18.10.1954
Neðri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

36. mál, vegalög

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um það, að tekinn verði nýr vegur í vegalög, svokallaður Múlavegur, sem gert er ráð fyrir að lagður verði frá Ólafsfjarðarkaupstað fyrir Ólafsfjarðarmúla til Dalvíkur. Tekin eru fram í grg. málsins öll helztu málsatvik og saga þess í stórum dráttum, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að vera að rekja það mál með mörgum orðum. Frv. um þetta sama efni var flutt hér á Alþ. í fyrra, en náði þá ekki fram að ganga fremur en aðrar vegalagabreytingar, þar sem ekki þótti fært á því þingi að opna vegalögin. Það lá hins vegar ljóst fyrir af umsögn vegamálastjóra um málið, að hann taldi það svo mikilvægt, að hann lagði til, að þó að ekki yrði talið fært að opna vegalögin fyrir almennum breytingum, þá yrði reynt að opna þau fyrir fjórum vegum, og einn af þeim vegum var Múlavegur. Um þetta varð þó ekki heldur samkomulag, þannig að reyndin var sú, að engin breyting var gerð á vegalögunum á síðasta þingi.

Eins og bent er á í grg. þessa frv., er hér um að ræða veg, sem liggur á milli héraða, og er því ekki um það að ræða, að hægt sé að byrja á honum sem sýsluvegi, heldur verður þegar frá upphafi að koma fé og framlög frá ríkissjóði, eins og þegar hefur verið gert, þó að í litlum stíl sé. En menn sjá það af þeirri grg., sem fylgir frv. frá bæjarstjórninni í Ólafsfirði, að hér er um að ræða geysilega mikilvæga samgöngubót milli ekki aðeins Ólafsfjarðar og Akureyrar, heldur einnig milli sveitanna þar í kring, þ. e. a. s. milli hinna eyfirzku byggða og Siglufjarðar annars vegar og einnig Skagafjarðar hins vegar inn til Eyjafjarðar, þannig að þetta er mál, sem snertir þessi héruð allmikið, eins og enda sýnir sig af því, að flm. málsins eru auk mín þeir hv. þm. Skagf., Ak. og Siglf. En ef litið er á Ólafsfjörð einan, þá munar þessi vegalagning því, að það styttir veginn frá Ólafsfirði til Akureyrar hátt á annað hundrað km, þegar þessi nýi vegur er kominn í notkun.

Það liggur fyrir, að enda þótt nokkrar torfærur séu á þessum vegi, þá séu með nútímatækni engir erfiðleikar á að leggja hann, og af þeim sökum virðist það naumast vera áhorfsmál að stuðla að því, að þessi mikla samgöngubót geti orðið að veruleika sem allra fyrst. Vil ég því mega vænta þess, að hér á þessu þingi náist samkomulag um það, að þessi vegur verði tekinn í vegalög, þannig að hægt verði að halda áfram lagningu hans af fullum krafti.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.