14.04.1955
Neðri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

34. mál, varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Gunnar M. Magnúss:

Herra forseti. Árin 1851 og 1951 gerðust örlagaríkir atburðir í þjóðlífi Íslendinga. Þau ártöl munu geymast í þjóðarsögunni. Þessir atburðir, hvor á sinni öld, marka tímamót í hinni ævarandi sjálfstæðisbaráttu landsmanna. Árið 1851 var þjóðfundurinn frægi haldinn. Árið 1951 var Ísland að nokkrum hluta selt á leigu erlendu herveldi. Yfir báðum árunum hvílir skuggi af hrammi erlendrar ágengni.

Í frv. Dana, sem lagt var fyrir þjóðfundinn 1851, var yfir höfuð gert ráð fyrir, að Íslendingar samþykktu fullkomna innlimun, svo sem Ísland væri hérað í Danmörku. Árið 1951 krefjast Bandaríki Norður-Ameríku innlimunar Íslands í hernaðarkerfi sitt. En sá er munurinn, að 1851 er þjóðin í sókn til sjálfstæðis og réttinda, en 1951 fljúga íslenzkir forráðamenn í faðm erlendra yfirgangsmanna til þess að láta af hendi landsréttindi og ofurselja heiður sinn og metnað.

Árið 1851 hafa menn Trampe greifa og konungsfulltrúa til þess að mæla fyrir munn hins erlenda valds. Árið 1951 hafa menn Bjarna Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra um stundarsakir, til þess að túlka málstað erlendra yfirgangsmanna, sem hann hafði gengið á hönd og heitið þjónustu. En árið 1851 bjarmar af stolti og manndómi íslenzkra forustumanna undir leiðsögn Jóns Sigurðssonar. 1951 lyppast gildir og loðnir skuggar íslenzkra landsölumanna um land vort.

Þegar konungsfulltrúinn 1851 hafði átalið harðlega fundinn og þrjózku Íslendinga við að ganga að kröfum Dana, kvaðst hann segja fundinum slitið. Jón Sigurðsson stóð þá jafnskjótt upp og mælti: „Þá mótmæli ég þessari aðferð.“ Um leið og konungsfulltrúi gekk þá úr sæti sínu, mælti hann: „Ég vona, að þm. hafi heyrt, að ég hef slitið fundinum í nafni konungs.“ Jón Sigurðsson svaraði þá: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð og áskil þinginu rétt til að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“ Risu þá fundarmenn upp og sögðu flestir í einu hljóði: „Vér mótmælum allir.“

Árið 1951 voru framin stórfelldustu svik, sem um getur við íslenzkt lýðræði, við hið unga íslenzka lýðveldi, við íslenzkan málstað, við sjálfstæði landsins. Að þjóðinni fornspurðri og þvert ofan í yfirlýsta stefnu um engan her á Íslandi á friðartímum undirritaði utanrrh. Íslands, Bjarni Benediktsson, svokallaðan varnarsamning milli Bandaríkjanna og Íslands og lét steypa herliði Bandaríkjanna á íslenzka grund.

Þessir samningar höfðu farið fram með mikilli leynd af ótta við andúð landsmanna, og þegar allt var reyrt í viðjar og landssalan ákveðin af hálfu ríkisstj., var fulltrúum þriggja þingflokka af fjórum stefnt til leynifunda í Reykjavík um sumarmálin 1951. Þetta voru þm. Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Tveir þeir síðarnefndu flokkar fóru með stjórn landsins, en Alþfl. var í stjórnarandstöðu. Þm. sósíalista, 9 að tölu, voru ekki boðaðir til funda þessara.

Það var því lýðum ljóst, að Alþ. var ekki kvatt saman til þess að taka ákvarðanir um samningsgerðina. Þm. hinna fyrrgreindu þriggja flokka höfðu því ekkert umboð til þess að samþykkja hernaðarsamninginn í nafni Alþingis. En þeir gerðu það nú samt. Og ríkisstj. auglýsti, að 43 þm. af 52 væru samþykkir ráðstöfunum þessum. Það má vera, að þeir tilgreindu þm. hafi verið samþykkir ríkisstj. um innlimun Íslands í hernaðarkerfi Bandaríkjanna, en það hafði ekkert stjórnarfarslegt gildi, því að þegar Alþ. situr ekki, eru ákvarðanir þm. ekki haldmeiri en annarra þegna þjóðfélagsins. Hér var því um augljóst stjórnarskrárbrot að ræða, þegar ríkisstj. lýsti þessu sem samþykki Alþ.

Þm. sósíalista voru ekki boðaðir til neinna funda um málið. Þeir vissu þó, hvaða veður voru í lofti, og fylgdust að nokkru með því, sem gerðist bak við tjöldin. Þann 4. maí gekk formaður Sósfl., Einar Olgeirsson, á fund forseta sameinaðs Alþ., Jón Pálmasonar, sem jafnframt var æðsti handhafi forsetavalds í fjarveru Sveins Björnssonar forseta Íslands. Einar tilkynnti Jóni Pálmasyni, að Sósfl. mundi krefjast þess af ríkisstj., að hún kallaði saman Alþingi Íslendinga til þess að fjalla um þá alvarlegu atburði, sem yfirvofandi voru.

Daginn eftir gekk Einar á fund Steingríms Steinþórssonar forsætisráðherra og bar fram þessa kröfu í nafni Sósfl. og 14 þús. kjósenda hans. En ríkisstj. tók þann kostinn að brjóta 21. gr. stjórnarskrárinnar, sem svo hljóðar, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Í öðru framdi ríkisstj. einnig stórfellt lögbrot. Hún kallaði utanrmn. aldrei saman, þótt hér væri um að ræða alvarlegasta utanríkismál, sem borið hafði að höndum Íslendinga. En í lögum um þingsköp segir svo í 16. gr., með leyfi forseta:

„Til utanríkismálanefndar skal vísað utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga, og skal ráðuneytið ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“

Þessi óskammfeilnu lögbrot og stjórnarskrárbrot voru því framin á persónulega ábyrgð ráðherranna. Allt tal og allar yfirlýsingar um ábyrgð og samþykki Alþ. að baki gerðum ríkisstj. var því fleipur eitt, útsett í þeim eina tilgangi að blekkja þjóðina og sætta hana við þessar smánarathafnir.

Því næst gerðust öll aðaltíðindin á mánudegi. — Mánudaginn 7. maí 1951 birti ríkisstj. hernámssamninginn. Þann sama mánudag kom gleiðgosalegur hershöfðingi frá Bandaríkjunum, McGaw að nafni, með 280 bandaríska hermenn, sem fluttir voru í 15 Skymasterflugvélum frá bandaríska flotanum, og skyldi þetta vera stofninn að varnarliði Íslands, og settist að á Keflavíkurflugvelli. Þann sama mánudag birti hershöfðinginn hina frægu heilsun sína til íslenzku þjóðarinnar, er hófst á þessum látlausu orðum: Ég er McGaw.

„Mér er föst í minni sú staðreynd,“ sagði hershöfðinginn, „að þið eruð húsráðendur og við erum gestir ykkar.“ Af einhverjum undarlegum ástæðum fyrntist fljótlega yfir það, að Íslendingar væru húsráðendur, og gætu utanríkisráðherrarnir, Bjarni Benediktsson og Kristinn Guðmundsson, e. t. v. gefið skýringu á því, hvers vegna svo fór.

„Við ætlum að vera sú tegund gesta, sem þið munuð alltaf taka opnum örmum,“ sagði hershöfðinginn enn fremur. Það skyldi þó ekki vera fyrir þær sakir, að núverandi utanrrh. hefur tekið upp þá nauðvörn að krefjast þess, að hinir góðu gestir verði hafðir í gripaheldum girðingum á sínu steypta plani?

„Við þekkjum allir hina stoltu sögu Íslands og erfðir,“ sagði herhöfðinginn. Já, sennilega hefur stéttarbróðir hans úr bandaríska hernum, sá er reikaði með herflokk um Þingvöll á styrjaldarárunum, verið búinn að koma inn í kennslubækur Bandaríkjanna fróðleik um „hina stoltu sögu Íslands“, því að þegar hann hafði fengið nokkrar upplýsingar um atburði úr sögu lands og þjóðar í sambandi við Þingvöll, þá mælti hann: „Ja, nú er ég aldeilis hissa, — svo að hér var þing og siðmenning löngu áður en Bandaríkin okkar voru til.“

„Við öfundum ykkur af aldafriði,“ sagði hershöfðinginn enn fremur. Þarna er e. t. v. skýringin á því, að þeir komu. Hvers áttum við að njóta að sitja hér í friði, hlutlausir, vopnlausir, meðan hinir stríðandi mannvinir áttu enga nótt væra fyrir hinni riddaralegu hugsjón að berjast fyrir smælingjana? Þennan frið um Ísland þurfti að rjúfa, og samkvæmt boðorðum vopnasalanna þurfti að skapa hættuna eða ótta um yfirvofandi hættu.

En svo hittist á, að Ísland átti einmitt utanrrh., sem hafði hjartað á réttum stað. Hjarta hans var fullt af ótta um yfirvofandi árás á Ísland farsælda frón og börn þess. Utanrrh. okkar hafði sem sé hjartað á réttum stað frá sjónarmiði vopnasalanna í Vesturheimi.

