14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

21. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. 1. gr. frv. þess, sem hér er flutt á þskj. 21, hefur inni að halda nokkrar ívilnanir á tekjuskatti fyrir þá launþega, sem tilneyddir eru að sækja atvinnu sína til staða fjarri heimili sínu. Þá er í sömu gr. lagt til, að hækkaður verði frádráttur á tekjum til skatts sjómanna á fiskiskipum vegna hlífðarfatakostnaðar úr 200–300 kr. á mánuði, eins og nú er í lögum, upp í 600 kr. á mánuði, miðað við þann tíma, sem þeir stunda fiskveiðar.

Eins og nú er háttað atvinnumálum hér á landi, er í sumum landshlutum hið mesta atvinnuleysi. Sérstaklega er þetta mjög áberandi í kauptúnum og sjávarþorpum norðanlands. Á hverju hausti fer stór hópur verkafólks og iðnaðarmanna í atvinnuleit til Suðurlandsins. Fólksstraumur þessi hefur farið ört vaxandi ár frá ári. Veldur þar um hið mikla og alvarlega síldarleysi, sem nú í heilan áratug hefur þjakað heil byggðarlög norður þar meira en orð fá lýst. Það hefði mátt ætla, að hið opinbera hefði fyrir löngu séð sér fært að taka að einhverju leyti tillit til hins mikla kostnaðar, sem því er samfara að þurfa að sækja atvinnu sína suður á land í 6–10 mánuði á ári.

Það er algengt, að fólk, sem fer til slíkrar atvinnu, verður að greiða í uppihald mikið á annað þúsund kr. á mánuði, og vitanlega verður að sjá jafnframt fjölskyldu sinni farborða heima fyrir. Í núgildandi skattalögum eru engin ákvæði, sem heimila frádrátt á tekjum til skatts vegna kostnaðar við að sækja atvinnu til fjarlægra staða. Þetta er hið mesta misrétti, sem hið opinbera verður að leiðrétta. Það er lágmarkskrafa, að það fólk, sem tilneytt er að sækja atvinnu sína til fjarlægra staða vegna atvinnuleysis heima fyrir, fái a. m. k. allan uppihalds- og ferðakostnað til frádráttar frá tekjum sínum til skatts.

Frv. gerir ráð fyrir, að við ákvörðun þessa kostnaðar sé farið eftir mati skattayfirvalda. Um frádrátt á launum sjómanna á fiskiskipum til skatts vegna hlífðarfatakostnaðar er það að segja, að það opinbera hefur þegar viðurkennt þá kröfu að nokkru. Í þessu frv. er enginn mismunur gerður á því, hvort menn stunda fiskveiðar á togurum eða öðrum fiskiskipum, heldur skal draga frá tekjum sjómanna, sem fiskveiðar stunda, 600 kr. á mánuði vegna hlífðarfatakostnaðar.

Allir þeir, sem eitthvað þekkja til sjósóknar og fiskveiða, vita, að engin atvinna, sem stunduð er hérlendis, útheimtir eins mikið af góðum hlífðarfötum og fiskveiðar. Maður, sem t. d. fer á togara og þarf að kaupa allan nauðsynlegan hlífðarfatakostnað í túrinn, kemst tæplega af með minni upphæð til slíks en 2000 kr. Eftir hverja veiðiferð þarf hann að endurnýja hlífðarfatnað sinn að meira eða minna leyti. Hið sama gildir um þá sjómenn, sem stunda fiskveiðar á öðrum skipum. Þar er hlífðarfatakostnaðurinn farinn að skipta mörgum þúsundum yfir hverja vertíð. Það er fyllsta ástæða til fyrir hið opinbera að taka frekar tillit til hins mikla kostnaðar, sem nú er og fiskimenn okkar þurfa að leggja á sig fram yfir aðrar starfsstéttir vegna hinna miklu og dýru hlífðarfatakaupa.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir, að sjómenn á íslenzkum fiskiskipum njóti þeirra fríðinda að mega draga 1/3 hluta af sjómannskaupi sínu frá brúttótekjum til skatts. Þetta mundi, ef að lögum yrði, létta talsvert skattgreiðslur hlutaðeigandi sjómanna.

