18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur verið íhugað mjög vandlega í fjmrn., hvort rétt mundi vera að breyta söluskattinum í svipað horf og hv. þm. talaði um, en niðurstaðan hefur orðið sú, að í það hefur ekki verið lagt. Yrði nú of langt mál að fara út í þetta í einstökum atriðum hér, en á hinn bóginn var sett það ákvæði inn í þessi lög í fyrra, að ef söluskatturinn félli oftar en einu sinni á iðnaðarvarning, þá skyldi hann felldur niður á vissum stigum. Það var raunar heimild áður í lögunum til þess að gera þetta og hafði verið notuð. Það hefur mjög lítið verið eftir þessu gengið, en þetta ákvæði er í lögunum alveg skýrt og verður að sjálfsögðu framkvæmt eins og þar segir. En það hefur ekki orðið ofan á að gera till. um að gerbreyta skattinnheimtunni í það horf að innheimta hann aðeins einu sinni,. t.d. í smásölunni. Norðmenn gera það. Þeir innheimta, hygg ég, 10% söluskatt af flestum sínum vörum og innheimta hann aðeins á smásölustiginu. Það hefur verið talsvert mikið um þetta hugsað í fjmrn. af þeim, sem hafa fjallað mest um þennan skatt, en ekki verið talið heppilegt að hníga að því ráði.