Það var allt í einu orðin þörf að vernda okkur og verja, sem um aldir höfðum lifað í friði. Og þennan tilgreinda mánudag birti ríkisstj. tilkynningu eða varnarskjal fyrir hernámssamningnum. Auðsætt er, að þetta varnarskjal ríkisstj. er sett saman í miklum andlegum þrengingum og jafnframt munaðarleysi gagnvart stóra bróður, sem hélt öðrum hnefa steyttum, en hampaði dollurum í hinni hendinni. Sem rök fyrir samningagerðinni vitnar ríkisstj. til þess, að Ísland sé aðili að varnarsamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna, en segir þó, að vegna sérstöðu Íslands væri það viðurkennt, „að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her og að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.“ Nokkru síðar segir ríkisstj. í varnarskjalinu: „Við komumst ekki hjá að viðurkenna, að friðleysi og tvísýna ríkir nú í alþjóðamálum.“ - – Komumst ekki hjá að viðurkenna, það eru svolitlir erfiðleikar á bak við þessa setningu. Og síðar segir: „Allt hefur þetta orðið til þess, að íslenzka ríkisstj. hefur komizt á þá skoðun, að varnarleysi Íslands stefni, eins og nú er ástatt í alþjóðamálum, bæði landinu sjálfu og friðsömum nágrönnum þess í óbærilega hættu.“ Hér sjá menn einnig augljóslega þrengingarnar.

Í varnarskjali ríkisstj. segir, að eigi hafi verið á betra kosið en að semja á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins „við Bandaríkin, sem Íslendingar hafa áður haft slík skipti við og ætið hafa sýnt Íslandi velvilja og stuðlað, að sjálfstæði og velfarnaði íslenzku þjóðarinnar“.

Já, Bandaríkin sýndu Íslendingum þann velvilja í styrjaldarlok að neita að hverfa af landi brott með herlið sitt, sem þeir áttu þó að gera samkvæmt samningi þar um. Þau sýndu þann velvilja í garð Íslands að krefjast árið 1945 herstöðva til 99 ára í Keflavík, Hvalfirði og Reykjavík. Þegar verkalýðshreyfingin og almenningur í landinu undir forustu sósíalista hóf kröftuga mótmælaöldu gegn ágengni Bandaríkjamanna, létu þeir undan síga í bili. En af sama velviljanum, sem ríkisstj. nefnir svo, komu þeir því til leiðar nokkru síðar, að þeir fengju að sitja á Keflavíkurvelli áfram, og gerðu samninga þar um við íslenzka forráðamenn.

Nokkrum árum síðar sýndu þeir enn þann velvilja að innlima Ísland í hernaðarkerfi stórvelda í fyrsta sinn í þúsund ára sögu þess. Og nú var allt fullkomnað með því, að sinna bænum Íslendinga um hervernd og fá tækifæri til þess að setja hér upp vopnabúr og ævarandi útvarðstöð fyrir sitt dýrmæta heimaland.

Í varnarskjalinu segir ríkisstj., að ráðstafanir þessar séu „eingöngu varnarráðstafanir“. Sanna má, að ríkisstj. hefur hér farið með vísvitandi blekkingar, því að samkvæmt hernaðarlegri kortlagningu Bandaríkjamanna er Ísland merkt inn sem liður í árásarkerfinu og árásarstöð á Ráðstjórnarríkin.

„Bandaríkin heita, að . . . . stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslenzku þjóðarinnar,“ segir í varnarskjali ríkisstj. Má ætla, að ríkisstj. eigi ekki einungis við það, að öryggis íslenzku þjóðarinnar sé gætt á styrjaldartímum, því að þá er öryggið í raun og veru horfið, heldur hafi hún átt við, að þjóðinni þyrfti ekki að stafa hætta af sínum eigin „varnarher“. Hver hefur svo reyndin orðið? Hver einasti Íslendingur, sem fylgzt hefur með málum síðan herinn kom, getur svarað því. — Herflutningaskip, hlaðin sprengiefni, leggjast inn í höfn höfuðborgarinnar. Íslenzkir verkamenn vinna við uppskipun á þessum varningi. Íslenzkir bílstjórar aka með sprengiefnafarma í fullkomnu öryggis- og ábyrgðarleysi gegnum höfuðborgina, þar sem mestur mannfjöldi er og mestu verðmæti þjóðarinnar eru saman komin. Íslenzk skip eru látin flytja frá Bandaríkjunum hergögn, þar á meðal hið válegasta sprengiefni. Hernaðarflugvélar leika sér þráfaldlega yfir Reykjavík, og mætti þó ætla, að þær hefðu nóga víðáttu til þess að sveima um, en þyrftu ekki að ögra þingi og stjórn, sjálfum verndurum sínum, gegn andúð þjóðarinnar. Er þá enn ónefnt það öryggisleysi, sem allur almenningur á daglega við að búa sökum hernámsmannanna. Þeir hafs smeygt sér inn á íslenzk heimili, lagt fjölda þeirra í rústir, gripið íslenzkan æskulýð, fórnað honum á altari amerískrar spillingar og skilið einstaklinga eftir flakandi í sárum.

Í varnarstöðu ríkisstj. gegn alþýðu manna vegna hinnar sívaxandi spillingar frá hernámsmönnum gerist sá einstæði atburður hér á Alþingi, að utanrrh. lýsir því hróðugur yfir, að eitt hundrað íslenzkar smástúlkur hafi verið settar á svartan lista sökum slæmrar hegðunar á Keflavíkurflugvelli og hafi verið varpað út í hraunið. Hallast þar ekki á um mikilhæfar athafnir utanrrh. vorra: grípa. girðingar Kristins og útkast Bjarna. — En hefur nokkur heyrt um það, að Bandaríkjamönnum hafi verið kastað í hraunið fyrir utan fyrir það að fleka íslenzkar smástúlkur?

Sem sagt: Á fyrsta degi hernámsmanna á Íslandi var ríkisstj. komin í varnarstöðu fyrir fásinnu þá og afglöp, sem hún hafði framið, er hún bað erlent stórveldi að senda hingað her á friðartíma. Hún gaf út það varnarskjal, er ég, hef hér lítillega minnzt á. En jafnframt vörn sinni lýsti ríkisstj. yfir því með yfirlæti og belgingi, að hún hefði ekki talið rétt að hafa samráð við þm. Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins um öryggismál Íslands. Þar með taldi hún sig hafa vaxið að styrk og manndómi frammi fyrir þjóðinni í nútíð og framtíð og fyrir dómi sögunnar.

Ég minntist á örlagaríka atburðinn, sem gerðist nákvæmlega eitt hundrað árum áður, þegar konungsfulltrúi sleit þjóðfundinum 1851 og framdi ofbeldi og lögleysu gagnvart réttkjörnum þjóðfulltrúum. Ég minntist á orð Jóns Sigurðssonar, er hann áskildi þinginu rétt til að klaga til konungs yfir lögleysunni. Ég vil í þessu sambandi minna á önnur orð Jóns Sigurðssonar vegna mála þeirra, er þjóðfundurinn fjallaði um, afstöðu Íslands gagnvart Danmörku. „Ég er hræddari við prófessorana en bændurna,“ sagði Jón Sigurðsson, og átti þar við hina dönsku bændur, sem sátu í fólksþinginu. Þegar lögleysan var framin árið 1951 og hernum og öllu hans hafurtaski dembt inn í landið, var engu þingi að slíta. Það var ekki kallað saman til slíkra athafna. Ekki var þá til neins konungs að klaga yfir lögbrotunum. Við áttum þá forseta, en fáum mun hafa komið til hugar að klaga til hans. Það var aðeins ein leið eftir. Hún var sú að kæra fyrir dómstóli þjóðarinnar, fyrir almenningi í landinu, kæra hina opinberu landsölumenn, og þetta varð hlutverk sósíalista og samherja þeirra. Þeir hófu samstundis hina skeleggustu baráttu gegn yfirgangi erlendra og innlendra hernámsmanna. Þeir sönnuðu, að lögbrot höfðu verið framin. Þeir bentu á, að hernaðarsamningurinn og herlög á Íslandi samkv. honum byðu hættunni heim, hvöttu þjóðina til að standa vörð um menningu sína, tungu og þjóðerni, og frá fyrsta hernámsdeginum, 7. maí 1951, var hin nýja frelsisbarátta hafin, sem stendur enn yfir og mun ekki linna fyrr en varnarsamningnum milli Íslands og Bandaríkjanna hefur verið sagt upp og hver einn einasti hermaður er horfinn úr landinu. En orð Jóns Sigurðssonar frá 1851 voru einnig í gildi 1951: Ég er hræddari við prófessorana en bændurna — það er: við almenning í landinu.

Þegar baráttan gegn herliðinu var hafin, hefði mátt ætla, að vopn og rök skorti gegn svo ábyrgðarmiklum, reyndum og harðsnúnum mönnum sem þeir voru hinir 43 þingmenn, er á leynifundum samþykktu hernámsbeiðni ríkisstj., en það var öðru nær. Það þurfti ekki annað en seilast til næsta manns úr liði þeirra og grípa þar vopnin og rökin.

