14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

18. mál, sömu laun kvenna og karla

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er orðið hv. þingmönnum vel kunnugt. Það er nú flutt í þriðja sinn. Frv. fer fram á það í sem skemmstu máli, að öll störf, sýslanir og embætti hjá íslenzka ríkinu og hjá bæjar- og sveitarfélögum skuli greidd sömu launum, hvort sem þau eru unnin af konum eða körlum. Í öðru lagi, að sömu reglur gildi um færslu kvenna sem karla milli launaflokka, en slík hefur framkvæmdin ekki verið hér á landi til þessa. Í þriðja lagi er farið fram á, að það verði lögfest, að öll skrifstofustörf og afgreiðslustörf í verzlunum verði greidd með sama kaupi, hvort sem þau eru unnin af konum eða körlum. Og í fjórða 1agi, að öll störf í hraðfrystihúsum og við iðju og iðnað skuli greidd konum og körlum með jöfnu kaupi. Til þess að ekki verði árekstrar um framkvæmd þessa atriðis, er svo farið fram á það í lokagrein frv., að ákvæði í öllum samningum stéttarfélaga við atvinnurekendur, sem ákveða lægra kaup handa konum en körlum, skuli verða felld úr gildi við gildistöku laganna.

Í grg. frv. er sýnt fram á það með ákveðnum dæmum, hversu ranglætið er áberandi að því er snertir launagreiðslur kvenna og karla hjá Reykjavíkurbæ. Og það sama gildir auðvitað hjá öðrum bæjar- og sveitarfélögum, þó að dæmin séu tekin úr opinberum skjölum, skýrslum Reykjavíkurbæjar. Í öðru lagi eru í grg. rakin dæmi um sams konar ósamræmi og ranglæti hjá fólki, sem er í þjónustu ríkisins, starfs- og sýslunarmönnum hvers konar, sem er launað misjafnlega eftir því, hvort það er karl eða kona, sem gegnir starfinu. Aftur á móti eru vissar undantekningar til að því er snertir embætti hjá ríkinu, þar sem konum eru greidd sömu laun og körlum, eins og t. d. í kennarastéttinni. Þar er ekkert spurt um, hvort kennarinn er karl eða kona. Sama er að segja um þau fáu tilfelli, sem til eru um kvenlækna. Þær hafa að lögum sömu laun og karlar. Er þannig í raun og veru ekkert samræmi í þessu hjá ríkinu eins og stendur. Þá hefur iðnverkafólk mjög mismunandi laun eftir því, hvort um karlmann eða konu er að ræða, og er þetta launamisrétti því meira áberandi sem yfirleitt er staðreynd, að konur geta afkastað við létt störf í verksmiðjuiðnaðinum eins miklu og í sumum tilfellum meiru en karlar. Á þetta sérstaklega við um öll þau störf, sem meira eru komin undir handflýti en líkamsorku, og er það yfirgnæfandi hluti þessara starfa, sem þannig er í eðli sínu. Við verzlunarstörf, skrifstofustörf og afgreiðslustörf hvers konar er launamunurinn mjög áberandi. Sums staðar er það þannig. að tvöfalt hærra kaup er greitt körlum en konum við þessi annars yfirleitt auðveldu störf, þar sem engum dettur í hug að halda því fram, að karlar afkasti meira verki eða verðmætara en konur. Að því er snertir erfiðisvinnu er munurinn líka mikill á kaupi kvenna og karla, en þó er það þannig, að þar er munurinn nú orðinn minnstur, og gætir þar nokkurra áhrifa frá því, sem unnizt hefur í kaupgjaldsbaráttu verkalýðssamtakanna.

Þetta mál er nú á dagskrá, ekki aðeins hér á landi, heldur víðs vegar úti um heim. Er það nú orðið stefnuskrármál ýmissa heimssamtaka, svo sem Sambands frjálsra verkalýðsfélaga, en það samband hefur gefið fyrirskipanir til þeirra verkalýðssamtaka í ýmsum löndum, sem eru meðlimir í því, — þar á meðal Alþýðusambands Íslands, — að berjast fyrir sömu launum kvenna og karla fyrir sömu vinnuverðmæti. Þá hefur Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf málið ofarlega á stefnuskrá og hefur hvað eftir annað sent íslenzkum stjórnarvöldum og Alþingi tilmæli um það að staðfesta hina svokölluðu jafnlaunasamþykkt, sem þar var samþykkt fyrir mörgum árum. En Ísland hefur ekki enn þá gerzt aðili að þessari alþjóðlegu samþykkt um sömu laun kvenna og karla af þeirri góðu og gildu ástæðu, að Ísland getur ekki tekið á sig skuldbindingar jafnlaunasamþykktarinnar, þar sem Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, þ. e. a. s. stéttarsamtök atvinnurekenda og verkafólks, hafa ekki skuldbundið sig um þetta. En ef slíkar skuldbindingar væru nú orðnar gildandi og bindandi, þá gæti Ísland á þeirri sömu stundu eða hvenær sem væri gerzt aðili að jafnlaunasamþykktinni. Þetta væri líka hægt með öðru móti. Það væri hægt fyrir Ísland að gerast aðili að jafnlaunasamþykktinni frá Genf, ef búið væri að lögfesta sama kaup til handa konum og körlum. Þá gæti Ísland staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim alþjóðasamtökum, sem íslenzka ríkið er aðili að. En meðan þetta hefur ekki gerzt, getur Ísland ekki orðið aðili að jafnlaunasamþykktinni.

