónustu að lýsa upp híbýli manna og borgir, svo sem áður tíðkaðist, en aðrar iðngreinar tóku það í þjónustu sína á margvíslegan hátt. Einkum jókst eftirspurnin eftir lýsi, er farið var að hreinsa það og herða og gera það þannig miklu hæfara til manneldis en áður, þar sem hægt var með herzlu þess og hreinsun að nema í burt bæði lykt og bragð. Þrátt fyrir þessa þróun í lýsisiðnaðinum selja Íslendingar enn sem komið er mestan hluta lýsisframleiðslunnar. óhertan eða sem mjög lítt unnið hráefni, og fer verðið að sjálfsögðu eftir því. Nokkur hluti þess er síðan fluttur aftur inn til landsins, hreinsaður og hertur, og notaður hér til iðnaðar, m. a. til matar og feitmetisgerðar. Er þessi innflutningur settur í lægsta tollflokk samkv. gildandi tollalögum, alveg gagnstætt því, sem er um aðrar innfluttar iðnaðarvörur. Í þessu sambandi má t. d. benda á, að tæplega mundi nokkrum hv. þm. detta í hug að leggja til, að leyfður yrði innflutningur á fullverkuðum saltfiski, án þess að hann yrði tollaður í hæsta flokki, og væri það þó alveg sambærilegt við innflutninginn á fullhertu lýsi.

Það, að ekki hefur enn verið komið hér upp nægilega afkastamiklum lýsisherzlustöðvum til þess að geta hert hér allt lýsi og flutt það þannig út í margfalt verðmætara ásigkomulagi, stafar eingöngu af því, hve mikið fé er nauðsynlegt til þess að koma upp slíkri stöð. Eins og kunnugt er, fékk ríkisstj. á sínum tíma heimild til þess að koma upp slíkri stöð, og byrjað var á framkvæmdum, vélar keyptar að einhverju leyti og margt fleira, en við allt var þó hætt vegna fjárskorts.

Nú hefur stjórn Lýsissamlags íslenzkra botnvörpunga, sem stofnað var og starfrækt hefur verið í áratugi til þess að gera lýsismagn togaraflotans sem verðmætast, komið sér upp herzlustöð, sem getur hert allt það lýsi, sem innlendi markaðurinn getur tekið á móti. En þá ber svo við, að þessu fyrirtæki er ekki gefin sama vernd og öðrum iðnfyrirtækjum í landinu í tollalöggjöfinni, og þó er það nú öllum ljóst, að þörf sjávarútvegsins til öflunar tekna er slík, að ekkert má láta ógert til þess, að þessi atvinna megi njóta þeirra möguleika, sem fyrir hendi eru, á borð við önnur framleiðslufyrirtæki.

Ég vil því mega vænta þess, að hv. þm. sýni þessu máli sanngirni og samþykki frv. óbreytt eins og það liggur hér fyrir á þskj. 396: Ég vil leyfa mér, að lokinni þessari umr., að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vænti þess, að hinn ágæti formaður n. láti afgr. málið sem allra fyrst og stuðli að því og leggi það til, að frv. verði samþ.