14.04.1955
Neðri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2080)

34. mál, varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þann 2. okt. 1951, á fyrsta fundi í Sþ., þá fyrsta fundi eftir að ameríski herinn hafði komið hingað til Íslands, gaf ég yfirlýsingu utan dagskrár til þess að mótmæla þeim aðgerðum, sem þá höfðu farið fram, og síðari hluti þeirrar yfirlýsingar hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Baráttan á Alþ. mun því héðan af fyrst og fremst mótast af því markmiði, svo sem var á undanförnum öldum, að endurheimta til þings og þjóðar fullt vald yfir landinu og algert sjálfsforræði í hendur þjóðarinnar. Barátta Íslendinga mun því beinast fyrst og fremst gegn því herveldi, sem lagt hefur undir sig landið, og þeirri landsstjórn, sem það heldur uppi með fé sínu og segir fyrir verkum.

Ég vil lýsa yfir því fyrir hönd Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins í byrjun þessa þings, að þeirri baráttu verður haldið áfram, unz sigur er unninn og hið erlenda herveldi verður að sleppa tökum á þjóð vorri og innrásarher þess að hrökklast burt af landi voru fyrir einhuga kröfum vopnlausrar, en sameinaðrar þjóðar vorrar.

Þessa yfirlýsingu vildi ég flytja hinu fyrsta Alþingi lýðveldisins, sem nú hefur störf sín í hernumdu landi á friðartímum.“

Samkv. þessari yfirlýsingu hafa þingmenn Sósfl, á hverju þingi síðan flutt frv. samhljóða því, sem nú liggur hér fyrir og er 34. þingmál og 34. þingskjalið, frv. um uppsögn varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna og afnám laga um lagagildi hans.

Ég flutti þetta frv. nú enn einu sinni á þessu þingi. Þingmönnum er það öllum kunnugt, hvert innihald þessa frv. er. Það segir skýrt og skorinort, að Ísland skuli nota þann rétt, sem það hefur samkv. hernámssamningnum til að segja honum upp, tilkynna, að sex mánuðirnir, sem eigi að verja til endurskoðunar, séu aðeins formsatriði og það sé vilji þjóðarinnar og þingsins, að tólf mánuðum eftir að þeir sex mánuðir eru liðnir hafi Bandaríkin flutt allan sinn her af landi brott.

Við flytjum fram í grg. fyrir þessu frv. enn einu sinni þau rök, sem við höfum flutt á undanförnum þingum, og minnum á þá reynslu, sem þjóðin hefur þegar haft af þessu hernámi. Ég ætla ekki að endurtaka öll þessi rök nú. Ég ætla aðeins að taka eitt atriði út úr í þessu sambandi og leggja áherzlu á það, enda mikilvægasta atriðið. Og það er: Er Íslandi vörn í ameríska hernum hér og herstöðvum hans?

Ég ætla að þessu sinni ekki að ræða um hitt, hvað ameríski herinn og hans dvöl þýðir fyrir okkur á friðartímum. Það er orðið svo ljóst, hvílíka spillingu og hvílíka andlega pest það þýðir fyrir okkar þjóð, að þessi her dvelji áfram í okkar landi, að um það þarf ekki að ræða. Hverjum manni, sem kynnist lífinu hér í Reykjavík, svo að ég tali ekki um lífið suður á Suðurnesjum, blöskrar. Og það er engum efa bundið, hvaða raddir sem annars kunna að koma fram hér á Alþingi eða hvaða þögn sem kann að ríkja í stjórnarliðinu, að innan allra flokka, og er þar Sjálfstfl. ekki undan tekinn, fer vaxandi andúðin gegn því, að ameríski herinn sé áfram á okkar landi. Ég vil svo jafnhliða minna á hitt, að allt það, sem minnzt hefur verið á á undanförnum árum, að dvöl þessa hers á Íslandi stæði í einhverju sambandi við það, að Bandaríki Norður-Ameríku og þeirra her væri einhver vernd eða öryggi fyrir lýðræði einnar þjóðar, — öll þau rök hafa hrunið um sjálf sig. Það er nú orðið deginum ljósara, að þeir einu bandamenn í veröldinni, sem Bandaríkin geta treyst á, eru harðvítugustu fasistaríki heimsins. Franco-Spánn, Chiang-Kai-Shek og Formósa og Syngman Rhee í Suður-Kóreu. Síðasta ár sýndi það hvað bezt, að af Bandaríkjunum og þeirra afskiptum af málefnum annarra þjóða stafaði lýðræði hverrar þjóðar ekkert nema hætta. Smáríkið Guatemala varð að reyna það á síðasta ári, að af því að þar var lýðræðisstjórn, svona eitthvað svipuð og ef Framsóknar- og Alþýðuflokkurinn mynduðu hér ríkisstjórn, þá skipulagði ameríska auðvaldið innrás og uppreisn í því landi og tókst með aðstoð hershöfðingjaklíkunnar og innrásarhersins að bylta þeirri stjórn frá völdum og koma þar á fasístiskri stjórn. M. ö. o., lýðræði hverrar smáþjóðar stafar hætta af dvöl þessa ameríska hers, sem stendur nú í okkar landi, hvar sem sá her er.