Ég vil því hverfa aftur til ársins 1945 að styrjöld lokinni, þegar Bandaríkjamenn áttu að hverfa héðan brott með allan herafla sinn. Þeir þybbuðust við að hverfa brott og leituðu að leiðum til þess að fá fang á Íslendingum og báðu um herstöðvasamninginn til 99 ára, þar með bækistöðvar í Hvalfirði, Keflavík og Reykjavík. Íslenzka þjóðin hafði vænzt annars af hinni vinveittu bandarísku þjóð og varð illa við. Fjöldamótmæli gegn þessu voru hafin, og vart þótti komandi í ræðustól það árið, nema ræðumaður hvetti þjóðina til þess að snúast gegn erlendri ásælni, gegn leigu íslenzks lands undir herstöðvar. Ég seilist því þangað, sem stytzt er, til hv. þm. N-Ísf., núverandi forseta þessarar deildar, Sigurðar Bjarnasonar. Hann stóð í ræðustóli á kvöldvöku Stúdentafélagsins 1. des. 1945 og ræddi um öryggi Íslands. Það var hugljúft mál, og hann ræddi þar á víð og dreif um nauðsyn þess, að Ísland væri óháð öðrum ríkjum, og kom svo að máli dagsins, um ásókn og yfirtroðslur Bandaríkjamanna á Íslandi. Segir hann þar orðrétt, ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, lesa smáklausu úr Morgunblaðinu 1. des. 1945:

„Eigum vér að selja eða leigja hinum glæsilegu lýðveldum Vesturheims land vort eða hluta þess undir hernaðarbækistöðvar, til þess að þau taki eilíflega að sér vernd Íslands, eins og nokkur erlend og innlend blöð hafa rætt um undanfarnar vikur? Eigum vér að leita verndar úr annarri átt með svipuðum skilyrðum? Það er hvorki hægt að hugsa né tala nú 1. desember án þess að minnast á þessar spurningar og svara þeim. Og svar mitt er á reiðum höndum,“ sagði þm. N-Ísf., „Íslendingar eiga ekki að leigja neinu ríki hernaðarbækistöðvar í landi sínu. Það er óþarfi að spyrja hvers vegna. Í fyrsta lagi er sú leið hæpin til aukins öryggis. Forustumenn þjóðanna lýsa því nú stöðugt yfir, að ef til nýrrar styrjaldar komi með vopnum, sem nú eru til, sé ekkert öryggi til, hvar sem er á hnettinum. Íslenzka þjóðin er því jafnöryggislaus í landi sínu, ef til styrjaldar kemur, þótt hún hafi leigt hluta af því undir hernaðarbækistöðvar erlends stórveldis.“

Rétt er að doka hér við og athuga þessi rök hv. þm. N-Ísf. (SB). Þessi orð voru töluð 1945. Þá höfðu Bandaríkjamenn að vísu varpað sinni fyrstu helsprengju og myrt með henni þúsundir saklausra barna, kvenna og annarra borgara í Nagasaki og Hiroshima í Japan. Hafi þessi rök haft gildi árið 1945, hversu margfaldlega eru þau ekki sterkari nú á dögum, þegar sprengjurnar frá 1945 eru nefndar hreinustu barnaleikföng til samanburðar við nútíma vetnissprengjur að eyðileggingarmætti?

Þegar Sósfl. bar þessi rök fram svo sem aðrir hernámsandstæðingar og sýndi fram á, að með herliði erlends stórveldis væri Ísland verr komið en ella, ef til ófriðar drægi, þar sem allar varnir væru fánýti eitt í atómstyrjöld, þá svaraði þessi sami hv. þm. N-Ísf. sínum eigin rökum með eftirfarandi klausu í Morgunblaðinu, með leyfi forseta: „Þessi fullyrðing kommúnista er gott dæmi um það örvit, sem þessi einangraða klíka landráðamanna er nú haldin af.“ Munu fáir reynast þm. N-Ísf. snjallari að ,slá niður sín eigin rök.

Skal þá vikið að annarri röksemd ræðumannsins, Sigurðar Bjarnasonar, 1. des. 1945 og bætt við nokkrum setningum úr ræðu hans:

„Í öðru lagi vilja Íslendingar hvorki leigja land sitt né selja. Slíkt getur engin þjóð gert, sem ann sóma sínum og frelsi. Til þess að slíkur gerningur megi teljast hyggilegur og annað en hreint pólitískt gjaldþrot, þarf áreiðanlega að leggja annan mælikvarða á stjórnarathafnir á Íslandi en hingað til hefur tíðkazt hér. Vér vitum, að gærdagurinn er liðinn. Vér vitum, að sjálfstæði Íslands er ekki lengur skjól í einangrun landsins eða hlutleysisbókstaf stjórnarskrár þess, en þrátt fyrir það getur enginn trúað því, að vér tryggjum öryggi sjálfstæðis vors með afsali eða leigu sjálfra landsréttinda vorra. Ef einn einasti Íslendingur er til, sem vill til frambúðar leigja Bandaríkjum Norður-Ameríku eða nokkru öðru ríki hernaðarbækistöðvar á Íslandi, hefur það verið dregið of lengi að ræða þessi mál fyrir opnum tjöldum.“

Og enn segir hinn snjalli ræðumaður:

„Það er fjarstæða, sem furðulegt er, að rædd er af Íslendingum, að þátttaka vor í alþjóðasamvinnu þurfi endilega að þýða framtíðardvöl setuliðs frá mörgum stórveldum hér á landi.“

Svo mörg eru þau orð og voru fleiri þó. Þegar sósíalistar settu fram þessi sömu rök eftir komu herliðsins 1951, sagði þessi ræðumaður, hv. þm. N-Ísf., í grein í Morgunblaðinu 9. maí 1951, með leyfi forseta:

„Fimmta herdeild Rússa á Íslandi, kommúnistarnir, virðast nú hafa áttað sig á því, að Íslendingar láta hrópyrði þeirra ekki hafa nein áhrif á stefnu sína í landvarnarmálum. Íslenzka þjóðin er þess alráðin að hafa land sitt ekki opið og óvarið, hvenær sem frelsisræningjana ber að garði og kommúnistarnir vilja hleypa loku frá dyrum til þess að greiða götu þeirra.“

Mega nú allir sjá, að hv. þm. brást ekki heldur hér bogalistin að stráfella sín fyrri rök. Hann sagði, að ef slíkir hlutir gerðust og Ísland yrði leigt undir herstöð, þá þyrfti að leggja annan mælikvarða á stjórnarathafnir á Íslandi en hingað til. Ég er honum fyllilega sammála. Það þarf að opna augu allra landsmanna fyrir því, að þeir menn, sem stóðu að því að leigja og selja land okkar undir herstöðvar, eru landsölumenn og uppgjafamenn í orðsins fyllstu merkingu. Samkvæmt því ber að leggja mælikvarðann á allar stjórnarathafnir á Íslandi, eins og þm. N-Ísf. taldi sjálfsagt.

Málsvarar hersins voru og eru uppgjafamenn fyrir íslenzkan málstað. Af því, sem hér hefur verið bent á, og með mörgum öðrum dæmum, sem nefna má, stendur óhagganleg sú staðreynd, að þeir, sem samþykktu inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og báðu síðan um erlendan her inn í landið á friðartímum, trúðu ekki á sjálfstæði landsins og hafa sennilega aldrei trúað á það. Þeir trúðu ekki á hið unga lýðveldi, þrátt fyrir innfjálgar ræður sínar um sjálfstæðismálin. Þeir trúðu ekki á eðlilega þróun atvinnuveganna undir sinni stjórn. Þeir trúðu ekki á íslenzkan málstað. Þeir voru og eru algerir uppgjafamenn fyrir hernaðaráróðrinum fyrir erlendri yfirdrottnun og kröfðust þess einnig, að þjóðin gæfist upp skilyrðislaust, og þess vegna gengu ríkisstj. og fylgifiskar hennar inn á háskasamlega braut. Þeir bjuggu til ósannan málflutning, settu fram falsrök, svo að sú staðreynd stendur nú nakin, að ósannur málflutningur var gerður að grundvelli utanríkismálastefnu þjóðarinnar.

Þó að haldnar verði þúsund ræður til þess að verja gerðir landsölumanna, mun þessi hryggilega staðreynd vitna æ og ævinlega, að þjóðin var svikin herveldinu í hendur.

Þessir uppgjafamenn standa einnig sem sjálfsalar hver og einn frammi fyrir þjóðinni. Svo sem hægt er að stinga tveim krónum í sjálfsala í pósthúsinu og kippa þar út tveggja krónu frímerkjapakka, svo er hægt að stinga í þessa sjálfsala dollurum og kippa þar út þóknanlegum skoðunum hverju sinni.

Þessum orðum til áréttingar má geta þess, að löngu áður en hv. þm. N-Ísf. og sálufélagar hans höfðu skoðanaskipti og tóku að stráfella sín fyrri rök og fótumtroða fyrri skoðanir sínar og orð, hafði verið ákveðið vestur í Bandaríkjunum, hvaða skoðanir þeir skyldu hafa í sambandi við öryggismál Íslands.

