29.10.1954
Neðri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2016)

63. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sagði í sinni framsöguræðu fyrir þessu máli, að um það hefði nú tekizt fullt samkomulag á milli þeirra aðila, sem það snerti, og ber sjálfsagt að skilja það á þann hátt, að það sé þegar komið í þær skorður, sem það endanlega á að fá, þannig að líkur fyrir breytingum á því eru kannske ekki miklar. En mig langar þó til að láta. nokkur orð fylgja því þegar við þessa 1. umr.

Ég vil þá fyrst geta þess, að mér þykir ástæða til þess að lýsa ánægju yfir því, að þetta frv. er fram komið, ekki síður en yfir því, að þessi stofnun, sem hér um ræðir, Iðnaðarmálastofnunin, hefur verið sett á laggirnar, því að ég efast ekki um það, að hennar bíður mikið og merkilegt verkefni í framtíðinni. Eins og ráðh. sagði, hefur iðnaðurinn og iðjustarfsemin í landinu vaxið mjög ört á síðustu árum og áratugum, og þróunin í þeim málum hefur kannske að sumu leyti orðið svo ör, að það er ekki laust við, að það hafi orðið vart við ýmsa barnasjúkdóma, sem ástæða væri til að reyna að hjálpa þessum atvinnuvegi yfir. Ég tel þess vegna, að stofnun eins og þessi eigi þýðingarmikið verk að vinna, líka með hliðsjón af því, að ég tel ákaflega líklegt, að einmitt þessi atvinnuvegur, iðnaðurinn, muni í framtíðinni, eins og hann hefur gert nú upp á síðkastið, taka við kannske megninu af þeirri fólksfjölgun, sem verður í landinu. Það er engin launung á því, að mest atvinnuaukning hefur orðið í þessari atvinnugrein að undanförnu, og ég sé ekki ástæðu til þess að efast um, að svo geti einnig orðið í framtíðinni. Það er líka öllum hugsandi mönnum ljóst, að setuliðsvinnan eða varnarliðsvinnan verður ekki eilíf í þessu landi, og einhver þarf að taka við því fólki, sem þar hefur nú sitt uppihald. Hver stoð, sem rennt er undir þennan atvinnuveg, hefur þess vegna mikla þýðingu, og ég tel þessa stofnun vera eina slíka, og þess vegna fagna ég henni.

Ráðherra lýsti því yfir, enda er það beinlínis sagt í grg. fyrir frv., að hann hafi skipað sjö manna n. í febr. s. l. til þess að semja þetta frv. Og á grg. sést, að þessi nefnd hefur tekið til starfa 26. febr. og starfað, að því er virðist, að miklu leyti óslitið síðan og fram í september. En mér þykir bara árangurinn af þessu starfi harla magur, því að þetta frv., sem hér er lagt fram, er eiginlega lítið annað en upphaf og endir. Það er átta greinar. Fyrsti kaflinn er ein grein, annar kaflinn er ein setning, fjórði kaflinn er ein setning, og fimmti kaflinn er ein setning. Mér finnst, að þegar um svo merkilegt mál er að ræða eins og þetta, þá hefði mátt koma fleiri atriðum inn í þetta frv. og gera það öllu ýtarlegra. Það má segja, að það sé kannske æskilegt, að frumvörp séu stuttorð og gagnorð, en mér finnst það þá næstum ofrausn að kalla þetta kafla, þegar um eina setningu er að ræða, eða þrjá kafla með þremur setningum.

1. gr., sem jafnframt er fyrsti kafli, fjallar um tilgang frv., og er þar lýst, í stuttu máli og greinargóðu sjálfsagt, því, sem er undirstaða þessa máls, eða því, sem stofnuninni er ætlað að starfa. Ég sakna þar þó ýmislegs. Ég sakna þar t. d. þess, að þessari stofnun sé ætlað það verkefni að gera áætlanir eða athuga möguleika fyrir nýjum iðnfyrirtækjum. Það er svo mikið atriði í sambandi við starf þessarar stofnunar, að ég tel, að það eigi hiklaust að koma fram í lögunum. Mér er líka kunnugt um það, að stofnunin, á þeim tíma sem hún þegar hefur starfað, hefur einmitt nokkuð starfað í þá átt að athuga möguleika á nýjum iðnfyrirtækjum. Hér eru, ég vil ekki segja óendanlega margir, en afar margir möguleikar til star£a á ýmsum sviðum iðnaðarmála. Og ég teldi það alveg fráleitt, að stofnun , eins og þessi hefði ekki mjög ofarlega á sinni stefnuskrá að vinna einmitt að rannsókn nýrra viðfangsefna, leggja niður fyrir sér, hvort þessi eða hin iðnaðarstarfsemin, sem komið hefur til greina að hafa hér um hönd, sé raunhæf, hvort hún beri sig og hvort æskilegt sé í hana að leggja.

Þá er annað atriði. sem mér finnst líka að hefði átt að taka skýrar fram í þessum fyrsta kafla, og það er það verkefni, að þessari stofnun yrði falið að hjálpa mönnum með skipulag og uppbyggingu sinna iðjuvera eða verksmiðja. Það má að vísu segja, að það fellst kannske í einum töluliðnum í 1. gr., en kemur þó ekki eins greinilega fram þar og ég teldi rétt að það gerði. Hins vegar er mér kunnugt um það persónulega, að í ýmsum þeim iðnfyrirtækjum, sem nú starfa, er verksmiðjureksturinn, vinnugangurinn í verksmiðjunni, ekki á þann hátt, sem bezt yrði á kosið. Þar mætti mjög bæta um víða. Og ég teldi það eitt mjög veigamikið verkefni þessarar stofnunar, að hún tæki sér fyrir hendur beinlínis að kanna, annaðhvort ótilkvödd eða tilkvödd, hvernig þessum málum er skipað hjá ýmsum verksmiðjustofnunum, og gerði tili. til breytinga og úrbóta. Þetta er það veigamikið atriði, að ég tel, að það ætti að setjast a. m. k. greinilegar en það kemur fram í greininni.

