14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2064)

24. mál, félagsheimili

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Mér kom það ekki að óvörum, að hv. þm. NÍsf. (SB) tæki til máls. Það dagblað hér í bænum, sem hann er nokkrum vanda bundinn, fór nokkrum vinsamlegum orðum um mig og flutning þessa máls hér á sínum tíma, þó að samflokksmenn hans og hann sjálfur létu sig nú hafa það að fella það. Þá voru ekki taldar upp þær forsendur, sem virðast vera helzti þrándur í götu þessa frv. nú, sem sagt það, að verkalýðsfélögin gætu haft samstarf við sveitarfélögin o. s. frv., eins og hann talaði um.

Ég get nefnt eitt dæmi því til viðbótar, sem 3. landsk. var hér með áðan, en það er viðtal mitt við formann verkalýðsfélagsins á Raufarhöfn, sem mun hafa átt við svipaða erfiðleika að stríða og þeir, er hv. 3. landsk. gat um, og leitað hefur eftir aðstoð Alþýðusambandsins og upplýsingum um styrk við byggingu félagsheimilis, en fengið neitandi svör, þar sem ekki væri gert ráð fyrir, að verkalýðsfélögin hefðu forustu um slíka hluti, jafnvel þótt ekkert annað félag, sem um getur í núgildandi lögum, væri til á staðnum; m. ö. o. neitun á þeim forsendum, að þau eru ekki einn þeirra sex aðila, sem í lögunum eru upp taldir nú.

Það er rétt hjá hv. þm. N-Ísf., að það er áreiðanlega ekki meining mín með flutningi þessa frv. eða hv. 3. landsk. með hans ræðu hér áðan, að við ætlum að fara að sundra félagslífi í hinum dreifðu byggðum landsins. Ef það er heimilt einstökum félögum, sem þegar eru upp talin í núgildandi lögum, þá biðjum við um sama rétt handa verkalýðsfélögunum, en ekki til þess að sundra þeim sex, sem upp eru talin í lögunum. Ég gat þess í minni framsöguræðu hér áðan, að verkalýðsfélögin eru víðast hvar og ég ætla í allflestum stöðum ekki það vel fjáð, að þau mundu leggja í byggingu slíks húss upp á það eitt að búa sér samastað svona rétt að gamni sinu. Það gera þau einungis af knýjandi nauðsyn til að geta haldið uppi nauðsynlegri starfsemi sinni, og það er þess vegna rétt tilgáta, að þetta frv. er áreiðanlega ekki í því skyni flutt að sundra félagslífi hinna dreifðu byggða. Það eru þegar fyrir sex aðilar í lögunum, sem ég gat um í minni framsöguræðu og tel óþarft að telja upp aftur, og eiga rétt á að hafa forgöngu um þetta og hafa sjálfsákvörðunarrétt um, hversu mörg byggja hvert heimili. Sjálfsagt hefur félagsheimilasjóðurinn eða stjórn hans eitthvað um það að segja einnig, og það er einungis farið fram á þennan sama rétt fyrir verkalýðsfélögin á Súðavík og Raufarhöfn og öll þau önnur félög, sem undir svipaða sök eru seld. Ef þetta er á einhvern hátt óréttmætt, þá væri alls ekki úr vegi, að þrautreynd yrðu hin nýju rök hv. þm. N-Ísf., sem komu nú í stað þeirra ljúfu ummæla, sem höfð voru um þetta frv. á sínum tíma í Morgunblaðinu. En vonandi þarf ekki til þeirra að koma, heldur verði samþykkt sú sanngirniskrafa, sem hér er farið fram á.