Herinn kom hingað 7. maí 1951, en hálfu ári áður, eða í nóvember 1950, var McGaw falið að mynda Íslandsdeildina, og áður en til þess kom, hafði mánaðarundirbúningur farið fram. Þá var einnig mjög um það rætt meðal ráðamanna í Bandaríkjunum að skipa Íslendingum að koma upp svonefndu þjóðliði við hliðina á bandaríska hernum og honum til styrktar. En vissu hv. þm. um þessar fyrirætlanir og ráðstafanir, sem gerðar voru einu til tveim missirum áður en herinn kom? Þeir vissu það ekki, en þeir voru tiltækir samt.

Ríkisstj. sagði í varnarskjali sínu 1951, að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum. En fyrst herinn var kominn, þurfti að sanna fyrir þjóðinni, að einhvers staðar í heiminum væru blóðugar styrjaldir, sem okkur varnarlausum stafaði hætta af. Að hinu leytinu þurfti að skelfa íslenzkt fólk, vekja lævísan ótta meðal þess, brýna áróður gegn Ráðstjórnarríkjunum, taka upp hatrammar hernaðarlygar Bandaríkjamanna um fyrirætlanir Rússa til að hremma þjóðina og færa hana undir ok þrældómsins. Málpípur hernámsflokkanna svertu í ræðu og riti menningu Ráðstjórnarríkjanna, framfarir þeirra og blóma. Þeir létu útvarpið flytja rangar, villandi eða engar fréttar frá Ráðstjórnarríkjunum af ýmsum málum, er snertu þau, sem hér voru á fjandsamlegan hátt túlkuð af Bandaríkjamönnum og þeirra þjónustuliði. Það þurfti að uppmála Rússa sem ægilegustu grimmdarþjóð, sem ætlaði að taka Íslendinga kverkataki, ef Bandaríkjamenn vernduðu ekki þjóðina fyrir slíkum ósköpum. Þess vegna var óumflýjanlegt að hafa hér setulið. Nú vita allir Íslendingar, sem vilja vita það, að Ráðstjórnarríkin eru meðal mestu menningarríkja veraldar. Þeir vita einnig, að þessi voldugu ríki hafa aldrei gert hið minnsta á hluta okkar, öðru nær. Þau hafa sýnt íslenzku þjóðinni hina mestu virðingu og vináttu í hvívetna og eru nú eitt af okkar mestu og beztu viðskiptaríkjum. En einmitt vegna þess, að líkur voru til, að Ráðstjórnarþjóðirnar og samband við þær yrði vinsælt meðal almennings hér á landi, þurfti að ófrægja þær frekar en orðið var, því að pólitík hernámsflokkanna þróaðist í skjóli óttans. Bandaríkjamenn sátu hér í skjóli óttans.

Svívirðingamenn áróðursins fengu líka blóð á tungubroddinn, þegar núverandi forsrh. kallaði þessar vinaþjóðir okkar hálfvilltar Asíuþjóðir í skammartóni í áramótaræðu, er hann flutti fyrir nokkrum árum í útvarpið.

Sjálfstæðismenn einkum útbreiddu hér á landi hin verstu níðrit um Ráðstjórnarríkin og kostuðu til of fjár, því að níðinu þurfti að útbýta gefins og dreifa um landið. Alkunnugt er framtak þm. Seyðf., Lárusar Jóhannessonar, í þessum efnum, þýðing hans og útgáfa á einni áróðursbókinni. Bók hans barst meðal annars á bæ í nágrenni Reykjavíkur, þar sem tvenn hjón bjuggu. Yngri hjónunum hafði verið byggt út frá næstu fardögum, svo að ekki var bjart fram undan hjá þeim. Hafði útbyggingin sundrandi áhrif á heimilislífið, en þó fengu konurnar sameiginlegan kvilla nokkurn; þær tóku að skjálfa af sameiginlegum ótta. En orsök skjálftans var sú, að eldri konan eignaðist bók eina, sem auglýst hafði verið af þreki miklu í útvarpinu og heitir „Ég kaus frelsið“. Eldri konan fór að lesa úr bókinni fyrir ungu konuna, og brátt hafði lesturinn þau áhrif, að á báðar konurnar tók að sækja Rússahræðsla. Það var líklegt, að þessi ægilega þjóð, Rússarnir, teygði armana lengra og lengra, svo að jafnvel konur uppi í Borgarfirði yrðu ekki óhultar. Þær skulfu af ótta. Unga konan vissi ekki, hvað hennar beið um vorið, en hún hafði kosið frelsið í þýðingu íhaldsþingmannsins og mun sennilega búa að því til dauðadags. En þm. Seyðf. hló hjartanlega að hinni barnalegu trúgirni fólksins og henti gaman að því.

Það var reynt að stimpla alla þjóðholla Íslendinga, sem snerust andvígir gegn hernáminu, sem þjóðhættulega erindreka hins ægilega ríkis í austri. Orðið kommúnisti var notað sem skammaryrði, en svo mjög jöpluðu hernámsmenn á því í tíma og ótíma, að það dofnaði og missti áhrif í munni þeirra, og svo er nú komið, að miklum fjölda þjóðarinnar þykir eðlilegt að vera kallaður þetta af landsölumönnunum, sjálfsölumönnunum, og þeirra málpípum, því að í raun og veru þýðir orðið nú málsvari Íslands gegn hernáminu og erlendri ásælni.

Bandaríkjamenn líta á land okkar sem kríusker eitt og auðnarríki. Það þykir frá þeirra sjónarmiði sem útlegðardómur að fara til Íslands, en á hinn bóginn er það rekin sem mikil fregn á Íslandi, ef einhver maður úti í Ameríku hefur einhvern snefil af réttri hugmynd um land okkar og þjóð. Þeir, sem hingað koma, eru alls ófróðir um hina almennustu hluti og viðfangsefni, sem hvert barn á Íslandi, sem komið er á skólaaldur, ber skynbragð á. Þeir hafa hinar fáránlegustu hugmyndir um menn og málefni, flokka og stefnur, svo sem glögglega sýnir dæmi frá Keflavíkurflugvelli nýverið. Hermaður, sem oft hafði komið til Reykjavíkur, kallaði á íslenzkan kunningja sinn á vellinum og spurði hann, hvort hann vildi ekki næst, þegar þeir yrðu saman í bænum, sýna sér reglulegan kommúnista. Hann kvaðst ekki vita, hvernig þeir litu út. Þessi piltur hefur auðsjáanlega verið fræddur um kommúnista sem bæru þeir einhver ytri einkenni hins hættulega lýðs. Ef til vill hefur hann hugsað sér kommúnista sem sérstakan kynstofn.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, að sanna fyrir þjóðinni, að styrjaldarástand væri í hefð í heiminum, höfðu hernámsmenn ýmis rök. Það eru alltaf einhvers staðar blóðugar óeirðir í auðvaldsheimi. Í auðvaldsheimi er alltaf einhvers staðar Búastríð. Þeim vildi það til happs, að innanlandsstyrjöld í Kóreu brauzt út fyrir tilverknað Bandaríkjamanna. Þegar henni lauk, hélt áfram frelsisstríði Indó-Kína gegn nýlenduoki Frakka. Er þeirri styrjöld linnti á s. l. ári, virtist horfa í óefni um styrjaldarrökin. En Bandaríkin hafa svo sem fyrr séð um, að ófriðareldurinn kulni ekki út, og nú er blásið að glæðunum að framhaldandi innan1andsstyrjöld í Kína með því að styðja og magna Chiang-Kai-Shek á Formósu. Á þessu vesæla hálmstrái hanga nú málsvarar hers á Íslandi, þegar þeir eru minntir á heitin um, að hér skuli ekki vera her á friðartímum. Og það mun af flestum viðurkennt, að nú horfi friðvænlegar í heiminum en á löngu tímábili fyrr, svo að röksemdir ríkisstj. fyrir hersetunni eru haldlausar með öllu.

Flestir munu sammála um, að vernd gegn vetnissprengjum í styrjöld sé engin til. Þannig er önnur meginstoðin undan hernámssamningnum fallin, og hafi nokkur verið í vafa um algert öryggisleysi í kjarnorkustyrjöld, þegar samningurinn var gerður, mættu þeir hinir sömu hafa á síðustu missirum sannfærzt um fánýti allra varna gegn slíkum helsprengjum. Er skemmst að minnast hinna ógurlegu sprengjutilrauna Bandaríkjamanna, er þeir framkvæmdu fyrir rúmu ári, þann 1. marz 1954. Japanskir sjómenn, er voru um 120 km frá sprengjustaðnum, urðu fyrir brunasárum og banvænum geislaáhrifum, fiskiskip, sem voru allt að 1000 km frá tilraunasvæðinu, urðu geislavirk, og fiskur, sem þau höfðu veitt, varð banvænn af geislaáhrifum.

Þegar þess er gætt, að vegalengdin eftir Íslandi frá austri til vesturs í beinni línu frá Öndverðarnesi á Snæfellsnesinu til Gerpis er um 500 km, mættu Íslendingar gera sér ljósa þá ógn, sem af slíku vopni stafar, sem hefur banvæn áhrif 1000 km frá tilraunastað, svo sem eftir tvöfaldri vegalengd Íslands að endilöngu, enda er einnig talið, að hættusvæðið frá þessari sprengingu hafi verið um 300 þús. km2, eða þrefalt stærra svæði en allt Ísland.

