14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

24. mál, félagsheimili

Flm.. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 24 er eitt þeirra mörgu mála, er verkalýðshreyfinguna varða, sem endurflutt eru hér á hv. Alþingi. Ég hef leyft mér að flytja það hér á ný. Eins og í grg. þess segir, var það einnig flutt hér á síðasta þingi, en hlaut þá þau örlög hér í hv. þd. að vera fellt við 2. umr. Þessi afstaða hv. meiri hl. þingmanna var byggð á þeirri umsögn stjórnar félagsheimilasjóðs, að verkalýðsfélögum væri ef til vill heimilt að vera þátttakandi ásamt öðrum þeim félögum, er um getur í gildandi lögum, um byggingu félagsheimila, eins og lögin nr. 77 frá 5. júní 1947 segja. Það er með öðrum orðum til of mikils mælzt, að félög sem verkalýðsfélögin eru megi hafa forgöngu um byggingu félagsheimila, en það er það eina, sem frv. fer fram á. Frv. fer fram á það eitt, að verkalýðsfélögum sé veittur sami réttur til opinberrar aðstoðar við byggingu samastaðar fyrir starfsemi sína eins og ungmennafélögum, íþróttafélögum, lestrarfélögum, bindindisfélögum, skátafélögum og kvenfélögum. Mér er kunnugt um staði, þar sem ekkert slíkt félag er starfandi, en hins vegar eru til verkalýðsfélög, sem eru á algerum verðgangi með starfsemi sína. Vegna þessara aðstæðna ætti slíkt stéttarfélag fyrst samkv. núgildandi lögum að beita sér fyrir stofnun t. d. íþróttafélags eða kvenfélags og reyna síðan að fá samflot við það eða þau um byggingu samkomuhúss. Slíkt er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi ástand og útlátalaust fyrir Alþ. að bæta hér úr. Hinum virðingarverðu menningarfélögum, er um getur í núgildandi lögum, er heldur engin hætta búin með tilkomu verkalýðsfélaganna, því að vissulega leggja fjárhagslega getulítil félög, eins og verkalýðsfélögin eru víðast hvar, ekki út í byggingu félagsheimila nema af knýjandi nauðsyn og mundu að sjálfsögðu fá aðstoð einhverra hinna fyrrnefndu félaga, ef þau yrðu síðar stofnuð. Verkalýðsfélögin eru víðast hvar elztu og fjölmennustu félagasamtökin, og það virðist því vera algert sanngirnismál, að Alþ. komi til móts við þau í þessu máli. Vafalaust mundi svo hins vegar örvast margs konar félagslíf á hinum fyrr nefndu stöðum einmitt vegna þess, að verkalýðsfélögunum yrði gefinn kostur á því að hafa forgöngu um þessi mál. Verkalýðsfélögunum er ekki nægjanlegt, að þeim sé undir ákveðnum tilfellum sýndur áhugi og umhyggja. Þau óska eftir að sjá þann áhuga á borði.

Að svo mæltu óska ég eftir því, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. og að málinu verði hraðað eftir föngum.