14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2063)

24. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að leiðrétta dálítinn misskilning, sem komið hefur fram hjá hv. þm., sem um þetta mál hafa rætt.

Hv. flm. málsins sagði m. a., að ekki væri hægt að fá styrk til byggingar félagsheimilis á stað, þar sem verkalýðsfélag væri einu félagasamtök byggðarlagsins, vegna þess að lögin útilokuðu slíka aðild verkalýðsfélags. Þetta er hinn mesti misskilningur. Í því tilfelli. að verkalýðsfélag sé einu félagasamtök á stað, þá er ekkert auðveldara fyrir það en að fá styrk úr félagsheimilasjóði til byggingar félagsheimilis og það með því einfalda ráði að taka upp samvinnu við viðkomandi hreppsfélag eða sveitarfélag, sem félagið er í.

Í núgildandi lögum um félagsheimili stendur nefnilega, eftir að talin hafa verið upp þau félagasamtök, sem styrk geta fengið til byggingar félagsheimilis, að sama gildi um samkomuhús sveitarfélaga. Verkalýðsfélag á þeim stað, sem hv. 7. landsk. þm. minntist á, á þess vegna að snúa sér til síns sveitarfélags og óska samvinnu við það um byggingu þessa nauðsynlega mannvirkis, og styrkurinn verður veittur. Og ég verð að segja það í þessu sambandi, að mér þykir leiðinlegt, að mínir ágætu vinir í Súðavík, sem hv. 3. landsk. þm. minntist á að sótt hefðu um aðstoð félagsheimilasjóðs, en ekki fengið, skyldu ekki hafa snúið sér til mín og fengið þessar upplýsingar, því að að þeim fengnum og eftir að hafa hafið samvinnu við hreppinn um þetta hefðu þeir hlotið að fá styrk úr félagsheimilasjóði.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta. Flutningur þess hér byggist á dálitlum misskilningi. En ég vil láta í ljós þá skoðun og er alveg sammála hv. 7. landsk. um það og raunar 3. landsk. líka, að það væri mjög illa farið, ef verkalýðsfélög, sem á mörgum stöðum í landinu eru aðalsamtök fólksins, væru gersamlega útilokuð frá þátttöku í byggingu félagsheimila. En sem betur fer er þetta ekki þannig. Á þeim stöðum, þar sem ég þekki bezt til, er því ekki þannig farið. Í Bolungavík t. d. hefur verið byggt eitt glæsilegasta félagsheimili landsins. Þar hefur verkalýðsfélagið á staðnum tekið þátt í því fyrirtæki. Á öðrum þeim stöðum, þar sem ég þekki til og undirbúnar eru framkvæmdir á þessu sviði, eru verkalýðsfélögin einnig með í undirbúningnum.

Það er misskilningur hjá þessum hv. þm., ef þeir halda, að það væri greiði við félagsheimilin að stuðla yfirleitt að því, að einstök félagasamtök í litlum byggðarlögum taki að sér forustu um byggingu þeirra. Lögin gera þvert á móti ráð fyrir, að öll félagasamtök, eða flestöll félagasamtök, sem öllum almenningi eru opin og ópólitísk, bindist samtökum um að ráðast í þessi dýru og fjárfreku fyrirtæki sem bygging stórra samkomuhúsa og félagsheimila er. Þessu hefur einnig verið háttað þannig í framkvæmdinni, að svo að segja öll félagasamtök á einstökum stöðum hafa sameinazt um byggingu félagsheimilanna, og þetta hefur gefizt mjög vel. Verkalýðsfélögin hafa verið með í þessum samtökum, en ekki skorið sig út úr, og ég skil ekki, að það geti verið ætlan þeirra hv. þm., sem láta liggja að því, að það sé eitthvað verið að þröngva kosti verkalýðssamtakanna í þessu efni, — að það sé ætlan þeirra að hvetja til þess, að verkalýðssamtökin ein fari að ráðast í að byggja félagsheimili í stað þess að hafa samvinnu við önnur félagasamtök á viðkomandi stöðum. Það væri áreiðanlega enginn greiði við félagslíf fólksins úti um land, þar sem er verið að byggja félagsheimili og þar sem þarf að byggja félagsheimili, ef þannig væri unnið að því að dreifa kröftum þess. Ég veit, að þetta getur ekki vakað fyrir hv. flm. þessa máls, enda þótt svo kunni jafnvel að virðast af málflutningi hans og af því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil endurtaka það, að ég tel, að verkalýðsfélögin eigi að vera með í byggingu félagsheimila, en ég tel, að grundvöllurinn eigi að vera sem breiðastur, þannig að sem flestir kraftar séu sameinaðir um byggingu þeirra menningarfyrirtækja, sem hér er um að ræða.