Það hefur einnig verið sýnt fram á það með óhrekjandi rökum, að ef andstæðingar Bandaríkjahers í styrjöld vörpuðu einni slíkri sprengju á stöðvar þeirra á Reykjanesi, þá yrði ekki einungis þeirra makt og veldi útþurrkað á svipstundu, heldur mundi allur suðvesturhluti landsins liggja undir eyðingu helsprengjunnar, allt líf þurrkast út á Suðurnesjum, í Reykjavík, austur yfir fjall, upp um innsveitir Faxaflóa, en auk þess er talið, að allt mannlíf og dýralíf fjaraði út annars staðar á landinu sökum banvænna geislaáhrifa, sem legðust yfir allt Ísland og enn stærra svæði, — og síðan ekkert meir um Ísland að eilífu. Hvar mundi hróður íslenzkrar ríkisstj. og hernámsmanna hennar þá verða skráður?

Það er lítil stjórnvizka í því að bjóða hættunum heim. En með stjórnarstefnu núverandi valdhafa á Íslandi er það gert. Bandaríska auðvaldið heldur áfram að ógna mannkyninu með æðisgengnum sprengjutilraunum. Frá síðustu sprengingum þeirra berst nú ferlegt og ógnþrungið helský yfir hnöttinn. Það var nýlega hér í námunda og rak yfir Norðurlöndin. Hvar og hvenær það fellur yfir jörðina til þess að tortíma lífinu, sjá ekki fyrir hinir stríðsvitrustu menn. Það er áreiðanlega ekki vilji meiri hluta þjóðarinnar að þjóna slíkum öflum eða blessa aðfarandi eyðingu mannkynsins.

Þegar svipt hefur verið burt öllum rökum fyrir hersetu og sýnt fram á fánýti þessara svokölluðu varna, skal örlítið vikið að sambúðinni við setuliðið og hvaða áhrif samvinna við það hefur haft á þjóðlíf Íslendinga og sjálfstæði.

Ég hef áður minnzt á hinn borubratta hershöfðingja McGaw, sem hingað kom með herinn 7. maí 1951. Það kom brátt í ljós, að hann leit á stjórnarvöld landsins sem fyrirgreiðslumenn í hverju því, sem honum þóknaðist að láta framkvæma. Hann setti á eigin spýtur reglur í ýmsu, er samkvæmt samningum virðist ekki hafa verið á hans færi eingöngu, en íslenzka ríkisstj. samþykkti eftir á eða lét afskiptalaust. Hann lét dátt við íslenzka embættismenn og sóttist strax eftir kynnum við þá. Það var auðsætt í upphafi, að hershöfðinginn átti strax að leggja grundvöllinn að órjúfandi sambandi milli hersins og Bandaríkjastjórnar annars vegar, en hins vegar við alla auðsveipa ráðamenn íslenzka, sem þjónustu mátti af vænta. Vakti það nokkra athygli, að eftir tveggja mánaða dvöl hér á landi fór hann í yfirreið um landið og í heimsóknir til sýslumanna vestanlands og norðan og allt til Austurlands. Fyrirgreiðslu fékk hann í stjórnarráðinu. Voru sýslumönnum ýmist símuð eða send í símskeyti fyrirmæli um að taka vinsamlega á móti hershöfðingjanum, þegar hann bæri að garði. Þetta var því opinber heimsókn, og er ekki annars getið en að sýslumenn hafi brugðizt vel við, tekið hershöfðingjanum opnum örmum og slegið upp mannfagnaði. Er orð á því haft, að í Stykkishólmi hafi hershöfðinginn drukkið fast og látið svo um mælt til afsökunar, að svona á sig kominn hefði hann sjaldan verið fyrr, sem sagt í „kjallaraástandi“.

Þetta opinbera heimsóknarferðalag hershöfðingjans vakti þeim mun meiri athygli og gagnrýni margra, að um sömu mundir var forseti Íslands, herra Sveinn Björnsson, í opinberum heimsóknum einmitt á Norðurlandi.

McGaw tók upp þann sið að bjóða til bækistöðva sinna á Keflavíkurvelli ýmsum forráðamönnum þjóðarinnar og eiga með þeim gleðskap við víndrykkju. Meðal gesta þar, auk einstakra ráðherra og embættismanna úr Reykjavík, voru nokkrir sýslumenn þeir, er hershöfðinginn hafði heimsótt, og hershöfðinginn gat verið hróðugur, því að ríki hans í ríkinu var ekkert smáræði til að byrja með. Það náði yfir parta úr 30 jörðum í 5 hreppum. Það var 9000 hektarar að stærð, eða til samanburðar rúmlega fjórum sinnum stærra en Reykjavík öll, Seltjarnarnesið allt og að auki landssvæðið inn að Elliðaám. Þar var einn af stærstu flugvöllum heims með malbikuðum fjórum rennibrautum, samtals um 9 km löngum. Þar var vísir að bandarískri borg og þá þegar búsettar þar 112 fjölskyldur Bandaríkjamanna auk hermannanna, sem hann kom með. Hernámsblöðin, Alþýðublaðið, Morgunblaðið og Tíminn, héldu uppi látlausri vörn fyrir hersetunni og hvers konar gagnrýni á hendur hernum. En það var sérstaklega athyglisvert, að málsvörn þeirra snerist venjulega upp í árásir á Ráðstjórnarríkin.

Þótt Morgunblaðið og Alþýðublaðið væru jafnan tiltæk til hvers konar auvirðilegustu þjónustu fyrir herinn, var þó almannarómur, að bændablaðið Tíminn gengi allra blaða lengst í þjónustusamlegum skrifum fyrir herliðið. Frægasta dæmið um það er grein, sem Tíminn nefndi „Einkaviðtal Tímans við McGaw hershöfðingja“. Til þess að sýna, hvílík dauðafroða þessi greinarsamsetningur yfirleitt var, vil ég taka hér upp nokkrar setningar úr Tímanum, með leyfi forseta.

Blaðamaðurinn spyr: Telur þú mikla hættu á því, að styrjöld skelli á?

Maður veit aldrei, hvað morgundagurinn kann að færa, segir hershöfðinginn. Blaðamaðurinn: Er mikil árásarhætta fyrir Ísland, ef til styrjaldar kemur?

Maður veit það aldrei, segir hershöfðinginn. Blaðamaðurinn: En hvað þá um árásarhættuna fyrir Ísland?

Um það getur maður ekkert sagt, en áreiðanlega er bezt að vera við öllu búinn, segir hershöfðinginn.

Blaðamaðurinn segir: Eru varnir landsins komnar í viðunandi horf?

Þær verða traustari og traustari, segir hershöfðinginn.

Í lok viðtalsins spyr blaðamaðurinn: Telur þú, að Íslendingar geti sjálfir tekið að sér varnir landsins?

Hershöfðinginn svarar: Það er ekki í mínum verkahring að segja Íslendingum fyrir verkum í því efni. Það eru þeir einir og engir aðrir, sem verða að segja til, hvenær og hvort þeir vilja sjálfir taka slíkt á sig.

Þetta var með mikilli prakt sent út um sveitir landsins. En það er grunur margra, að uppskera Tímamanna sé farin að koma í ljós og muni sem betur fer vera í öfugu hlutfalli við tilganginn.

Til þess frekar að árétta það, sem ég hef sagt, er rétt að varpa hér fram nokkrum spurningum og láta staðreyndirnar svara þeim.

Hefur hersetan bætt atvinnuvegi landsmanna? Hefur hún létt fjárhagslegar byrðar þjóðarinnar, lyft þjóðinni menningarlega, stutt okkur á alþjóðavettvangi, verið fyrirmynd okkar í nokkru því, er til manndóms má verða? Þessu er fljótsvarað. Hernámsvinnan hefur grafið undan atvinnuvegum landsmanna. Herinn hefur aukið á sundrungu innanlands, lamað siðferðisþrek æskulýðsins, sagt ríkisstj. fyrir óheillaverkum, skammtað okkur rétt á alþjóðavettvangi. Bandaríkjamenn hafa lagzt mjög á manndóm Íslendinga, stimplað farmenn okkar sem misindismenn, sent fingraför fjölmargra Íslendinga til Bandaríkjanna, rekið hér ólöglega útvarpsstöð, talað gegnum hana til æskulýðs Íslands og ginnt hann á þann hátt til kynningarsambanda. Þeir reka hér fyrirlitlegar njósnir, blanda sér í innanlandsmál, hafa á margan hátt brotið á okkur lög og líta á okkur sem væntanlega nýlenduþjóð.

Og hvernig er svo virðingin hjá herraþjóðinni? Strax brutu þeir reglur um bæjarleyfi hermanna, og þegar McGaw setti á sitt eindæmi reglur um framlengingu bæjarleyfis, þagði ríkisstj. við og samþ. síðan. Síðan, þegar andmæli risu gegn bæjarflakki hermanna, höfðu þeir fataskipti að kröfu utanrrh., lögðu niður hermannabúninginn á flakki sínu, en tóku upp venjulegan borgaralegan klæðnað, sem opnaði þeim leið til að fara ferða sinna á lúmskan hátt.

Þar sem íslenzkir og bandarískir lögreglumenn hafa starfað saman á vellinum, er munurinn sá, að íslenzki lögregluþjónninn er vopnaður kylfu, en sá bandaríski skammbyssu. Komið hefur það fyrir við smávegis ágreining milli þeirra aðila, að sá bandaríski hefur tekið upp skammbyssuna og gefið í skyn þar með, að byssan mundi ráða úrslitum.