Það hefur líka verið svo, að í þeim umræðum, sem fram hafa farið um þessi mál, hafa verjendur amerísku hersetunnar, og á hún þó orðið formælendur fá, gripið til þess eins að segja, að í stríði væri þó vörn að þessum her, og það er það mál, sem við skulum athuga.

Við héldum því fram frá upphafi, sósíalistar, að Ísland væri, ef til styrjaldar kæmi, aðeins hugsað sem útvirki fyrir Bandaríkin og að Íslandi væri frá upphafi og allri tilveru Íslendinga stofnað í voða með því, að Ísland væri gert að slíku útvígi ameríska hervaldsins. Þessi váspá okkar hefur því miður rætzt, og stjórnarvöld Íslands hafa í vaxandi mæli gert ráðstafanir til þess, að þessi hætta yrði æ meiri sem lengra líður og herseta Bandaríkjahers á Íslandi er þoluð.

Í desember s. l. gerðist það, að ríkisstj. Íslands tekur þátt í því á ráðstefnu Atlantshafsríkjanna að samþykkja, að í næsta stríði skuli notaðar kjarnorkusprengjur, þar með taldar vetnissprengjur. Ísland, vopnlaust land, tekur ákvörðun um það, að notuð skuli í næstu styrjöld ægilegustu tortímingarvopn, sem veröldin nokkurn tíma hefur kynnzt, — tortímingarvopn, sem vitanlegt er að mundu afmá bókstaflega íbúa þeirra landa, sem slíkum vopnum er kastað á, — vopn, sem nú þegar er vitað og viðurkennt að raunverulega engin vörn er til gegn.

Ég vil mótmæla þeirri ráðstöfun ríkisstj. að gera Ísland samábyrgt um að ákveða það, að Atlantshafsbandalagið skuli líta á beitingu kjarnorkuvopna og þar með vetnissprengnanna sem sjálfsagt atriði og sjálfsagt vopn í þeirri styrjöld, sem kynni að koma. Og ég vil lýsa þeirri ábyrgð af þingi og þjóð á hendur ríkisstjórnarinnar og afleiðingunum af þeim verkum, sem það kann að leiða yfir Ísland seinna meir.

Við skulum gera okkur það ljóst, að svo framarlega sem til styrjaldar kæmi, — og það er nú orðið það eina, sem reynt er að verja hersetuna með, að til þess geti komið, — þá mundi Ísland og herstöðvar Bandaríkjamanna á Íslandi, þegar kjarnorkuvopnum yrði beitt í slíkri styrjöld, draga að sér slík kjarnorkuvopn eins og segull. Keflavíkurflugvöllur og aðrar herstöðvar mundu í kjarnorkustríði þýða, að slíkum vopnum yrði kastað jafnt yfir Ísland sem önnur þau lönd, sem væru útvirkin í slíkri styrjöld. Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst, að fyrir Ísland er ekki um neina vörn að ræða í slíku sambandi. Ísland væri undir slíkum kringumstæðum aðeins eins konar skjöldur fyrir Bandaríkin, sem tortímingarvopnunum væri ætlað að skella á. Radarstöðvarnar á Íslandi væru ekki til þess að vara Íslendinga við, áður en erlendar flugvélar nálguðust landið, heldur til þess að vara Bandaríkin við, áður en þær nálguðust þeirra land. Með öðrum orðum: Okkar landi yrði teflt fram, til þess að á því skylli fyrst og fremst eyðileggingarmáttur þeirra vopna, sem Atlantshafsbandalagið hefur ákveðið með samþykki íslenzku ríkisstjórnarinnar að beita í næsta stríði.