Síðan málið var flutt á seinasta þingi, hefur það gerzt, að fram var borin á Alþ. af sjö þm. Sjálfstfl. þáltill., sem var þess efnis, að ríkisstjórn Íslands skyldi athuga, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til þess, að Ísland gæti orðið aðili að jafnlaunasamþykktinni í Genf. Nú væri auðvitað ákaflega fróðlegt að fá eitthvað að heyra um það, hvort ríkisstj. er farin að athuga þetta, hvað hún þurfi að gera, til þess að íslenzka ríkið geti orðið aðili að þessari samþykkt, og hvaða niðurstöðu ríkisstj. hefur komizt að, ef hún skyldi nú hafa lokið þessum athugunum, — yfirleitt væri gaman að vita, hvort íslenzk stjórnarvöld eru búin að glöggva sig á því, hvað hér þurfi að gerast, til þess að Ísland geti orðið aðili að þeirri samþykkt, sem lagt hefur verið fyrir íslenzka ríkið að staðfesta, af því að Ísland er aðili að samtökum, sem þegar hafa samþykkt þetta mál. Nú má það vera, að enn þá sé allt í þoku um það, hvað Íslendingar þurfi að gera í þessu efni, og að enginn sé búinn að glöggva sig á því, hvorki tillögumennirnir frá því í fyrra né íslenzka ríkisstj., sem þeir fólu þessa vandasömu athugun.

Annað atriði hefur líka gerzt, síðan málið var flutt hér á Alþ. í fyrra, og það er það, að nokkur verkalýðsfélög kvenna hafa í samningum við Vinnuveitendafélag Íslands og atvinnurekendur á sínum félagssvæðum knúið fram, að konum sé goldið sama kaup og körlum við nokkrar ákveðnar, tilteknar vinnugreinar eða ákveðin störf, einkanlega erfið störf. Þar með hefur fengizt staðfesting á því, að atvinnurekendur vilja greiða konum sama kaup og körlum einmitt við ýmis erfið störf, þar sem konur eru sízt færar um að afkasta sama verki og karlmenn. Þetta er ef til vill af því, að þeirra góða hjarta þoli það ekki, að konum sé atað út við svona erfiða vinnu, og þess vegna beri að yfirborga þeim, þegar þær vinni slík störf. En svo mikið er víst, að ef komið er til móts við réttlætið að því er snertir að borga konum sama kaup og körlum við erfið störf, þá er vitanlega alveg sjálfsagður hlutur að borga konum sama kaup og körlum við öll létt og auðunnin störf, sem eru þess eðlis, að handflýtir konunnar skilar jafnmiklu eða jafnvel meira verki og vinnuverðmæti en karlar gera. Ætti því sóknin að því marki að vera tiltölulega auðveld, ef atvinnurekendur eru almennt búnir að viðurkenna það, að við erfið störf skuli borga konum sömu laun og körlum. En samt er það nú einmitt svo, að það stendur á atvinnurekendum að borga konum sama kaup og körlum við létt störf, þar sem vinnuverðmæti þeirra er engu minna en vinnuverðmætið, sem karlmenn skila.

Sú staðreynd, að vinnuveitendurnir fást ekki enn þá til að viðurkenna þetta, er orsök þess, að leitað er nú til löggjafans um að hjálpa þeim á rétta braut í þessu efni um það, sem enn þá er áfátt, til þess að Ísland geti orðið aðili á alþjóðlegum vettvangi um að viðurkenna konum sama kaup og körlum fyrir sömu vinnu. Ég vil a. m. k. óska þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að ljúka fljótt og vel athugun sinni á því, hvað Ísland þurfi að gera til þess að geta orðið aðili að jafnlaunasamþykktinni. Það getur ekki orðið margra ára verk, — það er alveg óhugsandi, — því að viðfangsefnið er þetta eitt, hvort ríkisvaldið vill heldur, að þetta gerist með samningum milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, eða lögfesta þetta réttlætismál og tilkynna síðan Alþjóðavinnumálastofnuninni í Genf: Nú erum við tilbúnir. Nú getum við orðið aðilar að þessari alþjóðlegu samþykkt og staðið við hana. — Og það ætti hæstv. ríkisstj. auðvitað að gera án nokkurra umþenkinga, því að þetta er sjálfsagt mál.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. Þetta er vitanlega stórt fjárhagsmál fyrir íslenzka ríkið, ef það vildi ganga á undan öðrum um að fullnægja réttlætinu, og það vona ég, að ekki standi á því að gera.