Hermennirnir hafa á vellinum óspart notað tækifærið til þess að henda gaman að Íslendingum, sem vinna þar. Þeir hafa kastað í sorptunnur vallarins ýmsum eigulegum hlutum, sem ekki eru með öllu ónýtir, til þess að ginna Íslendinga. Þeir hafa ögrað verkamönnum að hirða úr draslinu, og þetta hefur tekizt. Þeir hafa oft sætt færis að snapa úr sorpinu og draga upp úr því ýmsa hluti, en innan við gluggana hafa hópar hermanna staðið og hlegið dátt að þessari niðurlægingu Íslendinga.

Þegar hernámsvinnan hófst fyrir alvöru í ágúst 1951, voru áætlanir um fyrstu framkvæmdir til þess að byggja yfir Bandaríkjamenn á Íslandi 11 millj. kr. Það var aðeins smápeningur miðað við það, sem síðar var ausið í hernaðarframkvæmdir. Þegar komið var fram á árið 1953, unnu á Keflavíkurflugvelli um 3 þús. Íslendingar, meiri hlutinn við hernaðarframkvæmdir, þar af yfir 200 trésmiðir, 130–150 vörubílstjórar, 70–80 pípulagningamenn, 30–40 rafvirkjar, 40–50 járnsmiðir, 20–30 múrarar og álíka margir málarar auk fámennari hópa ýmissa annarra starfsgreina og svo mikill fjöldi verkamanna. Og svo er nú komið, að til hernaðarframkvæmda og til þess að byggja bandaríska borg á Íslandi drýpur nú 1 millj. kr. hvern dag ársins sýknt og heilagt.

Þegar litið er á hinn geysilega fjáraustur Bandaríkjamanna til hernaðaraðgerða hér á landi og borið saman við það, sem Alþingi veitir til ýmiss konar framkvæmda og rekstrar ríkisstofnana á sama tíma, sést bezt, hvert stefnir. Skulu hér nefnd örfá dæmi. Árið 1954 var veitt til nýrra vega á 184 stöðum alls á landinu fjárhæð, er svarar því, sem herinn eyðir í sínar framkvæmdir á 10 dögum. Af því fé hafa þrír hernámsforkólfarnir fengið fyrir kjördæmi sín sem hér segir: Forsrh. Ólafur Thors fyrir sitt kjördæmi 220 þús., eins og herinn eyðir til framkvæmda á 5 klst. (Gripið fram í.) Já, það er lítið, sem forsrh. hefur fengið. Þó eru aðrir enn hógværari. Hermann Jónasson hefur fengið sem svarar 9 klst. eyðslu hersins, og Sigurður Bjarnason ámóta því, sem herinn eyðir á 12 klst. til þess að festa sig hér í sessi. Kostnaður við allar brúargerðir á landinu svarar til þess, sem herinn eyðir á 4 dögum. Til eflingar menningarsambandi við Vestur-Íslendinga, sem við viljum mjög gjarnan hafa, er eins og herinn notar hér á 4 mín., og til umbóta á Þingvöllum, helgasta stað landsins, eins og herinn eyðir á 11 mínútum. Á sama tíma hefur hvað eftir annað vofað yfir stöðvun aðalatvinnuvega þjóðarinnar sökum mannfæðar, þar sem herinn hefur sogað til sín vinnuaflið, og í stað þess hefur þurft að flytja inn erlendan verkalýð og sjómenn til nauðsynlegna athafna fyrir íslenzku þjóðina.

Hér horfir í algert óefni, svo sem í flestu hjá núverandi ríkisstj. og fylgifiskum hennar. Spillingin er orðin svo mögnuð í hinu pólitíska samstarfi núverandi stjórnarflokka, að ríkisstj. hangir saman því nær eingöngu á gróðahagsmunum í sambandi við herinn og valdabraski í skjóli erlends valds.

Hafi núverandi hæstv. utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, tekið að sér ráðherradóm fyrir annað og meira en vegtyllusakir og ætlað að vinna betri verk og þjóðnýtari en fyrirrennari hans og standa einarðari gegn ágengni hersins, þá er alþjóð nú ljóst og má honum sjálfum vera ljósast, að honum hefur hrapallega mistekizt. Fyrir utan ýmsar hlálegar blekkingar, sem farið hafa fram milli hans og herliðsmanna, hafa í hans ráðherratíð og undir hans handleiðslu gerzt þau óhugnanlegu tíðindi, að sterkir ráðandi aðilar íslenzkir, íslenzkir atvinnurekendur, íslenzkir verktakar og jafnvel stórir hópar iðnaðarmanna, hafa í vaxandi mæli fengið áhuga fyrir hernaðarframkvæmdum á Íslandi einvörðungu í gróðaskyni, skeytandi hvorki um skömm né heiður, kjósa aðeins meiri hervirki, stærri bandaríska borg á Íslandi, fleiri dollara.

En nú bar svo við, að hæstv. utanrrh., Kristinn Guðmundsson, flutti þann 4. apríl útvarpsræðu á 6 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins. Þótt ræðan hafi ekki verið flutt hér á Alþingi, tel ég rétt og nauðsynlegt að taka efni hennar til athugunar, þar sem hún fjallaði um aðdraganda þess máls, sem hér er til umr., hersetuna á Íslandi, inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og uppsögn hervarnarsamningsins. Þessi ræða ráðh. birtist í Tímanum 6. apríl s. l.

Utanrrh. tók heldur léttum tökum á efninu, svo sem ekki væri hér um meira að ræða en hreppsnefndarkosningar í Akrahreppi. Hann lofaði Atlantshafsbandalagið og var með drjúgar vangaveltur út af ágæti þess. Þá tók hann upp rökleysu Bandaríkjamanna og fylgifiska þeirra um árásarfyrirætlanir Sovétríkjanna, en viðurkenndi þó, að nú væri friðvænlegt í heiminum, og lét svo um mælt, að viðskipti Íslendinga við Sovétríkin hefðu orðið til mikilla hagsbóta fyrir þjóð okkar. En það er eftirtektarvert, að í þessari afmælisræðu utanrrh. eru aðeins rúmar 20 línur í hinum mjóu Tímadálkum um Ísland og afstöðu þess. Ráðherranum lá ekki þungt á hjarta að ræða um hernaðarmál stórveldanna í sambandi við Ísland og inngöngu þess í bandalagið. Hann þagði um fjötrana, sem þá var smeygt á þjóðina, þagði um niðurlægingu Íslands, leiddi hjá sér að ræða þau vandamál, sem þjóðinni hafði að höndum borið vegna samningsins, þá réttarfarsspillingu, sem þeir hafa haft í för með sér, þá skoðanakúgun, sem beitt hefur verið á Íslandi vegna þeirra, það öryggisleysi, sem almenningur á við að búa sökum samningsins. Hann minntist ekki á það, að vegna þeirra samninga hefur geipilega verið troðið á mannhelgi á Íslandi og þung örlög hafa lagzt yfir þjóðlífið. Má það furðulegt teljast, að hæstv. utanrrh. skuli gerast talsmaður háskasamlegustu blekkinga og ósanninda gagnvart þjóð sinni og taka svo þann kostinn að þegja um hin alvarlegu örlög, sem að þjóðinni hafa steðjað sökum samningsins. Má sannarlega um þetta segja, að „þau eru verst hin þöglu svik,að þegja við öllu röngu“. Og út frá þessu skal vikið nokkuð að forsögunni og sýnt fram á það, hvernig forustumenn þjóðarinnar hafa s. l. fimmtán ár, frá því haustið 1940, stig af stigi gengið lengra og lengra í ósjálfræði á hönd Randaríkjunum, þar til þeir urðu viljalaust verkfæri í höndum herglæframanna og þjóðin var höfð að leiksoppi. Öll slík verk hafa þeir unnið í skugganum, í leyndum bak við þjóð sína.

Skal þá horfið til launmála þeirra, sem íslenzkir ráðherrar hófu strax haustið 1940 til þess að bjóða Bandaríkjamönnum Ísland fyrir herstöð. Þá um vorið, 1940, höfðu Bretar hernumið landið. En á aðfangadag jóla 1940 sendi bandaríski ræðismaðurinn í Reykjavík yfirboðara sínum, Cordell Hull, orðsendingu frá utanrrh. Íslands, Stefáni Jóh. Stefánssyni. Spyr utanrrh. Íslands að því, hvernig hæstv. Bandaríkjastjórn tæki því, ef til kæmi beiðni frá Alþingi um hervernd Íslands. Í orðsendingunni kvaðst Stefán Jóhann vera áhyggjufullur vegna þess, að þýzkt hernám kynni að vofa yfir landinu, ef aðstaða Breta versnaði.

Bandaríski utanrrh. svaraði tæpum mánuði síðar, 18. jan. 1941, að Bandaríkjamenn skildu kvíða ráðherrans og mundu hafa alvarlega í huga samband Bandaríkjamanna og Íslands. En Bandaríkjastjórn vildi ekki taka á sig skuldbindingar að svo stöddu. Bandaríkin vildu áskilja sér fullt athafnafrelsi, svo að þau ættu hægt með að snúast við hverjum þeim atburðum, sem snertu hagsmuni Bandaríkjanna.