Þetta er nauðsynlegt að þingmenn geri sér ljóst. Það er á þeirra valdi að hindra áframhald amerísku hersetunnar á Íslandi. Það er á þeirra valdi að koma í veg fyrir, að Ísland með amerísku hersetunni og amerísku vígstöðvunum hér dragist inn í næstu styrjöld, a. m. k. af frjálsum og fúsum vilja. Í stríði er engin vörn til fyrir okkur.

Ég hef alltaf lýst því yfir við allar umræður, sem fram hafa farið síðasta áratug hér í Alþ. um þessi mál, að fyrir okkar þjóð og hennar ríkisstj. væri aðeins um eitt mál að ræða, ef til styrjaldar kæmi og það væri að reyna að sjá til þess, að eitthvað af þjóðinni lifði þá styrjöld af. Við skulum alveg gera okkur ljósar skelfingar styrjaldar, ef hún skellur yfir. Þeir menn, sem vilja draga Ísland inn í slíka styrjöld og hafa sett það inn í hernaðarbandalag, hafa látið reisa vígstöðvar fyrir erlent hervald á okkar ættjörð, verða að gera sér ljóst, hvað stríð er og hvaða ábyrgð er kölluð yfir af þeim, sem valda því, að Ísland meðvitandi, vísvitandi dragist inn í styrjöld.

Ég hef sagt, að í styrjöld, ef sú ægilega óhamingja á eftir að koma yfir mannkynið enn einu sinni, bæri okkur, þó að það hljómi ekki hetjulega, að hugsa um það eitt að reyna að sjá um, að einhverjir menn lifðu af í þessu landi eftir þá styrjöld. Spurningin stæði ekki um það fyrir okkur, hvort það væri hægt að verja þetta land. Með núverandi vopnum er okkar land óverjandi. Spurningin stæði um, hvort við gætum séð til þess, að eitthvað af þjóðinni lifði af eftir slíkar hörmungar. Núna eru 2/3 þjóðarinnar í nánd við þá staði, sem fyrir aðgerðir ameríska hersins mundu fyrst og fremst draga að sér tortímingarvopn í næsta stríði. Tveir þriðju þjóðarinnar væru í þeirri hættu að þurrkast út og jafnvel landið — eða stór hluti þess — að verða óbyggilegt um langan tíma.

Það er e. t. v. ekki hetjulegt verkefni, þegar talað er um styrjaldir og hetjuskap í sambandi við þær og allt annað slíkt, að tala um það, að menn verði að reyna að lifa af. En fyrir litla þjóð, sem hefur ekki nema 150 þús. íbúa, er ekki hægt að hugsa á sama hátt og þær þjóðir, sem hafa 150 eða 200 milljónir. Þær þjóðir eru öruggar með, að það lifir eitthvað af af þeirra íbúum. En þjóð, sem áður hefur lifað það fyrir kúgun og afskipti annarra erlendra valdhafa að komast niður í, að það væru ekki nema 38 þús. manns lifandi á landinu, — þeirri þjóð ber að hugsa um, að eftir kjarnorkustyrjöld nú á tímum væru þó a. m. k. nokkrir tugir þúsunda manna eftir á landinu. Og ég held það væri nær, í staðinn fyrir að byggja þær byggingar, sem nú eru byggðar suður á Keflavíkurflugvelli, að sjá til þess að byggja þannig úti um allt land, að það væri hægt að flytja burt um 80 þús. manns af svæðinu í kringum Keflavík og Reykjavík, þegar ófriðlegt þætti, til þess að bjarga því fólki undan þeim hörmungum, sem dyndu yfir á þeim stöðum, þar sem kjarnorkustríðið yrði háð.

