14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (2065)

24. mál, félagsheimili

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það fór sem mig varði, að hv. þm. N-Ísf. hafði engar upplýsingar að gefa um það dæmi, ,sem ég tók áðan, umfram það, sem ég hafði þegar upplýst, en hins vegar segir hann, að þann vanda hefði verið hægt að leysa með því að fara fram á fjárveitingu úr félagsheimilasjóði til handa Verkalýðs- og sjómannafélagi Álftfirðinga og sveitarfélaginu. Ég ræddi það mál líka við íþróttafulltrúa, sem þá var formaður sjóðsstjórnar, því að það er íþróttanefndin, sem á að gera tillögur um fjárveitingar úr sjóðnum, og taldi hann, að innan ramma laganna væri engin leið opin til fjárveitingar vegna umbóta á húsinu samkvæmt teikningu, sem sjóðsstjórnin var þó reiðubúin til þess að samþykkja. Það yrðu að vera fleiri en eitt félag, sagði hann, sökum þess að verkalýðsfélögin væru hvergi nefnd í upptalningu laganna. En upptalningin er, eins og margtekið hefur verið fram í umræðunum: „Ungmennafélög, íþróttafélög, lestrarfélög, bindindisfélög, skátafélög. kvenfélög.“ Og svo kemur, og það gæti verið matsatriði og auk þess sýnt hugarfar manna til verkalýðsfélaganna: „hvers konar önnur menningarfélög, sem standa almenningi opin, án tillits til stjórnmálaskoðana.“ Eru verkalýðsfélögin slík félög? Ég held því fram, að þau séu það, en svo virðist sem sjóðsstjórnin og yfirvöld landsins hafi ekki enn þá viljað fallast á, að verkalýðsfélög felist í þessari viðbót við upptalninguna, þ. e. „menningarfélög, sem standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana.“ Verkalýðsfélögin setja þó enga ákveðna afstöðu til stjórnmála sem skilyrði fyrir inntöku. Í verkalýðsfélögunum eru Alþýðuflokksmenn, sjálfstæðismenn, kommúnistar, þjóðvarnarmenn og hverra flokka menn sem eru. Og það er ekkert ákvæði til í lögum neins verkalýðsfélags, sem banni mönnum að aðhyllast hverja þá stjórnmálaskoðun sem vera vill. — Máske það standi þá í vegi, að þau séu ekki talin menningarfélög? Víst er um hitt, að þau standa opin mönnum með hvers konar stjórnmálaskoðanir. Víst er um það, að félagið, sem hér um ræðir, hafði tekið að sér það menningarhlutverk að sjá sínu sveitarfélagi fyrir samkomuhúsi, en það hafði ekki verið til mönnum bjóðandi. Hér hafði verið barizt við þá byrjunarörðugleika að fá blett til þess að setja húsið á. Og síðan stofnaði félagið sér í fjárhagslega áhættu með byggingu hússins. Félagið lagði svo sveitarfélaginu til skólahús og kirkju um áratugi, en þegar það leitaði eftir styrk úr félagsheimilasjóði til að endurbæta húsið, þá var það alls ekki hægt. Annaðhvort er vafasamt, að þetta félag sé menningarfélag, ellegar þá að hitt sé dregið í efa, að menn hafi frjálsan aðgang að því eftir stjórnmálaskoðunum.

Ég held, að sjóðsstjórnin fáist ekki til að fallast á þá skoðun, sem hv. þm. N-Ísf. túlkaði hér áðan, að það sé ekkert annað fyrir verkalýðsfélagið á þessum stað en að leita samstarfs við sveitarfélagið. Og sjálfsagt hefur hún rétt fyrir sér í því. Seinasta málsgr. í 1. gr. laganna er nefnilega svona: „Sama gildir um samkomuhús sveitarfélaga.“ Nú er hér ekki um að ræða samkomuhús, sem sveitarfélagið hafi komið upp. Hér er þvert á móti um að ræða samkomuhús, sem sveitarfélagið barðist á móti að kæmist upp og átti engan þátt í að byggja. Það er og alveg útrætt mál við sjóðsstjórnina, a. m. k. eins og hún var skipuð, þegar þetta erindi var lagt fram, að það fékkst ekki viðurkennt, að verkalýðsfélögin gætu fallið undir áframhald upptalningarinnar: „Önnur menningarfélög, sem standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana.“ Og húsið reyndist ekki heldur vera samkomuhús sveitarfélagsins. Umsókninni var því ákveðið synjað. Síðan hefur ekkert það gerzt, sem gefi vonir um, að hægt sé að fá fé úr félagsheimilasjóði til þess að fullkomna eða endurbæta það hús, sem þarna er til á staðnum, svo að það fullnægi kröfum tímans líkt og félagsheimili þau, sem nú hafa verið byggð í þorpunum þarna í kring, eins og t. d. í Bolungavík. Til þess að verkalýðsfélögin njóti sama réttar og önnur félög, þarf því greinilega breytingu á lögunum — þá breytingu, sem hér er farið fram á. Get ég ekki meint, að til séu nokkur rök fyrir því að standa gegn svo sjálfsagðri breytingu. „Góð meining enga gerir stoð“, og það hefur ákaflega lítið að segja, þó að hv. þm. N-Ísf., sem vafalaust er hlynntur því, að Álftfirðingar fái aðstoð til þess að umbæta félagsheimili sitt, telji verkalýðsfélögin hafa þann rétt, sem þau ekki hafa. Það, sem máli skiptir, er það, að sú skoðun hans hefur ekki fengið staðfestingu hinna „autoriseruðu“ yfirvalda, sem þarna fara með fjárveitingarvaldið, sem sé stjórnar íþróttasjóðs.

Að fenginni þessari reynslu Álftfirðinga og sams konar reynslu á nokkrum öðrum stöðum var það, að þetta frv. var flutt, en fékk ekki áheyrn á síðasta þingi. Reynir nú aftur á það, hvort Alþingi ætlar að taka þá afstöðu að neita verkalýðsfélögum, sem byggt hafa samkomuhús, um fé úr félagsheimilasjóði eða löggjafarákvæðum fáist breytt þannig, að það sé hafið yfir allan efa, að verkalýðsfélög séu talin menningarfélög og eigi skilið að fá aðstoð ríkisins úr félagsheimilasjóði eins og önnur félög.