Ég vil vekja athygli á því, að hér kemur fyrst skýrlega fram sú stefna, að hervernd Íslands er því aðeins hugsanleg, að hagsmunir Bandaríkjamanna séu í veði.

Þessi vanhugsaða orðsending Stefáns Jóh. Stefánssonar fékk því hin kaldrifjuðustu svör. Á því stigi stríðsins var ekki fullljóst, að hagsmunum Bandaríkjanna væri bezt borgið með slíkri íhlutun í Evrópu. Nú má spyrja: Hvar er íslenzkra heimilda að leita um þessa örlagaþrungnu atburði Íslandssögunnar? Hvar finnast skjöl, skýrslur og frásagnir íslenzkra ríkisstjórna um íslenzk utanríkismál? Skyldi það ekki reynast hér sem oftar, að íslenzka þjóðin hafi verið leynd þessu ráðabruggi? En heimildir fyrir því, sem ég hef hér nefnt, er að finna í minningum Cordeils Hull. Þann veg fá Íslendingar fregnirnar um stórmál sín. Og þannig má gera ráð fyrir, að margir leynisamningar hafi verið gerðir, sem ekki eru komnir í ljós.

Upp frá þessari orðsendingu Stefáns Jóh. Stefánssonar tóku stórveldin að verzla með Ísland. Sá atburður hafði reyndar gerzt nokkru fyrr, að Roosevelt Bandaríkjaforseti hafði lýst yfir, að öryggislína Bandaríkjanna lægi austan við Ísland. Það var í september 1940. Landvarnanefndir Kanada og Bandaríkjanna höfðu þá ráðstefnu í Washington og ræddu hermál. Þar var rætt um Ísland. Þá var það, að Roosevelt Bandaríkjaforseti hélt nokkru síðar ræðu á sameiginlegum fundi í landvarnanefndum beggja deilda Bandaríkjaþings. Talaði forsetinn þar m. a. um Ísland og Grænland og lét þau orð falla, að Bandaríkin yrðu ekki varin fjandsamlegri árás austan um haf, nema því aðeins að þau hefðu Grænland á valdi sínu, en Grænland væri aftur á móti í yfirvofandi hættu, ef óvinveitt ríki fengi nokkra fótfestu á Íslandi. Sagði forsetinn, að öryggislína Bandaríkjanna lægi því austan Íslands. Skoðun forsetans breiddist út á næstu mánuðum, en andstæðingar hans, einangrunarsinnarnir, lögðust á móti slíkum hugsunarhætti, sem væri upphaf þess að blanda sér inn í deilur Norðurálfunnar. En hér skaut strax upp kollinum, hverja nauðsyn bæri til þess að ná fótfestu á Íslandi. Hinn ágæti forseti Bandaríkjamanna sagði hiklaust: Öryggislína Bandaríkjanna liggur austan Íslands. — Það var ekki sagt:

Öryggi íslenzku þjóðarinnar er í voða, þess vegna verða Bandaríkin að hlaupa til. — En þá hleypur utanrrh. Íslands fram og býður Ísland undir herstöð. Þetta var fyrsta, en ekki síðasta frumhlaup íslenzkra utanríkisráðherra til þessa dags til þess að flækja íslenzku þjóðina í hernaðarfjötrana.

Tæpum mánuði síðar, í janúar 1941, gerist það í neðri málstofu brezka þingsins, að þingmaður einn spyr hermálaráðherra, hvort hann vilji birta þinginu skýrslu um kostnaðinn við hernám Íslands og hvort hann væri reiðubúinn að athuga möguleikana til þess, að Bandaríkin tækju þátt í hernáminu. Anthony Eden kvaðst óviðbúinn því að svara þessum spurningum. En íslenzkir ráðherrar gátu nú verið ánægðir yfir því, að verzlunin með Ísland var að komast á góðan rekspöl. Reyndar var ekki farið að sverfa svo að hagsmunum Bandaríkjanna, að þeir teldu þörf að hremma Ísland strax.

En á þessum mánuðum og þeim, sem í hönd fóru, á útmánuðunum 1941, urðu Íslendingar fyrir ægilegum blóðfórnum af völdum hernaðarins, og sjaldan eða aldrei hefur íslenzka þjóðin flakað svo í sárum sem þá. Íslendingar voru neyddir til þess að sigla um ófriðarsvæðin með matbjörgina, fiskinn, til Bretlands. Alþingi Íslands sat þá á rökstólum.

Fimmtudaginn 13. marz 1941 voru engir fundir haldnir í deildum Alþingis, en fundur var settur kl. 1½ í Sþ. Fór þar fram minningarathöfn vegna hinna ægilegu atburða, sem þá höfðu steðjað að þjóðinni. Flutti Haraldur Guðmundsson, forseti Sþ., minningarræðuna. Fjörutíu manns höfðu þá farizt af slysförum á sjó þá 26 daga, sem Alþ. hafði setíð, en 50 manns frá áramótum. — Og fórnirnar héldu áfram: hernaðarárásin á línuveiðarann Fróða, línuveiðarinn Pétursey skotinn í kaf, togaranum Reykjaborg sökkt, en öll sigldu þessi skip í þágu Breta. Og svo ört bar að hina hryllilegu atburði, að um sama leyti og minningarathöfn út af Fróðaslysinu fór fram, voru prestar þjóðkirkjunnar að tilkynna þá harmafregn, að annað íslenzkt skip hefði verið skotið í kaf og menn farizt um svipað leyti og árásin var gerð á Fróða. Það var Reykjaborgin. Og íslenzku þjóðinni hélt áfram að blæða. En hagsmunir Bandaríkjanna voru ekki enn í svo alvarlegri hættu, að grípa þyrfti inn í leikinn.

Það var ekki fyrr en þýzkir kafbátar tóku að ögra Ameríku með því að elta skip upp undir strendur Kanada og Bandaríkjanna og skriðu inn í Karabíska hafið, sem þeir kölluðu paradís kafbátanna. Þá var komið að hagsmunum Bandaríkjanna. Þann 27. maí 1941 flutti Roosevelt forseti ræðu og ræddi opinskátt um málið. Og öldungadeildarþingmaðurinn Taft hvatti til þess, að Bandaríkin hertækju Ísland, Grænland, Azoreyjar og Dakar. Bandaríkin höfðu þá stigið fyrstu skrefin til hjálpar Bretum og bandamönnum þeirra í styrjöldinni gegn nazistum, og nú sömdu stórveldin um það, að Bandaríkin skyldu senda hingað her og leysa Breta hér af hólmi.

Alþ. hafði setið fram á vorið og var slitið 17. júní, án þess að alþm. hefðu hugmynd um þá samninga, sem stórveldin voru búin að gera sín á milli um Ísland. En aðeins 7 dögum eftir að Alþ. sleit, þann 24. júní, tilkynnti brezki sendiherrann íslenzku ríkisstj. um nauðsyn þess, að bandarískur her tæki hér við af Bretum. Var samþykkis ríkisstj. krafizt innan fárra daga og án þess að Alþ. yrði kvatt saman. Ríkisstj. gerði síðan samninginn við Bandaríkin um herverndina, en kallaði Alþingi saman 9. júlí til þess að samþykkja samninginn eftir á. En bandaríski herinn var þá kominn til landsins fyrir 2 dögum, mánudaginn 7. júlí.

Það er mjög eftirtektarvert, hversu alþm. varð hverft við þessi tíðindi, Þegar forsrh. hafði flutt Alþ. skýrslu sína um samningsgerðina, töluðu í málinu auk þriggja ráðherra 10 þm., og 11 gerðu sérstaka grein fyrir atkvæði sinu.

Sósíalistarnir Brynjólfur Bjarnason og Ísleifur Högnason kváðu þm. ekki hafa umboð til þess að samþ. samninginn, þar eð kjörtímabil alþm. hefði runnið út 29. júlí s. l., en Alþ. hefði framlengt kjörtímabil þm. um óákveðinn tíma án kosninga, en slíkt væri óformlegt. Svipað mælti þm. N-M., Páll Zóphóníasson. Flestir þm., stuðningsmenn ríkisstj., lýstu megnri andúð á herverndarsamningnum, en greiddu þó atkv. með honum gegn samvizkunnar mótmælum.

Þm. Eyf., Garðar Þorsteinsson, kvaðst hér eftir sem hingað til mótmæla hvers konar hernaðaraðgerðum hér á landi, hvaðan sem þær koma.

Þm. V-Sk., Gísli Sveinsson, kvað sér ógeðfellt að samþ., að erlent setulið skuli vera í landinu. Hið sama sagði þm. Vestm., Jóhann Þ. Jósefsson.

Þm. Ak., Sigurður E. Hlíðar, sagði, að ekki mundi verða komizt hjá því að gera þennan samning við Bandaríkin, því að hnífurinn er á barka okkar, og kvaðst nauðugur greiða atkvæði með málinu.

Þm. Borgf., Pétur Ottesen, mælti, að sér virtist ákaflega alvarlegt og stórt spor stigið, þegar horfið væri frá hlutleysisstefnu þeirri, sem við höfum fylgt, og í stað þess að mótmæla harðlega hertöku landsins, eins og gert var, þegar Bretar komu hingað í þeim erindum, að hverfa nú að því að fela öðru herveldi hervernd hér á landi.