Aðalástæðan fyrir því, að rétt þykir að veita fiskimönnum skattaívilnanir fram yfir aðrar stéttir, er, að reynslan sýnir, að erfiðlega hefur gengið að fá menn til þeirra starfa, erfiðlegar en flestra annarra, svo og hins, að störf íslenzkra fiskimanna eru erfið og hættuleg og vinnutími langur. Því verður ekki á móti mælt með neinum rökum, að tekjur sjómanna. sem verða að dvelja fjarri heimilum sínum í lengri eða skemmri tíma, reynast ótryggari en tekjur þeirra, sem vinna heima hjá sér og geta því notað frístundir sínar til ýmissa starfa fyrir heimili sín. Sjómaðurinn verður aftur á móti að kaupa margvíslega aðstoð og vinnu fyrir heimilið fram yfir aðra, þar sem hann atvinnu sinnar vegna getur ekki sinnt slíku starfi sjálfur. Á síðari árum hefur oft og tíðum reynzt erfitt að fá menn á fiskiskipin. Kaup fiskimanna er ekki í neinu samræmi við hinn langa vinnutíma þeirra og er í mörgum tilfellum lakara en landverkafólks. Auk þess fylgir allri sjósókn mikil slysahætta fram yfir flesta aðra vinnu. Skortur á dugandi sjómönnum til fiskveiða er mikið áhyggjuefni þeirra manna, sem útgerð stunda, enda hreinn þjóðarvoði fyrir dyrum, ef ekki fást nægilega margir ötulir og dugandi sjómenn á fiskiskipastól landsmanna.

Skattfríðindi eins og þau, sem hér um ræðir og veitt yrðu fiskimönnum, ættu að verða einn þáttur í því að örva unga og dugmikla menn til þess, að þeir teldu sér hag í því að gera sjómennsku á fiskiskipum að lífsstarfi sínu. Okkur flutningsmönnum er það fyllilega ljóst, að margt fleira þarf að gera til að bæta kjör íslenzkra fiskimanna en felst í þessu frv., svo að hægt verði að snúa við á þeirri óheillabraut undanfarinna ára, að fleiri og fleiri menn telji sig neydda til að flýja frá framleiðslustörfum þjóðarinnar og þá einkum fiskveiðum til óarðbærari og sumpart óþjóðhollrar vinnu í landi, svo sem vinnu við hernaðarmannvirki suður á Keflavíkurflugvelli. Íslenzkir fiskimenn eru margfalt afkastameiri við veiðiskap en fiskimenn annarra þjóða. Útflutningur íslenzkra fiskafurða gerir hvorki meira né minna en 90–95% af öllum útflutningi landsmanna. Á þessu sést, svo að ekki verður um deilt, hvers virði störf fiskimanna okkar eru fyrir þjóðarheildina og hversu mikil þjóðarnauðsyn það er að hagur þeirra sé sem beztur. Skattfríðindi þau, sem frv. þetta hefur inni að halda til handa sjómönnum á fiskiskipaflotanum, eru aðeins smáviðurkenning til handa fiskimönnum okkar á hinu þýðingarmikla starfi þeirra í þágu lands og þjóðar, sem Alþingi ætti að sjá sóma sinn í að samþykkja á þessu þingi.

Ég vil að lokum geta þess, að fulltrúar togaraeigenda og fulltrúar togarasjómanna, sem voru við síðustu togarasamninga, voru sammála um að vinna að því, að skattfríðindi til handa sjómönnum næðu fram að ganga. Vænti ég þess. að fulltrúar togaraeigenda hér á Alþ. leggi þessu máli lið, svo og aðrir hv. alþm. Að lokinni þessari umr. vil ég leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.