Ég hef sagt það hvað eftir annað í þeim umræðum, sem fram hafa farið um Keflavíkurflugvöll og aðstöðu hans í stríði, að það, sem við ættum að gera við þann völl, ef við sæjum styrjöld vera að skella yfir, væri að eyðileggja hann, það væri að sprengja hann í loft upp, það væri að sjá til þess, að að honum yrði engum gagn, en það drægjust ekki heldur að honum sprengjurnar eins og með segulmagni.

Okkar einasta landvörn, það eina, sem við getum gert til þess að reyna að tryggja líf okkar þjóðar, ef styrjöld, heimsstyrjöld, skyldi skella yfir mannkynið aftur, er, að Ísland nú þegar taki upp baráttu fyrir friði, taki sjálft upp þá baráttu að knýja fram, að svo miklu leyti sem það getur við það ráðið, afvopnun hjá þjóðunum og að það gangi sjálft á undan með því að afnema allar útlendar herstöðvar í eigin landi. Með því móti stígum við líka stærst spor til þess að reyna að hindra, að svo miklu leyti sem það er á okkar valdi, að okkar land dragist með okkar vilja inn í heimsstyrjöld.

Ísland er ásamt Bretlandseyjum einna hættulegast statt af öllum löndum veraldarinnar, ef til styrjaldar kemur milli Ameríku og Evrópu. Með núverandi pólitík, sem ríkisstjórnir Íslands hafa rekið, sérstaklega undanfarin fjögur ár, en yfirleitt undanfarin sex ár, er verið að gera Ísland að peði, sem á að fórna í því ægilega tafli um völdin í heiminum, sem fram fer. Rikisstj. Íslands hefur verið ábyrgðarlausari og skeytingarlausari gagnvart þjóðinni en nokkur stjórn í Evrópu, sem ég þekki til. Það er eins og hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki heldur hirt um að hugsa þannig um þetta mál, taka þátt þannig í umræðum um þetta mál, að það sæist á þeim, að þeir hefðu einhverja ábyrgðartilfinningu um, hvað verið er að leiða yfir okkar land. Það hefur enn ekki komið fyrir, þegar þetta mál hefur verið rætt á Alþingi, að einn einasti óbreyttur þm. stjórnarflokkanna hafi tekið til máls um það. Þó veit ég, að það er ekkert, sem þm. heyra eins ákveðið úti í öllum sínum kjördæmum og kröfurnar um það, að ameríski herinn sé látinn fara burt af Íslandi og að ráðstafanir séu gerðar til þess, að Ísland sé ekki dregið inn í átökin á milli stórveldanna.

Það er tími til kominn, að Alþ. taki til sinna ráða í þessum efnum. Við eigum aftur að taka upp þá stefnu, sem við höfðum áður en ameríska hervaldið og ameríska auðvaldið hóf afskiptin af okkar innanlandsmálum, — þá stefnu, að Ísland sé friðlýst land, — þá stefnu, að Ísland sé hlutlaust land, — þá stefnu, að Ísland sé utan við hernaðarbandalög. Fyrsta skrefið og þýðingarmesta skrefið í þá átt er að segja upp hernámssamningnum. Það er hægt fyrir okkur og það er lagt til hér að gera það á fyllilega lögmætan hátt, taka þann frest, sem þar er til settur, og nota þann frest til þess að nafninu til að láta fara fram samninga, en standa í þeim samningum fast á því, að varnarsamningurinn falli úr gildi, verði ekki endurnýjaður.

Ég vil vona það, að í þetta skipti ræði hv. þm. þetta frv. Þrátt fyrir öll þau stóru mál, sem við hvað eftir annað ræðum hér á Alþ., þá er engum efa bundið, að þetta er stærsta málið, sem kemur fyrir þetta þing og næstu þing, þangað til það verður samþ. Þetta er stærsta málið vegna þess, að á afdrifum þessa máls getur tilvera okkar þjóðar oltið.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að að lokinni umr. um þetta mál verði því vísað til 2. umr. og til allshn.