Þm. Skagf., Pálmi Hannesson, sagði: „Ég skal ekki neita því, að í gærmorgun, þegar mér var tilkynnt, að amerískur her væri kominn í bæinn, lét það mér illa í eyrum, að vér skyldum kvaddir hér saman til að mæta á Alþ.“

Þm. Dal., Þorsteinn Briem, kvað sér hafa orðið hverft við, þegar fyrsta fregnin barst um þetta mál.

Þm. A-Húnv., Jón Pálmason, sagði, að sér væri mjög ógeðfellt að samþykkja það, að erlendar hersveitir séu hér á landi.

Þm. Árn., Eiríkur Einarsson, taldi, eins og málum væri komið, að þm. ættu ekki annars úrkostar en samþ. till.

6 þm. voru fjarverandi og einn sagði af sér þingmennsku í þingbyrjun.

Herverndarsamningurinn var því marinn í gegn, en móti betri vitund þm., sem vildu ekki víkja frá hlutleysisstefnunni.

En af því, sem hér hefur verið sagt, má ljóst vera, að herverndarsamningurinn 1941 var aldrei löglega samþykktur, þar eð þm. voru umboðslausir frá þjóðinni, þótt þeir, for dæmislaust í þingsögunni, framlengdu sjálfir kjörtímabil sitt.

Tíu árum síðar, vorið 1951, var sami leikurinn endurtekinn, þegar þm. þriggja flokka var hóað saman á leynifundi til þess að samþykkja hinn svokallaða varnarsamning og steypa bandarískum her öðru sinni inn í landið. Báðir þessir samningar hafa því verið undirritaðir ógildir að lögum.

Í herverndarsamningnum 1941 stóð eftirfarandi skýlaus skuldbinding í 1. gr.: „Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.“ Íslendingum er vart láandi, þó að þeir treystu þessari skuldbindingu, þegar .þess er gætt, að bak við hana stóð Roosevelt, hinn mikilhæfi forseti. Trú þeirri, sem menn höfðu á Roosevelt forseta, mátti jafnvel líkja við orðtak Íslendingsins: Betri eru, Hálfdán, heitin þín en handsöl annarra manna. — En fyrir styrjaldarlok féll Roosevelt forseti skyndilega frá.

Í lok lýðveldisársins 1944, sem var síðasta heila styrjaldarárið, var mynduð hér á landi ríkisstjórn þriggja flokka eftir langvarandi stjórnarkreppu og ríkisstjórn utanþingsmanna. Ríkisstjórn þessa mynduðu Sósfl., Sjálfstfl. og Alþfl, undir forsæti Ólafs Thors. Grundvöllur hennar var viðreisn atvinnuveganna, uppbygging hins unga lýðveldis, alhliða nýsköpun í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, verksmiðjurekstri, og bætt tilhögun menntamála og fræðslumála. Í fyrsta sinn var á Íslandi gerð fjölhliða framkvæmdaáætlun til næstu missira og næstu ára um endurnýjun togaraflotans og kaupskipaflotans, um byggingu fiskiðjuvera, frystihúsa og síldarverksmiðja. Jafnvel nýir athafnabæir voru skipulagðir frá grunni. Vinnufriður var tryggður í landinu. Hver hönd gat fengið starf. Aldrei hefur ríkisstj. á Íslandi verið fagnað sem þessari stjórn, enda fékk hún strax nafnið „nýsköpunarstjórnin“. Íslenzka þjóðin hugði hið bjartasta til framtíðarinnar. Styrjaldarokinu var að létta. Herinn átti að hverfa brott. Friðartímar fram undan, uppbygging, starf og heilbrigt þjóðlíf. En ekki leið á löngu, þar til amerísk annarleg öfl tóku að grípa inn í hið gróandi þjóðlíf og sundra samheldninni, rjúfa friðinn og lama glæstar framtíðarvonir þjóðarinnar. Það voru ígrip Bandaríkjamanna, svik þeirra við að hverfa héðan með herinn að styrjöld lokinni, krafa þeirra um landsréttindi til 99 ára fyrir herstöðvar, sem sagt til ævarandi hersetu á Íslandi, Nú var Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, horfinn af sviðinu, loforð hans og skuldbindingar við Íslendinga fótumtroðin af auðvaldi Bandaríkjanna og stríðsvilltum vopnasölum þeirra.

Í fyrstu töldu flestir Íslendingar það hina mestu fjarstæðu að heyra minnzt á framhaldandi hersetu hér á landi. Þá hryllti við styrjöld og her, enda hafði þjóðin hlotið dýrkeypta reynslu af hernum og hernámi landsins. Samkvæmt skýrslu Slysavarnarfélagsins missti íslenzka þjóðin nálega 250 manns í sjóförum og siglingum á styrjaldarárunum, þar af mikinn meiri hluta af ótvíræðum styrjaldarorsökum. Þetta samsvarar því, að Bretar hefðu mátt missa hlutfallslega 90 þús. manns í siglingum einvörðungu og Bandaríkin um 250 þús. manns. Blóðfórnir Íslendinga voru því sízt minni en sjálfra herveldanna.

Þegar alþýða manna snerist einhuga gegn kröfu Bandaríkjamanna um 99 ára herstöðvar, kepptust jafnvel sjálfstæðismenn við að lýsa yfir andstöðu sinni gegn landsafsali, svo sem ég hef bent á hér fyrr. En brátt fann bandaríska auðvaldið þjónustusamlega samherja innan Sjálfstfl. Ráðabruggið fór að vísu fyrst fram með leynd, en þar kom, að sjálfstæðiskempur Sjálfstfl. beittu sér fyrir því, að Alþ. samþ. að leigja Bandaríkjamönnum landskikann á Suðurnesjum. Þjóðin var aldrei spurð um álit sitt á málinu. En Alþ. samþykkti með marningi kröfur vopnasalanna, og Keflavíkursamningurinn illræmdi var gerður. Sú atkvgr. á Alþ. verður aldrei miðuð við dollaragjald. Hún er dýrari en svo, að hægt sé að miða hana við slík verðmæti. Sú atkvgr. kveikti úlfúð manna milli, sundraði samvinnu andstæðra stjórnmálaflokka, rauf vinnufriðinn, sem samið hafði verið um í landinu, og felldi fyrstu ríkisstj. hins unga lýðveldis, nýsköpunarstjórnina, sem landslýðurinn hafði fagnað skömmu áður og vænti mikils af. Síðan var andskotinn laus, og bandaríska auðvaldið með herglæframenn í broddi fylkingar hefur dregið íslenzka forustumenn lengra og lengra út í samábyrgð hernaðarglæfranna. Og þegar svo var komið, rann upp tímabil sumra manna, sem engum hafði áður dottið í hug að nefna til ráðherradóms. Það var tímabil undirlægjumanna bandaríska auðvaldsins, og hefst þá hinn opinberi þáttur Bjarna Benediktssonar.

Á næstu árum vann bandaríska hervaldið að því að gera sem flest ríki í Norðurálfu sér háð fjárhagslega og hernaðarlega. Dró þá að stofnun Atlantshafsbandalagsins undir forustu Bandaríkjamanna. Samfara gífurlegum áróðri og lygum gegn Sovétríkjunum tókst Bandaríkjunum að ánetja forustumenn í mörgum löndum til þess að hlíta fyrirsögn þeirra í svokölluðum landvarnarmálum. Milljónum og milljörðum dollara var ausið í mútur og opinberar gjafir til þjóna bandaríska hervaldsins í hinum ýmsu löndum. Dollararnir tóku að streyma til íslenzkra forustumanna. Varð það brátt á allra vitorði, að Sjálfstfl. hafði gengið á hönd þessu fjármála- og hervaldi, en þjónusta hans við Bandaríkin var launuð ríflega. Dró þá að því, að Bandaríkin buðu Íslandi að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu og hugðu þar með á framkvæmd þeirrar fyrirætlunar að vinna sér hér herstöðvar um alla framtíð, sem þeim hafði ekki tekizt 1945. Sjálfstæðismenn voru nú liprir í vikum, en höfðu ekki bolmagn til þess að afhenda á eigin spýtur landið í hendur herveldisins, enda hyggilegra að gera fleiri stjórnmálaflokka ábyrga fyrir væntanlegu landsafsali. Og það stóð ekki á Framsóknar-forustunni að ganga til sömu þjónkunar, og Alþfl. var hafður með í þeirri von herglæframanna, að það gæti að einhverju leyti lamað afl verkalýðshreyfingarinnar, sem jafnan hefur látið til sín taka gegn landsafsali og erlendri ásælni.

Á útmánuðum 1949 var unnið að því að innlima Ísland í Atlantshafsbandalagið. Allt var það gert í leynd við þjóðina sjálf.a, en það, sem opinberlega gerðist í marzmánuði 1949 þessu lútandi, var allt í flaustri og fálmi. Það var auðséð, að menn með sektarvitund fóru með utanríkismál Íslands, enda lenti öll þeirra fyrirhöfn í handaskolum og afhjúpaðist með skömm og ævarandi niðurlægingu 30. marz og þar á eftir til tjóns og hnekkis fyrir land og lýð. [Frh.]