Fleiri atriði mætti nefna, sem þarna ætti að taka fram, að ég vildi skjóta því til þeirrar n., sem fær frv. til athugunar, að lesa ekki einungis þessa gr. heldur hinar greinarnar líka, með athygli, sérstaklega þær greinar, ef ég svo má segja, sem eru ekki í frv., því að mér finnst vanta í það æði mikið.

Um annan kafla, fjórða kafla og fimmta kafla frv. hef ég ekki mikið að segja. Hver þessara kafla er aðeins ein setning, og það getur vissulega ekki minna verið, úr því að það er kallað kafli a. m. k. En ég teldi, að þar mætti að skaðlausu nokkru við auka.

Það, sem mig vantar þó helzt í frv., eru ákvæði um starfshætti stofnunarinnar. Þar er ekkert um það, hvernig hún skuli starfa. Þar er aðeins, að hvaða verkefnum hún skuli vinna og hver skuli stjórna henni. Þetta eru tveir þeir kaflar, sem sýnilega hefur verið lögð nokkur vinna í, en annað er nauðalítið. Ég teldi það t. d. hafa mjög mikla þýðingu, að það væri tekið fram í frv. eða lögunum, þegar þar að kemur. hvort einstaklingar eiga aðgang að þessari stofnun, hvort þeir eiga að geta snúið sér til hennar og beðið hana um að vinna ákveðin verk, og þá eftir hvaða reglum, — á þetta er ekkert minnzt í frv., — eða hvort stofnuninni er ætlað að vinna aðeins að eigin frumkvæði, þannig að hún ákveði sjálf að öllu leyti, hvaða verkefni hún tekur sér fyrir hendur, og aðrir komi þar ekki nálægt. Sem sagt: starfshætti verksmiðjunnar og starfsfyrirkomulag teldi ég að þyrfti að ákveða miklu betur en gert er, úr því að lög um stofnunina eru sett á annað borð.

Þessari stofnun er ætlað ekki svo lítið fé til umráða. Eins og ráðh. sagði, þá eru á fjárlagafrv. ársins 1955 ætlaðar 650 þús. kr. í þessu skyni. Og hann upplýsti í viðbót, að hún fengi fé annars staðar að, frá Bandaríkjunum, sagði hann, sem á þessu ári mundi nema hátt á þriðja hundrað þús. kr., að mér skildist, og líkur fyrir því, að þetta mundi halda áfram og sízt minnkandi. Virðist því svo sem þessi stofnun muni hafa til umráða um eina millj. kr., og er það vitaskuld mjög ánægjulegt. En þá verður líka að gera þá kröfu um leið, að starfsemi hennar sé felld í fastar skorður og að henni séu fengin þau verk að vinna, sem virkilega koma að gagni fyrir íslenzkan iðnað. Og ég efast ekkert um, að þau geri það, þegar þar að kemur, ef tryggilega er frá þessum hnútum gengið, enda sé ég það t. d., að þessi stofnun, þó að ríkisstofnun sé, hefur einhvern veginn haft ráð á því að hafa í sinni þjónustu verkfræðinga, þó að eldri ríkisstofnanir hafi orðið að vera án þeirra hluta nú um hálft s. l. ár. — Mér þætti það ekki ófróðlegt, að hæstv. ráðh. vildi í þessu sambandi skýra frá því hér á þinginu, hvað hann borgar eða lætur borga þeim verkfræðingum, er við þessa stofnun vinna, svo að á þann hátt gætum við hinir, sem höfum orðið að vera án þessara starfskrafta núna síðasta missiri, fengið að vita, hvernig að þessum mönnum er búið í þessari ríkisstofnun. Ég játa það að vísu, eins og ég sagði í upphafi, að þetta er ákaflega þýðingarmikil stofnun og nauðsynleg. En ég vil halda því fram líka, að t. d. vegamálaskrifstofan, póstur og sími og vitamálaskrifstofan séu ekki óþarfar stofnanir fyrir ríkissjóð, þannig að það sé ekki sama, hvort þær séu reknar starfskraftalausar eða litlar eða ekki. Og þar sem hér er um ríkisstofnun að ræða, sem að vísu er ætlað mjög þýðingarmikið og vandasamt verk, sem hefur fengið leyfi ríkisstj. til þess að hafa þessa menn í þjónustu sinni, þá langar mig til að vita, hvað þeim er borgað í kaup, og sé þá ekkert undan dregið, þar sé talið kaup og hlunnindi og allt, sem þessir menn hafa til þess að við getum fengið það til samanburðar, þegar við förum, ef einhvern tíma verður, að ræða við þá verkfræðinga, sem einu sinni voru í okkar þjónustu, ef einhver þeirra vill koma til okkar aftur.

Ég sem sagt tel, að þetta sé þörf stofnun, sem eigi mikið verk að vinna í framtíðinni fyrir íslenzka atvinnuvegi. Mér þykir frv., sem um hana hefur verið samið, losaralegt og finnst, að það sé lítill árangur sjö manna vinnu í hálft ár, eins og kemur fram í grg. Og ég vil að síðustu óska eftir því, að hæstv. ráðh., ef hann getur, nú eða síðar, gefi mér upplýsingar um, með hvaða kjörum þeir verkfræðingar, sem stofnunin hefur í þjónustu sinni, eru ráðnir.