29.10.1954
Neðri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2017)

63. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að svara því, sem hv. síðasti ræðumaður spurði um áðan, og það er í sambandi við laun verkfræðinga hjá Iðnaðarmálastofnuninni. Á s. l. vetri spurðist ég fyrir um það, með hvaða kjörum verkfræðingar hjá Iðnaðarmálastofnuninni væru ráðnir, því að þeir voru ráðnir þar áður en ég varð ráðherra.

Ég fékk þær upplýsingar, að það væru sömu kjör og Reykjavíkurbær borgaði sínum verkfræðingum, og mér vitanlega hefur engin breyting orðið á þessu síðan, enda ekki hægt að gera breytingar á launum við stofnunina nema bera það undir ráðherra.

Hv. ræðumaður talaði um, að þetta frv. væri stutt og það væri losaralegt, það væri lítill árangur eftir hálfs árs starf sjö manna. Það er nú víst óhætt að draga nokkurn tíma frá, sumartímann, sem n. starfaði ekki. Ég vil hins vegar segja: Það er enginn mælikvarði á gæði frv., hvort það er stutt eða langt. Frv. getur verið því betra sem það er styttra og minni málalengingar í því. Hitt getur svo verið rétt, að það þarfnist einhverra endurbóta, og eins og ég sagði áðan, þá er eðlilegt, ef nauðsyn þykir bera til að gera breytingar á því, að bera það undir þá n., sem samdi frv., og efast ég ekki um, að ef eitthvað kemur fram, sem sýnilega er til bóta á frv., þá fæst það sett inn í frv.

Hv. ræðumaður talaði um, að það vantaði ýmislegt hér í 1. gr. frv., þar sem talað væri um tilgang, t. d. það, hvort ekki væri meiningin að greiða fyrir nýjum fyrirtækjum og leiðbeina þeim, sem vildu setja á stofn ný fyrirtæki. Ég held nú, að ef 1. gr. er lesin, þá blandist engum hugur um, að í henni felist einmitt þetta, t. d. að stuðla að umbótum á vinnslu og meðferð iðnaðarframleiðslunnar með því að kynna þeim, er iðnað stunda, tæknilegar nýjungar og veita þeim leiðbeiningar, er miði að auknum afköstum og verknýtingu og vöruvöndun, rannsaka mikilvægi einstakra þátta í framleiðni iðnaðarins og kynna árangurinn, svo að notum komi fyrir iðnfyrirtækin og tæknifræðsluna í landinu, — og þá alveg jafnt þá, sem hafa ekki iðnaðarfyrirtæki sjálfir, því að ef þetta er á annað borð kynnt með ritum og á annan hátt, þá er það vitanlega opið fyrir öllum.

Ræðumaður spurði að því, hvort það væri meiningin, að einstaklingar gætu snúið sér til stofnunarinnar og fengið upplýsingar þar, ef þeir vildu. Enda þótt það sé ekki tekið fram í 1. gr. frv., þá leiðir það af sjálfu sér, að ætlazt er til þess, og það er auðvitað meiningin. að eftir þessum lögum verði samin reglugerð, ýtarleg reglugerð, sem farið verður eftir í sambandi við stofnunina.

Ég held þess vegna,. að út af fyrir sig sé nóg í 1. gr. um tilganginn og að það geti ekki verið blandað neitt málum um það, að það, sem ræðumaður var að tala um, felist í 1. gr. frv. En það, sem á kynni að vanta, yrði vitanlega tekið fram nánar í reglugerð.

En aðalatriðið var nú það, að þessi hv. ræðumaður fagnaði því, að frv. er fram komið, og hann tók undir það, að Iðnaðarmálastofnunin væri þörf stofnun, sem ástæða væri til að ætla að gæti komið að miklu gagni fyrir iðnaðinn í landinu. Það er vitanlega kjarni málsins, en ekki það, þótt jafnvel væri eitthvað í frv., sem þyrfti að lagfæra og endurbæta. N., sem fær þetta frv. til athugunar, hefur það á sínu valdi að bera fram brtt., ef nauðsyn þykir til þess bera. En ég vil endurtaka það, að ég óska eftir því, að sú n., sem samdi frv., fái að fylgjast þar með og segja sitt álit á þeim brtt., sem fram kynnu að koma.